Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

4/2004

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, þriðjudaginn 18. janúar, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2004  Raimund Bernhard Brockmeyer-Urbschat gegn Blönduósbæ.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður

 

I.

Stjórnsýslukæra Raimunds Bernhard Brockmeyer-Urbschat,  Litla- Búrfelli, Svínavatnshreppi, hér eftir nefndur kærandi, er dags. 30. júní, 2004 og barst nefndinni í byrjun júlí.   Kærð er álagning Blönduóssbæjar á sorphirðugjaldi á íbúð kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Blönduósbær er hér eftir nefndur kærði.  Gerir kærandi þá kröfu að Blönduóssbæ verði gert að leiðretta álagningarreglur sínar og að sorphirðugjald á íbúð hans verði fellt niður.  Ennfremur kærir kærandi uppgjör vegna endurgreiðslu sorphirðugjalds fyrir árin 2002 og 2003.  Kæranda var sent afrit af svarbréfi kærða og svaraði hann með greinargerð dags.5. nóvember s.l.   Kæra ásamt meðfylgjandi gögnum var send kærða sem svaraði með bréfi dags. 30. ágúst s.l.  Kærði hafnar kröfu kæranda um breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds og vísar til gjaldskrár sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneyti.  Áður hafði kærði sent nefndinni svarbréf í kjölfar þess að umhverfisráðuneyti sendi kærða afrit af kæru.  Þá sendi kærði afrit af gjaldskrá kærða um álagningu gjalds fyrir sorphirðu.

 

II.

Í kæru er kærð álagning kærða á sorphirðugjaldi á íbúð kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Um málavexti vísar kærandi til málavaxta í stjórnsýslukæru dags. 9 júní, 2002 en afrit kæru fylgir með. Kemur þar fram  að kærði hafi á undanförnum árum fellt niður sorphirðugjlad fyrir íbúð kærða að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Enginn hafi verið þar skráður með lögheimili undanfarin 7 ár og enginn hafi búið í íbúðinni.   Um lagarök vísar kærandi til :

1)      25. gr. l. nr. 7/1998 :  Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um    

      innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi  

      heilbrigðisnefndar.  Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum

      kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

     Vísar kærandi til þess að þar sem enginn búi eða hafi búið íbúð hans á 

     Blönduósi falli ekki til kostnaður vegna sorphirðu og því óheimilt að

     innheimta sorphirðugjald frá honum.

2)      11. gr. l.nr 805/1999 : “Gjald um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.”

Vísar kærandi til þess að í húsinu nr. 4 við Hnjúkabyggð á Blönduósi séu 4 íbúðir þar af hafi 2 ekki verið í notkun í meira en 10 ár, hinar 2 heldur ekki í stöðugri notkun.  Fjöldi sorpíláta hafi í gegnum árin verið eitt stundum ekkert.  Þjónustustig sé því ekki mjög hátt við þetta heimilisfang og geti kærandi fullyrt að fyrir hans íbúð hafi hvorki verið til sorpílát né þjónusta í meira en 10 ár.  Telur hann því að óheimilt ætti að vera að innheimta sorphirðugjald frá honum.

3)      11. gr. rgl. nr. 805/1999 :” Sveitarstjórn er ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs frá öllum íbúum á viðkomandi svæðum”

Telur kærandi að kærði hafi notfært sér þetta í málarekstri 2002 með því að segja að álagt sorpgjald sé lagt á allar íbúðir.  Telur kærandi að þessi”jafna” gangi ekki upp, íbúi og íbúð sé ekki það sama og verði ekki, sama hvernig kærði reyni að snúa málinu kæranda í óhag.Vísar kærandi til þess að það séu ekki íbúðir sem framleiði sorp heldur íbúar þeirra, ef einhverjir séu.  Kærandi ítrekar kröfur sínar um endurgreiðslu á sorphirðugjaldi ársins 2004 alls kr. 4.250,-.  Vísar kærandi til þess að fjárhæð kröfu sé ekki aðalatriði kæru heldur sú staðreynd að mati kæranda að kærði hafi ekki lagaheimild að leggja sorphirðugjald á hverja íbúð óháð því, hvort hún sé í notkun eða árum saman ekki í notkun. 

 

III.

Í greinargerð kærða dags. 30. ágúst, 2004 kemur fram að með vísan í kæru dags. 30.júní ítreki kærði það sem fram komi í svarbréfi dags. 22. júlí s.l., þess efnis að kærða sé heimilt að leggja á sérstakt sorphirðugjald á hverja íbúð sbr. 2. gr. meðfylgjandi gjaldskrár.  Gjaldskrá hafi verið staðfest af umhverisráðuneyti 27. febrúar s.l  Hafnar kærði því breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds.  Um frekari rökstuðning vísar kærði á fyrrum úrskurði úrskurðarnefndar skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í áþekkum málum.  Í tilvitnuðu bréfi kærða dags. 22. júlí 2004, tilkynnir kærði að í janúar 2004 hafi gjaldskrá fyrir hirðingu og eyðingu sorps verið breyttt og fylgi hún með. Jafnframt getur kærði um það að uppgjör vegna máls 1/2002 hafi löngu farið fram

 

IV.

Í 9. gr. l. nr. 45/1998 kemur fram að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélags og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélag annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.  Í 11. gr. rgl. um úrgang nr. 805/1999 kemur fram að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs á viðkomandi svæðum.  Í 25. gr. l.nr.7/1998 segir m.a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðar segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, legu eða veittrar þjónustu en gjöld megi ekki vera hærri en nemur kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Í samræmi við framangreint setti Blönduósbær sér gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps í Blönduósbæ dags. í janúar 2004. 

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telur ekki grundvöll fyrir álagningu sorphirðugjalds nú frekar en fyrr þar sem enginn búi eða hafi búið í íbúðinni að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi og því falli ekkert sorp þar til.  Grundvöllur sorphirðugjalds skv. gjaldskrá Blönduóssbæjar sé að þjónusta sé veitt.

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lítur svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu, þó ekki komi það fram í gjaldskrá kærða um sorphirðugjalds.  Ekki er ágreiningur milli aðila um að ekkert sorp falli til frá fasteign kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Ágreiningslaust er ennfremur að hvorki hefur neinn búið í íbúð kæranda né heldur verið þar með lögheimili á undanliðnum árum.

 

Hvað varðar kröfu kæranda um uppgjör vegna sorphirðugjalda áranna 2002 og 2003 er það ekki á verksviði nefndarinnar að fjalla um það.  Þeirri kröfu er því vísað frá.  

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalds fyrir Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi fyrstu sex mánuði ársins 2004, enda mega gjöld sveitarfélags ekki vera hærri en þjónusta sú sem veitt er hverju sinni.

 

 

 

___________________________________

Lára G. Hansdóttir

 

 

 

 

__________________________               ___________________________

         Gunnar Eydal                                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum