Hoppa yfir valmynd
2. október 2007 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 32/2007

Ár 2007, 2. október er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 32/2007

A

gegn

B hrl.

v/Ferðaskrifstofunnar Prima-Embla

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 25. júní 2007 kærði A (hér eftir nefnt kærandi) þá ákvörðun B hrl., tilnefnds umsjónarmanns vegna uppgjörs og umsýslu tryggingarfjár vegna gjaldþrots Ferðaskrifstofunnar Prima-Embla ehf. kt. 621200-3050 (hér eftir nefndur kærði), að hafna kröfulýsingu kæranda í tryggingarfé ferðaskrifstofunnar. Hin kærða höfnun var tilkynnt kæranda með bréfi kærða dags. 11. apríl 2007.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að fallist verði á kröfu kæranda um að krafa hans í tryggingarfé ferðaskrifstofunnar verði tekin til greina, alls kr. 459.360.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

nr.

1.

Stjórnsýslukæra dags. 25. júní 2007 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

a.

Tölvupóstur dags. 17. nóv. 2005.

b

Tölvupóstar frá kæranda til C dags. 5. júlí, 20. og 28. nóvember 2006.

c.

Tölvupóstur frá C til kæranda dags. 17. janúar 2007.

d.

Tölvupóstar milli C og D 27. febrúar 2006 til 15. mars 2007.

e.

Afstaða til kröfulýsingar dags. 11. apríl 2007

nr.

2.

Bréf ráðuneytisins til kærða dags. 2. júlí 2007.

nr.

3.

Umsögn kæranda dags. 22. ágúst 2007.

nr.

4.

Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 27. ágúst 2007.

nr.

5.

Bréf kæranda til ráðuneytisins dags. 6. september 2007 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

a.

Tölvupóstsamskipti, sbr. a og b í lið nr. 1.

Að auki liggja fyrir hjá ráðuneytinu eftirfarandi gögn sem málið varða:

nr.

6.

Bréf Ferðamálastofu til ráðuneytisins dags. 13. apríl 2007 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

a.

Uppgjör tryggingarfjár .

b

Kröfuskrá.

c.

Yfirlit yfir afstöðu umsjónarmanns og afrit bréf vegna lýstra krafna.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Framangreind kæra barst samgönguráðuneytinu þann 2. júlí 2007 en hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi kærða dags. 11. apríl 2007. Kæra barst því innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 6. nóvember 2006 var Ferðaráðgjöfin ehf. (áður Ferðaskrifstofan Prima-Embla ehf.) kt. 621200-3050, Holtsgötu 41b, Reykjavík (áður Stangarhyl 1, 110 Reykjavík) tekin til gjaldþrotaskipta.

Með vísan til 20. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála fól Ferðamálastofa kæranda að vera umsjónarmaður uppgjörs tryggingarfjár vegna gjaldþrotsins.

Umsjónarmaður birti þann 18. desember 2006 áskorun í Lögbirtingarblaði og Morgunblaði til kröfuhafa um kröfulýsingu og var frestur 60 dagar frá birtingu eða til 18. febrúar 2007.

Með bréfi dags. 16. mars 2007 lýsti kærandi kröfu sinni að fjárhæð kr. 459.360 fyrir umsjónarmanni og krafðist greiðslu af tryggingarfé.

Þann 10. apríl 2007 gerði kærandi Ferðamálastofu grein fyrir uppgjöri tryggingarfjár, þ.á.m. þeirri afstöðu að hafna kröfu kæranda og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dags. 11. apríl 2007.

Kærandi kærði framangreinda höfnun kröfunnar til samgönguráðuneytisins þann 25. júní 2007. Óskað var umsagnar kærða með bréfi dags. 2. júlí 2007 og barst hún þann 22. ágúst 2007. Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar og barst ráðuneytinu bréf kæranda þann 6. september 2007.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst þess að fallist verði á að krafa hans í tryggingarfé hinnar gjaldþrota ferðaskrifstofu verði tekin til greina.

Byggir kærandi á því að eðli máls og sanngirnissjónarmið leiði til þeirrar niðurstöðu enda megi ætla að löggjafinn hafi fyrst og fremst haft hagsmuni neytenda í huga við setningu laga nr. 73/2005 enda komi fram í greinargerð með frumvarpi til laganna að sérstök áhersla er lögð á að tryggja það að fólk geti lokið alferð eða fengið ófarna ferð endurgreidda komi til gjaldþrots ferðaskrifstofu.

Kærandi telur það vera staðreyndina varðandi ferð sína og eiginkonu sinnar, þeim hafi ekki gefist tækifæri til að ljúka alferð sinni og eigi því skýlausan rétt til endurgreiðslu.

Kærandi kveður það hafa alltaf komið skýrt fram við undirbúning ferðarinnar að eiginkona hans væri með tansanískt vegabréf og lagt hefði verið í hendur ferðaskrifstofunnar að kanna hvort vegabréfsáritun þyrfti. Það hafi hins vegar ekki verið gert en þeim ráðlagt að hafa með hjúskaparvottorð á ensku. Kærandi kveðst hafa lagt traust sitt á ferðaskrifstofuna í þessu máli.

Við komuna til Cape Town hafi eiginkonu hans hins vegar ekki verið hleypt inn í landið heldur sett í stofufangelsi og síðan send til baka til London og hafi hann að sjálfsögðu fylgt henni.

Kærandi fer fram á endurgreiðslu á andvirði flugmiða og flugallaskatts samtals kr. 418.160 auk þess sem kæranda finnst sanngjarnt að fá einnig endurgreitt fyrirframgreitt og óendurkræft gjald fyrir gistingu í Cape Town kr. 41.200.

Kærandi kveðst enga hugmynd hafa haft um gjaldþrot ferðaskrifstofunnar fyrr en í mars 2007. Þá hafi hann gert tilraun til að hitta forsvarsmann en skrifstofan verið lokuð. Hann hafi þá haft samband við samgönguráðuneytið sem hafi vísað honum á Ferðamálastofu þar sem þær upplýsingar fengust að ferðaskrifstofan væri gjaldþrota.

Kærandi gerir athugasemdi við það sem fram kemur í umsögn kærða að engar sérstakar ástæður hafi verið færðar fyrir því að kröfunni var ekki lýst innan lögboðins frests. Kveðst kærandi hafa átt samskipti við ferðaskrifstofuna frá vori 2006 til mars 2007 og allan þann tíma reynt að ná fram rétti sínum og ekki hafi starfsfólk haft fyrir því að upplýsa hann um gjaldþrot ferðaskrifstofunnar sem varð í nóvember 2006.

Kærandi kveðst hafa lýst kröfunni um leið og honum barst vitneskja um gjaldþrotið og sent kröfulýsingu 16. mars 2007. Þá hafi hins vegar kröfulýsingafrestur verið útrunninn, þann 18. febrúar 2007, enda áskorun einungis birt í Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu en kærandi kveðst vera áskrifandi að hvorugu. Því sé ekki hægt að kenna tómlæti því að kröfunni var ekki lýst innan frestsins.

Kærandi vísar til 16. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála um að viðskiptavinir í alferð skuli eiga þess kost að ljúka ferð sinni. Það þýði að allt sem þegar hefur verið greitt og er í samræmi við fyrirfram ákveðna alferð skuli greiða af tryggingarfé. Ljóst sé að ferðin var hafin þegar eiginkonu kæranda var vísað frá í Cape Town. Tekur kærandi sérstaklega fram að um skipulagða ferð hafi verið að ræða vegna þátttöku í maraþoni. Kærandi kveður augljóst að honum og eiginkonu hans hafi ekki verið gert kleift að ljúka alferð sinni og eigi þau því skýlausan rétt á að fá hana endurgreidda.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði telur sér hafa verið skylt að hafna kröfu kæranda þar sem henni var lýst eftir að lögbundinn frestur til kröfulýsingar var liðinn. Kröfunni hafi verið lýst til umsjónarmanns þann 16. mars 2007 eða tæpum mánuði eftir að frestinum lauk.

Kærði vísar til 19. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála þar sem kveðið sé á um að birta skuli auglýsingu í Lögbirtingarblaði um áskorun til kröfulýsingar. Það hafi kærði gert með auglýsingu sem birtist 18. desember 2006 og hafi verið gefinn 60 daga frestur. Að auki hafi kærði birt auglýsinguna í Morgunblaðinu sem birtist um svipað leyti.

Kærði telur sig bundinn af þeim kröfulýsingarfresti sem tilgreindur er í 19. gr. laganna og af þeirri ástæðu sé kröfunni hafnað og ekki séu efni til að fjalla efnislega um kröfuna.

Kærði bendir þó á að í eðli sínu sé krafan skaðabótakrafa á hendur ferðaskrifstofunni þar sem starfsfólk hennar hafi, að mati kæranda, ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldur sínar vegna sérstöðu erlends ríkisfangs eiginkonu kæranda. Ferðin hafi hins vegar verið farin í samræmi við upphaflegt skipulag og ekki liggi fyrir að ferðaskrifstofan hafi vanefnt skuldbindingar sínar vegna ferðarinnar sem slíkrar.

VI. Álit og niðurstaða

I. Ágreiningsefni máls þessa varðar það hvort kærandi eigi rétt á greiðslu ferðakostnaðar úr ábyrgð hins gjaldþrota félags, vegna ferðar sem hófst en tókst ekki að ljúka með fullnægjandi hætti. Varðar ágreiningur þessi jafnframt það hvort taka beri kröfu kæranda til greina þrátt fyrir að auglýstur kröfulýsingafrestur hafi verið liðinn, þegar hann lýsti kröfu sinni fyrir umsjónarmanni tryggingarinnar. Ráðuneytið telur nauðsynlegt í upphafi að gera grein fyrir hvers konar tryggingu hér er um að ræða og í hvaða tilgangi hennar er krafist af ferðaskrifstofum. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála er tryggingarskyld starfsemi sem undir lögin fellur sala alferða. Með alferð er átt við tilteknar ferðir sem skilgreindar eru í 5. tl. 7. gr. og er það í samræmi við lög um alferðir nr. 80/1994 en þau lög grundvallast á tilskipun nr. 90/314/EB um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka. Er jafnframt kveðið á um tryggingarskyldu vegna alferða í nefndri tilskipun.

II. Komi til gjaldþrots ferðaskrifstofu reynir á hvort fyrir hendi séu kröfur sem greiðast skulu af andvirði tryggingarinnar. Í því skyni að upplýsa þá sem hugsanlega kunna að eiga rétt er mælt fyrir um í 19. gr. laganna um skipan ferðamála að birta skuli áskorun um kröfulýsingu. Er kveðið á um að slíka áskorun skuli birta í Lögbirtingarblaðinu og gefa 60 daga frest til að lýsa kröfum. Ferðamálastofu er falið að sjá um slíkt en er heimilt að tilnefna umsjónarmann til að sjá um umsýslu og uppgjör vegna tryggingarfjárins sbr. 20. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins tilnefndi Ferðamálastofa kærða sem umsjónarmann tryggingarfjárins. Kærði lét birta áskorun um kröfulýsingu bæði í Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu þann 18. desember 2006. Kröfulýsingafrestur rann því út 18. febrúar 2007. Með birtingu auglýsingarinnar í Lögbirtingarblaðinu uppfyllti kærði þær lagaskyldur sem á honum hvíldu um auglýsingu kröfulýsingafrests en honum bar ekki skylda til að auglýsa jafnframt í Morgunblaðinu eða með öðrum hætti.

Í 19. gr. laganna um skipan ferðamála er kveðið á um að lýsa skuli kröfum innan 60 daga frá birtingu auglýsingar. Óumdeilt er að krafa kæranda barst kærða eftir að kröfulýsingafrestur var útrunninn. Ráðuneytið telur að með því að kveða á um sérstakan kröfulýsingafrest sé ljóst að kröfur sem ekki er lýst innan frestsins falla niður fyrir vanlýsingu sbr. og meginregla 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Í 19. gr. laga um skipan ferðamála er ekki kveðið á um heimild til að taka kröfu til greina eftir að kröfulýsingafrestur rennur út. Ráðuneytið telur því af öllu framangreindu að umsjónarmanni hafi verið skylt að hafna kröfu kæranda sem of seint fram kominni.

III. Í 2. mgr. 14. gr. laga um skipan ferðamála er kveðið á um til hvers tryggingin er. Er um að ræða sérstaka tryggingu sem krafist er af ferðaskrifstofum vegna sérstakra tilvika, verði viðkomandi ferðaskrifstofa gjaldþrota, á meðan á alferð stendur eða áður en hún hefst. Viðskiptavinurinn á rétt á að fá það endurgreitt sem hann hefur greitt fyrirfram vegna alferðarinnar sem enn er ófarin, ljúka þeirri alferð sem hann er í, sbr. einnig 16. gr. laganna, og til heimflutnings, ef til þess kemur að ferðaskrifstofan verður gjaldþrota á meðan á alferð stendur. Ákvæði þessu eru í samræmi við lög um alferðir og áðurnefnda tilskipun um sama.

Samkvæmt þessu er ljóst að tryggingin sem hér um ræðir er ekki til að bæta viðskiptavinum hvers kyns tjón sem þeir kunna að verða fyrir vegna alferða á vegum ferðaskrifstofu heldur einungis í þeim tilvikum sem að framan eru rakin. Réttur til greiðslu úr tryggingunni grundvallast þannig á því að alferð standi yfir eða sé ófarin þegar ferðaskrifstofan verður gjaldþrota. Ferð sem á að vera lokið áður er til gjaldþrots kemur fellur því ekki undir trygginguna enda ekki um að ræða tryggingu vegna skaðabótaskylds atviks sem ferðaskrifstofan ber ábyrgð á gagnvart viðskiptavininum.

Í gögnum málsins kemur fram að alferð sú sem kærandi pantaði og hugðist fara í með ferðaskrifstofunni hófst þann 12. apríl 2006 og var um viku ferð að ræða. Ljóst er því að ferðinni var lokið áður en ferðaskrifstofan varð gjaldþrota. Ómöguleika kæranda á því að ljúka alferðinni er því ekki að rekja til gjaldþrotsins og ekki er um að ræða endurgreiðslu á fyrirframgreiddum ferðakostnaði. Þegar af þeirri ástæðu, og í ljósi alls framangreinds, telur ráðuneytið kröfu kæranda ekki falla undir alferðatryggingu ferðaskrifstofunnar.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins er að ekki er fallist á að taka til greina kröfu kæranda um greiðslu af tryggingarfé hinnar gjaldþrota ferðaskrifstofu.

Úrskurðarorð

Kröfu A, um að krafa hans í tryggingarfé Ferðaskrifstofunnar Prima-Embla ehf. verði tekin til greina, er hafnað.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum