Úrskurðir sjávarútvegs- og fiskeldis

7.7.2016

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá Jóni S. Norðkvist f.h. Mountaintravel ehf., Túngötu 10, Súðavík, ódags. þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. september 2015, um að afturkalla úthlutun á 1.838 þorskígildiskílóum af byggðakvóta sem úthlutað var við úthlutun byggðakvóta Súðavíkur í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til bátsins Ásu ÍS-132, skipaskrárnúmer 6908 en umrædd stjórnsýslukæra var framsend til ráðuneytisins frá Fiskistofu með bréfi stofnunarinnar, dags. 19. janúar 2016.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. september 2015, um að afturkalla úthlutun á 1.838 þorskígildiskílóum af byggðakvóta sem úthlutað var við úthlutun byggðakvóta Súðavíkur í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til bátsins Ásu ÍS-132 (6908). 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 27. febrúar 2015, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 28. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Súðavík í Súðavíkurhreppi en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 16. mars 2015. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 195 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Súðavíkurhrepps samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 651/2014, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2014/2015, sem komu öll í hlut byggðarlagsins Súðavíkur. Úthlutunin var tilkynnt Súðavíkurhreppi með bréfum, dags. 9. og 20. október 2014.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Ásu ÍS-132 (6908) með umsókn til Fiskistofu, dags. 13. mars 2015.

Hinn 17. mars 2015 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðaraðilum á Súðavík í Súðavíkurhreppi ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að 11.550 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Ásu ÍS-132 (6908). Skipting byggðakvóta byggðarlagsins kom fram á yfirlitsblaði sem fylgdi ákvörðununum. Einnig kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að það væri skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta að uppfyllt væru ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 652/2014, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015, þar sem kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu 1. september 2014 til 31. ágúst 2015 afla sem nemi, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni. Einnig kom þar fram að úthlutun aflamarks fari fram á grundvelli vigtarnóta sem borist hafi Fiskistofu og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt. Samkvæmt ofangreindu skilyrði 6. gr. reglugerðarinnar yrði byggðakvótinn ekki afhentur fyrr en tilskildu mótframlagi hefði verið landað til vinnslu í byggðarlaginu.

Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá tilkynningum Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta eða höfnun umsókna um úthlutun.

Úthlutun byggðakvóta samkvæmt framangreindri ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. mars 2015, fór fram til bátsins Ásu ÍS-132 (6908) með bréfi, dags. 4. september 2015, en samkvæmt því var úthlutun byggðakvóta til bátsins 10.366 þorskígildiskíló.

Með bréfi Fiskistofu, dags. 16. september 2015, var afturkölluð úthlutun á hluta framangreinds byggðakvóta sem úthlutað hafði verið til bátsins eða samtals 1.838 þorskígildiskílóum. Ákvörðunin var byggð á því að samkvæmt d-lið 1. gr. auglýsingar (X) nr. 193/2015, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, þar sem komu fram sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Súðavík í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015, væri fiskiskipum skylt að landa þeim afla í Súðavík sem telja eigi til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlags á tímabilinu frá 1. september 2014 til 31. ágúst 2015. Við endurskoðun úthlutunar byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2014/2015 hafi komið í ljós að báturinn Ása ÍS-132 (6908) hafi landað 1.838 þorskígildiskílóum af mótframlagi byggðakvótans á Ísafirði í Ísafjarðarbæ, þannig að sá afli falli ekki að reglum um mótframlag fyrir byggðakvóta Súðavíkur í Súðavíkurhreppi. Samkvæmt því væri afturkölluð úthlutun byggðakvóta til bátsins á grundvelli þess mótframlags sem landað hafi verið á Ísafirði.

Þá kom fram í framangreindri ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, ódags. sem barst Fiskistofu með tölvubréfi frá 30. desember 2015, kærði Jón S. Norðkvist f.h. Mountaintravel ehf., framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. september 2015, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en umrædd stjórnsýslukæra var framsend til ráðuneytisins með bréfi Fiskistofu, dags. 19. janúar 2016, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að ástæður þess að báturinn hafi landað hluta af mótframlaginu á Ísafirði hafi verið að báturinn hafi verið þar vegna viðgerðar en áður en til þess hafi komið hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Fiskistofu að væri afla landað annars staðar en í viðkomandi byggðarlagi, svo framarlega sem aflanum væri ekið til vinnslu í Súðavík þá væri það jafngildi þess að landað væri á staðnum umræddu mótframlagi byggðakvóta. Kærandi heldur því fram að hann sé ekki með þekkingu, menntun eða reynslu til að lesa út úr reglugerðum og hafi farið eftir þessum leiðbeiningum. Með vísan til þessa sé þess óskað að umræddur byggðakvóti verði færður aftur á bátinn.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Tölvubréf kæranda til Fiskistofu frá 30. desember 2015 ásamt stjórnsýslukærunni og gögnum málsins. 2) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 17. mars 2015, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til bátsins Ásu ÍS-132 (6908). 3) Umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Ásu ÍS-132 (6908), dags. 13. mars 2015, ásamt samningi við vinnsluaðila. 4) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 4. september 2015 um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015 til bátsins Ásu ÍS-132 (6908) ásamt yfirliti um úthlutun byggðakvóta til báta í byggðarlaginu Súðavík í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015. 5) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 16. september 2015. 6) Auglýsingar Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta á Súðavík í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015, dags. 27. febrúar 2015.

Með bréfi, dags. 5. febrúar 2016, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Svarbréf Fiskistofu, dags. 10. mars 2016, barst ráðuneytinu 11. sama mánaðar en þar segir m.a. að með bréfi Fiskistofu, dags. 16. september 2015, hafi aðila málsins verið tilkynnt um að afturkölluð hefði verið úthlutun á hluta byggðakvóta vegna bátsins Ásu ÍS-132 (6908) eða samtals 1.838 þorskígildiskílóum, þar sem í ljós hafði komið að báturinn hafði landað, að hluta til, mótframlagi til að öðlast rétt til byggðakvóta í Súðavíkurhreppi í öðru byggðarlagi en Súðavík, þ.e. á Ísafirði. Í ákvörðun Fiskistofu, dags. 16. september 2015, hafi verið tekið fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að tilkynning barst til kæranda, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Framangreindur kærufrestur virðist því hafa verið liðinn þann 30. desember 2015 þegar kæra barst. Einnig kemur fram í umræddu svarbréfi að Fiskistofa hafni því að stofnunin hafi með munnlegum hætti heimilað löndun afla á Ísafirði til mótframlags fyrir byggðakvóta í Súðavíkurhreppi. Þá árétti Fiskistofa að ekki verði séð að heimild sé í lögum eða öðrum reglum fyrir Fiskistofu til að víkja frá ákvæði um löndun afla til vinnslu í auglýsingu (X) nr. 193/2015. Með vísan til framanritaðs og þess sem komi fram á framlögðum vigtarnótum verði að hafna málavaxtalýsingu kæranda.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindu bréfi Fiskistofu, dags. 10. mars 2016: 1) Staðfest afrit af ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. mars 2015. 2) Framsent erindi Fiskistofu, dags. 19. janúar 2016, ásamt kæru, ódags. sem barst 30. desember 2015. 3) Umsókn kæranda um byggðakvóta, dags. 13. mars 2015. 4) Vinnslusamningur, ódags. 5) Tilkynning um endanlega úthlutun byggðakvóta, dags. 16. september 2015. 6) Skrá um reiknaða úthlutun byggðakvóta í Súðavík, dags. 17. mars 2015. 7) Tilkynning um reiknaða skiptingu byggðakvóta í Súðavík, dags. 17. mars 2015. 8) Auglýsingar um úthlutun byggðakvóta á Súðavík í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015. 9) Vigtarnótur (4 stk.), dags. 20. maí til 13. júlí 2015.

Með bréfi, dags. 17. mars 2016, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindu bréfi Fiskistofu, dags. 10. mars 2016 og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við það en frestur til þess var veittur til og með 15. apríl 2016.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda við framangreint bréf Fiskistofu, dags. 17. mars 2016.

Rökstuðningur      

Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga er kærufrestur í málinu þrír mánuðir frá tilkynningu til kæranda um hina kærðu ákvörðun.

Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða eða öðrum lögum.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru ákvæði um hvernig skuli fara með þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema: 1) afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða 2) veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Ákvörðun Fiskistofu í máli þessu var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. september 2015. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 19. janúar 2016, eftir að kæran var framsend til ráðuneytisins frá Fiskistofu, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnsýslukæran var móttekin af Fiskistofu með tölvubréfi frá 30. desember 2015 eða tveimur vikum eftir að kærufrestur rann út samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafa komið fram í málinu skýringar af hálfu kæranda um ástæður þess að stjórnsýslukæran barst ekki innan kærufrests, sbr. 1. tl. 28. gr. laganna

Kærandi heldur því fram að Fiskistofa hafi veitt félaginu þær upplýsingar að heimilt væri að landa þeim hluta afla bátsins Ásu ÍS-132 (6908) sem fjallað er um í máli þessu á Ísafirði til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Súðavík í Súðavíkurhreppi fyrir fiskveiðiárið 2014/2015. Fiskistofa hafnar því að starfsmaður stofnunarinnar hafi veitt kæranda umræddar upplýsingar og ekki liggja fyrir í máli þessu gögn sem gefa vísbendingu um annað.

Þegar litið er til þessa og atvika málsins að öðru leyti verður ekki séð að fyrir hendi séu þær ástæður sem tilgreindar eru í framangreindu ákvæði 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru í máli þessu.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Stjórnsýslukæru Mountaintravel ehf. í máli þessu er vísað frá.

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

Jóhann Guðmundsson

Sigríður Norðmann