Úrskurðir sjávarútvegs- og fiskeldis

12.12.2012

Stjórnsýslukæra


Með bréfi sem barst ráðuneytinu 27. júlí 2012 kærði Þórhallur H. Þorvaldsson hdl. f.h. I.F.S. ehf. til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál, ákvörðun Fiskistofu dags. 12. júní 2012 „um að hafna beiðni kæranda dags. 2. júní 2012 vegna framkvæmdar hlutkestis um leyfi til veiða á bláuggatúnfiski í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 400/2012“.
    Þess er krafist í kærunni að ákvörðun Fiskistofu dags. 12. júní 2012 verði „hnekkt“, þ.e. felld úr gildi. Þá er þess krafist að Fiskistofu verði „gert að úthluta ekki veiðileyfi í samræmi við svonefndan útdrátt í happadrætti, sbr. endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Hafnarfirði dags. 30. maí sl. og jafnframt að Fiskistofu verði gert að láta framkvæma hlutkesti á nýjan leik í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 400/2012“.
    Um meðferð kærunnar fer samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik og málsmeðferð

    Á árinu 2012 höfðu íslensk stjórnvöld til úthlutunar eitt leyfi til veiða á allt að 25 t af Austur-Atlantshafsbláuggatúnfiski. Með reglugerð nr. 400/2012 var Fiskistofu falið að úthluta leyfinu til eins fiskiskips að undangenginni opinberri auglýsingu. Stofnuninni bárust fleiri en ein umsókn jafnhæfra umsækjenda, sem varð til þess að hlutkesti var látið ráða úthlutuninni sbr. heimild 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Sýslumaðurinn Hafnarfirði annaðist hlutkestið og fór það fram á skrifstofu hans 30. maí sl. Félagið I.F.S. ehf. var meðal umsækjenda en varð ekki hlutskarpast við hlutkestið. Félagið taldi að annmarkar hafi verið á framkvæmd hlutkestisins sem leiða skyldu til ógildingar þess. Með rafbréfi til I.F.S. ehf. o.fl. frá 1. júní 2012 var því lýst yfir af hálfu sýslumanns að „engir annmarkar“ hafi verið á framkvæmdinni og því standi útdrátturinn óraskaður. Í bréfi I.F.S ehf. til Fiskistofu dags. 2. júní 2012 var óskað eftir því að hlutkestið yrði endurtekið, en Fiskstofa hafnaði þeirri ósk með ákvörðun í bréfi dags. 12. júní 2012.

Sjónarmið I.F.S. ehf

    Í stjórnsýslukæru I.F.S. ehf. er allnáin grein gerð fyrir framkvæmd áðurnefnds hlutkestis sýslumannsins í Hafnarfirði. Félagið telur að hlutkestið sé haldið ógildisannmarka þ.e. líta verði svo á að það hafi ekki farið fram, enda hafi framkvæmd þess ekki „verið í samræmi við ákvæði laga um lögbókandaaðgerðir, venjur og eðli máls“. Til þess verði að líta að framkvæma hefði átt hlutkestið að viðstöddum aðilum sem mættir voru til fyrirtökunnar, til þess að ekki megi draga niðurstöðuna í efa. Að auki verði að varpa hlutkesti með teningi þar sem reglugerðin kveði á um að „varpa skuli hlutkesti“. Bókun sýslumanns hafi að auki verið óskýr, þar sem ekki hafið verið „bókað um raunverulega framkvæmd útdráttarins og jafnframt að [fulltrúi félagsins I.F.S. ehf.] hafi verið mættur til gerðarinnar“. Þá sé það í raun einungis hlutverk sýslumanns að bóka um að tiltekinn atburður hafi átt sér stað, eða athöfn hafi farið fram með tilteknum hætti, ekki að framkvæma athöfnina.

Sjónarmið Fiskistofu

     Í bréfi Fiskistofu dags. 12. júní 2012 er málavöxtum lýst, en því næst er sjónarmiðum I.F.S. ehf. hafnað með svofelldum rökstuðningi:
Að gefnu tilefni vill Fiskistofa taka fram að í [reglugerðinni] er ekki kveðið á um að umsækjendur eigi rétt á því að vera viðstaddir þegar valið er á milli hæfra umsækjenda. [I.F.S. ehf] óskaði eftir því að koma í umrædda fyrirtöku hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og féllst Fiskistofa á það.
Í reglugerðinni er kveðið á um að Fiskistofu sé „heimilt“ að láta hlutkesti ráða vali milli umsækjenda. Þannig er heimilt að fara þá leið að láta hlutkesti ráða vali á milli umsækjenda en ekki skylt. Fiskistofa lítur svo á að markmiðið sé að tryggja að tilviljun ráði því hver hlýtur umrætt leyfi.
Í tilviki því sem hér um ræðir var útdrátturinn framkvæmdur af fulltrúa sýslumanns og er framkvæmdin óumdeild. Fiskistofa telur að heppilegra hefði verið ef útdrátturinn hefði farið fram í viðurvist mættra aðila en telur ekki tilefni til að draga hann í efa. Telur stofnunin það fráleitt að ætla að fulltrúi sýslumanns hafi á nokkurn hátt haft áhrif á það hvor umsækjenda fékk leyfið í sinn hlut enda hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að ætla að svo hafi verið.
Athugasemdir sem lúta að lögum um lögbókandaaðgerðir er einungis á færi sýslumanns að svara fyrir og mun Fiskistofa því ekki svara athugasemdum þar að lútandi. Fulltrúi sýslumanns hefur í tölvupósti dags. 1. júní 2012 lýst því yfir að útdrátturinn standi, þar segir: „Að mati sýslumanns eru engir annmarkar á framkvæmd happadrættisins og stendur útdráttur því óhaggaður“.

    Fiskistofa hefur með bréfi dags. 14. september 2012 veitt umsögn um stjórnsýslukæru I.F.S. ehf. Í umsögninni eru áréttuð sjónarmið í bréfinu dags. 12. júní 2012 Þá er því sérstaklega mótmælt að varpa þurfi hlutkesti með mynt eða teningi, svo að gilt geti talist samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 400/2012, eins og haldið er fram í kærunni. Á það er bent að túlka megi reglugerðina þannig að viðhafa megi aðrar aðferðir sem komi að sömu notum, m.a. úrdrátt eins og þann sem fram fór hjá sýslumanni. Þá er bent á það að sýslumaður sem lögbókandi hefur að hlutverki að votta að útdráttur hafi farið rétt fram. Það sé ekki hlutverk aðila máls að votta framkvæmdina, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga um lögbókandaaðgerðir, eða leggja mat á lögmæti hennar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Með umsögninni fylgdu gögn málsins. Félaginu I.F.S. ehf. var gefið færi á að tjá sig um umsögnina, en kaus að gera það ekki.

Forsendur og niðurstaða

    Með vísun til sjónarmiða og forsendna Fiskistofu í hinni kærðu ákvörðun og bréfi dags. 14. september 2012 er hin kærða ákvörðun staðfest.  

Úrskurðarorð

    Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra


Ingvi Már Pálsson

        Arnór Snæbjörnsson