Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði: Ágreiningur um afturköllun ökuréttinda. Mál nr. 32/2010

 

Ár 2010, 30. september er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 32/2010 (SAM10040035)

X

gegn

sýslumanninum í Hafnarfirði.

 

I.      Kröfur, aðild, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 5. apríl 2010 kærði X ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 11. mars 2010 að afturkalla ökuréttindi sín. Var kæran móttekin hjá ráðuneytinu þann 13. apríl 2010. Barst kæran því ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði dags. þann 23. febrúar 2010 var X tilkynnt að ákveðið hefði verið að afturkalla ökuréttindi X samkvæmt heimild í 53. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 58. gr. reglugerðar nr. 501/1997 ef ekki kæmu fram nýjar upplýsingar sem áhrif hefðu á ákvörðunina. Var X gefinn frestur til 10. mars 2010 til að koma að athugasemdum við ákvörðunina. Með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði dags. 11. mars 2010 ákvað sýslumaðurinn í Hafnarfirði að afturkalla ökuréttindi X þar sem ekki hefðu borist frá X nein gögn eða athugasemdir við bréfinu frá 23. febrúar 2010.

Ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði var kærð til ráðuneytisins með bréfi X dags. þann 5. apríl 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 21. apríl 2010 var sýslumanninum í Hafnarfirði gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi dags. 27. apríl 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. maí 2010 var X gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sýslumannsins í Hafnarfirði. Engin andmæli bárust.

Með bréfum til aðila dags. 9. júlí 2010 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök X

X byggir á því að bréf sýslumannsins í Hafnarfirði frá 23. febrúar 2010 hafi aldrei borist sér og sé það ástæðan fyrir því að bréfinu var ekki svarað.

IV.    Málsástæður og rök sýslumannsins í Hafnarfirði

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði byggir á því að samkvæmt ökumati sem gert var af ökukennara og iðjuþjálfa á X þann 12. desember 2009 og mati á hæfni X til að aka bíl sem framkvæmt var af sérfræðingi á Landspítalanum þann 21. janúar 2010 uppfylli X ekki hæfisskilyrði sem getið er um í 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga varðandi ökuréttindi. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 21. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 501/1997 megi aðeins veita þeim ökuskírteini sem sér og heyrir nægilega vel og er að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega. Heimild til afturköllunar ökuréttinda sé að finna í 53. gr. umferðarlaga og 58. gr. reglugerðar nr. 501/1997. Með bréfi dags. 23. febrúar 2010 hafi X verið gefinn kostur á að koma að gögnum eða athugasemdum en þar sem ekkert hafi borist frá X innan tilskilinna tímamarka hafi sýslumaðurinn í Hafnarfirði afturkallað ökuréttindi X með bréfi dags. þann 11. mars 2010 samkvæmt heimild í 1. mgr. 53. gr. umferðarlaga. 

V.     Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Samkvæmt 1. mgr. 53. umferðarlaga nr. 50/1987 getur útgefandi ökuréttinda afturkallað ökuréttindi ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini. Sambærilegt ákvæði er í 1. mgr. 58. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 501/1997. Byggir sýslumaðurinn í Hafnarfirði á því að afturköllun ökuréttinda X sé heimil á grundvelli þessara ákvæða. Hafi X verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en þegar ekkert hafi borist frá X innan tilskilins frests hafi ökuréttindin verið afturkölluð með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði dags. 11. mars 2010. X hefur ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en því að bréf sýslumannsins í Hafnarfirði frá 23. febrúar 2010 hafi ekki borist sér og því hafi X gert athugasemdir við afturköllunina. Lítur ráðuneytið svo á að ágreiningur aðila lúti fyrst og fremst að því að hvort andmælaréttar hafi verið nægilega gætt gagnvart X áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

Við meðferð málsins óskaði ráðuneytið m.a. eftir upplýsingum um með hvaða hætti bréf sýslumannsins í Hafnarfirði frá 23. febrúar 2010 hafi verið sent X. Í umsögn sýslumannsins í Hafnarfirði kom fram að bréfið hafi verið sent í almennum pósti. Hafi X fengið bréfið í hendur að sögn aðstandenda X. Í bréfinu hafi X verið gefinn frestur til 10. mars 2010 til að koma að athugasemdum en engar athugasemdir hafi borist. Með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði dags. 11. mars 2010 hafi X verið tilkynnt sú ákvörðun sýslumanns að afturkalla ökuréttindin og hafi X þá þegar verið beðinn um að afhenda lögreglu ökuskírteini sitt. Hafi stefnuvottur afhent maka X það bréf þann sama dag.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal gefa aðila máls kost á að gæta andmælaréttar áður en endanleg ákvörðun í máli hans er tekin. Þegar um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, líkt og í máli þessu, telur ráðuneytið sérlega mikilvægt að þeim sem ákvörðun beinist gegn sé gefinn kostur á að gæta andmælaréttar áður en endanleg ákvörðun er tekin, enda felst í andmælarétti ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Það er mat ráðuneytisins að stjórnvaldi sem tekur slíka íþyngjandi ákvörðun beri að tryggja það með sannanlegum hætti að andmælaréttar hafi verið gætt gagnvart þeim sem ákvörðun beinist gegn. Eins og máli þessu er háttað hafi sýslumanninum í Hafnarfirði því borið að senda bréf það sem dagsett er 23. febrúar 2010 til X með t.a.m. símskeyti, ábyrgðarbréfi eða láta birta það með stefnuvotti, þannig að sýnt hafi verið fram á það með sannanlegum hætti að andmælaréttar hafi verið gætt gagnvart X. Vill ráðuneytið benda á síðast nefndi kosturinn var t.a.m. hafður á þegar ökuréttindi X voru afturkölluð með bréfi dags. 11. mars 2010. Með vísan til þessa og gegn eindregnum mótmælum X er það mat ráðuneytisins að andmælaréttar hafi ekki verið gætt gagnvart X áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Þá telur ráðuneytið rétt að vekja athygli á því að samkvæmt bréfinu frá 23. febrúar 2010 var X veittur frestur til 10. mars 2010 til að koma að athugasemdum við ákvörðunina. Bréf sýslumannsins í Hafnarfirði þar sem ökuréttindi X eru afturkölluð er dagsett þann 11. mars 2010, eða degi eftir að sá frestur var liðinn. Hins vegar vekur það athygli ráðuneytisins að samkvæmt birtingarvottorði var bréfið frá 11. mars 2010 birt fyrir maka X á lögheimili þeirra degi fyrr, eða kl. 13.55 miðvikudaginn 10. mars 2010. Fór birtingin því fram þann sama dag og frestur var veittur X til andmæla. Má því ljóst vera að frestur X til andmæla var ekki liðinn þegar hin kærða ákvörðun var tilkynnt X og telur ráðuneytið það ámælisvert.

Almennt hefur verið talið að þegar brotið hefur verið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga þannig að aðila hefur ekki verið veitt færi á að tjá sig teljist það verulegur annmarki sem leiðir til þess að íþyngjandi ákvörðun telst yfirleitt ógildanleg. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það því niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun sýslumannins í Hafnarfirði frá 11. mars 2010 um að afturkalla ökuréttindi X sé ógild og þar með ólögmæt.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 11. mars 2010 um að afturkalla ökuréttindi X er ógild og þar með ólögmæt.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Brynjólfur Hjartarson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum