Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

3/2000 Úrskurður frá 1. febrúar 2001

Nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998.

 

Ár 2001 fimmtudaginn 1. febrúar kom nefnd  skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, hrl. og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2000, kæra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar, Sjávargötu 11, Bessastaðahreppi, kæra Ingrid Kuhlman, Sjávargötu 29, Bessastaðahreppi og kæra Elínar Vigdísar Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssonar vegna afgreiðslu Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þann 11.12.2000 á kröfu þeirra um aflífun hunds, skráðan eign Þorgerðar Nielsen, Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

Úrskurður

I.

Upphaf máls þessa er að með bréfi dagsettu 20. september 2000 til formanns nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lýstu þau Aðalheiður Ester Gunnarsdóttir og Guðjón Birkir Helgason því að sonur þeirra, Aron Ragúel, 10 ára, hafi verið bitinn af hundi, sem og annað barn í nágrenninu, og hafi bitið verið kært til lögreglu og þar sett fram krafa um aflífun hundsins.  Í bréfinu kom einnig fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi hafnað því að hundurinn yrði aflífaður og var þeirri málsmeðferð mótmælt.

Með bréfi dags. 2. október 2000 til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs-svæðis fór nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 fram á gögn og viðhorf eftirlitsins vegna framangreindrar kvörtunar.  Svar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis barst nefndinni daginn eftir og fylgdu ýmis gögn bréfinu m.a. lögregluskýrslur, bréf lögmanns hundeigandans, bréf Ástu Dóru Ingadóttur hundaþjálfara og ýmis bréf (vottorð) nágranna um hegðun þeirra barna sem koma hér við sögu.

Í framangreindum gögnum kom fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi gefið eiganda hundsins tækifæri til að "endurþjálfa" hundinn og myndi síðar leggja málið fyrir heilbrigðisnefnd sömu svæða til endanlegrar ákvörðunar um afdrif hundsins og þá eftir mat á því hvernig til hefði tekist um þjálfunina.  Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 ákvað að bíða með afgreiðslu kvörtunar þeirra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar þar til endanleg ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis lægi fyrir og var þeim tilkynnt sú ákvörðun.

 

Heilbrigðisnefndin kom saman til fundar þann 11. desmber 2000 og er niðurstaða nefndarinnar að hundurinn skuli ekki aflífaður.

 

Afgreiðsla heilbrigðisnefndarinnar barst nefndinni með bréfi dags. 13. desember 2000 og fylgdu ýmis gögn m.a. bréf sem gengið hafa milli aðila málsins svo og álit skólaráðs Hundaskóla Hundaræktarfélags Íslands, en ekki verður ráðið af gögnum hver leitaði þess álits.

 

Með bréfi dags. 15. desember 2000 ítreka Aðalheiður Ester Gunnarsdóttir og Guðjón Birkir Helgason mótmæli sín vegna afgreiðslu heilbrigðiseftirlitsins og gera kröfu um að hundurinn verði aflífaður en til vara að hann verði látinn fara úr sveitarfélaginu.  Með bréfi dagsettu sama dag sendi Ingrid Kuhlman, Sjávargötu 29, Bessastaðahreppi, nefndinni sömuleiðis kröfu um að úrskurði heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði hafnað og gripið verði til viðeigandi ráðstafana skv. 14. gr. samþykkta um hundahald nr. 154/2000.

 

Að lokum barst nefndinni bréf dagsett 21. desember 2000 frá Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssyni, Sjávargötu 27, Bessastaðahreppi sem einnig gera kröfu um að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits (nefndar) Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði felld úr gildi og hundinum lógað.

Með bréfi dags. 3.1.2001 til aðila málsins taldi nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 öll sjónarmið vera komin fram og tilkynnti að málið yrði tekið til úrskurðar.

 

II. 

Í bréfi kæranda, þeirra Aðalheiðar Esterar og Guðjóns Birkis, er lýst aðdraganda og afleiðingum þess er hundurinn Nói beit son þeirra Aron Ragúel þann 14. ágúst 2000.  Afleiðingar bitsins voru þær að sauma þurfti 7 til 8 spor í andlit drengsins en sárin voru tvö á efri vör og nasavæng sem rifnaði frá og svo á neðri vör, en ljósmyndir fylgdu af áverkunum.  Lýtalæknir mun síðan hafa stundað drenginn og lagfært bitsárin eins og hægt er.

 

Í bréfinu kom einnig fram að sami hundur hafi bitið 6 ára stúlku í nef og hvirfil skömmu áður.  Mál það var ekki kært þá að beiðni eiganda hundsins, en við síðara bitið hafi foreldrar þess barns ákveðið að setja fram kæru.

Í lögregluskýrslu kemur fram að stúlkan, Íris Anita, hafði verið bitin þann 29. júlí 2000 og foreldrar hennar þau Eyþór Eðvarðsson og Ingrid Kuhlman gerðu þá kröfu hjá lögreglu að hundurinn yrði aflífaður.  Í öðrum skýrslum kemur fram að Ágúst Böðvarsson faðir hundaeigandans hafi ætlað að svæfa hundinn þann 17. ágúst 2000 og einnig kom fram hjá móður eiganda hundsins að hann hafi glefsað í eigendur sína en sú fullyrðing var síðan dregin til baka af lögmanni þeirra.

 

Við meðferð málsins hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis var orðið við óskum eiganda hundsins um tækifæri til "endurþjálfunar" hans en til öryggis krafðist heilbrigðiseftirlitið þess að hundurinn færi af heimili sínu meðan á þjálfun stæði og gefinn var tveggja mánaða frestur en þá skyldi málið metið að nýju.

 

Í bréfi lögmanns eiganda hundsins, dags. 4. september 2000, kemur fram að eigendur höfðu ráðfært sig við Ástu Dóru Ingadóttur hundaþjálfara hjá firmanu Gallerí Voff og beðið var um samþykki fyrir því að álits áðurgreinds hundaþjálfara væri leitað.  Í bréfinu er einnig lýst aðstæðum þegar hundurinn beit börnin og þau raunar sökuð um að hafa æst hundinn sérstaklega upp.  Eru þær staðhæfingar m.a. studdar ýmsum yfirlýsingum m.a. frá eigendum hundsins og öðrum í nágrenninu.

 

Ásta Dóra Ingadóttir, hundaþjálfari, skilar áliti í bréfi sem dagett er 8. september 2000.  Í álitinu er lýst hegðun hundsins og aðstæðum hans í Sjávargötu 23.  Tekið er fram að hundurinn sé á "félagsþroskatímabili" sem hundar noti til að finna sinn stað í virðingarstiga heimilisins.  Síðan er því lýst að endurmóta þurfi viðhorf hundsins gagnvart fólki.

 

Í framhaldi þessa álits er í bréfi lögmannsins beðið um að hundurinn "fái tækifæri til að læra góða siði og fái að njóta einkaþjálfunar Ástu Dóru, sem síðan myndi meta hann að þeirri þjálfun lokinni".  Í niðurlagi bréfs lögmannsins er því heitið að ef álit þjálfarans verði neikvætt muni hundurinn verða aflífaður og lokaorð bréfsins eru:"Með einlægri bón um að lífi Nóa litla (hundsins innsk. nefndar) verði þyrmt nú um hríð og að hann fái tækifæri til að læra að umgangast mannfólkið hjá góðum og viðurkenndum hundaþjálfara."

 

Nefndinni þótti ástæða til að beina þeim spurningum til heilbrigðiseftirlitsins í fyrsta lagi hvernig staðið hafi verið að vali Ástu D. Ingadóttir til að þjálfa hundinn, í öðru lagi hvort hæfni hennar til þjálfunar hafi verið könnuð á einhvern hátt og að lokum hvernig heilbrigðiseftirlitið muni staðreyna árangur þeirrar þjálfunar sem eftirlitið sjálft hafi ráðgert.  Heilbrigðiseftirlitið svaraði og kom fram að val hundaþjálfarans hafi alfarið verið á vegum eiganda hundsins og starfsemi þjálfarans hafi verið kunn eftirlitinu.  Að lokum var svarað að mat á þjálfun hundsins eigi að koma fram í skýrslu hundaþjálfarans.

 

Í ódagsettri greinargerð hundaþjálfarans sem skilað var til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er m.a. fullyrt að miklar breytingar hafi orðið á viðhorfi hundsins til manna og þetta sé góður hundur með trausta skapgerð og sýni ekki nokkrum manni óvild.  Síðan er sagt: ,,Það eina sem eftir situr er að hann ofles hormónaboð frá tíkum, hann fékk hormónasprautur til að minnka kynkvötina en það virðist ekki duga alltof vel og þá geti gelding verið næsta skerfið."

 

Í framhaldi þessa álits fóru framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri heilbrigðiseftirlitsins á heimili hundsins þann 24. nóvember 2000 og skoðuðu aðstæður.  Niðurstaða þeirrar heimsóknar var að gefa það mat að hundurinn gæti verið áfram á heimili sínu. 

Þann 11. desember 2000 er málið síðan tekið fyrir í heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, forsaga málsins rakin og er úrskurðarorð nefndarinnar svohljóðandi:

 

"Ekki er gerð krafa um að hundurinn Nói að Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi verði aflífaður enda verði hann ekki hafður utan dyra án gæslu fullorðinna".

 

III.

Þessi niðurstaða er kærð til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 fyrst með bréfi foreldra Arons Ragúels, þeirra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar, dags. 15. desember 2000, og er gerð krafa um að hundurinn verði svæfður og til vara að hann verði látinn fara úr sveitarfélaginu.  Sama dag barst nefndinni einnig kæra Ingrid Kuhlman, móður Írisar Anitu sem hundurinn hafði bitið í júlí 2000.  Í kæru Ingrid eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og segir m.a. í kærunni "Í fyrsta lagi verður að telja undarlegt að sami aðili sem valinn er til að þjálfa hundinn gegn borgun skuli líka vera valinn til að leggja mat á hann.  Hér er ekki hægt að segja að um hlutlausan aðila sé að ræða.  Umræddur hundaþjálfari er enn í viðskiptum við eiganda hundsins, sem greiðir honum laun."

 

Síðar segir: "Í öðru lagi dreg ég í efa fagleg vinnubrögð hundaþjálfara og undrast að heilbrigðisnefnd skuli velja ófaglærða manneskju til að leggja mat á það hvort að hundinum sé treystandi.  Í greinargerðinni má lesa eftirfarandi álit:

 

"Í eðli sínu er Nói góður hundur, með trausta skapgerð og ég hef aldrei séð hann sýna nokkrum manni óvild né heldur áhuga yfir höfuð, hann fer ekki að fólki að fyrra bragði".

 

Hvernig má það vera að hundur, sem með skömmu millibili ræðst án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu á tvö börn og bítur þau í andlitið svo harkalega að þau þurfa að leita læknis, fái þetta mat "sérfræðingsins".

Það  hlýtur að verða að gera greinarmun á þeirri hlýðniþjálfun sem hundaþjálfari beitir og faglegu mati á því hvort að dýrið sé líklegt að ráðast á önnur börn í þriðja, fjórða og fimmta skiptið.  Það að hundurinn hlýði eiganda sínum þýðir ekki sjálfkrafa að hann sé ekki hættulegur.  Af hverju var t.d. ekki lagt fyrir viðurkennt skapgerðar-mat sem Hundaræktarfélag Íslands notar og viðurkenndur atferlisfræðingur framkvæmir?

 

Í þriðja lagi tel ég að heilbrigðisnefndin hafi ekki sinnt skyldu sinni við að láta lóga hundinum.  Til grundvallar ákvörðuninni voru notaðar vægast sagt undarlegar sögusagnir nágranna sem vitað er að ekki voru viðstaddir þegar árás hundarins átti sér stað, hvorki þegar hann réðst á

dóttur mína né Aron.  Hvernig geta þær frásagnir nágranna á nokkurn hátt verið trúverðugar?  Sonur minn 7 ára varð vitni að árásinni á systur sína ásamt einu 5 ára barni.

Það er umhugsunarefni hvað raunverulega þurfi til að fá hund eins og Nóa aflífaðan?

Einnig finnst mér undarleg ályktun Guðmundar H. Einarssonar framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins í bréfi sínu til Sigurmars K. Albertssonar dagsett 13.12.2000.  Þar segir á blaðsíðu 2:

 

            "Hvorugt hundsbitið telst brot á ofangreindri samþykkt (nr. 154/2000) þar

sem hundurinn var á heimili sínu þegar atvikin áttu sér stað."

 

Hvernig getur það verið að hundsbit teljist ekki brot þegar hundurinn er á heimilinu sínu, er þá allt í lagi að hann bíti börn heima hjá sér en ekki úti?  Hvergi í samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að hundar hafi leyfi til að ráðast á börn eða að heimilið sé verndaður vettvangur fyrir árásir af þessum toga".

 

Loks barst nefndinni kæra frá Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssyni sem setja fram þá kröfu að hundurinn verði aflífaður og lýsa þeim áhyggjum sínum að hundurinn komi til með að bíta fleiri börn í nágrenninu.

 

IV.

Sérstök samþykkt hefur verið gerð um hundahald fyrir Bessastaðahrepp, Garðabæ, Hafnarfjörð og Kópavog nr. 154/2000.

 

Í 1. gr. samþykktarinnar er sagt að hundahald sé takmarkað í áðurgreindum lögsagnarumdæmum og í 2 gr. er staðfest sú skipun að heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu.

 

Í 11 gr. samþykktarinnar segir: "Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns.  Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður.  Óski hundeigandi þess skal leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkenna áður en ákvörðun um aflífun er tekin."

 

Í 14 gr. samþykktarinnar sem er undir kaflaheitinu "Valdsvið og þvingunarúrræði" segir: " Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds getur heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn."

 

V.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis féllst á að gefa eiganda hundsins tækifæri til að koma honum í svonefnda endurþjálfun og valdi eigandi hundsins til þess tiltekinn hundaþjálfara.  Það er álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að sá aðili hafi ekki verið til þess bær að gefa heilbrigðiseftirlitinu álit skv. 11. gr. samþykktanna um hundahald að þeirri þjálfun lokinni, en í raun er hundaþjálfarinn að meta eigin verk og árangur og augljóst að hlutlaus aðili hefði verið betur fallinn til þess verks. 

 

Auk þess telur nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að álit hundaþjálfarans sé ekki trúverðugt og stutt skoðunarferð starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili hundsins styrki ekki álit hundaþjálfarans.

 

Í afgreiðslu heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 13. desember 2000 eru hagsmunir hundeigandans einir látnir ráða niðurstöðum en ekki horft til hagsmuna umhverfisins sem er barnmargt íbúðarhverfi.  Það er álit nefndarinnar að hvað sem líður þjálfun hundsins og fullyrðingum um að hann hafi verið vaninn af þeim göllum sem hann var haldinn muni börnum í nágrenni hans alltaf stafa af honum ógn sem ekki verði við unað og því verði að fjarlægja hundinn af heimili hans og koma honum fyrir á öðrum stað í samræmi við 14 gr. samþykktar um hundahald sem gildir í Bessastaðahreppi.

 

Úrskurðarorð.

Felld er úr gildi afgreiðsla heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og lagt fyrir heilbrigðiseftirlit sama svæðis að fjarlægja hundinn af Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi í samræmi við ákvæði 14 gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000.

 

 

                                                ____________________________

                                                Sigurmar K. Albertsson hrl.

 

 

_______________________________             ________________________________

Gunnar Eydal hrl.                                           Óðinn Elísson hdl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum