Hoppa yfir valmynd
16. september 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 02120044

Ráðuneytinu hefur borist kæra Guðjóns Ólafs Jónssonar f.h Páls Ólafssonar dags. 4. desember 2002, vegna útgáfu umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur á starfsleyfi fyrir svínabú og hreinsivirki Brautarholts ehf. í Brautarholti á Kjalarnesi þann 19. nóvember 2002.

 

I. Hin kærða ákvörðun, málsatvik og kröfur kæranda

 

Þann 19. nóvember 2002 gaf umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur út tvö starfsleyfi til handa svínabúi Brautarholts ehf. annars vegar og fyrir hreinsivirki svínabúsins hins vegar.  Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi dags. 21. nóvember 2002.

 

Íbúðarhús kæranda er í um 325 m fjarlægð frá svínahúsum Brautarholts ehf. en heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis veitti þann 23. janúar 1998, undanþágu frá ákvæði 3. mgr. 137. gr. þágildandi heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, þar sem kveðið er á um 500 m lágmarksfjarlægð svínahúsa frá íbúðarhúsum.  Ákvörðun heilbrigðisnefndar var staðfest með úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins 13. mars 1998 og úrskurði úrskurðarnefndar skv. 26. gr. þágildandi laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988 þann 12. júní 1998.  Hreppsnefnd Kjalarneshrepps gaf út byggingarleyfi fyrir tveimur svínahúsum þann 26. febrúar 1998 og fyrir þjónustuhúsi sem tengir þau saman þann 4. júní 1998.  Þann 29. febrúar 2000 gaf umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur síðan út starfsleyfi til handa svínabúinu og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði ráðherra þann 29. júní 2000.  Starfsleyfi þetta hefur nú verið endurnýjað og er sú ákvörðun umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur kærð.

 

Kærandi telur að forsenda fyrir því að undanþága frá fjarlægðarmörkum hafi fengist hafi verið að gerðar yrðu kröfur um strangar og viðunandi mótvægisaðgerðir.  Að mati kæranda hefur komið í ljós að mengun frá búinu er mun meiri en búist hafi verið við og mótvægisaðgerðir litlar sem engar.  Hefur lyktmengun frá búinu valdið kæranda miklum óþægindum og að hans mati verulegu tjóni.  Gerir kærandi athugasemdir við ákvæði starfsleyfis svínabúsins og er gerð grein fyrir þeim í kafla II hér á eftir.

 

Kærandi gerir þær kröfur að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að synjað verði um útgáfu starfsleyfa.  Til vara er þess krafist að hert verði á starfsleyfisskilyrðum í samræmi við kröfur kæranda.

 

 

II.   Einstakar málsástæður og umsagnir um þær

 

Þann 11. desember 2002 sendi ráðuneytið framangreinda kæru til umsagnar umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, Skipulagsstofnunar, Reykjavíkurborgar, Brautarholts ehf. og Hollustuverndar ríkisins.  Frestur til að veita umsagnir var til 3. janúar 2003.  Umsagnir bárust frá LOGOS lögmannsþjónustu f.h. Brautarholts ehf. þann 10. janúar 2003, Umhverfis- og heilbrigðisstofu þann 13. janúar 2003, Skipulagsstofnun þann 14. janúar 2003, Umhverfisstofnun þann 16. janúar 2003 og Reykjavíkurborg þann 4. febrúar 2003. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreindar umsagnir með bréfi dags. 5. febrúar 2003.  Athugasemdir kæranda bárust þann 14. febrúar 2003.  Þann 1. júlí 2003 barst bréf frá Guðjóni Ólafi Jónssyni hdl. fh. kæranda þar sem vakin er athygli ráðuneytisins á að við eftirlit heilbrigðiseftirlits á svínabúinu Brautarholti eftir útgáfu starfsleyfisins hafi fjöldi dýra reynst yfir leyfilegum fjölda samkvæmt ákvæðum starfsleyfisins.   Einnig barst ráðuneytinu þann 13. ágúst 2003 tölvupóstur frá sama aðila þar sem gerðar eru athugasemdir við dreifingu svínaskíts s.l. sumar.  Að mati ráðuneytisins varða tvö síðastnefndu bréfin fyrst og fremst framkvæmd starfsleyfisins sem fellur utan úrskurðarvalds ráðherra skv. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

 

1.            Almennt um mengunarvarnir

 

Fram kemur í kæru að kærandi hafi um langt skeið reynt að vekja athygli heilbrigðisyfirvalda á þeim annmörkum sem fylgt hafi staðsetningu svínabúsins og þeim umfangsmikla rekstri sem þar viðgengst.  Varnaðarorð hans hafi hins vegar verið að engu höfð.  Mengun sé mun meiri en áður var talið og mótvægisaðgerðir litlar sem engar.  Ljóst sé að rekstur svínabúsins hafi valdið kæranda verulegu tjóni.  Lyktarmengun frá búinu sé oft óbærileg einkum þó í góðu veðri þegar vindur stendur af norðvestan.  Telur kærandi að um heilsuspillandi ástand sé að ræða.  Ein megin forsendan fyrir því að undanþága frá fjarlægðarmörkum hafi fengist hafi verið að gerðar yrðu kröfur um strangar og viðunandi mótvægisaðgerðir.  Telur kærandi að í fyrra starfsleyfi fyrirtækisins frá 29. febrúar 2000 hafi ekki falist slíkar mótvægisaðgerðir.  Það sé skýlaus krafa kæranda að fyrir liggi skýrar og afdráttarlausar tillögur um mótvægisaðgerðir vegna lyktarmengunar frá búinu áður en tekin verði ákvörðun um útgáfu starfsleyfis að þessu sinni.  Verður því að mati kæranda að kveða á um með afdráttarlausum hætti að viðurkenndum hreinsibúnaði verði komið fyrir í búinu hið fyrsta.  Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sé við ákvörðun um útgáfu starfsleyfis svínabúsins bundin við þær forsendur sem lágu til grundvallar ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis um undanþágu fyrir staðsetningu búsins á sínum tíma.  Jafnframt mótmælir kærandi alfarið hverskonar fjölgun dýra, aukinni framleiðslu eða auknum rekstri svínabúsins í Brautarholti.  Væri þvert á móti að hans mati full ástæða til að draga úr rekstrinum og fækka dýrum.

 

Í umsögn Brautarholts er því mótmælt að lyktmengun í íbúðarhúsi kæranda sé á því stigi sem lýst er í kæru.  Er bent á að einn forsvarsmanna svínabúsins hafi reist sér nýtt íbúðarhús innan við 150 m frá búinu, en ekki hefði verið ráðist í svo stóra fjárfestingu ef ekki væri búandi í húsinu eins og kærandi heldur fram.  Hins vegar sé það rétt að ólykt berist einkum frá búinu að húsi kæranda í norðvestan átt.  Tíðni þeirrar vindáttar sé hinsvegar ekki eins mikil og kærandi haldi fram.  Í umsögninni er vísað til gagna þar sem fram kemur að austanáttir séu ríkjandi á svæðinu eða samtals í 57,3% tilvika á árinu 2002.  Norðvestanátt hafi hins vegar aðeins verið í 15,4% tilvika. 

 

Í umsögn Brautarholts kemur jafnframt fram að kærandi hafi á sínum tíma kosið að taka ekki þátt í uppbyggingu svínabús í Brautarholti.  Hins vegar hafi hann samþykkt að fullu slíka uppbyggingu með undirskrift sinni á samninga þar að lútandi.  Þannig hafi hann haft áhrif á það að húsin voru í upphafi staðsett á bæjarhólnum við verksmiðjuhúsin, rétt við íbúðarhús kæranda, en ekki lengra í burtu eins og þá hafi komið til greina.  Mótmælt er í umsögninni þeirri staðhæfingu að í fyrra starfsleyfi gefnu út þann 29. febrúar 2000 hafi ekki falist krafa um nægjanlegar mótvægisaðgerðir.  Brautarholt bendir að lokum á ákvæði starfsleyfanna þar sem mælt sé fyrir um að ef upp komi vandamál sé fyrirtækinu skylt að verða við kröfum Heilbrigðiseftirlitsins um úrbætur.

 

 

2.         Mat á umhverfisáhrifum

 

Kærandi vekur athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 5. gr., sbr. ii-lið 19. tölul. I. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eru stöðvar þar sem fram fer þauleldi svína með 3.000 stæði eða fleiri fyrir alisvín (yfir 30 kg) ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum.  Gildi þetta einnig um breytingu á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, sbr. c-lið 3. gr. laganna.  Telur kærandi að um verulega breytingu og aukna starfsemi sé að ræða auk þess sem fyrirhugað sé að taka í notkun svokallað hreinsivirki fyrir svínaskít sem gefið verði út sérstakt starfsleyfi fyrir.  Kærandi telur að líta verði á framkvæmdir og rekstur þennan í einu lagi án þess að það hafi þó þýðingu um matsskyldu framkvæmdarinnar.

 

Kærandi bendir á að skv. 1. mgr. 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 er óheimilt að gefa út leyfi fyrir matskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og er leyfisveitanda skylt að taka tillit til hans.  Telur því kærandi óhjákvæmilegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum áður en til afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi kemur.  Verði ráðherra að meta það sjálfstætt í tengslum við úrskurð í máli þessu án tengsla við fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. október 2001 um matsskyldu hreinsivirkis svínabúsins.

 

Fram kemur í athugasemdum Umhverfis- og heilbrigðisstofu að stofan hafi sent Skipulagsstofnun bréf dags. 24. júlí 2001 þar sem tilkynnt var um framkvæmd sem gæti haft í för með sér umhverfisáhrif.  Var þar greint frá fyrirhuguðu hreinsivirki, stærð búsins (fjölda dýra í efri og neðri húsum) og magni úrgangs.  Þann 5. október 2001 hafi Skipulagsstofnun tekið þá ákvörðun að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Þar sem hreinsivirkið og svínabúið, sem telst eldri framkvæmd, eru skoðuð sem ein heild í ákvörðun Skipulagsstofnunar, sé búið að ákvarða um matsskyldu búsins í heild.  Umhverfis- og heilbrigðisstofa telur því unnt að gefa út starfsleyfi fyrir svínabúið Brautarholti og hreinsivirki þess.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að í ákvörðun stofnunarinnar frá 5. október 2001 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að dælu- og hreinsistöð svínabúsins væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

 

Síðan segir í umsögninni:  „Framangreind ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu á aðeins við um dælu- og hreinsistöð við svínabúið Brautarholti, Kjalarnesi. Í tilkynningu Línuhönnunar f.h. framkvæmdaraðila frá 5. september 2001, sem lá til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar, koma ekki fram beinar upplýsingar um hversu mörg dýr sé fyrirhugað að halda í búinu eða hvort fyrirhuguð væri fjölgun dýra frá fyrra starfsleyfi. Umfjöllun stofnunarinnar beindist eingöngu að umfjöllun um nýtt hreinsivirki og áhrif dælingar blauthluta úrgangs í sjó og dreifingu þurrhlutans. Umfjöllunin snéri ekki að öðrum hugsanlegum áhrifum vegna stækkunar búsins eða fjölgunar dýra. Skipulagsstofnun lítur svo á að aðeins hafi verið tekin afstaða til matsskyldu hreinsivirkisins en ekki þeirra breytinga sem kunna að verða ef fyrirhuguð er fjölgun dýra sem leyfilegt er að halda í búinu.“

 

Í umsögn Brautarholts er því mótmælt að stækkun svínabúsins eigi að lúta ákvæðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Brautarholts kemur fram að Umhverfis- og heilbrigðisstofa hafi þann 24. júlí 2001 tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða stækkun svínabúsins og rakið að það gæti haft í för með sér umhverfisáhrif. Í bréfinu hafi verið greint frá fyrirhuguðu hreinsivirki, stærð búsins (fjölda dýra) og magni úrgangs. Í kjölfarið hafi Skipulagsstofnun óskað eftir gögnum frá framkvæmdaaðila og sent málið að því loknu til viðkomandi stofnana til umsagnar. Þann 5. október 2001 hafi Skipulagsstofnun tekið þá ákvörðun að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem stofnunin hafi litið á hreinsivirkið og svínabúið, sem teljist eldri framkvæmd, sem eina heild sé að mati Brautarholts búið að ákveða að ekki sé þörf á umhverfismati fyrir búið í heild.  

 

 

3.         Fjölgun dýra

 

Kærandi mótmælir fjölgun dýra í efri svínahúsum úr 550 dýrum í 680 frá því sem gert var ráð fyrir í eldra starfsleyfi svínabúsins.  Að hans mati er umsækjandi um starfsleyfi að fara á bak við heilbrigðisyfirvöld og ætli að stórauka framleiðslu sína.

 

Í athugasemdum Umhverfis- og heilbrigðisstofu kemur fram að í fyrra starfsleyfi hafi ekki verið tilgreindur hámarksfjöldi dýra í svínabúinu.  Athugun hafi leitt í ljós að í efri húsum hafi verið fleiri dýr en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi, en auk 550 ársgyltna áttu í húsunum að vera geltir og unggyltur, samtals um 600 dýr.  Samkvæmt upplýsingum frá búinu hafi ekki verið um stækkun búsins að ræða heldur hagræðingu í rekstri sem hefði í för með sér að unggyltur sem síðar ætti að nota til undaneldis væru aldar upp í efri húsum.  Leitað hafi verið til yfirdýralæknis eftir svörum um hversu mikil endurnýjun þyrfti að vera í svínabúi að þessari stærð og út frá svörum hans hafi verið reiknuð mörk upp á 680 dýr.  Það gefi tækifæri til að hafa um 120 unggyltur til eldis til að taka við af eldri gyltum hverju sinni, auk 10 galta.  Miðað við upplýsingar Umhverfis- og heilbrigðisstofu ættu þessi mörk að duga búi með 550 ársgyltur.  Hámarksfjöldi í neðri húsum sé 6000 dýr og við eftirlit hafi þau verið á bilinu 5000-5400.  Heildarframleiðsla á ári sé 12.000 dýr samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum búsins.

 

Í umsögn Brautarholts er tekið undir skýringar Umhverfis- og heilbrigðisstofu um hámarksfjölda dýra enda hafi stofan leitað álits embættis yfirdýralæknis vegna málsins.  Síðan segir í umsögninni:  „Í nútíma svínarækt og með tilkomu nýrra stofna er mun hraðari endurnýjun á gyltum en áður var. Áður fyrr voru gyltur látnar gjóta 8-10 sinnum en í dag hefur tíðnin lækkað í 5-6 sinnum. Af þessu leiðir að meiri fjöldi fullorðinna dýra er nauðsynlegur og eðlilegur til að framleiðslan haldist í horfi. Á þessu hefur Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur tekið með skýrum og ótvíræðum hætti og vísast til útgefins starfsleyfis vegna þessa atriðis.“

 

 

 

4.            Gildistími starfsleyfis

 

Kærandi telur 5 ára gildistíma starfsleyfis allt of langan.  Er gerð krafa um að hann verði ekki lengri en 3 ár.

 

Umhverfis- og heilbrigðisstofa telur í umsögn sinni að gildistími starfsleyfisins sé eðlilegur en bendir á að skv. 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, skuli fyrirtæki koma sér upp bestu fáanlegu tækni í mengunarvörnum.  Gera megi því ráð fyrir að starfsleyfi fyrirtækisins verði endurskoðað á starfsleyfistímanum.  

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að ekki sé óalgengt að Umhverfisstofnun, áður Hollustuvernd ríkisins, gefi út starfsleyfi til allt að 10-12 ára.  Það sé gert á þeirri forsendu að starfsleyfi skuli endurskoða að jafnaði á 4 ára fresti, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999.  Ef óvissa sé um hvort fyrirtæki geti uppfyllt kröfur um bestu tækni þá sé starfsleyfi veitt til skemmri tíma.  Í ljósi þessa er það mat stofnunarinnar að gildistími hins kærða starfsleyfis sé ekki óeðlilega langur.

 

Í umsögn Brautarholts er bent á að hvenær sem er á gildistíma starfsleyfanna sé heimilt að taka þau til endurskoðunar, sé ástæða til þess.  Í því sambandi sé rétt að benda á 1.3. og 1.4. gr. starfsleyfa svínabúsins þar sem kveðið er á um að heimilt sé að endurskoða starfsleyfi við tilteknar aðstæður.  Þannig er því alfarið mótmælt að stytta gildistíma leyfanna í 3 ár þar sem slíkt hafi einungis kostnaðarauka í för með sér fyrir svínabúið og engin umhverfisbætanleg áhrif.

 

 

5.            Geymslutankar fyrir svínaskít

 

Kærandi telur að ekki hafi verið sýnt fram á að fyrir hendi séu geymslutankar sem rúmi a.m.k. þriggja mánaða birgðir af svínaskít, svo sem kveðið er á um í grein 5.2. í starfsleyfinu.

 

Í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu kemur fram að á svínabúinu að Brautarholti sé einn stór tankur sem taki 2500 tonn af svínaskít.  Auk þess sé til staðar miðlunartankur tengdur hreinsivirkinu sem rúmi 150 tonn.  Áætlanir forsvarsmanna búsins miði við að núverandi rými dugi fyrir þriggja mánaða birgðir.  Komi í ljós að það sé ekki rétt geti Umhverfis- og heilbrigðisstofa krafist úrbóta.  Þar sem búið hafi komið sér upp hreinsivirki þar sem ¾ hluta svínaskítsins sé veitt út í sjó eftir skiljun, sé ekki þörf á 6 mánaða geymslurými eins og almennt sé miðað við.

 

Umhverfisstofnun bendir í umsögn sinni á að í hinu kærða starfsleyfi sé ekki gerð krafa um að geymslutankar fyrir svínaskít séu til staðar við útgáfu starfsleyfis.  Stofnunin telur eðililegt að útgefandi starfsleyfis setji inn í starfsleyfið ákvæði til bráðabirgða þar sem nefndur verði tímafrestur um það hvenær slíkur tankur skuli hafa verið settur upp.

 

Fram kemur í umsögn Brautarholts að á búinu sé rými fyrir um 2685 m3 af svínaskít.   Annars vegar sé um að ræða 2500 m3 geymi sem vegna tilkomu hreinsistöðvarinnar standi tómur nema ef búnaður í hreinsisstöðinni bilar.     Hins vegar rúmi miðlunartankur tengdur hreinsisvirkinu 185 m3 af svínaskít.   Að auki sé haugrými undir flórristum svínahúsa um 1500 m3.   Það sé skoðun Svínabúsins, þó að Umhverfis- og heilbrigðisstofa hafi ekki viljað viðurkenna slíkt, að umrætt haugrými undir flórristum eigi að teljast sem mykjurými. Það sé engan greinarmun hægt að sjá á rými undir flórristum svínaeldishúsa eða annarra gripaeldisbúa á landinu þar sem þetta rými er ávallt tekið til viðmiðunar. Í raun megi segja að á búinu sé „haugrými“ fyrir svínaskít, þ.e.a.s. ómeðhöndlaðan svínaskít og þurrhluta fyrir um sjö mánaða rekstrartíma. Þeirri fullyrðingu kæranda er því mótmælt að ekki sé fyrir hendi nægjanlegt geymslurými til minnst þriggja mánaða líkt og starfsleyfið gerir kröfu um.

 

 

6.            Landrými til dreifingar svínaskíts

 

Kærandi telur ljóst að umsækjandi starfsleyfis hafi ekki nægjanlegt landrými til dreifingar svínaskíts, sbr. greinar 6.1. og 6.2. í starfsleyfinu.

 

Umhverfis- og heilbrigðisstofa bendir á að með tilkomu hreinsivirkis hafi úrgangsmagn frá búinu minnkað.  Í starfsleyfi sé kveðið á um að tryggja beri aðrar förgunarleiðir ef ekki sé nægt landrými til staðar og fara beri með mykjuna á urðunarstað sé ekki unnt að dreifa henni.

 

Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að ákvæði 6.1. og 6.2. í starfsleyfi séu fullnægjandi hvað varðar förgun mykju sem ekki er hægt að dreifa á eigið landrými. 

 

Í umsögn Brautarholts er því mótmælt að ekki sé nægjanlegt landrými á vegum svínabúsins til dreifingar á þeim úrgangi í því formi sem fellur frá búinu. Svínabúið hafi nægt rými til dreifingar á úrgangi sem kemur frá framleiðslunni og sé þar bæði um að ræða eigin lönd búsins, leigulönd og lönd bænda í nágrannasveitarfélögum. Rétt sé að árétta að svínamykja sem til verði í framleiðslunni sé eftirsótt vara. Vegna þessa hafi svínabúið gert fjölmarga samninga um dreifingu á mykju á nálægum jörðum og sýni það að ekki sé vandkvæðum bundið að losna við úrganginn án þess að ónæði hljótist af fyrir kæranda.

 

Einnig er bent á í umsögn Brautarholts að dreifing muni að mestu fara fram á þurrhluta en ekki ómeðhöndlaðri mykju eins og hingað til hafi tíðkast.  Á þessu sé reginmunur. Megnið af mykjunni fari í gegnum hreinsibúnað og þaðan út í sjó í samræmi við opinber leyfi þar að lútandi.

 

 

7.         Ákvæði um dreifingu svínaskíts

 

Kærandi gerir þá kröfu að skýrt verði kveðið á um í grein 6.8. í starfsleyfinu að dreifing svínaskíts sé óheimil þegar vindur stendur að nærliggjandi húsum eða muni samkvæmt veðurspám gera það næstu þrjá daga.  Þá verði ennfremur kveðið á um sérstakt eftirlit með dreifingunni og vandlega fylgst með því að hún verði felld ofan í svörðinn, svo sem kveðið er á um í grein 6.7.   Jafnframt telur kærandi fjarlægðarmörk sem getið er um í grein 6.9. í starfsleyfi algerlega ófullnægjandi.  Telur hann eðlilegt að gera þær lágmarkskröfur að dreifing fari ekki fram nær íbúðarhúsi hans en í 1000 metra fjarlægð.

 

Umhverfis- og heilbrigðisstofa telur ekki raunhæft að setja skilyrði um hagstæðar vindáttir samkvæmt þriggja daga veðurspám, enda geti þær breyst án fyrirvara.  Ennfremur telur stofan ekki raunhæft að sérstakt eftirlit verði haft með dreifingu.  Berist hins vegar kvartanir vegna dreifingar verði farið í eftirlit og réttmæti kvartana kannað.  Umhverfis- og heilbrigðisstofa muni þá grípa til aðgerða ef nauðsyn krefur.

 

Í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu kemur fram að fjarlægðarmörk þau sem sett eru í grein 6.9. séu þau sömu og í fyrra starfsleyfi.  Telur stofan ekki unnt að takmarka frekar það svæði sem búið hefur til umráða til dreifingar.  Þar sem dreifingartímabil fyrir ómeðhöndlaðan svínaskít hafi verið stytt, magn minnkað og sennilega mest dreift af þurrhluta skítsins sem sé miklu lyktarminni, sé fyrirsjáanlegt að lyktarmengun vegna dreifingar muni minnka.

 

Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að ákvæði í grein 6.8. um að dreifa skuli svínaskít þegar vindur stendur af nærliggjandi húsum séu fullnægjandi og að ákvæði um dreifingu með hliðsjón af veðurspám næstu þriggja daga sé óraunhæft.   Umhverfisstofnun telur að hægt hefði verið að hafa ákvæðið í 6.7. skýrara og starfsleyfishafa gert skylt að plægja svínaskítinn niður í jarðveginn og jafnframt setja inn tímafresti í ákvæði til bráðabirgða um hvenær búnaður til að koma svínaskít ofan í jarðveg verði kominn í notkun.

 

Jafnframt telur Umhverfisstofnun í umsögn sinni að ákvæði 6.9. um fjarlægðarmörk séu ófullnægjandi þar sem svínahúsin séu í 325 m fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda en heimilt að dreifa svínaskít í allt að 250 m fjarlægð.  Stofnunin telur að ekki eigi að heimila dreifingu svínaskít nær íbúðarhúsi á bæjum þar sem stunduð er búfjárrækt en sem nemur fjarlægð í svínahús.  Þetta sé í samræmi við undanþágu sem veitt hafi verið frá 500 m fjarlægðarmörkum.

 

Bent er á í umsögn Brautarholts að þær kvartanir sem liggi fyrir vegna lyktarmengunar megi að mestu leyti rekja til dreifingar á ómeðhöndluðum svínaskít. Nú verði hins vegar að öllu eða mestu leyti dreift þurrhluta svínaskíts. Svínabúið hafi fjárfest í hreinsikerfi og tæknilausnum fyrir um 65 milljónir króna og þannig sinnt sínum skyldum og bætt mengunarvarnir og verklag verulega til að valda sem minnstum óþægindum fyrir nágranna. Lyktarálag vegna dreifingar verði mjög lítið í framtíðinni, sér í lagi þar sem þurrhlutinn lykti ekki eins og venjulegur svínaskítur heldur meira eins og tað eða jarðvegur.

 

 

8.            Hreinsibúnaður á útblástursloft

 

Kærandi krefst þess að hert verði á skilyrðum 7. greinar starfsleyfisins um lyktarmengun frá svínahúsum.  Krefst hann þess að þá þegar verði sett það skilyrði að settur verði viðeigandi og fullnægjandi hreinsibúnaður á alla strompa á búinu þannig að dregið verði úr heilsuspillandi og mengandi lofti sem þaðan berst.  Bendir kærandi á að fellt hefur verið niður úr eldri drögum að starfsleyfisskilyrðum ákvæði um viðurkenndan hreinsibúnað á útblástursloft.

 

Í athugasemdum Umhverfis- og heilbrigðisstofu kemur fram að samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 skuli búið hafa komið sér upp bestu fáanlegu tækni í mengunarvörnum árið 2007 og ekki sé unnt að krefja búið um uppsetningu slíks búnaðar fyrr.  Jafnframt er bent á að besta fáanlega tækni í þessari atvinnugrein hafi ekki verið skilgreind ennþá.  Þangað til verði að grípa til aðgerða til að draga úr lyktarmengun frá búinu og hefur verið óskað eftir áætlun frá fyrirtækinu um hvernig það hyggist gera það. 

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er á það bent að ekki tíðkast að gera kröfur um hreinsibúnað á útblástursloft frá húsum fyrir búpening í landbúnaði hér á landi.  Slíkt sé tæknilega framkvæmanlegt en kostnaður mjög mikill, sérstaklega þar sem um marga viftustrompa sé að ræða, en ekki einn einstakan útblástursstromp. 

 

Fram kemur í umsögn Brautarholts að fyrirtækið hafi verið og sé að vinna í anda reglna um „bestu fáanlegu tækni“. Þær liggi í dag fyrir sem drög en megin inntakið sé að vinna að endurbótum við upptök mengunar í stað þess að vera með lausnir á lokastigi ferla. Áfram verði haldið á þeirri braut. Það sé engin forsenda eða fordæmi fyrir því að krefja rekstur búsins á skilgreindu landbúnaðarsvæði um hreinsun á aflofti frá eldiseiningum.  Sá kostnaður hlaupi á hundruðum milljóna króna og yrði til þess að rekstur búsins yrði lagður niður. Unnið verði áfram með íblöndunarefni í flóra og vel fylgst með í samráði við heilbrigðisyfirvöld og svínaræktarfélagið á því sviði, lofttúður þrifnar reglulega o.s.frv. og loftmengun frá búinu þannig haldið í lágmarki í anda bestu fáanlegrar tækni.

 

 

9.            Mælingar á rykmagni

 

Kærandi vekur sérstaka athygli á að í starfsleyfinu hefur verið fellt niður ákvæði í grein 7.2. eldra starfsleyfis þar sem umsækjanda var gert að láta viðurkenndan aðila mæla rykmagn í öllum útblæstri einu sinni á ári og greina tegund og magn annarra efna sem berast með því.  Mótmælir kærandi þessu harðlega og gerir þá kröfu að mælingum verði fjölgað og verði eigi sjaldnar en sex sinnum á ári.

 

Fram kemur í athugasemdum Umhverfis- og heilbrigðisstofu að ýmsir annmarkar hafi verið á framkvæmd þessara mælinga.  M.a. hafi verið erfitt að koma fyrir búnaði, mikið rok á svæðinu hafi valdið erfiðleikum og hafi rannsóknaraðili talið a.m.k. 20% skekkju vera á niðurstöðunum vegna þessa.  Að mati Umhverfis- og heilbrigðisstofu skiluðu þessar mælingar takmörkuðum upplýsingum og því ekki forsendur til að kveða á um þær í starfsleyfi.  Komi fram betri aðferðir til að meta mengun frá búinu sé unnt að gera slíka kröfu við endurskoðun starfsleyfis.

 

Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að það þjóni ekki neinum tilgangi að setja kröfur í starfsleyfi sem ekki er hægt að uppfylla.  Bendir stofnunin á að ekki hafi tíðkast hér á landi að mæla efnainnihald í lofti sem blásið er út úr húsum fyrir búpening í landbúnaði.

 

Í umsögn Brautarholts kemur fram að kostnaðarsamar og vandasamar mælingar hafi farið fram af sérfræðingum Iðntæknistofnunar Íslands og hafi loftmengun reynst það lítil frá eldiseiningum að mælitæki greindu hana vart. Aukin tíðni mælinga hafi einungis aukinn kostnað í för með sér og engin umhverfisbætandi áhrif.  Því mótmælir fyrirtækið kröfum kæranda um að mælingar verði teknar upp og það 6 sinnum á ári.

 

 

III. Niðurstaða

 

1.

Ráðuneytið hefur áður haft til meðferðar starfsleyfi svínabús Brautarholts ehf., sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 29. júní 2000.  Þar er rakin forsaga þess að heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis veitti undanþágu frá 137. gr. þágildandi heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, um að óheimilt væri að reisa svínabú nær mannabústöðum en sem nemur 500 metrum. Niðurstaða ráðuneytisins í því máli var að ótvírætt væri heimilt og jafnframt skylt að gera strangari kröfur um mótvægisaðgerðir vegna mengunar frá svínabúinu í Brautarholti en ella þar sem veitt hefði verið framangreind undanþága og einnig að forsvarsmönnum svínabúsins hafi mátt vera það ljóst að gerðar yrðu strangar kröfur um mótvægisaðgerðir.  Sambærileg regla um lágmarksfjarlægð svínabúa frá íbúðarhúsum er nú í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002.  Ráðuneytið telur að byggja eigi á sömu forsendum og fram komu í framangreindum úrskurði við endurnýjun starfsleyfisins.  Úrskurður ráðuneytisins var endanleg ákvörðun um útgáfu fyrra starfsleyfis og er það starfsleyfi ekki til meðferðar nú.  Því telur ráðuneytið ekki efni til að fjalla sérstaklega um þá fullyrðingu kæranda að í fyrra starfsleyfi hafi ekki falist fullnægjandi mótvægisaðgerðir.

 

 

2.

Kærandi telur að um verulega breytingu og aukna starfsemi sé að ræða og óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir.

 

Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, segir að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd eða starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir og skuli leyfisveitandi taka tillit til hans.  Í 2. mgr. sömu greinar segir jafnframt að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd skv. 6. gr. nema fyrir liggi úrskurður um mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld.  Samkvæmt 1. mgr. 5. gr., sbr. ii-lið 19. tölul. 1. viðauka laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eru stöðvar þar sem fram fer þauleldi svína með 3.000 stæði eða fleiri fyrir alisvín (yfir 30 kg) nú ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum.  Breytingar eða viðbætur á framkvæmdum sem falla undir 1. eða 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, eru tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laganna, sbr. a-liður 13. tölul. 2. viðauka þeirra laga.  Á grundvelli þessa ákvæðis sendi Umhverfis- og heilbrigðisstofa Skipulagsstofnun bréf dags. 24. júlí 2001 þar sem tilkynnt var um breytingar á starfseminni vegna fyrirhugaðrar dælu- og hreinsistöðvar fyrir svínaskít.  Í bréfinu var m.a. tilgreindur fjöldi dýra í búinu, heildarársframleiðsla og áætlað magn svínaskíts frá búinu.  Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. október 2001 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að dælu- og hreinsistöðin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins kemur fram að í framangreindri ákvörðun hafi einungis verið tekin afstaða til matskyldu hreinsivirkisins en ekki þeirra breytinga sem kunni að verða ef fyrirhuguð er fjölgun dýra sem leyfilegt er að halda í búinu. 

 

Eins og fram kemur í 3. kafla hér á eftir var í fyrra starfsleyfi ekki tilgreindur hámarksfjöldi dýra í svínabúinu að Brautarholti.  Er gert ráð fyrir að heildarframleiðsla svínabúsins, fjöldi ársgyltna og fjöldi dýra í eldissvínahúsum (yngri húsum) sé óbreyttur samkvæmt nýju starfsleyfi.  Til að halda óbreyttri framleiðslu sé hins vegar gert ráð fyrir 80 unggyltum í eldri svínahúsum umfram það sem fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.  Framangreindar 80 unggyltur eru meðtaldar í heildarfjölda dýra í tilkynningu Umhverfis- og heilbrigðisstofu til Skipulagsstofnunar þann 24. júlí 2001. Ráðuneytið telur að um smávægilega breytingu á rekstrarfyrirkomulagi búsins sé að ræða sem ekki geti talist tilkynningaskyld breyting á framkvæmd í skilningi 2. mgr. 6. gr., sbr. a-liður 13. tölul. 2. viðauka, laga um mat á umhverfisáhrifum.  Bendir ráðuneytið á að samkvæmt ii- og iii-lið, f-liðar, 1. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum eru stöðvar þar sem fram fer þauleldi svína með 2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða 750 stæði fyrir gyltur eða fleiri, tilkynningaskyldar samkvæmt 6. gr. laganna og er hugsanleg fjölgun unggyltna um 80 dýr langt undir þeim mörkum.    Eins og áður er komið fram hefur Skipulagsstofnun hins vegar tekið ákvörðun um matsskyldu dælu- og hreinsistöðvar fyrir svínaskít frá búinu þar sem fyrir lá væntanlegur fjöldi svína á búinu.  Niðurstaða stofnunarinnar var að dælu- og hreinsistöðin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.   Ráðuneytið fellst því ekki á að útgáfa starfsleyfis svínabúsins hafi farið í bága við 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

3.

Kærandi mótmælir fjölgun dýra í efri svínahúsum úr 550 dýrum í 680 frá því sem gert var ráð fyrir í eldra starfsleyfi svínabúsins.  Að hans mati er umsækjandi um starfsleyfi að fara á bak við heilbrigðisyfirvöld og ætlar að stórauka framleiðslu sína.

 

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, skal starfsleyfi innihalda eftir því sem við á hverju sinni, lýsingu á þeirri starfsemi sem heimiluð er, stærð hennar og staðsetningu.  Í grein 1.1. í hinu kærða starfsleyfi segir:  „Leyfið gildir fyrir eldishús (eldri hús) fyrir gyltur/gelti til framleiðslu á smágrísum og eldishús fyrir alisvín (ný hús).  Leyfilegur hámarksfjöldi fullorðinna dýra í efri húsum hverju sinni er 680 dýr.  Leyfilegur fjöldi dýra í eldissvínahúsum er 6000 dýr og heildarársframleiðsla 12.000 dýr.“ Í umsókn um eldra starfsleyfi var óskað eftir leyfi fyrir 550 ársgyltur ásamt uppeldi á sláturgrísum.  Eins og fram kemur í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu var í því starfsleyfi svínabúsins ekki tilgreindur hámarksfjöldi dýra í svínabúinu. Auk 550 ársgyltna hafi í eldri húsum átt að vera geltir og unggyltur, samtals um 600 dýr, en heildarframleiðsla búsins væri 12.000 dýr.  Þetta er í samræmi við gögn sem ráðuneytið hefur undir höndum varðandi útgáfu eldra starfsleyfis Brautarholts.  Fram kemur í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu varðandi fjölgun svína í eldra húsi í 680 dýr að samkvæmt upplýsingum frá svínabúinu sé ekki um að ræða stækkun á búinu heldur hagræðingu í rekstri sem felst í því að um 120 unggyltur sem síðar eigi að nota til undaneldis séu aldar upp í efri húsum auk 10 galta.  Jafnframt kemur fram í umsögninni að leitað hafi verið til yfirdýralæknis eftir svörum um hversu mikil endurnýjun þyrfti að vera í svínabúi af þessari stærð og út frá svörum hans hafi verið reiknuð mörk upp á 680 dýr.  Í umsögn Brautarholts kemur fram að í nútíma svínarækt og með tilkomu nýrra stofna sé mun hraðari endurnýjun á gyltum en áður var.  Áður hafi gyltur verið látnar gjóta 8-10 sinnum en nú hafi sú tíðni lækkað í 5-6 sinnum.  Þess vegna sé meiri fjöldi fullorðinna dýra nauðsynlegur til að framleiðslan haldist í horfi.  Samkvæmt framangreindri grein 1.1. í hinu nýja starfsleyfi er heildarársframleiðsla búsins 12.000 dýr og því óbreytt frá því sem gert var ráð fyrir við útgáfu eldra starfsleyfis. Að mati ráðuneytisins hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að vefengja framangreinda útreikninga og fellst ráðuneytið á þær skýringar sem gerðar hafa verið á nauðsynlegum fjölda fullorðinna dýra.   Það er síðan í höndum heilbrigðisnefndar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit, að framfylgja ákvæðum starfsleyfisins og hafa eftirlit með því að framangreind mörk séu virt.

 

 

4.

Kærandi telur 5 ára gildistíma starfsleyfis allt of langan og gerir kröfu um að hann verði ekki lengri en 3 ár.

 

Í 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, segir að endurskoða skuli starfsleyfi að jafnaði á 4 ára fresti og að ef sú endurskoðun leiðir í ljós að nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi þá skuli með það fara eins og útgáfu nýs starfsleyfis.  Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skulu starfsleyfi gefin út til tiltekins tíma.  Þegar metið er í hvað langan tíma starfsleyfi eigi að gilda ber að hafa í huga ofangreinda 20. gr.  Ráðuneytið fellst ekki á að gildistími starfsleyfisins sem er 5 ár sé of langur enda ber að endurskoða starfsleyfið að loknum fjórum árum.

 

 

5.

Kærandi telur að ekki hafi verið sýnt fram á að fyrir hendi séu geymslutankar sem rúmi a.m.k. þriggja mánaða birgðir af svínaskít, svo sem kveðið er á um í grein 5.2. í starfsleyfinu.

 

Fram kemur í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu að í Brautarholti sé stór 2500 m3 geymslutankur auk 150 m3 miðlunartanks sem tengdur er hreinsivirki búsins.  Áætlanir forsvarsmanna búsins miði við að núverandi rými dugi fyrir þriggja mánaða birgðir af svínaskít.  Nú hefur verið tekin í notkun ný dælu- og hreinsistöð fyrir þann svínaskít sem fellur til á búinu, en þar er stórum hluta skítsins veitt út í sjó eftir skiljun.  Ekki er því lengur þörf fyrir að geyma ómeðhöndlaðan svínaskít nema upp komi bilun í hreinsivirkinu.  Stóri geymslutankurinn stendur því alla jafna tómur.  Að mati ráðuneytisins hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að framangreint geymslurými fyrir svínaskít sé of lítið fyrir starfsemi svínabúsins. 

 

 

6.

Kærandi telur ljóst að umsækjandi starfsleyfis hafi ekki nægjanlegt landrými til dreifingar svínaskíts, sbr. greinar 6.1. og 6.2. í starfsleyfinu.

 

Ljóst er að með tilkomu dælu- og hreinsistöðvar við svínabúið hefur magn svínaskíts sem fellur til frá búinu minnkað til mikilla muna.  Fram kemur í umsögn Brautarholts að svínabúið hafi rými til dreifingar á skít, bæði á löndum búsins, leigulöndum og löndum bænda í nágrannasveitarfélögum.  Í greinum 6.1. og 6.2. er tekið fram að ef ekki er mögulegt að nýta ómeðhöndlaðan svínaskít eða þann hluta sem fellur til eftir hreinsun (þurrhluta), þá skuli því fargað á viðurkenndum urðunarstað.  Ráðuneytið telur því að ákvæði 6.1. og 6.2. séu fullnægjandi hvað þetta varðar.

 

 

7.

Kærandi gerir þá kröfu að skýrt verði kveðið á um í grein 6.8. í starfsleyfinu að dreifing svínaskíts sé óheimil þegar vindur stendur að nærliggjandi húsum eða muni samkvæmt veðurspám gera það næstu þrjá daga.  Þá verði ennfremur kveðið á um sérstakt eftirlit með dreifingunni og vandlega fylgst með því að hann verði felldur ofan í svörðinn, svo sem kveðið er á um í grein 6.7.   Jafnframt telur kærandi fjarlægðarmörk sem getið er um í grein 6.9. í starfsleyfi algerlega ófullnægjandi.

 

Fjallað var um sömu kröfur kæranda í úrskurði ráðuneytisins frá 29. júní 2000 vegna samskonar ákvæða í eldra starfsleyfi svínabúsins. Hvað varðar grein 6.8. í starfsleyfinu þá telur ráðuneytið eins og áður að í ljósi óstöðugleika íslensks veðurfars sé ekki raunhæft að kveða á um það að dreifing svínaskíts sé óheimil þegar vindur stendur að næstu húsum samkvæmt veðurspám næstu þrjá daga.  Ráðuneytið telur því ekki efni til að gera breytingar á orðalagi greinar 6.8. í starfsleyfinu.

 

Jafnframt telur ráðuneytið eins og í fyrri úrskurði að ekki sé þörf á sérstöku eftirliti með dreifingu á mykju enda reglur um dreifingu skýrar í starfsleyfinu og ekki vandasamt að sýna fram á hafi þær verið brotnar og grípa þá til viðeigandi aðgerða. 

 

Í grein 6.9 í starfsleyfinu er gerð grein fyrir því hversu nálægt íbúðarhúsum og annarri starfsemi dreifing svínamykju má fara fram. Samskonar fjarlægðarmörk voru í fyrra starfsleyfi og voru þau staðfest í framangreindum úrskurði.  Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999, um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, segir að taka skuli tillit til nálægrar starfsemi, íbúðarhúsa og orlofshverfa við dreifingu búfjáráburðar m.a. með því að virða hæfileg fjarlægðarmörk og miða við hagstæðar vindáttir við dreifingu.  Reglugerðin kveður hins vegar ekki nánar á um það hvað teljast hæfileg fjarlægðarmörk og er það því háð mati viðkomandi heilbrigðisnefndar og eftir atvikum ráðherra.  Eins og áður hefur komið fram er ljóst að með tilkomu dælu- og hreinsistöðvar við svínabúið hefur magn svínaskíts sem fellur til frá búinu minnkað til mikilla muna. Fram kemur í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu að þurrhluti svínaskíts sem fellur til eftir skiljun er miklu lyktarminni en ómeðhöndlaður skítur.  Sú breyting hefur verið gerð á tilhögun á dreifingu svínaskíts að samkvæmt hinu nýja starfsleyfi er einungis heimilt að dreifa ómeðhöndluðum svínaskít einu sinni á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert en var heimilt tvisvar samkvæmt eldra starfsleyfi.  Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að draga í efa að lykt frá svínabúinu valdi kæranda óþægindum.  Eins og fram kemur í lið 8 hér á eftir telur ráðuneytið ekki unnt að gera kröfur um frekari mengunarvarnarbúnað á svínabúinu fyrr en besta fáanlega tækni í þeirri atvinnugrein hefur verið skilgreind.  Hins vegar telur ráðuneytið að draga megi úr lyktmengun við íbúðarhús kæranda með því að takmarka dreifingu svínaskíts í næsta nágrenni þess.  Ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun að eins og máli þessu er háttað sé rétt að hafa lágmarksfjarlægð milli íbúðarhúss og svínabús til hliðsjónar við ákvörðun á leyfilegri fjarlægð á dreifingu svínaskíts frá íbúðarhúsum.  Eins og fram kemur í I. kafla hér að framan er sú fjarlægð 325 m og er það undanþága frá reglum 3. mgr. 137. gr. eldri heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 og 4. mgr. 24. gr. núgildandi reglugerðar um hollustuhætti, þar sem segir að óheimilt sé að hafa svínabú nær mannabústöðum en sem nemur 500 m.  Ráðuneytið telur því rétt að dreifing svínaskíts fari ekki fram nær íbúðarhúsum en 325 m og fari dreifingin fram nær íbúðarhúsum en 500 m skuli svínaskíturinn plægður ofan í jarðveginn.  Breytast fjarlægðir í töflu í ákvæði 6.9. í starfsleyfinu í samræmi við þetta, sbr. neðangreinda töflu. 

 

Ákvæði 6.9. í starfsleyfi svínabúsins orðast svo:

Eftirfarandi fjarlægðarmörk skulu gilda við dreifingu svínaskíts nema að fyrir liggi skriflegt samþykki eigenda:

 

Dreifingartækni

Íbúðarhverfi, heilbrigðisstofnanir og skólar

Íbúðarhús á bæjum þar sem stunduð er búfjárrækt

Íbúðarhús í dreifbýli

Mykjudreifari/lágþrýstidreifing

 

Háþrýsisprautun eða plæging*

500 m

 

325 m

500 m

 

325 m

500 m

 

325 m

 

            *Háþrýstisprautun ofan í jarðveg eða önnur dreifing og plæging innan 12 klst.

 

 

8.

Kærandi krefst þess að hert verði á skilyrðum 7. greinar starfsleyfisins um lyktmengun frá svínahúsum.  Krefst hann þess að þá þegar verði sett það skilyrði að settur verði viðeigandi og fullnægjandi hreinsibúnaður á alla strompa á búinu þannig að dregið verði úr heilsuspillandi og mengandi lofti sem þaðan berst. 

 

Starfsemi svínabúsins að Brautarholti fellur undir starfandi atvinnurekstur skv. 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Samkvæmt þeirri grein þarf starfandi atvinnurekstur ekki að hafa uppfyllt kröfu um bestu fáanlegu tækni eða um viðbótarráðstafanir, sbr. 1. mgr. 13. gr. og c-lið 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, fyrr en 31. október 2007.  Besta fáanlega tækni hefur ekki enn verið skilgreind í þessum atvinnurekstri og er því ekki ljóst hvaða kröfur verða gerðar til mengunarvarnabúnaðar í svínabúum þegar framangreindu tímamarki verður náð.  Í grein 7.2. í starfsleyfinu er fyrirtækinu gert að skila fyrir 1. janúar 2006 áætlun um hvernig það hyggst uppfylla ákvæði um bestu fáanlegu tækni.  Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að ekki hafi tíðkast hér á landi að gera kröfur um hreinsibúnað á útblástursloft frá húsum fyrir búpening í landbúnaði.  Slíkt sé tæknilega framkvæmanlegt en kostnaður mjög mikill, sérstaklega þar sem um marga viftustrompa sé að ræða en ekki einn einstakan útblástursstromp.  Með hliðsjón af framangreindu ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999 og þar sem besta fáanlega tækni hefur ekki verið skilgreind í þessum atvinnurekstri telur ráðuneytið ekki unnt á þessu stigi að gera kröfu um svo kostnaðarsaman hreinsibúnað við svínabúið.  Kröfu kæranda hvað þetta varðar er því hafnað.

 

9.

Kærandi vekur sérstaka athygli á að í starfsleyfinu hefur verið fellt niður ákvæði í grein 7.2. eldra starfsleyfis þar sem umsækjanda var gert að láta viðurkenndan aðila mæla rykmagn í öllum útblæstri einu sinni á ári og greina tegund og magn annarra efna sem berast með því.  Mótmælir kærandi þessu harðlega og gerir þá kröfu að mælingum verði fjölgað og verði eigi sjaldnar en sex sinnum á ári.

 

Fram kemur í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu að ýmsir annmarkar hafi verið á framkvæmd mælinga sem kveðið var á um í eldra starfsleyfi.  M.a. hafi verið erfitt að koma fyrir búnaði, mikið rok á svæðinu hafi valdið erfiðleikum og hafi rannsóknaraðili talið a.m.k. 20% skekkju vera á niðurstöðum mælinga vegna þessa.  Að mati Umhverfis- og heilbrigðisstofu skiluðu þessar mælingar takmörkuðum upplýsingum.  Ráðuneytið tekur undir að ekki séu forsendur til að kveða á um íþyngjandi og kostnaðarsamar rannsóknir í starfsleyfi ef ekki er unnt að framkvæma þær þannig að þær skili tilætluðum árangri.  Kröfum kæranda hvað þetta varðar er því hafnað.

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis fyrir svínabú og hreinsivirki Brautarholts ehf. í Brautarholti á Kjalarnesi, frá 19. nóvember 2002, með eftirfarandi breytingu:

 

 Ákvæði 6.9. í starfsleyfi svínabúsins orðast svo:

Eftirfarandi fjarlægðarmörk skulu gilda við dreifingu svínaskíts nema að fyrir liggi skriflegt samþykki eigenda:

 

Dreifingartækni

Íbúðarhverfi, heilbrigðisstofnanir og skólar

Íbúðarhús á bæjum þar sem stunduð er búfjárrækt

Íbúðarhús í dreifbýli

Mykjudreifari/lágþrýstidreifing

 

Háþrýsisprautun eða plæging*

500 m

 

325 m

500 m

 

325 m

500 m

 

325 m

 

            *Háþrýstisprautun ofan í jarðveg eða önnur dreifing og plæging innan 12 klst.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis fyrir svínabú og hreinsivirki Brautarholts ehf. í Brautarholti á Kjalarnesi, frá 19. nóvember 2002, er staðfest með eftirfarandi breytingu:

 

 Ákvæði 6.9. í starfsleyfi svínabúsins orðast svo:

Eftirfarandi fjarlægðarmörk skulu gilda við dreifingu svínaskíts nema að fyrir liggi skriflegt samþykki eigenda:

 

Dreifingartækni

Íbúðarhverfi, heilbrigðisstofnanir og skólar

Íbúðarhús á bæjum þar sem stunduð er búfjárrækt

Íbúðarhús í dreifbýli

Mykjudreifari/lágþrýstidreifing

 

Háþrýsisprautun eða plæging*

500 m

 

325 m

500 m

 

325 m

500 m

 

325 m

 

            *Háþrýstisprautun ofan í jarðveg eða önnur dreifing og plæging innan 12 klst.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum