Úrskurðir sjávarútvegs- og fiskeldis

15.6.2016

 

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Ómars Sigurðssonar f.h. Útgerðarfélagsins Burst ehf., Dalbraut 28, Bíldudal, dags. 13. janúar 2016, sem barst ráðuneytinu 18. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins Þrastar BA-48, skipaskrárnúmer 2507. Einnig er kærð ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til bátsins Jóns Hákonar BA-61, skipaskrárnúmer 1436.

Stjórnsýslukæran er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um að hafna umsókn kæranda, Útgerðarfélagsins Burst ehf. um úthlutun byggðakvóta til bátsins Þrastar BA-48 (2507) og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins. Einnig er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins Jóns Hákonar BA-61 (1436).

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 18. desember 2015, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 19. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Bíldudal í Vesturbyggð, en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 4. janúar 2016. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 237 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Vesturbyggðar á grundvelli reglugerðar nr. 604/2015, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2015/2016, sem skiptust á eftirtalin byggðarlög í Vesturbyggð: Brjánslæk, 15 þorskígildistonn, Patreksfjörð, 96 þorskígildistonn og Bíldudal, 126 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Vesturbyggð með bréfi, dags. 20. október 2015. Einnig hafði tiltekið magn byggðakvóta byggðarlagsins verið flutt frá eldra fiskveiðiári yfir á fiskveiðiárið 2015/2016.

Með bréfum, dags. 6. janúar 2016, tilkynnti Fiskistofa útgerðum á Bíldudal í Vesturbyggð ákvarðanir sínar um afgreiðslu umsókna um úthlutun byggðakvóta til einstakra báta. Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, ákvæðum reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Báturinn Jón Hákon BA-61 (1436) fékk úthlutað 267.000 þorskígildiskílóum af byggðakvóta sem var allur byggðakvóti byggðarlagsins fiskveiðiárið 2015/2016, þ.m.t. aflaheimildir sem höfðu verið fluttar frá fyrra fiskveiðiári.

Umsókn Útgerðarfélagsins Burst ehf. um úthlutun byggðakvóta til bátsins Þrastar BA-48 (2507) var hafnað með þeim rökstuðningi að samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016, skuli skipta byggðakvóta byggðarlagsins milli skipa hlutfallslega miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015. Í gagnagrunni Fiskistofu komi ekki fram að skipið Þröstur BA-48 (2507) hafi landað neinum afla sem falli að framangreindum skilyrðum, innan byggðarlagsins á þessu tímabili og því komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til skipsins.

Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsókna um úthlutun byggðakvóta.

Málsrök í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 13. janúar 2016, sem barst ráðuneytinu 18. sama mánaðar, kærði Ómar Sigurðsson f.h. Útgerðarfélagsins Burst ehf. framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um höfnun umsóknar um úthlutun byggðakvóta til bátsins Þrastar BA-48 (2507) til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Einnig er kærð ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til bátsins Jóns Hákonar BA-61 (1436). Þá voru tiltekin gögn vegna kærunnar framsend til ráðuneytisins með bréfi Fiskistofu, dags. 27. janúar 2016.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að vegna reglna um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 verði bátar að hafa landað afla á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015. Enginn bátur í byggðarlaginu hafi uppfyllt þessi skilyrði en landað hafi verið á nafn bátsins Jóns Hákonar BA-61 (1436) 25 kg af þorski þann 30. nóvember 2015 kl. 9:05. Á þessum tíma hafi Jón Hákon BA-61 (1436) verið í slipp hjá tilteknu fyrirtæki en farið úr slippnum síðdegis. Af hálfu kæranda er því haldið fram að aflinn hafi verið keyptur á bryggjunni á Akranesi. Kærandi telji að þarna hafi verið framið brot á lögum og reglugerðum með því að færa afla á milli báta. Einnig telji kærandi að málsmeðferð bæjarstjórnar Vesturbyggðar við gerð tillagna um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 hafi ekki verið í samræmi við lög þar sem einn aðili hafi verið valinn og honum úthlutað öllum byggðakvótanum. Í rökstuðningi bæjarstjórnar Vesturbyggðar fyrir tillögum um umrædd skilyrði komi fram að tillögurnar hafi verið byggðar á því að Mardöll ehf. sem eigi bátinn hyggist hefja fiskvinnslu á Bíldudal í Vesturbyggð. Augljóst sé að það sé ekki rétt þar sem það hús sem upplýst hafi verið um að áformað væri að hefja fiskvinnslu í sé gamall beitningaskúr sem geti aldrei uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til fiskvinnslu. Auk þess hafi Ofanflóðasjóður keypt húsið vegna snjóflóðahættu og sé óheimilt að nýta það að vetri til í atvinnuskyni. Einnig telji kærandi að með löndun umræddra 25 kg hafi ekki verið farið eftir reglum um góða viðskiptahætti. Þá er því haldið fram af hálfu kæranda að Jón Hákon BA-61 (1436) hafi ekki verið með haffærisskírteini á þessum tíma.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2016, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestum afritum af hinum kærðu ákvörðunum auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2016, bárust ráðuneytinu viðbótargögn um málið, m.a. bréf frá kæranda þar sem segir m.a. að stjórnsýslukæran sé byggð á því að um sé að ræða meint brot bæjarstjórnar Vesturbyggðar við gerð tillagna um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og einnig brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Það rökstyður kærandi með því m.a. að hann telur að eigandi Jóns Hákonar BA-61 (1436) hafi verið viðstaddur fund atvinnumálanefndar Vesturbyggðar þegar ákveðið hafi verið að gera umræddar tillögur og einnig hafi ekki verið uppfylltar kröfur um almennt hæfi einstakra bæjarfulltrúa til afgreiðslu málsins, sbr. 3., 4. og 5. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfinu er lýst þeim ástæðum sem kærandi telur að hafi valdið vanhæfi einstakra bæjarfulltrúa til að taka þátt í meðferð málsins. Einnig hafi bæjarstjórn Vesturbyggðar ekki kannað hvort upplýsingar útgerðar Jóns Hákonar BA-61 (1436) um áformaða vinnslu væru byggðar á réttum forsendum og með því brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. M.a. er þar vakin athygli á að útgerð Jóns Hákonar BA-61 (1436) hafi verið boðinn væntanlegur afli Þrastar BA-48 (2507) til vinnslu en eigandi útgerðarinnar hafi upplýst að félagið yrði ekki með neina vinnslu á fiskveiðiárinu 2015/2016. Ennfremur telji kærandi að brotin hafi verið jafnræðisregla og meðalhófsregla stjórnsýsluréttar með því að afhenda einum bát allan byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 eða 267.000 þorskígildiskíló. Þá telur kærandi að við áritun samnings kæranda við tiltekna fiskvinnslu um vinnslu afla báts kæranda sem fylgdi umsókn hans hafi verið brotið gegn ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindu bréfi kæranda, dags. 12. febrúar 2016: 1) Mynd af skúr sem kærandi segir að útgerðaraðili Jóns Hákonar BA-61 (1436) hafi upplýst að notaður yrði fyrir fiskvinnslu.

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2016, sendi ráðuneytið Fiskistofu með vísan til eldra bréfs ráðuneytisins, dags. 10. febrúar 2016, ljósrit af framangreindum viðbótargögnum, þ.e. bréfi kæranda, dags. 12. febrúar 2016 og mynd sem fylgdi bréfinu. Þá sendi ráðuneytið Fiskistofu viðbótargögn í málinu með bréfi, dags. 18. mars 2016.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 21. mars 2016, kemur fram m.a. að stjórnsýslukæran verði skilin þannig að hún lúti að því að hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á röngum upplýsingum frá umsækjanda og að við málsmeðferð sveitarfélagsins Vesturbyggðar hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Hinn 18. desember 2015 hafi Fiskistofa auglýst eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir byggðarlögin Stykkishólm, Vesturbyggð vegna Bíldudals og Súðavíkurhrepp vegna Súðavíkur. Auglýsingin hafi verið birt á heimasíðu stofnunarinnar en auk þess í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 19. desember sama ár. Í auglýsingunni hafi verið vísað til sérstakra úthlutunarreglna byggðarlaganna, sbr. auglýsingu (V) nr. 1118/2015. Fiskistofa hafi auk þess beint þeim tilmælum til umræddra sveitarfélaga að auglýsingin yrði birt á heimasíðum þeirra. Hinn 14. desember 2015 hafi borist umsókn frá Útgerðarfélaginu Burst ehf. vegna bátsins Þrastar BA-48 (2507). Með umsókninni hafi fylgt ódags. samningur milli kæranda, sveitarfélagsins Vesturbyggðar og tiltekinnar fiskvinnslu á Patreksfirði um að báturinn muni landa afla vegna byggðakvóta til vinnslu hjá umræddri fiskvinnslu. Hinn 2. desember 2015 hafi borist umsókn frá öðrum aðila vegna tiltekins báts en með umsókninni hafi fylgt samningur umsækjanda, sveitarfélagsins Vesturbyggðar og tiltekinnar fiskvinnslu á Patreksfirði um að báturinn muni landa afla vegna byggðakvóta til vinnslu hjá umræddri fiskvinnslu. Hinn 4. janúar 2016 hafi borist umsókn frá Mardöll ehf. vegna bátsins Jóns Hákonar BA-61 (1436). Með umsókninni hafi fylgt ódags. samningur útgerðarinnar, sveitarfélagsins Vesturbyggðar og tiltekinnar fiskvinnslu á Patreksfirði um að Jón Hákon BA-61 (1436) muni landa til vinnslu hjá umræddri fiskvinnslu á Patreksfirði öllum afla vegna byggðakvóta. Einnig er í umsögninni gerð grein fyrir reglum sem gilda um úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 605/2015 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015. Þá segir þar að við athugun á hvort uppfyllt hafi verið skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans hafi Fiskistofa m.a. kannað hvort skipin hefðu landað sjávarafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015. Í ljós hafi komið að aðeins Jón Hákon BA-61 (1436) hafði landað slíkum afla, nánar tiltekið 25 kg af þorski þann 30. nóvember 2015 en báturinn hafði samkvæmt því landað 100% þess afla sem skipin höfðu samanlagt landað á framangreindu viðmiðunartímabili. Fiskistofu hafi því borið, með vísan til 5. gr. reglugerðar nr. 605/2015, sbr. og 1. og 2. gr. sömu reglugerðar og auglýsingar (V) nr. 1118/2015, að úthluta til Jóns Hákonar BA-61 (1436) öllum byggðakvóta Bíldudals, samtals 267.000 þorskígildiskílóum. Fiskistofa líti svo á að stofnuninni hafi verið óheimilt að úthluta byggðakvótanum eða hluta hans til annarra umsækjenda, enda hafi þeir ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun. Af þeirri ástæðu hafi stofnunin með ákvörðunum, dags. 6. janúar 2016, synjað Útgerðarfélaginu Burst ehf., vegna Þrastar BA-48 (2507) og tilteknum öðrum aðila vegna tiltekins skips um úthlutun byggðakvóta. Báturinn Þröstur BA-48 (2507) og tiltekinn annar bátur í byggðarlaginu hafi ekki landað neinum afla á tímabilinu frá 1.-30. nóvember 2015 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Fiskistofa hafi því ekki haft val um önnur úrræði en að synja um úthlutun byggðakvóta til bátanna. Á sama hátt hafi Fiskistofu borið að úthluta til Jóns Hákonar BA-61 (1436) 267.000 þorskígildiskílóum byggðakvótans en um hafi verið að ræða eina bátinn sem hafi uppfyllt lagaskilyrði fyrir að fá úthlutað byggðakvóta. Með þessum ákvörðunum hafi því ekki verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins: 1) Auglýsing á heimasíðu Fiskistofu. 2) Auglýsingar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. 3) Umsókn Mardallar ehf. um byggðakvóta. 4) Samningur um vinnslu afla úr Jóni Hákoni BA-61 (1436). 5) Umsókn Útgerðarfélagsins Burst ehf. um byggðakvóta. 6) Samningur um vinnslu afla úr Þresti BA-48 (2507). 7) Vigtarseðill vegna löndunar úr Jóni Hákoni BA-61 (1436), dags. 30. nóvember 2015. 8) Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til Jóns Hákonar BA-61 (1436). 9) Ákvörðun Fiskistofu um synjun um úthlutun byggðakvóta til Þrastar BA-48 (2507) o.fl.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2016, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 21. mars 2016 og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2016, sendi ráðuneytið Mardöll ehf., útgerðaraðila bátsins Jóns Hákonar BA-61 (1436) ljósrit af stjórnsýslukærunni, dags. 13. janúar 2016 og einnig umsögn Fiskistofu, dags. 21. mars 2016, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við framangreind gögn, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvubréfi frá 12. apríl 2016, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda við umsögn Fiskistofu. Þar segir m.a. að kærandi geri sér grein fyrir að Fiskistofa hafi fjallað um málið samkvæmt lögum og reglum. Það sem kærandi hafi kært hafi hins vegar verið aðdragandinn og meðferð bæjarstjórnar Vesturbyggðar á málinu, m.a. vegna tengsla tiltekinna bæjarfulltrúa við eiganda Mardallar ehf., útgerðaraðila Jóns Hákonar BA-61 (1436) og er þar gerð grein fyrir þeirri málsástæðu. Á fundi í október 2015 í atvinnumálanefnd Vesturbyggðar hafi verið samþykkt að gera tillögur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð sem hafi verið samþykkt af bæjarstjórn Vesturbyggðar og send atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Breytingin hafi falið í sér að til að fá úthlutað byggðakvóta yrðu bátar að hafa landað afla í nóvember 2015. Þessi samþykkt sé sérstök m.a. vegna þess að engum afla hafi verið landað af bátum á Bíldudal í nóvember í áratugi og að á grundvelli þessara sérstöku skilyrða hafi öllum byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð verið úthlutað óskiptum til Jóns Hákonar BA-61 (1436). Báturinn hafi síðan landað til að uppfylla skilyrðin 25 kg á sjóstöng 30. nóvember 2015 og fengið úthlutað 267 tonnum á grundvelli þeirrar veiðireynslu. Kærandi heldur því fram að eigandi Mardallar ehf. hafi verið á fundi atvinnumálanefndar Vesturbyggðar í október 2015 og hafi upplýst þar að hann áformaði að hefja fiskvinnslu á Bíldudal innan skamms tíma. Kærandi telji að bæjarstjórn Vesturbyggðar hafi á þeim tíma vitað að það væri ekki rétt. Beitningaskúr sem eigandi Mardallar ehf. hafi upplýst um að áformað væri að hefja vinnslu í geti aldrei uppfyllt kröfur sem gerðar séu til fiskvinnslu en hafi auk þess verið gerður upptækur af Ofanflóðasjóði og sé með tilteknar kvaðir. Ekki hafi verið kannað ástand hússins áður en gerðar hafi verið tillögur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans. Þá sé í gildi leigusamningur um húsið til tveggja ára. Mardöll ehf. hafi auk þess gert samning við tiltekna fiskvinnslu á Patreksfirði um vinnslu alls aflans. Kærandi telji að bæjarstjórn Vesturbyggðar hafi við meðferð málsins brotið gegn rannsóknarreglu, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og reglu stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu. Óskað sé eftir að ráðuneytið afturkalli reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 sem settar voru með auglýsingu (V) nr. 1118/2015 og feli Fiskistofu að úthluta byggðakvótanum að nýju.

Með bréfi, dags. 24. apríl 2016, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá Mardöll ehf. sem svar við bréfi ráðuneytisins, dags. 4. apríl 2016 en þar er mótmælt þeim rökstuðningi sem kemur fram í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins. M.a. segir í bréfinu að þær upplýsingar séu ekki réttar í stjórnsýslukæru og gögnum frá kæranda að báturinn Jón Hákon BA-61 (1436) hafi verið í slipp og að báturinn hafi ekki verið með haffærisskírteini þann 30. nóvember 2015. Einnig segir í bréfinu að þær upplýsingar séu ekki réttar að báturinn hafi ekki farið á sjó til veiða þann 30. nóvember 2015 og segir þar að báturinn hafi umræddan dag farið til veiða og veitt tiltekinn fjölda þorska á stöng. Ennfremur eru í bréfinu gerðar tilteknar athugasemdir við upplýsingar sem komu fram í stjórnsýslukæru og gögnum frá kæranda um tengsl eiganda Mardallar ehf. við tiltekna bæjarfulltrúa Vesturbyggðar. Þá segir í bréfinu að gerðar hafi verið tilteknar endurbætur á húsnæði því sem kærandi kalli beitningaskúr til að uppfylla skilyrði til þess að þar megi vinna fisk.

Rökstuðningur

I.  Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu byggir því að mati ráðuneytisins á því með sama hætti og gert er ráð fyrir í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið um úthlutun aflaheimilda í byggðarlögum til einstakra fiskiskipa til þess að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Einnig byggir kæruheimild samkvæmt ákvæðinu á því að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórnvöldum, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir. Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir m.a. að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en einnig kemur þar fram að þau gildi þó ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla.

Það er mat ráðuneytisins að málsástæður í stjórnsýslukæru í máli þessu varði að hluta aðeins efni auglýsingar (V) nr. 1118/2015, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, þ.e. reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016.

Ekki er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. framangreint ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá voru ákvæði auglýsingar (V) nr. 1118/2015 byggð á tillögum sem ráðuneytinu bárust frá sveitarfélaginu Vesturbyggð, með bréfi, dags. 9. desember 2015. Umræddar tillögur sveitarfélagsins voru birtar á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í tiltekinn tíma áður en þær voru staðfestar af ráðuneytinu og síðan birtar í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu (V) nr. 1118/2015 í samræmi við 3. málsl. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Á þeim tíma átti kærandi kost á að gera athugasemdir við tillögurnar. Engar slíkar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda á þeim tíma en frestur til að koma að slíkum athugasemdum er nú liðinn. Áður en ráðuneytið staðfesti reglurnar samkvæmt framanrituðu hafði það tekið afstöðu til þess að þær væru byggðar á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlags, sbr. ákvæði 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

Þær málsástæður sem fram koma í stjórnsýslukærunni og beinast að framangreindum reglum um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 sem birtar voru með auglýsingu (V) nr. 1118/2015 geta því að mati ráðuneytisins ekki leitt til þess að fallist verði á kröfur kæranda í máli þessu.

 

II   Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2015 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2015. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattsstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar, sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2014 til 31. ágúst 2015. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur hlutur til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. M.a. kemur þar fram m.a. að eigandi fiskiskips skal gera skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verður til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem fram kemur að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann og skal bæjar- eða sveitarstjórn árita samninginn til staðfestingar.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 605/2015.

Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Vesturbyggð, m.a. á Bíldudal fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (V) nr. 1118/2015, svohljóðandi: "Vesturbyggð. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 3. júlí 2015 gilda um úthlutun byggðakvóta Bíldudals með eftirfarandi viðauka/breytingum: Bíldudalur. a) Ákvæði b-liðar 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Eru skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2015. b) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015. c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2015 til 31. ágúst 2016."

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015.

 

III.  Eins og gerð er grein fyrir í II hér að framan skal byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 úthlutað til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016, sbr. og reglur samkvæmt auglýsingu (V) nr. 1118/2015, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, eftir því sem við á og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015.

Bátur kæranda, Þröstur BA-48 (2507) landaði engum afla í sveitarfélaginu Vesturbyggð á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015 en samkvæmt því voru ekki skilyrði fyrir að úthlutað yrði til bátsins af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016, sbr. ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015.

Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins Þrastar BA-48 (2507).

 

IV. Stjórnsýslukæra í máli þessu er eins og kemur fram í I hér að framan, byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu er byggð á því að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls sem kært er til ráðuneytisins, sbr. m.a. greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls, að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 116. löggjafarþing 1992-1993, 313. mál, þskj. 505.

Með hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, var hafnað kröfu kæranda um úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins Þrastar BA-48 (2507). Eins og gerð hefur verið grein fyrir í III hér að framan er sú ákvörðun staðfest með úrskurði þessum. Ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til annarra báta í byggðarlaginu, dags. 6. janúar 2016, hafa samkvæmt því ekki áhrif á úthlutun byggðakvóta til framangreinds báts kæranda.

Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af því að kæra ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til annarra báta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Kröfu kæranda um að endurskoðuð verði ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til bátsins Jóns Hákonar BA-61 (1436) er því vísað frá.

Úrskurður þessi er kveðinn upp í tveimur samritum, einu fyrir hvorn málsaðila.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um að hafna umsókn kæranda, Útgerðarfélagsins Burst ehf., um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins Þrastar BA-48, skipaskrárnúmer 2507.

Kröfu Útgerðarfélagsins Burst ehf. í máli þessu um að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til bátsins Jóns Hákonar BA-61, skipaskrárnúmer 1436, er vísað frá.

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann Guðmundsson

Sigríður Norðmann