Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 03080123

Reykjavík, 20. nóvember 2003

Tilvísun: UMH03080123/20-1-0203

ih/--

Hinn 20. nóvember 2003, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 29. ágúst 2003, kærði Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl. f.h. Hundaræktarinnar Dalsmynni ehf. ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 28. maí 2003 þar sem stofnunin gerir kröfu um að gerðar verði tilteknar úrbætur á starfsemi hundabúsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

I. Málsatvik og hin kærða ákvörðun

Hundaræktin Dalsmynni ehf. hefur leyfi til dýrahalds í atvinnuskyni, sbr. lög um dýravernd nr. 15/1994 og reglugerð um dýrahald í atvinnuskyni nr. 499/1997. Leyfið var gefið út af lögreglustjóranum í Reykjavík þann 28. janúar 2002 og er án skilyrða en áskilið er að Þorvaldur Þórðarson og Katrín Harðardóttir, Dýraspítalanum Víðidal hafi eftirlit með aðbúnaði og ástandi hundanna. Leyfið gildir til 28. janúar 2005.

Með lögum nr. 164/2002, um breytingar á ýmsum lögum vegna verkefna Umhverfisstofnunar, voru gerðar þær breytingar á lögum um dýravernd, að leyfisveitingar vegna dýrahalds í atvinnuskyni og eftirlit með þeirri starfsemi var færð til Umhverfisstofnunar frá lögreglustjórum. Breyting þessi tók gildi þann 1. janúar 2003.

Í gögnum málsins liggur fyrir það mat héraðsdýralæknis eftir skoðunarferð að hundabúinu Dalsmynni þann 11. febrúar 2003 að aðstaðan þar uppfylli í megin þáttum ákvæði reglugerðar um dýrahald í atvinnuskyni. Einnig liggur fyrir greinargerð Magnúsar H. Guðjónssonar dýralæknis dags. 14. apríl 2003, þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum skoðunarferðar hans í hundabúið sem farin var að beiðni Umhverfisstofnunar. Telur Magnús aðstöðuna ófullnægjandi og aðstöðu í gotherbergi jaðra við illa meðferð á dýrum. Í greinargerð Magnúsar segir:

„Heilsufar hundanna virtist vera ágætt en eftirfarandi athugasemdir eru gerðar við aðbúnaðinn:

1. Of þröngt er um hundanna. Ekki ættu að vera fleiri en tveir smáhundar í hverju búri. Búrin eru of lítil fyrir hunda af stærri kynjum t.d. Boxer og Doberman.

2. Engar mottur voru í leguplássum hundanna.

3. Vegna þéttleika hundanna eru talsverð óþrif í búrunum. Sett höfðu verið dagblöð á gólfið fyrir hundana til að gera stykki sín á. Þau voru víðast hvar gegnum blaut af þvagi og saur og sumstaðar í graut sem hundarnir gengu í.

4. Loftræsting var ófullnægjandi. Gera þarf kröfur um vélknúna loftræstingu sem tryggir næg loftskipti og hitastigsstýringu. Hitalagnir þurfa að vera í gólfum.

5. Engin útiaðstaða var til staðar fyrir hundana og bentu eigendur á stað þar sem steypa ætti nýja útiaðstöðu. Í útiaðstöðu þurfa a.m.k að vera jafnmörg búr og eru í hverjum skála eða u.þ.b. 14 búr, svo að hægt sé að ræsta skálana með hundana úti. Stærð þeirra þarf að vera í samræmi við stærð hundanna.

6. Gotherbergi er algerlega óviðunandi. Þar eru tíkur með hvolpa í rimla eða vírnetsbúrum sem hrúgað er saman og minnir mest á búrhænsni. Mikil óþrifnaður var í herberginu. Að mati undirritaðs jaðrar þetta við illa meðferð á dýrum og verða yfirvöld strax að grípa í taumana.

Eins og sjá má á ofanrituðu er aðstaðan í Dalsmynni ófullnægjandi. Sérstaklega er ámælisvert hversu margir hundar eru á búinu miðað við þá aðstöðu sem þar er. Reyndar sýndu eigendur búsins okkur húsnæði sem þau ætla að taka í notkun á næstunni. Ef af því verður mun aðstaðan batna til muna."

Kærandi hefur með bréfi dags. þann 25. apríl 2003 andmælt áliti Magnúsar. Þar kemur fram að reist hafa verið tvö hús til viðbótar við það hús sem nú er í notkun. Þegar húsin verða samþykkt af yfirvöldum verði gotherbergi og stóru hundarnir færðir í nýju húsin. Við það verði töluvert rýmra um hundana sem eftir verða. Einnig kemur fram að unnið hafi verið að úrbótum á útiaðstöðu og þess vegna hafi hún ekki verið til staðar við eftirlit Magnúsar. Því er mótmælt sem röngu að þrifum á búrum og loftræstingu hafi verið áfátt.

Í hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 28. maí 2003 er gerð krafa um úrbætur í þremur liðum. Þar segir:

„i.

Hver tík, komin að goti, og tík með hvolpa skal hafa sérstakt búr til umráða. Aðstaðan skal vera þannig útbúin að tíkurnar komist frá hvolpum til að nærast og gera þarfir sínar. Búrin skulu jafnframt uppfylla neðangreindar lágmarksstærðir:

Lágmarksstærð búra fyrir tíkur með hvolpa:

þyngd tíkur

stærð búrs m2

<5 kg

2

5-10 kg

3

10-15 kg

4

15-20 kg

6

20-30 kg

8

30-40 kg

9

>40 kg

10

Skulu forsvarsmenn fyrirtækisins sjá svo um að kröfur þessar verði uppfylltar fyrir 1. september nk.

ii.

Ekki skulu vera fleiri smáhundar en 7 í sama búri. Hundar sem eru af stærðinni 10-20 kg skulu þó ekki vera fleiri en 5 í sama búri og hundar sem eru 20 kg og stærri skulu ekki vera fleiri en 3 í búri. Búr skulu vera a.m.k. 15 cm hærri en hæsti hundurinn í búrinu í uppréttri stöðu. Skulu búr og útigerði jafnframt uppfylla neðangreindar lágmarksstærðir:

Lágmarksstærð búra, í fermetrum, fyrir hunda sem hafa beinan aðgang að útigerði

Fjöldi hunda

<5 kg

5-10 kg

10-20 kg

20-30 kg

30-40 kg

>40 kg

1

0,5

0,7

1,2

1,7

2,0

2,7

2

1,0

1,4

2,4

3,4

4,0

5,4

3

1,5

2,1

3,6

5,1

6,0

8,1

4

2

2,8

4,8

     

5

2,5

3,5

6,0

     

6

3

4,2

       

7

3,5

4,9

       

Lágmarksstærð útigerða í fermetrum

Fjöldi hunda

<5 kg

5-10 kg

10-20 kg

20-30 kg

30-40 kg

>40 kg

1

6

10

15

16

18

20

2

8

14

18

20

24

28

3

10

17

22

24

28

36

4

12

20

26

28

36

44

5

14

24

30

32

42

52

6

16

26

34

36

48

60

7

18

29

38

40

54

68

8

20

32

42

44

60

76

9

21

33

46

50

66

84

10

23

37

50

55

72

92

Lágmarksstærð búra, í fermetrum, fyrir hunda sem hafa ekki frjálsan aðgang að útigerði

Fjöldi hunda

<5 kg

5-10 kg

10-20 kg

20-30 kg

30-40 kg

>40 kg

1

2,0

2,0

2,5

3,5

4,5

5,5

2

2,0

2,5

3,5

4,5

6,0

7,5

3

2,0

3,5

4,5

6,0

7,5

9,5

4

2,5

4,0

5,5

     

5

3,0

5,0

6,5

     

6

4,0

5,5

       

7

4,5

6,0

       

Skulu forsvarsmenn fyrirtækisins sjá svo um að kröfur þessar verði uppfylltar fyrir 1. september nk.

iii.

Til þess að tryggja viðunandi umhirðu dýra í umsjá fyrirtækisins skal að minnsta kosti einn starfsmaður vera í fullu starfi við að sinna hverjum átta hundum, eldri en 4 mánaða.

Skulu forsvarsmenn fyrirtækisins sjá svo um að þessi krafa verði uppfyllt fyrir 1. ágúst nk."

Þann 29. ágúst 2003 barst ráðuneytinu kæra Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur hdl. f.h. Hundaræktarinnar Dalsmynni ehf. þar sem gerð er sú krafa að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi. Krafa kæranda er byggð á því að hvorki í lögum nr. 15/1994, um dýravernd né í reglugerð nr. 499/1997, um dýrahald í atvinnuskyni sé að finna reglur um þau atriði sem ákvörðun Umhverfisstofnunar lítur að, þ.e. stærðir búra og fjölda starfsmanna. Ákvörðun Umhverfisstofnunar skorti því lagastoð að mati kæranda og beri að fella hana úr gildi.

Í kæru kemur fram að kærandi telur að allur aðbúnaður hundanna sé þannig úr garði gerður að vel fari um dýrin og þeim sé sýnd fyllsta nærgætni og umönnun. Umhverfisstofnun hafi ekki sýnt fram á að stærðir búra á hundabúinu uppfylli ekki þær kröfur sem settar hafi verið fram í liðum i. og ii. Á fundi með stofnuninni þann 4. júlí 2003 hafi sérstaklega verið óskað eftir skýringum stofnunarinnar á hinni kærðu ákvörðun og þá hvort stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um stærðir búra á hundabúinu. Svo hafi ekki verið og því sé krafa um úrbætur með öllu óskiljanleg enda liggi ekki fyrir að búrin hafi verið með öðrum hætti en krafan lítur að. Varðandi fjölda starfsmanna þá verði ekki ráðið að ákvörðun Umhverfisstofnunar um einn starfsmann í fullu starfi við að sinna átta hundum eldri en 4 mánaða hafi lagastoð.

II. Umsagnir um kæru

Með bréfum dags. 4. september 2003 sendi ráðuneytið framangreinda kæru til umsagnar Umhverfisstofnunar, yfirdýralæknis, héraðsdýralæknis Gullbringu og Kjósarumdæmis og dýraverndarráðs. Umsögn barst frá Umhverfisstofnun þann 10. september 2003, sameiginleg umsögn héraðsdýralæknis og yfirdýralæknis barst þann 23. september 2003 og tvær umsagnir frá dýraverndarráði þann 15. og 24. september 2003. Umsögn Umhverfisstofnunar var send kæranda til athugasemda með bréfi þann 15. september 2003 og aðrar umsagnir með bréfi þann 26. september 2003. Athugasemdir kæranda bárust með tveimur bréfum þann 22. september og 1. október 2003. Að auki bárust ráðuneytinu tvö bréf frá kæranda vegna málsins þann 5. og 9. september 2003. Ráðuneytið óskaði með bréfi þann 13. október 2003 eftir frekari umsögn yfirdýralæknis varðandi einstök atriði í ákvörðun Umhverfisstofnunar og barst sú umsögn þann 22. október 2003. Kærandi óskaði ekki eftir að gera athugasemdir við síðastnefnda umsögn.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar um kæruna að í ákvörðun stofnunarinnar frá 28. maí 2003 hafi verið gerðar ákveðnar og skýrar kröfur á hendur Hundabúinu Dalsmynni ehf. um úrbætur á starfsemi félagsins í kjölfar eftirlitsferðar sem farin var í búið 9. apríl 2003 á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laga nr. 15/1994, um dýravernd. Við eftirlit hafi komið í ljós að á skorti að vistarverur og umhirða dýranna væri í samræmi við ákvæði fyrrnefndra laga og reglugerðar nr. 499/1997, um dýrahald í atvinnuskyni sem sett er með stoð í 3. mgr. 12. gr. laganna. Byggi kröfur stofnunarinnar um úrbætur einkum á 5. og 6. gr. reglugerðarinnar.

Síðan segir í umsögninni:

„Ákvörðun stofnunarinnar er með þeim hætti að annars vegar eru gerðar kröfur um úrbætur á vistarverum dýranna og hinsvegar á umhirðu og eftirliti með dýrunum. Varðandi vistarverur dýranna eru nánar tiltekið gerðar kröfur um stærð búra og útigerða ásamt fjölda dýra sem vera skuli í hverju búri. Þar er greint á milli búra sem ætluð eru fyrir gottíkur og annarra búra. Tekið er tillit til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda við ákvörðun um fjölda dýra í hverju búri og stærð búranna. Sama gildir um stærð og fjölda í útigerðum. Hvað varðar kröfur um umhirðu dýranna eru gerðar kröfur um fjölda hunda á hvern starfsmann sem að mati stofnunarinnar er nauðsynlegt til að nægilegt eftirlit sé með dýrunum og þörfum þeirra sinnt með fullnægjandi hætti. Við það mat var m.a. litið til þess að tryggja dýrunum eðlilegt frelsi til hreyfingar á grundvelli viðurkenndrar reynslu og þekkingar.

Þegar litið er til kröfu stofnunarinnar um vistarverur dýranna kemur m.a. fram í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar að öllum dýrum skuli séð fyrir góðum vistarverum og jafnframt að byggingar, búr og hvers kyns vistarverur fyrir dýrin, skuli vera þannig að vel fari um dýrin allt árið um kring. Þá segir í 6. gr. reglugerðarinnar að í stíum og búrum skuli vera upphækkuð legupláss, nægilega stór til að dýr, sem þar eru höfð, geti legið eðlilega samtímis. Þessi ákvæði reglugerðarinnar sækja stoð sína í 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna.

Að því er varðar kröfu stofnunarinnar um fjölda hunda á hvern starfsmann kemur m.a. fram í 6. gr. reglugerðarinnar að daglega skuli hafa eftirlit með dýrunum og staðsetningu þeirra hagað þannig að auðvelt sé að fylgjast með þeim. Sækir þessi krafa stoð sína í 3. mgr. 3. gr. laganna. Jafnframt segir í 10. gr. reglugerðarinnar að þrífa skuli vistarverur, innréttingar, gerði og annan útbúnað reglulega og þess gætt að skipt sé nægilega oft um þekjulag gólfs eða gerðis, svo að það valdi dýrunum ekki óþægindum. Þessi ákvæði reglugerðarinnar sækja lagastoð í 1. mgr. 3. gr. laganna.

Í 3. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að í reglugerð sem umhverfisráðherra setur skuli m.a. setja ákvæði um að leyfi fyrir dýrahald í atvinnuskyni megi binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja til að tryggja góða meðferð dýra, svo sem aðbúnað þeirra, umhirðu, viðhlítandi vistarverur og eftirlit með starfseminni. Í þeirri reglugerð sem nú er í gildi er ekki að finna skýrt ákvæði í þessa veru. Hins vegar kemur fram í lagagreininni sá vilji löggjafans að slík leyfi séu bundin skilyrðum, þ.á.m. um þau atriði sem ákvörðun stofnunarinnar lítur að. Stofnunin telur sér því heimilt að binda rekstarleyfi fyrir dýrahald í atvinnuskyni skilyrðum m.a. um aðbúnað og umhirðu dýra. Er það enda í samræmi við þá ólögfestu meginreglu stjórnsýsluréttarins að matskenndar stjórnvaldsákvarðanir megi binda skilyrðum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í núgildandi rekstarleyfi búsins er ekki að finna slík skilyrði. Þá er í 3. mgr. 18. gr. laganna að finna heimild fyrir stofnunina að krefjast tiltekinna úrbóta innan tiltekins tíma vegna brota á lögunum.

Ef litið er til þessara ákvæða er það mat stofnunarinnar að henni hafi verið heimilt að gera tilteknar kröfur um úrbætur á starfsemi hundabúsins enda var ljóst, í kjölfar eftirlitsferðar í Hundabúið Dalsmynni ehf. 9. apríl sl., að nauðsynlegt var að krefjast úrbóta á vistarverum og umhirðu dýranna. Þær tilteknu úrbætur sem krafist er í ákvörðun stofnunarinnar frá 28. maí sl. byggja á þeim laga- og reglugerðarheimildum sem reifaðar eru hér að framan, þeim tilgangi laganna að vel sé búið að dýrum hvað varðar meðferð þeirra, umhirðu og vistarverum og jafnframt þeirri óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína.

Við nánari útfærslu krafna var m.a. litið til viðurkenndrar reynslu og þekkingar hérlendis sem erlendis m.a. að dýrum sé tryggt eðlilegt frelsi til hreyfingar, sbr. 2 mgr. 3. gr. laganna."

Varðandi kröfur stofnunarinnar um stærð búra kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar að orðalag reglugerðar um dýrahald í atvinnuskyni varðandi búr og vistarverur sé almennt og stærðarmörk séu ekki tilgreind. Óumdeilt sé hins vegar að það komi niður á velferð dýra ef þau eru höfð í of litlum búrum. Til þess að tryggja dýrum lágmarksrými sé því nauðsynlegt að setja mörk um lágmarksstærð búra. Við gerð viðmiðunarreglna fyrir hundahald hafi Umhverfisstofnun talið eðlilegt að taka mið af reynslu sem skapast hafi m.a. í öðrum löndum. Hafi stofnunin aflað upplýsinga um kröfur um lágmarksstærð búra sem gerðar séu í nágrannalöndunum Svíþjóð og Noregi svo og í Bandaríkjunum. Kröfur um búrastærðir sem fram komi í ákvörðun stofnunarinnar frá 28. maí 2003 séu samhljóða ákvæðum í sænskri reglugerð, Statens jordbruksverks föreskrifter om uppfödning, försäljning och förvaring av hundar samt om förvarningsutrymmen för och avel med hundar och katter (SJVFS 1999:111). Þessar kröfur séu áþekkar kröfum sem gerðar eru í Bandaríkjunum (Animal Welfare Act Title 9, Animals and Animal Products, PART 3 STANDARDS, Subpart A Specification for the Humane Handling, Care, Treatement, and Transportation of Dogs and Cats) og í Noregi (Forskrifter om dyrepensjonat o.l.).

Varðandi kröfur Umhverfisstofnunar um fjölda starfsmanna er í umsögn stofnunarinnar vísað til álits Magnúsar H. Guðjónssonar dýralæknis við eftirlitsferð Umhverfisstofnunar í Dalsmynni 9. apríl 2003 um að starfsmenn í hundabúinu væru of fáir til þess að tryggja lágmarks umönnun dýranna. Einnig var vísað til annarra gagna þar sem fram komi álit Gunnars Arnars Gunnarssonar héraðsdýralæknis og Jóns Þ. Magnússonar hundaeftirlitsmanns um að allt of margir hundar væru á hundabúinu miðað við fjölda starfsmanna. Áleit Umhverfisstofnun nauðsynlegt að setja skilyrði um hámarksfjölda hunda miðað við fjölda starfsmanna. Vísar stofnunin til þess að í einangrunarstöð fyrir gæludýr í Hrísey séu 2 starfsmenn í fullu starfi og einn starfsmaður í hálfu starfi við umönnun 14 hunda og 6 katta. Umhverfisstofnun kveðst hafa aflað sér álits dýralækna á því að þörf væri á a.m.k. einum starfsmanni í fullu starfi við að sinna hverjum átta hundum. Byggðist það á þeim rökum að umhirða og umönnun hvers hunds taki a.m.k. eina klukkustund á dag.

Fram kemur í umsögn dýraverndarráðs að ráðið telji þær kröfur sem Umhverfisstofnun setur um aðbúnað hunda í hinni kærðu ákvörðun eðlilegar og mikilvægar til að tryggja vellíðan hunda sem alla ævi dveljast í hundabúi. Ráðið álítur þær aðeins nánari útfærslu á ákvæðum reglugerðar um dýrahald í atvinnuskyni. Að mati ráðsins gefa eftirlitsskýrslur og umsagnir Umhverfisstofnunar ótvírætt til kynna að aðbúnaði hunda á hundabúinu að Dalsmynni sé mjög ábótavant og álítur ráðið að helsta orsök vandamálsins sé fjöldi hunda á búinu.

Yfirdýralæknir og héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarumdæmis segja í sameiginlegri umsögn sinni að þeir fái ekki séð á hvaða grundvelli Umhverfisstofnun geri sínar kröfur á Hundaræktina Dalsmynni, þar sem reglur stofnunarinnar hafi ekki verið birtar með opinberum hætti.

Í seinni umsögn yfirdýralæknis kemur fram að yfirdýralæknir telur að kröfur Umhverfisstofnunar séu of strangar með tilliti til ákvæða reglugerðar nr. 499/1997 um dýrahald í atvinnuskyni. Í fyrsta lagi telur yfirdýralæknir að kröfurnar séu of strangar með tilliti til þess að hér á landi hafi aldrei fyrr verið til neinar nákvæmar reglur um stærð búra fyrir gæludýr. Til dæmis er talið of strangt að krefjast að 30 – 40 kg tík komin að goti eða með hvolpa þurfi 9 m² stíu. Í öðru lagi bendir yfirdýralæknir á að kröfur Umhverfisstofnunar séu samhljóða kröfum í sænskri reglugerð, en það séu langströngustu kröfur sem gerðar séu í Skadinavíu og sennilega í heiminum. Telur yfirdýralæknir að mun heppilegra væri, a.m.k. til að byrja með, að miða íslenskar reglur við norskar eða finnskar reglur sem séu mun raunhæfari. Í þriðja lagi telur yfirdýralæknir að frestur sá sem Umhverfisstofnun gefur Hundaræktinni á Dalsmynni til úrbóta sé of stuttur, bæði með tilliti til þess að ekki verði ráðið af skýrslum að hundarnir á Dalsmynni séu illa haldnir og vegna þess að búið sé í mótun og ætla megi að viðbótar húsnæði muni leysa þann vanda sem við er að eiga. Í fjórða lagi telur yfirdýralæknir að krafan um að einn starfsmaður megi í mesta lagi sinna 8 fullorðnum hundum sé óraunhæf a.m.k. í öllum tilfellum. Telja verði að 2 starfsmenn geti t.d. auðveldlega sinnt fleiri en 16 Chichuachua hundum, þar sem tíkurnar gjóti ekki nema einum til þremur hvolpum í senn. Auk þess sem slíkir hundar séu tæplega viðraðir úti á Íslandi nema við og við vegna veðurfars.

Í athugasemdum kæranda er því haldið fram að á Dalsmynni sé rekin fyllilega lögleg starfsemi á grundvelli tilskilinna opinberra leyfa og hafi leyfi lögreglustjórans í Reykjavík sem gefið var út þann 28. janúar 2002 verið án skilyrða. Í umsögn Dýraverndarráðs til lögreglustjórans í Reykjavík hafi ráðið ekki lagst gegn því að rekstrarleyfið yrði gefið út. Telur kærandi að eðli málsins samkvæmt og í samræmi við lög um dýravernd og reglugerð um dýrahald í atvinnuskyni að kæranda hefði ekki verið veitt starfsleyfið á sínum tíma nema búið hafi þá þegar uppfyllt skilyrði laganna og reglugerðarinnar. Einnig segir í umsögninni að Umhverfisstofnun hafi aldrei sýnt fram á að vistarverur og aðbúnaður dýranna sé slæmur og hafi þ.a.l. slæm eða þá einhver áhrif á dýrin sem kalli á þessar sértæku aðgerðir gagnvart búinu. Bent er á að í bréfi héraðsdýralæknis frá 3. febrúar 2003 hafi komið fram það mat hans að búið uppfyllti ákvæði reglugerðar um dýrahald í atvinnuskyni. Telur kærandi það furðu sæta að hvers vegna héraðsdýralæknir hafi ekki verið kvaddur að málinu við eftirlit Umhverfisstofnunar og mat á því hvort aðbúnaður og aðstæður hundanna á Dalsmynni hafi einhver áhrif á þá. Að mati kæranda er í 5. og 6. gr. reglugerðar um dýrahald í atvinnuskyni hvorki kveðið á um stærðir búra, fjölda hunda í búrum né fjölda starfsmanna. Slíkt sé heldur ekki að finna í 3. gr. dýraverndarlaga. Að mati kæranda sé það ekki í hlutverki Umhverfisstofnunar að setja slíkar kröfur eða reglur eins og hún hefur gert, enda sé skýrt kveðið á um það í lögunum að það sé hlutverk umhverfisráðherra í samráði við landbúnaðarráðherra. Varðandi rökstuðning Umhverfisstofnunar um að binda megi leyfið skilyrðum verði ekki ráðið af lögunum að heimilt sé að binda þegar útgefin leyfi slíkum skilyrðum enda ekkert kveðið á um slíka afturvirkni í lögunum. Kærandi bendir ennfremur á að erlendar reglur geti ekki haft lagagildi hér á landi. Meginmáli skiptir þó að mati kæranda að ákvörðun Umhverfisstofnunar hafi skort lagastoð og þannig brotið í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

III. Niðurstaða

1. Almennt

Samkvæmt 12. gr. laga um dýravernd, nr. 15/1994, þarf leyfi Umhverfisstofnunar til hvers konar ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga um dýravernd, sbr. 1. mgr. 17. gr. Um dýrahald í atvinnuskyni gildir reglugerð nr. 499/1997. Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að við eftirlit á hundabúinu Dalsmynni þann 9. apríl 2003 hafi komið í ljós að á skorti að vistarverur og umhirða dýranna væri í samræmi við ákvæði fyrrnefndra laga og reglugerðar. Byggi kröfur stofnunarinnar um úrbætur einkum á 5. og 6. gr. reglugerðarinnar.

Kröfur um úrbætur í hinni kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar varða í fyrsta lagi aðstöðu fyrir tíkur sem komnar eru að goti og tíkur með hvolpa. Gerð er krafa um hver tík hafi sérstakt búr til umráða og að aðstaðan sé þannig útbúin að tíkur komist frá hvolpum til að nærast og gera þarfir sínar. Einnig er gerð krafa um tiltekna lágmarksstærð búra (i. liður hinnar kærðu ákvörðunar). Í öðru lagi eru settar fram kröfur um hámarksfjölda annarra hunda í búrum og lágmarksstærð búra og útigerða (ii. liður). Í þriðja lagi gerir Umhverfisstofnun þær kröfur að minnsta kosti einn starfsmaður skuli vera í fullu starfi við að sinna hverjum átta hundum, eldri en 4 mánaða (iii. liður).

2. Stærð búra

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 499/1997, um dýrahald í atvinnuskyni, segir að öllum dýrum skuli sýnd fyllsta nærgætni og umönnun. Þeim skuli ávallt séð fyrir góðum vistarverum og nægu vatni og fóðri við þeirra hæfi. Þeir sem hafi umsjón með dýrunum skuli taka tillit til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda að því er varðar hitastig, hreyfingu, umhyggju og félagsskap. Byggingar, girðingar, búr og hvers kyns vistarverur fyrir dýrin, skuli vera þannig að vel fari um dýrin allt árið um kring. Í 6. gr. reglugerðarinnar segir: „Í stíum eða búrum skal vera upphækkað legupláss, nægilega stórt til þess að dýrin, sem þar eru höfð, geti legið eðlilega samtímis. Skal leguplássið vera laust við dragsúg. Hafa skal aðstöðu til að einangra sjúk dýr og sérstakt rými til böðunar. Dýrin skulu viðruð daglega eða færð í gerði til þess að þau fái reglubundna hreyfingu. Gerðin skulu vera á skjólgóðum og björtum stað, með sólskyggni ef með þarf og í þeim skal vera pallur til að liggja á. Jarðvegur skal vera þurr og ekki má myndast svað við úrkomu. Efsta lagið skal endurnýjað reglulega. Sé gerði steypt eða malbikað skal vera gott afrennsli, svo ekki myndist pollar. Gerði skal þannig útbúið að dýrin geti ekki sloppið út. Daglega skal hafa eftirlit með dýrunum og staðsetningu þeirra hagað þannig að auðvelt sé að fylgjast með þeim."

Ráðuneytið telur ótvírætt að Umhverfisstofnun geti gert kröfur um stærð búra, aðbúnað og fjölda dýra í búrum í því skyni að framfylgja framangreindum áskilnaði 5. gr. reglugerðar nr. 499/1997 um að dýrunum skuli ávallt séð fyrir góðum vistarverum og að byggingar, girðingar, búr og hvers kyns vistarverur fyrir dýrin skuli vera þannig að vel fari um dýrin allt árið um kring. Hins vegar eru ekki í reglugerðinni nákvæmari ákvæði um það hversu stór búr eða gerði eigi að vera til að uppfylla framangreindan áskilnað eða hversu mörg dýr megi að hámarki vera í hverju búri. Er það því háð mati viðkomandi stjórnvalds, í þessu tilviki Umhverfisstofnunar.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að höfð hafi verið hliðsjón af reynslu annarra landa við ákvörðun á því hversu stórar vistarverur hunda þyrftu að vera þannig að vel færi um þá. Eru kröfur um búrastærðir í hinni kærðu ákvörðun samhljóða ákvæðum í sænskri reglugerð og áþekkar kröfur séu gerðar í Noregi og í Bandaríkjunum. Í umsögn dýraverndarráðs kemur fram að ráðið telur framangreindar kröfur eðlilegar og mikilvægar til að tryggja vellíðan hunda sem alla ævi dveljast á hundabúi. Yfirdýralæknir telur í seinni umsögn sinni að kröfur Umhverfisstofnunar séu of strangar með tilliti til þess að aldrei fyrr hafi verið til neinar nákvæmar reglur um stærð búra fyrir gæludýr. Bendir yfirdýralæknir á að sænskar reglur sem Umhverfisstofnun miði við séu þær ströngustu sem gerðar séu í Skandinavíu og jafnvel í heiminum. Telur hann því að heppilegra hefði verið a.m.k. til að byrja með að miða íslenskar reglur við norskar eða finskar reglur sem séu mun raunhæfari.

Þó að ljóst sé að reglur annarra landa hafi ekki lagagildi hér á landi telur ráðuneytið unnt að hafa þær reglur til hliðsjónar við beitingu hinna matskenndu ákvæða 5. gr. reglugerðar 499/1997, enda telur ráðuneytið að þær séu settar með það að markmiði að vernda dýrin og tryggja velferð þeirra. Einnig telur ráðuneytið unnt að hafa til hliðsjónar ákvæði reglugerðar nr. 432/2003, um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr, um lágmarksstærðir búra fyrir hunda sem þar dvelja.

Lágmarksstærð búra fyrir minnstu hundana er samkvæmt reglugerð 432/2003 og norskum reglum, Forskrifter om dyrepensjonat o.l., aldrei minni en 1 m2 miðað við einn hund í búri og 3 m2 fyrir stærstu hundana, að því gefnu að hundarnir fái daglega hreyfingu utan búranna. Í fyrstu töflu ii. liðar ákvörðunar Umhverfisstofnunar (lágmarksstærð búra, í fermetrum, fyrir hunda sem hafa beinan aðgang að útigerði) er gerð krafa um lágmarksstærð búra frá 0,5-2,7 m2 miðað við einn hund í búri. Kröfur Umhverfisstofnunar um lágmarksstærð búra þegar fleiri hundar eru í búri eru sambærilegar við ákvæði reglugerðar nr. 432/2003 og hinar norsku reglur. Hundarnir í hundabúinu Dalsmynni eru notaðir til undaneldis í atvinnuskyni og er vistun þeirra þar því að jafnaði ekki tímabundin. Að mati ráðuneytisins eru þær kröfur sem fram koma í fyrstu töflu í ii. lið ákvörðunar Umhverfisstofnunar hóflegar en nauðsynlegar lágmarkskröfur til að tryggja að vel fari um dýrin allt árið um kring, að því gefnu að þau séu viðruð daglega og fái reglubundna hreyfingu í samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 499/1997.

Í þriðju töflu ii. liðar ákvörðunar Umhverfisstofnunar eru ákvæði um lágmarksstærð búra, í fermetrum, fyrir hunda sem hafa ekki frjálsan aðgang að útigerði. Sambærilegar reglur um búrastærðir er að finna í sænskum reglum, Statens jordbruksverks föreskrifter om uppfödning, försäljning och förvaring av hundar samt om förvaringsutrymmen för och avel med hundar och katter (SJVFS 1999:111), og finnskum reglum, Djurskyddskrav gällande hundar, katter och andra smådjur som hålls för sällskap och hobby (nr. 2/VLA/1998). Ráðuneytið telur að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að vefengja mat Umhverfisstofnunar á því hve stór búr fyrir hunda sem ekki hafa beinan aðgang að útigerði þurfa að vera til að tryggt sé að vel fari um dýrin allt árið um kring.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 499/1997 segir að viðra skuli dýrin daglega eða færa þau í gerði til þess að þau fái reglubundna hreyfingu. Um aðstöðu í útigerðum segir í 5.-9. málsl. sömu greinar: „Gerðin skulu vera á skjólgóðum og björtum stað, með sólskyggni ef með þarf og í þeim skal vera pallur til að liggja á. Jarðvegur skal vera þurr og ekki má myndast svað við úrkomu. Efsta lagið skal endurnýjað reglulega. Sé gerði steypt eða malbikað skal vera gott afrennsli, svo ekki myndist pollar. Gerði skal þannig útbúið að dýrin geti ekki sloppið út." Í reglugerðinni eru engin ákvæði um lágmarksstærð útigerða en ráðuneytið telur að fyrrgreind ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 499/1997, um að dýrunum skuli séð fyrir góðum vistarverum og búr og girðingar skuli vera þannig að vel fari um þau allt árið um kring, nái einnig til útigerðanna.

Lágmarksstærðir útigerða skv. annarri töflu ii. liðar hinnar kærðu ákvörðunar eru samskonar og koma fram í áðurnefndri sænskri reglugerð en ganga töluvert lengra en finnskar reglur. Eins og greina má af orðalagi 6. gr. reglugerðar nr. 499/1997 er tilgangurinn með því að færa dýr í útigerði m.a. að tryggja þeim nauðsynlega hreyfingu. Slíka hreyfingu má einnig veita dýrunum með því að viðra þau utan gerðis. Fram kemur í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar frá 1. september 2003 að á Dalsmynni sé 8 ha svæði þar sem unnt er að leyfa hundunum að hlaupa frjálsir en engin æfingaáætlun sé til staðar. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Ráðuneytið telur rétt að gerðar séu ákveðnar lágmarkskröfur um stærð útigerða á hundabúinu til að uppfyllt séu ákvæði reglugerðar nr. 499/1997 um að vel skuli fara um dýrin allt árið um kring. Að mati ráðuneytisins getur farið vel um hunda í minni gerðum en kveðið er á um í annarri töflu ii. liðar. Því telur ráðuneytið rétt að breyta þeim lið hinnar kærðu ákvörðunar sem tekur til stærðar útigerða, þ.e. annarri töflu ii. liðar. Með vísan til álits yfirdýralæknis hefur ráðuneytið við það mat haft hliðsjón af finnskum reglum um þetta efni. Ráðuneytið bendir þó á að sumar tegundir kann að þurfa að auki að viðra utan gerðis til að fullnægja hreyfiþörf þeirra og ber rekstraraðila að sjá til þess að það sé gert. Lágmarksstærð útigerða í fermetrum á hundabúinu Dalsmynni skal því vera eftirfarandi:

Lágmarksstærð útigerða í fermetrum

Fjöldi hunda

<5 kg

5-10 kg

10-20 kg

20-30 kg

30-40 kg

>40 kg

1

5

6

8

10

15

16

2

5

8

10

14

18

20

3

6

10

13

17

22

24

4

8

12

15

20

26

28

5

8

14

18

24

30

32

6

10

16

20

26

34

36

Af talningu hunda við eftirlit Umhverfisstofnunar þann 1. september 2003 og mælingu sem þá fór fram á búrum hunda í Dalsmynni má ráða að í öllum tilvikum nema tveimur, að því að varðar hunda undir 30 kg, er unnt að verða við kröfu Umhverfisstofnunar um lágmarksstærð búra með þeirri aðgerð einni að fækka hundum í búrunum. Búr þriggja stærstu hundanna (yfir 40 kg) voru hins vegar í öllum tilvikum minni en kröfur Umhverfisstofnunar kveða á um, en þeir hundar voru allir einir í búri. Fram kemur í gögnum málsins að á Dalsmynni hafa verið reist tvö hús til viðbótar við elsta húsið. Fyrirhugað sé að færa gotaðstöðu og stærstu hundana í nýju húsin. Ráðuneytið telur því að kærandi geti orðið við kröfum um búrastærðir innan húss án mikils kostnaðar og því sé ekki um verulega íþyngjandi kröfur að ræða. Hvað varðar útiaðstöðu þá er á Dalsmynni nægt landrými og samkvæmt reglugerð nr. 499/1997 er þess ekki krafist að undirlag gerða sé steypt heldur nægir að þar sé jarðvegur þannig þó að ekki myndist svað við úrkomu. Umhverfis gerðin er síðan girðing þannig að dýrin geti ekki sloppið út. Ráðuneytið telur því að unnt sé að verða við framangreindum kröfum um stærð útigerða án mikils kostnaðar og því séu þær kröfur ekki heldur verulega íþyngjandi fyrir kæranda.

3. Gotaðstaða.

Engar sérstakar kröfur eru gerðar í reglugerð nr. 499/1997 varðandi aðbúnað fyrir tíkur sem komnar eru að goti eða tíkur með hvolpa. Um þá aðstöðu gildir því framangreind regla 5. gr. reglugerðarinnar um að dýrunum skuli ávallt séð fyrir góðum vistarverum og að byggingar, girðingar, búr og hvers kyns vistarverur fyrir dýrin skuli vera þannig að vel fari um dýrin allt árið um kring. Ráðuneytið telur að almennar kröfur Umhverfisstofnunar um aðstöðu fyrir þessi dýr sem fram koma í upphafi i. liðar hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. að tíkurnar skuli hafa sérstakt búr til umráða og tækifæri til að komast frá hvolpunum, séu eðlilegar til að tryggja að vel fari um dýrin.

Fram kemur í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar frá 1. september 2003 að stærð búra í gotaðstöðu í eldra húsi að Dalsmynni hafi verið 0,42-0,77 m2 en 1,56-2,88 m2 í nýju húsi. Kröfur Umhverfisstofnunar í i. lið hinnar kærðu ákvörðunar eru sambærilegar og reglur hinnar sænsku reglugerðar um stærð búra fyrir tíkur sem komnar eru að goti eða eru með hvolpa. Er tekið mið af þyngd tíkur við ákvörðun á því hve stór búr þeirra skulu vera og er gerð krafa um búrastærð frá 2 - 10 m2. Engar sambærilegar reglur eru í norskri eða finnskri reglugerð um sama efni. Fram kemur í umsögn yfirdýralæknis að hann telur of strangt að krefjast 9 m2 búrs fyrir 30-40 kg tíkur. Ráðuneytið telur hins vegar rétt að búr í gotaðstöðu séu ekki minni en búr samkvæmt þriðju töflu í ii. lið ákvörðunar Umhverfisstofnunar og að auki skuli bætt við búrastærðina 5% fyrir hvern hvolp að lágmarki, enda sé þess gætt að tíkurnar komist frá hvolpunum og fái þá hreyfingu utan búrs sem þeim er nauðsynleg. Samkvæmt þessu skal tafla í i. lið hinnar kærðu ákvörðunar orðast svo:

Lágmarksstærð búra fyrir tíkur með hvolpa:

þyngd tíkur

stærð búrs m2 *

<5 kg

2*

5-10 kg

2*

10-15 kg

2,5*

15-20 kg

3*

20-30 kg

3,5*

30-40 kg

4,5*

>40 kg

5,5*

*Við lágmarksstærð búrs skal bæta 5% fyrir hvern hvolp sem dvelst í búrinu

Eins og áður segir stendur til að færa gotaðstöðu í nýtt húsnæði að Dalsmynni. Ráðuneytið telur því að ekki sé um verulega íþyngjandi kröfur að ræða fyrir kæranda.

4. Hámarksfjöldi dýra í búrum.

Málsástæður kæranda lúta fyrst og fremst að kröfum Umhverfisstofnunar um stærð búra og fjölda starfsmanna. Í umsögnum eru ekki gerðar athugasemdir við kröfur Umhverfisstofnunar um hámarksfjölda hunda í búrum, sbr. ii.-lið hinnar kærðu ákvörðunar. Samkvæmt talningu í eftirlitsferð Umhverfisstofnunar þann 1. september 2003 var fjöldi hunda í hverju búri ávallt innan þess hámarks sem áskilið var í bréfi stofnunarinnar til kæranda þann 28. maí 2003. Ráðuneytið telur því að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að vefengja mat Umhverfisstofnunar á því hversu marga hunda að hámarki sé eðlilegt sé að hafa saman í búri, sbr. ii. lið hinnar kærðu ákvörðunar.

5. Kröfur um fjölda starfsmanna.

Í iii. lið ákvörðunar Umhverfisstofnunar er þess krafist að a.m.k. einn starfsmaður skuli vera í fullu starfi við að sinna hverjum átta hundum eldri en 4 mánaða. Fram kemur í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar frá 1. september 2003 að skv. upplýsingum forráðamanna Dalsmynnis séu tveir starfsmenn í fullu starfi á búinu og fjórir til viðbótar sem vinni að hluta við reksturinn en séu ekki á launaskrá hjá fyrirtækinu. Samkvæmt sömu eftirlitsskýrslu voru í hundabúinu 123 fullorðnir hundar og 19 hvolpar þann 1. september 2003. Ljóst er því að til að verða við kröfum Umhverfisstofnunar um starfsmannafjölda yrði búið að margfalda starfsmannafjölda sinn frá því sem nú er.

Í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum er kveðið á um að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Samkvæmt þessu ákvæði er ljóst að takmarkanir og skorður sem atvinnustarfsemi eru settar þurfa að koma skýrt fram í þeim lögum og reglugerðum sem um starfsemina gilda. Í reglugerð nr. 499/1997 eru ýmis ákvæði um umönnun dýra sem krefjast þess að á vegum rekstraraðila starfi fólk sem sinnt getur þessum skyldum. Ber rekstraraðila að sjá til þess að dýrunum sé sinnt í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og getur Umhverfisstofnun gripið til viðeigandi þvingunarúrræða skv. lögum um dýravernd ef það er ekki gert. Engin bein ákvæði eru hins vegar í lögum um dýravernd eða reglugerð nr. 499/1997, um það hver skuli vera lágmarksfjöldi starfsmanna þeirra sem halda dýr í atvinnuskyni. Telur ráðuneytið með hliðsjón af framangreindu stjórnarskrárákvæði að Umhverfisstofnun geti ekki án lagaheimildar sett slíka íþyngjandi kröfu á rekstraraðila. Ráðuneytið telur því að ógilda verði iii. lið hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 28. maí 2003 varðandi kröfur um úrbætur á starfsemi Hundabúsins Dalsmynnis ehf. er staðfest með eftirtöldum breytingum:

1. Tafla í i. lið hinnar kærðu ákvörðunar verður eftirfarandi:

Lágmarksstærð búra fyrir tíkur með hvolpa:

þyngd tíkur

stærð búrs m2 *

<5 kg

2*

5-10 kg

2*

10-15 kg

2,5*

15-20 kg

3*

20-30 kg

3,5*

30-40 kg

4,5*

>40 kg

5,5*

*Við lágmarksstærð búrs skal bæta 5% fyrir hvern hvolp sem dvelst í búrinu

2. Önnur tafla ii. liðar hinnar kærðu ákvörðunar verður eftirfarandi:

Lágmarksstærð útigerða í fermetrum

Fjöldi hunda

<5 kg

5-10 kg

10-20 kg

20-30 kg

30-40 kg

>40 kg

1

5

6

8

10

15

16

2

5

8

10

14

18

20

3

6

10

13

17

22

24

4

8

12

15

20

26

28

5

8

14

18

24

30

32

6

10

16

20

26

34

36

3. iii. liður hinnar kærðu ákvörðunar fellur niður.

F. h. r.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum