Hoppa yfir valmynd
5. júní 2015 Innviðaráðuneytið

Úrskurður í máli nr. IRR14050245

 Ár 2015, 5. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR14050245 

Kæra Sigurðar Þórs Sigurðarsonar
vegna framkvæmdar
 sveitarfélagsins Árborgar

  

I.         Kröfur

Þann 23. maí 2014, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Sigurðar Þórs Sigurðssonar, […],  (hér eftir nefndur SÞS), vegna þeirrar framkvæmdar sveitarfélagsins Árborgar, þann 13. mars 2014, að taka niður gaddavírsstreng á girðingu milli tveggja lóða á Selfossi, annars vegar Hlaðvalla 6, í eigu SÞS, og hins vegar Austurvegar 20.

Krefst SÞS þess að sveitarfélagið leggi fram haldbær rök fyrir hinni kærðu framkvæmd og að sveitarfélaginu verði gert að koma girðingunni í sambærilegt horf að nýji eða bótaskylda þess staðfest.

II.        Málsatvik og málsmeðferð         

Í stuttu máli eru málavextir með þeim hætti að þann 13. mars 2014 tóku starfsmenn Árborgar niður gaddavírsstreng sem var  á  girðingu  milli tveggja lóða á Selfossi, annars vegar Hlaðvalla 6, í eigu SÞS, og hins vegar Austurvegar 20.  Í málinu liggur fyrir að SÞS hafði ekki verið gert viðvart um fyrirhugaða framkævmd sveitarfélagsins, en sveitarfélagið hefur lýst því yfir að slíkt hefði verið heppilegra. Með bréfi Árborgar  til eigenda Hlaðvalla 6, dags. 25. mars 2014, voru eigendurnir beðnir velvirðingar á því að þeim hafi ekki verið gert viðvart eða þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum áður en strengurinn var fjarlægður. Í bréfinu kom jafnframt fram að ástæða þess að strengurinn hafi verið fjarlægður hafi verið það mat byggingarfulltrúa að af strengnum gæti stafað veruleg hætta og  við því hafi þurft að bregðast án frekari fyrirvara. Lögmaður Árborgar og SÞS áttu, í  kjölfarið á því að strengurinn var tekin niður, tölvusamskipti þar sem farið var yfir málið og reynt að finna lausn á þeim ágreiningi sem upp var kominn, en SÞS gerði þá körfu að girðingunni yrði komið í ,,mannhelt horf að nýju“.  Svo virðist sem ekki hafi tekist að leysa málið á þeim vettvangi.  

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. desember 2014, var sveitarfélaginu Árborg gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau þann 18. desember 2014. Á grundvelli eðlis málsins taldi ráðuneytið ekki þörf á því að gefa SÞS kost á að gæta andmæla við sjónarmið Árborgar.

III.      Sjónarmið SÞS

SÞS bendir á að sú aðgerð sveitarfélagsins að taka  gaddavírsstrenginn niður hafi  farið fram án þess að honum hafi verið tilkynnt um að slíkt væri fyrirhugað og hafi því verið framkvæmt  án hans vitundar. Í kæru kemur jafnframt fram að eftir samtöl SÞS við fyrirsvarsmenn sveitarfélagsins verði ekki annað ráðið en að umrædd framkvæmd hafi verið rædd innan bæjarkerfisins áður en til hennar kom og þar af leiðandi sé ljóst að ákvörðun um framkvæmdin hafi verið tekin innan sveitarfélagsins.

Þá bendir SÞS á að ekki verði séð að með nokkrum hætti sé bannað að nota gaddavír í girðingar innan bæjarins, enda sé gaddavír að finna í girðingum um allan bæinn og sveitarfélagið sjálft noti gaddavír í girðingar á þess vegum.

Í kæru kemur fram að SÞS sé ekki kunnugt um að sveitarfélagið hafi farið í sambærilega framkvæmd annars staðar á Selfossi og því sé engu líkara en að framkvæmdin sem slík hafi beinst að SÞS eða eiginkonu hans. Í því sambandi bendir SÞS á að gaddavírsstrengur á lóðinni Hlaðvöllum 5 hafi verið látinn óáreittur en slíkt geti varla samræmst jafnræðissjónarmiðum.  Þá hafi hann ekki notið andmælaréttar auk þess sem ekki verði séð að sveitarfélagið hafi haft neina heimild að lögum til umræddrar framkvæmdar.

IV.    Sjónarmið Árborgar

Varðandi kröfu SÞS þess efnis að Árborg rökstyðji þá ákvörðun að taka niður gaddavírsstreng sem var hluti af girðingu milli lóðanna Hlaðvalla 6 og Austuvegar 20 tekur sveitarfélagið fram að því höfðu borist kvartanir vegna strengsins og athygli sveitarfélagsins hafði verið vakin á þeirri hættu sem af strengnum hafi stafað,  s.s. fyrir börn, en bæði sundlaug og grunnskóli séu í nágreninu. Var það mat skipulag- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að af strengnum stafaði veruleg hætta og því bæri að bregðast við án frekari fyrirvara. Starfsmenn sveitarfélagsins hafi því farið á staðinn og tekið niður gaddavírsstrenginn.

Hvað kröfu SÞS um að girðingunni verði komið í sambærilegt horf að nýja eða bótaréttur samþykktur, tekur Árborg fram að ekki verði séð að ráðuneytið hafi heimildir til þess að fjalla um þær kröfur. SÞS verði að leita beint til sveitarfélagsins með þessar kröfur eða til dómstóla. Sveitarfélagið tekur fram, varðandi viðurkenningu á skaðabótaskyldu, að það hafi ekki hafnað því að skaðabótaskylda kynni að hafa stofnast og hafi sveitarfélagið ítrekað óskað eftir því við SÞS að hann upplýsti um kröfugerð sína í þessu sambandi, sérstaklega um fjárhæð þeirra bóta sem hann færi fram á. SÞS hafi hins vegar ekki komið þeirri kröfugerð á framfæri við sveitarfélagið enn þá.

Þá vísar sveitarfélagið alfarið á bug þeim ummælum í kæru SÞS að sú framkvæmd að taka niður umræddan gaddavírsrstreng hafi með einhverjum hætti beinst að SÞS eða eiginkonu hans. Sveitarfélagið hafi verið í sérstöku átaki við að hreinsa burtu girðingar í sveitarfélaginu sem taldar voru hætturlegar og huggist halda því átaki áfram. Sveitarfélagið tekur fram að það hafi lagt sig fram um að ná sátt í málinu.

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga  Í ákvæðinu segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli  (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169).

Ljóst er að ágreiningsefni það sem SÞS hefur borið undir ráðuneytið er ekki stjórnvaldsákvörðun í framangreindum skilningi. Ekki eru um það að ræða að sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun sem beint hafi verið að tilteknum aðila þar sem kveðið var á bindandi hátt um rétt hans eða skyldu í ákveðnu og fyrirliggjandi máli, heldur var um að ræða framkvæmd sem starfsmenn Árborgar framkvæmdu á eign SÞS án þess að afla samþykkis fyrir henni. Ágreiningur SÞS og Árborgar er þar af leiðandi einkaréttarlegur ágreiningur sem fellur hvorki undir gildissvið stjórnsýslulaga né ákvæði sveitarstjórnarlaga. Úr slíkum ágreiningi verður ekki greitt af hálfu ráðuneytisins enda er um að ræða einkaréttarlegan ágreining eins og fyrr segir, sem greiða ber úr af þar til bærum aðilum og eftir atvikum fyrir dómstólum. Einungis ákvarðanir sem sveitarfélag tekur í skjóli stjórnsýslulegs valds eru kæranlegar til ráðuneytisins. Ágreiningsefni þessa máls fellur ekki þar undir.

Með vísun til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru Sigurðar Þórs Sigurðssonar, […]., vegna þeirrar framkvæmdar sveitarfélagsins Árborgar,  þann 13. mars 2014,  að taka niður gaddavírsstreng á girðingu milli tveggja milli tveggja lóða á Selfossi, annars vegar Hlaðvalla 6 og hins vegar Austurvegar 20 er vísað frá.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum