Hoppa yfir valmynd
11. maí 2012 Innviðaráðuneytið

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11030398

Ár 2012, þann 11. maí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 11030398

G

gegn

Kópavogsbæ

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 29. mars 2011, kærði G, ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 27. janúar 2011, um að segja honum upp störfum við skipulags- og umhverfissvið sveitarfélagsins. Er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kæran er borin fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og er hún fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

G hóf störf sem verkefnastjóri á framkvæmda- og tæknisviði Kópavogsbæjar, síðar skipulags- og umhverfissviði, þann 30. október 2006 og var þá gerður við hann tímabundinn ráðningarsamningur. Á fundi sínum þann 20. desember 2007 ákvað bæjarráð Kópavogs svo að G yrði fastráðinn í starf verkefnisstjóra á bæjarskipulagi framkvæmda- og tæknissviðs. Aðila greinir hins vegar á um hvort að í kjölfarið hafi verið gerður formlegur ráðningarsamningur.

Hvað sem því líður er ljóst að G starfaði hjá sveitarfélaginu óslitið allt fram til 27. janúar 2011 er honum var sagt upp störfum með bréfi sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs. Í umræddri ákvörðun kom fram að í ljósi yfirstandandi efnahagsþrenginga væri Kópavogsbæ nauðsynlegt að hagræða í rekstri. Sá veruleiki væri ein af forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011. Markmið hagræðingaraðgerða væri að draga úr rekstrarkostnaði bæjarins og í því skyni væru gerðar breytingar á skipuriti sveitarfélagsins þar sem svið væru sameinuð, störfum fækkað og verkefni flutt milli starfa. Skipuritið tæki gildi þann 1. febrúar 2011. Vegna framangreindra skipulagsbreytinga væri G sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara, miðað við næstu mánaðarmót á eftir í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings hans, dags. 30. október 2006, og ákvæði um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs. Starfslok hans yrðu því þann 30. apríl 2011.  

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, óskaði G eftir nánari rökstuðningi fyrir framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins um að segja honum upp störfum.

Í bréfi sínu til sveitarfélagsins tók G m.a. fram að hann gerði alvarlegar athugasemdir við aðdraganda og feril ákvörðunarinnar sem hann teldi mikilvægt að koma á framfæri. Tók G jafnframt fram að hann hafnaði forsendum uppsagnarinnar um að störfum væri fækkað og verkefni færð á milli starfa. Þá gerði G athugasemdir við að í ákvörðuninni væri vísað til tímabundins ráðningarsamnings hans, dags. 30. október 2006, enda hefði bæjarráð samþykkt fastráðningu hans þann 20. desember 2007. Óskaði G sérstaklega eftir frekari skýringum á því hvers vegna grundvöllur brottrekstrar sé tímabundinn ráðningarsamningur frá 30. október 2006. Þá tók G fram í bréfi sínu þann 10. febrúar 2011 að undanfarin misseri hefðu fjölmargir einstaklingar verið ráðnir til Kópavogsbæjar, m.a. til fræðslusviðs og félagsmálasviðs. Ekki hafi verið leitað eftir því að starfsmenn sveitarfélagsins sem fyrir voru myndu færast til í starfi. Fordæmi fyrir tilfærslu í starfi innan stjórnkerfis Kópavogsbæjar væru fyrir hendi. Engum þeirra fjórtán einstaklinga sem fengið hefðu uppsagnarbréf í lok janúar 2011 hefði verið gefið færi á breyttum starfshögum. Þá tók G m.a. fram að athyglisvert væri að að undanfarin misseri hefðu verið ráðnir einstaklingar á vegum Vinnumálastofnunar til starfa hjá Kópavogsbæ sem vissulega hefðu tekið störf frá þeim sem fyrir voru.  

G barst rökstuðningur sveitarfélagsins með bréfi, dags. 28. febrúar 2011. Þar kom m.a. fram að sveitarfélagið teldi á engan hátt villandi eða rangt að vísa til upphaflegs ráðningarsamnings G enda gæfi hann rétta mynd af starfsaldri G hjá sveitarfélaginu. Samþykkt bæjarráðs þann 20. desember 2007 hefði ekki haft í för með sér aukinn rétt G til handa hvað varði uppsagnarfrest. Þá er jafnframt rakið í bréfi sveitarfélagsins að eins og fram hafi komið í uppsagnarbréfi þá sé Kópavogsbæ nauðsynlegt að hagræða í rekstri vegna yfirstandandi efnhagsþrenginga. Á grundvelli fjárhagsáætlunar og þeirra skipulagsbreytinga sem samþykktar hafi verið í bæjarstjórn hafi þrjú störf verið lögð niður á skipulags- og umhverfissviði og sviðið verið sameinað framkvæmda- og tæknisviði. Hið sameinaða svið heiti nú umhverfissvið. Á meðal þeirra starfa sem lögð hafi verið niður hafi verið starf G sem verkefnastjóri á bæjarskipulagi. Þá rekur sveitarfélagið í bréfi sínu til G að ljóst væri að mikill samdráttur hefði orðið í byggingariðnaði eftir efnhagshrunið árið 2008 og ekki væri fyrirsjáanlegt að sú þróun gengi til baka að fullu á næstu misserum. Afleiðing þeirrar þróunar væri m.a. sú að skipulagsverkefnum fækkaði. Af þeim orsökum hafi það verið eðlileg ráðstöfun til að mæta kröfu um hagræðingu í rekstri bæjarins að fækka störfum á sviðinu. Þá er jafnframt rakið að þó svo að einhverjar ráðningar hefðu átt sér stað hjá Kópavogsbæ þá væri ekki um slíkt að ræða á umhverfissviði bæjarsins en leitast væri við að halda nýráðningum í lágmarki og ráða einungis í störf ef brýna nauðsyn krefði. Í bréfi Kópavogsbæjar kom jafnframt fram að G vísaði sérstaklega til ráðninga á félags- og fræðslusviði sveitarfélagsins. Tók sveitarfélagið fram af því tilefni að flestar nýráðningar hefðu verið á félagssviði, enda hefði verkefnum þar fjölgað vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Oftar en ekki væri útilokað að flytja starfsfólk á milli sviða vegna þess að kröfur um menntun og reynslu væru mismunandi í ólíkum málaflokkum. Starfsfólk í tímabundnum verkefnum með þátttöku Vinnumálastofnunar hefði ekki gengið í verkefni á sviði bæjarskipulags.  

Með bréfi, ranglega dagsett 29. apríl 2011 er barst ráðuneytinu þann 29. mars 2011, kærði G svo sem fyrr greinir framangreinda ákvörðun Kópavogsbæjar frá 27. janúar 2011 um að segja honum upp störfum hjá sveitarfélaginu.

Með bréfi, dags. 29. mars 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Kópavogsbæjar um kæruna auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin umsögn og gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 31. maí 2011. 

Með bréfi, dags. 6. júní 2011, gaf ráðuneytið G færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar sveitarfélagsins. Bárust slík andmæli ráðuneytinu með bréfi, dags. 29. júní 2011.

Með bréfi, dags. 22. apríl 2012, óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum og gögnum frá Kópavogsbæ vegna tiltekinna atriða. Bárust umbeðnar upplýsingar og gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 28. mars 2012. Með bréfi, dags. 2. apríl 2012, gaf ráðuneytið G færi á að gæta andmælaréttar vegna þeirra upplýsinga komu fram í svarbréfi sveitarfélagsins. Með bréfi, dags. 4. apríl 2012, bárust ráðuneytinu athugasemdir G þar að lútandi.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök G

Í kæru sinni til ráðuneytisins rekur G að honum hafi verið sagt upp störfum hjá Kópavogsbæ, að sögn vegna skipulagsbreytinga. Telur G að það sé töfraorð í stjórnsýslu og eigi að tryggja að viðkomandi sveitarfélag komist upp með að segja upp starfsfólki sem stjórnmálamenn vilji losa sig við af einhverjum ástæðum. Telur G að þær ástæður sem gefnar séu fyrir uppsögn hans séu ógætilegar og kjánalegar. Gerir G sérstaklega athugasemd við að Kópavogsbær hafi ekki gætt meðalhófs við þær aðgerðir sem gripið var til. Telur G jafnframt að rökstuðningur sveitarfélagsins vegna umræddrar ákvörðunar sem honum var sendur með bréfi, dags. 28. febrúar 2011, varpi engu ljósi á þessi einkennilegu vinnubrögð. Í bréfinu felist einkennilegt yfirklór og sé það ótrúlega ósvífið.

Máli sínu til stuðnings bendir G ennfremur á að í rökstuðningi sveitarfélagsins sé getið um yfirstandandi efnahagsþrengingar, en svo virðist sem fjárhagsstaða Kópavogsbæjar sé álitin hluti efnhagsþrenginga þjóðarinnar í kjölfar hrunsins haustið 2008. G telur hins vegar að svo sé ekki og að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið á hvern hátt Kópavogsbær tengist efnahagshruni þjóðarinnar. Telur hann að umtalaður fjárhagsvandi sveitarfélagsins sé einfaldlega af öðrum toga og að einmitt þess vegna hefði verið hægt að afstýra þeirri gerræðislegu ákvörðun sem hópuppsögnin sýni.

Þá sé í rökstuðningi getið um forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 og markmið hagræðingaaðgerða. Það hafi einmitt verið við umræður um fjárhagsáætlun 2011, sem rætt hafi verið í bæjarráði um að bregðast þyrfti við aðsteðjandi vanda, m.a. með því að semja við starfsfólk í stjórnsýslunni um breytt starfshlutfall og lækkun yfirvinnugreiðslna. Hópuppsögnin hafi því ekki verið það sem stefnt var að við umræður um fjárhagsáætlun heldur þvert á móti. Auðvelt sé að sýna fram á að ætluðum 60-70 milljóna sparnaði sem umræddar uppsagnir nái fram hefði verið hægt að ná með samningum við starfsfólk í stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Ennfremur sé þess getið af hálfu sveitarfélagsins að þrjú störf hafi verið lögð niður á skipulags- og umhverfissviði, þ. á m. starf G. Telur G að um mikla hártogun sé að ræða þegar umræddar aðgerðir séu skýrðar á þennan hátt því umrædd störf hafi alls ekki verið lögð niður heldur færð öðrum einstaklingum. Þau verk sem hann hafi unnið hafi ekki horfið. Að auki sé afar sérkennilegt að þann 10. febrúar 2011, sama dag og G afhenti athugasemdir sínar vegna uppsagnar hans og beiðni um rökstuðning, hafi bæjarráð Kópavogs ákveðið að auglýsa nýja stöðu aðstoðarmanns starfsmannastjóra, mannauðsfulltrúa. Tveimur starfsmanna sem hafi verið sagt upp í hópuppsögninni í lok janúar 2011 hefðu einmitt aðstoðað starfsmannastjóra til langs tíma og alla vega annar þeirra haft menntun til að gegna hinu nýja starfi. Telur G að þetta sýni ótrúlegan hroka gagnvart því starfsfólki sveitarfélagsins sem hafi verið rekið úr störfum sínum.

Þá tekur G fram að í bréfi sínu til sveitarfélagsins, þann 10. febrúar 2011, hafi hann vísað til þess að fjöldi starfsmanna hefði verið ráðinn til Kópavogsbæjar síðustu misseri. Í svarbréfi sveitarfélagsins sé því til svarað að einhverjar ráðningar hafi átt sér stað. Telur G það afar sérkennilega skýringu. G hafi með athugasemdinni átt við að þeim sem sagt var upp í lok janúar 2011 hefðu átt að bjóðast umrædd störf enda sé það staðreynd að starfsfólk hefði flust á milli sviða hjá Kópavogsbæ. Bendir G á í því sambandi að tiltekin starfsmaður sem unnið hefði í afgreiðslu bæjarskipulags og byggingarfulltrúa, hefði einmitt verið flutt til félagssviðs veturinn 2008-2009. Einnig hafi annar starfsmaður áður unnið í afgreiðslu bæjarskipulags en síðar fengið starf á félagssviði. Telur G vandséð hvernig það hafi verið hægt miðað við skýringar sveitarfélagsins nú. Hann hafi ekki eingöngu í athugasemdum sínum átt við umhverfissvið, sem hafi heitið skipulags- og umhverfissvið til 31. janúar 2011, en þar hefði einmitt fækkað starfsfólki frá 2008. Í bréfi Kópavogsbæjar sé sérstaklega bent á að fjölgun starfsfólks á félagssviði hafi verið vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Telur G að það sé alls ekki rétt og beinlínis farið með rangt mál. Fjölmargir hafi verið ráðnir til félagssviðs árin 2009 og 2010. Þeir sex starfsmenn sem áætlað hafi verið að bæta þyrfti við vegna yfirfærslu málefna fatlaðra hefðu ekki, á tíma uppsagnana, hlotið náð fyrir augum bæjarráðs.  Það sem G hafi átt við með með athugasemd sinni var að ráðið hefði verið í störf hjá félagssviði sem aðrir starfsmenn sveitarfélagsins hefðu hugsanlega getað gegnt.

Þá sé fullyrt af hálfu Kópavogsbæjar að starfsfólk í tímabundnum verkefnum á vegum Vinnumálastofnunar hafi ekki gengið í verkefni á sviði bæjarskipulags. Það sé alfarið rangt. Haustið 2009 hafi tveir ágætir starfsmenn á vegum Vinnumálastofnunar komið til starfa á umhverfissviði, annar hjá bæjarskipulagi og hinn hjá byggingarfulltrúa. Starfstími þeirra hafi verið sex mánuðir og hafi þeir sannanlega unnið verkefni sem aðrir starfsmenn hefðu annars þurft að sinna. Hér sé því um ótrúlega ósvífna tilraun að ræða til yfirklórs fálmkenndra vinnubragða.

G telur að í svarbréfi Kópavogsbæjar, dags. 28. febrúar 2011, sé beinlínis farið með staðlausa stafi og alls ekki sé gott að opinber stjórnsýsla geri slíkt. Að hans mati séu uppsagnirnar og málsrök ekki sæmandi stjórnsýslu Kópavogsbæjar. Aðdragangi umræddra aðgerða sé Kópavogsbæ til skammar og virðist tilviljunarkenndur og afar illa ígrundaður. Aðgerðirnar virðist meira að segja hafa komið sviðsstjórum algjörlega að óvörum. Telur G sig hafa sýnt fram á alvarlega vankanta hvað rökstuðning sveitarfélagsins varðar.

Þá vísar G til þess að í uppsagnarbréfi sveitarfélagsins til hans komi fram að brottrekstur hans byggist á tímabundinni ráðningu 30. október 2006. Þessu hafi G hafnað í bréfi sínu til sveitarfélagsins, dags. 10. febrúar 2011. Starf það sem hann hafi gegnt þegar uppsögnin barst, hafi verið auglýst í nóvember 2007, sem hann eðli málsins samkvæmt hafi sótt um og verið ráðinn í, og ráðningarsamningur gerður um áramótin 2007-2008. Hann hafi átt afrit af þeim ráðningarsamningi en því miður glatað því en auðvitað sé til afrit af ráðningarsamningnum í skjalakerfi Kópavogsbæjar þrátt fyrir staðhæfingar um annað. Fullyrðir G að þáverandi starfsmannastjóri sveitarfélagsins hafi boðað hann á fund til að ganga frá slíkum ráðningarsamningi. Á þeim fundi hafi verið undirritaður nýr ráðningarsamningur.

Alvarlegasta atriðið varðandi umræddar uppsagnir telur G vera að í rökstuðningi Kópavogsbæjar, dags. 28. febrúar 2011, sé beinlínis farið með rangt mál í mörgum atriðum. Mjög alvarlegt sé að stjórnsýsla sveitarfélags geri slíkt og beri staðlausa stafi á borð fyrir heiðarlegt fólk. Fer G því fram á að uppsögn hans verði úrskurðuð ógild vegna þess að í forsendum og skýringum rökstuðnings Kópavogsbæjar felist beinlínis rangfærslur um mikilvæg efnisatriði.

Þá vill G í tilefni af umsögn Kópavogsbæjar um kæru hans sérstaklega koma sex athugasemdum á framfæri varðandi málið.

·    G gerir mjög alvarlegar athugasemdir við aðdraganda þess að hann var rekinn úr starfi hjá Kópavogsbæ, svo sem hann lýsir í kæru sinni til ráðuneytisins.

·    Þá gerir G mjög alvarlegar athugasemdir við að tímabundin ráðning hans haustið 2006 hafi verið lögð til grundvallar brottrekstrar hans. Sú ráðning hafi verið tímabundinn. Hann hafi verið fastráðinn í desember 2007 á grundvelli samþykktar bæjarráðs á starfslýsingu í nóvember 2007 og samþykkt bæjarráðs um að auglýsa starfið laust til umsóknar. Tveir hafi sótt um starfið og hafi bæjarráð samþykkt í lok desember 2007 að G yrði ráðinn.

·    G gerir jafnframt athugasemdir við orðalag í uppsagnarbréfi hans um töfraorðið skipulagsbreytingar, svo sem hann hafi áður lýst.

·    Þá tekur G fram að þrátt fyrir að svo hafi verið látið líta út sem ráðgjafi hafi lagt tillögur á borð þá hafi ekki verið um nein samtöl að ræða og enginn hafi komið á vinnustaðinn til þess að meta þau störf sem unnin hafi verið á skipulags- og umhverfissviði. Hvorki hafi umræddir ráðgjafar, bæjarstjóri né lögmaður sveitarfélagsins, sem riti umsögn þess til ráðuneytisins, komið til þess að skoða og meta aðstæður á sviðinu í aðdraganda brottrekstrar. Slík leynd hafi verið varðandi brottrekstur þriggja starfsmanna af skipulags- og umhverfissviði að aðgerðin hafi komið sviðsstjóra þess, skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa í algjörlega opna skjöldu. Bréf Kópavogsbæjar til hans 28. febrúar 2011 varpi engu ljósi á málsástæður og enn síður umsögn sveitarfélagsins til ráðuneytisins, dags. 31. maí 2011. Í umsögninni sé að finna fráleitar eftir á skýringar, sem byggist á mikilli vanþekkingu á starfsemi sviðsins. Lögmaðurinn sem riti umsögnina hafi einungis komið þrisvar til fjórum sinnum á sviðið á vinnutíma fyrir utan fáeina fundi. Ekkert faglegt mat á aðstæðum eða starfsemi sviðsins hafi legið til grundvallar brottvikningu þessa stóra hóps, 14 manns.

·    G telur að ekki hafi verið gætt jafnræðis þegar samið var við hluta starfsmanna um skert kjör vegna aðstæðna en öðrum ekki gefinn kostur á skoða slíka möguleika til að halda starfi. Með því að reka 14 manns hafi verið áætlað að ná sparnaði upp á 70 milljónir á ári. Því markmiði hefði verið hægt að ná með almennum aðgerðum allra starfsmanna á skrifstofum bæjarins. Sveitarfélagið skýri uppsagnirnar m.a. með því að meðalhófs hafi verið gætt. Það sé afar langsótt eftir á skýring og spurning sé hvað átt sé við með orðinu meðalhóf í þessu samhengi.

·    Þá tekur G fram að eftir að bæjarráð hafi samþykkt ráðningu hans í starfið, skv. auglýsingu í lok árs 2007, hafi G verið kallaður á fund starfandi starfsmannastjóra sem hafi tilkynnt honum um að hann hefði verið ráðinn í starf verkefnastjóra. Síðan hafi verið gengið frá ráðningarsamningi í samræmi við starfslýsingu og samþykkt bæjarráðs. G geti ekkert gert í því að skipulag geymslu skjala í Kópavogsbæ sé með þeim hætti að ekki sé hægt að finna ráðningarsamning skv. samþykkt bæjarráðs í desember 2007. Ráðning samkvæmt samþykkt bæjarráðs í desember 2007 hafi verið forsenda starfs hans eftir það.

Þá telur G sérkennilegt að lögmaður sveitarfélagsins finni sig knúinn að til að lýsa að einhverju marki störfum á bæjarskipulaginu og að hann geri lítið úr vinnu og vinnusemi starfsfólks á skipulags- og umhverfissviði en innan þess hafi verið tvær deildir, bæjarskipulag og byggingarfulltrúi. Þar sem G hafi verið verkefnastjóri á bæjarskipulagi þá hafi hann haft góða yfirsýn yfir starfsemina og gert þær ráðstafanir sem þurfti vegna verkefna, oftar en ekki í samráði við og samkvæmt uppleggi sviðsstjóra og skipulagsstjóra. Lögmaður sveitarfélagsins, sem riti umsögn þess, hafi ekki gert sér margar ferðir á þann vinnustað enda starfsstöð hans í öðru húsi. Lögmaðurinn viti því ekki hvað fór fram á bæjarskipulagi frá hausti 2006 fram í janúar 2011. Rekur G að gífurlegt vinnuálag hafi verið á starfsfólki bæjarskipulags frá hausti 2006 og langt fram á árið 2008. Mikil mannekla hafi verið á sviðinu en markmið starfsfólks þess hafi verið að gera sem allra best gagnvart viðskiptavinum og bæjarfélagi við erfiðar aðstæður. Þegar efnahagshrunið hafi dunið yfir hafi vissulega dregið úr álagi eðli málsins samkvæmt en hafa verði í huga að fækkað hafi á bæjarskipulagi um fjóra starfsmenn veturinn 2007-2008. Hins vegar hafi ekkert lát verið á verkefnum þrátt fyrir hrunið haustið 2008.

G tekur fram að lögmaður sá er riti umsögn sveitarfélagsins geri lítið úr starfi skipulags- og umhverfissviðs og telji að samdráttur í verkefnafjölda hafi verið verulegur og bendi á fundargerð fundar skipulagsnefndar þann 13. desember 2010 máli sínu til stuðnings. Tekur G fram að hann hafi verið ritari skipulagsnefndar frá nóvember 2006 fram í janúar 2011 og hann viti því nákvæmlega hver verkefnin hafi verið enda verkefnisstjóri bæjarskipulags á þeim tíma. Í umræddri fundargerð komi fram að lagðar hafi verið fram fjórar umsagnir í tilteknum málum og á fundinum hafi verið samþykkt að fela sviðinu að gera sex umsagnir um önnur tiltekin mál. Þessar umsagnir hafi verið gerðar undir umsjón G. Þær hafi hann unnið ásamt öðrum fjölbreyttum verkefnum á sviðinu.

Þá tiltaki sveitarfélagið í umsögn sinni upplýsingar um málafjölda síðustu tíu ár. Tekur G fram að hann viti allt um þann lista enda hafi hann sett hann í fundargerð síðasta fundar hvers árs undafarin sex ár. Umræddur listi sé gerður til þess að gera grein fyrir fyrirtöku mála, þ.e. fjölda dagskráratriða á fundum hvert ár. Eðli málsins samkvæmt hafi dagskráratriðum fækkað en það segi hins vegar ekkert til um fjölda mála í vinnslu eða að hægt sé að sjá úr þeim lista hve mörg mál hafi verið tekin fyrir hvert ár eða hve oft tiltekin mál hafi verið á dagskrá. Það að lögmaður sveitarfélagsins gefi umræddar skýringar lýsi alvarlegri vanþekkingu hans á aðstæðum á sviðinu. Þá sé athyglisvert að í umsögninni sé því haldið fram að tæplega 800 mál hafi verið tekin fyrir árið 2006 og 228 árið 2010. Þessi fullyrðing sé með ólíkindum, enda hafi málafjöldinn verið langt frá þessum tölum. Þessar tölur sýni einungis samantekin fjölda dagskráratriða funda skipulagsnefndar ár hvert og hafi ekkert með málafjölda að gera og auðvelt sé að sýna fram á það, með því að fara yfir allar fundargerðirnar og flokka. Því sé um að ræða athyglisvert yfirklór sem beri vott um að enginn áhugi virðist á því að halda staðreyndum fram af hálfu Kópavogsbæjar. Telur G að til þess að meta umsvifin á sviðinu hefði þurft að skoða málafjölda og umfang hvers máls og framkvæma skoðun á starfi hvers og eins starfsmanns. Þrír starfsmenn bæjarskipulags hefðu haft næg verkefni og aldrei fallið verk úr hendi. Venjulega hafi það verið svo að fjöldi verkefna hafi verið yfirdrifinn. Telur G rétt að halda til haga í því sambandi að fækkað hafi um fjóra starfsmenn á bæjarskipulagi veturinn 2007-2008. Þegar hann hafi verið rekinn hafi starfað þrír einstaklingar á bæjarskipulagi.

Í tilefni af bréfi Kópavogsbæjar til ráðuneytisins, dags. 28. mars 2012, tekur G m.a. fram að athyglisvert sé að sveitarfélaginu hafi ekki enn tekist að sýna fram á haldbær rök fyrir brottrekstri hans frá Kópavogsbæ. Í bréfi sveitarfélagsins sé enn sagt að verkefni viðkomandi starfsmanna hafi dregist það mikið saman að ekki hafi lengur verið þörf fyrir stöðugildin. Telur G rétt að vekja athygli á því sem hann hafi áður komið á framfæri við ráðuneytið að engin fagleg úttekt hafi verið gerð á störfum hans. Telur hann jafnframt að beinlínis sé reynt að gefa villandi skýringar á því hvað raunverulega hafi legið að baki brottrekstrinum. Hafnar G því alfarið að þau verkefni sem hann hafi haft undir höndum hafi dregist svo mikið saman að ekki hafi lengur verið þörf fyrir stöðuna.

Þá tekur G fram að hann hafi áður í bréfum sínum til ráðuneytisins vakið athygli á því að hvorki bæjarstjóri né ráðgjafar KMPG hafi gefið sér tíma til að kynna sér störf sín eða annarra á skipulags- og umhverfissviði, en á þeim tíma hafi þeir verið þrír, starfsmenn bæjarskipulags, auk sviðsstjóra. Enn síður hafi bæjarlögmaður, sem riti umsögn sveitarfélagsins um kæruna, séð möguleika á því að kynna sér aðstæður. Telur G að skýrsla KPMG staðfesti alfarið orð sín um að ófagmannlega hafi verið staðið að brottrekstrinum með tilbúnum forsendum. Telur G að um hrákasmíði sé að ræða.

Þá tekur G fram að í bréfi sveitarfélagsins nú sé eytt plássi í skýringar um fjárhagsmál. Í þessum skýringum sé sagt að að brottrekstur þessa hóps eigi að spara launakostnað upp á 60 milljónir. G hafi bent á í bréfum sínum vegna málsins að ekki hafi verið gerð minnsta tilraun til þess að gefa þessum stóra hópi tækifæri til að koma að málum með mögulegar lausnir. Í þessu samhengi sé t.d. hægt að benda á að í fréttum af flutningi Héraðsbókasafns Kópavogs árið 2011 hafi komið fram að kostnaðurinn við flutningin hafi verið yfir 100 milljónir króna. Sé sú upphæð rétt virðist kostnaðarvitund ekki vera á vetur setjandi.

Telur G því að Kópavogsbær hafi ekki sett fram haldbær rök fyrir brottrekstri sínum. Telur hann jafnframt að skýrsla KMPG varpi ennfremur ljósi á málsmeðferð og í henni séu staðhæfingar sem styðji hans málsrök. Umrædd hópsuppsögn starfsfólks Kópavogsbæjar hafi verið illa ígrunduð, illa undirbúin og rakalaus. Þeim sem í henni lentu hafi ekki verið gefið neitt færi á að koma með ábendingar til lausnar þess vanda sem eigi að hafa verið ástæða brottrekstrar. Kópavogsbær hafi því vikið honum úr starfi án gildra raka og tilefnis.

Rétt er að taka fram að G hefur fært fram ýmis fleiri rök og málsástæður máli sínu til stuðnings sem ráðuneytið telur ekki nauðsynlegt að rekja hér en hefur haft í huga við úrlausn málsins.

IV.    Málsástæður og rök Kópavogsbæjar

Í umsögn Kópavogsbæjar um kæruna er rakið að svo sem gögn málsins beri með sér hafi G verið sagt upp störfum með bréfi, dags. 27. janúar 2011. Í því bréfi sé gerð grein fyrir ástæðum uppsagnarinnar sem sé skipulagsbreyting og fækkun starfa vegna brýnnar þarfar á hagræðingu í rekstri í kjölfar efnhagsþrenginga. G hafi óskað eftir frekari rökstuðningi með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, og honum svarað með bréfi, dags. 28. febrúar 2011. Í því bréfi hafi ástæður uppsagnarinnar verið útskýrðar nánar og svarað þeim spurningum og fullyrðingum er G bar fram í bréfi sínu. Telur sveitarfélagið að í raun komi fram fullnægjandi skýringar í þessum tveimur bréfum bæjarins til G og vísar til þeirra um þau atriði. Víkur sveitarfélagið í umsögn sinni því næst að þeim atriðum er koma fram í kæru G.

Tekur sveitarfélagið fram að í kæru víki G í upphafi að efnhagsþrengingum þjóðarinnar og fjárhagsstöðu Kópavogsbæjar og komi fram það álit hans að ekki séu tengsl þar á milli. Telur sveitarfélagið að augljóst sé að samhengi sé á milli almennra efnhagsþrenginga og þrenginga í rekstri sveitarfélagsins enda dragist tekjur þess saman um leið og tekjur íbúa og fyrirtækja sveitarfélagsins auk þess sem skuldir þess hækki. Telur sveitarfélagið óþarfa að útskýra þetta atriði enda hafi orsakir bágrar fjárhagsstöðu engin áhrif á rétt þess til að hagræða í rekstri þegar þröf krefji. Innanríkisráðuneytið sé að sjálfsögðu, lögum samkvæmt, upplýst um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins undanfarin misseri og ekki ætti að vera þörf á frekari upplýsingagjöf hvað það varðar. Lýsir sveitarfélagið sig reiðbúið til frekari upplýsingjafar sé eitthvað óljóst þar um.

Þá sé í kæru G vísað til umræðna um fjárhagsáætlun þar sem hann telur að rætt hafi verið um breytt starfshlutfall og lækkun yfirvinnugreiðslna í sparnaðarskyni. Þess sé hins vegar ekki getið sérstaklega í kæru hvar umrædd ummæli eigi að hafa komið fram en ljóst sé að bæjarstjórn hafi ekki tekið ákvörðun um að sú leið skyldi farin. Í kjölfar umræðu um nauðsynlegan samdrátt í rekstri hafi verið fengnir ráðgjafar til að skoða hvernig rekstri bæjarskrifstofu væri best fyrir komið með tilliti til þeirrar hagræðingarkröfu sem sett hafi verið fram í fjárhagsáætlun. Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið sú að hagstæðast væri að sameina svið með tilteknum hætti og að með því móti mætti fækka störfum vegna samlegðaráhrifa. Ekki hafi verið talin þörf á sama mannafla og áður vegna samdráttar í verkefnum, sér í lagi á sviði framkvæmda-, skipulags- og byggingarmála. Þess beri einnig að geta að yfirvinna hafi þá þegar verið skorin verulega niður í kjölfar efnhagshrunsins og að ekki hafi verið talið að hægt væri að ná fram þeirri hagræðingu sem stefnt hafi verið að með frekari niðurskurði á yfirvinnu eða með breyttu starfshlutfalli. Að mati bæjaryfirvalda hafi ekki verið hægt að ná fram þeim árangri sem að var stefnt með öðrum og vægari aðgerðum en uppsögnum tiltekins fjölda starfsmanna og því hafi meðalhófs verið gætt að af hálfu sveitarfélagsins.

Þá rengi G að starf hans hafi verið lagt niður. Það sé vissulega rétt að ekki hafi öll verkefni horfið sem á hans borði hafi verið. Verkefnin hafi hins vegar dregist verulega saman og því þurfi ekki sama starfsmannafjölda til að sinna þeim. Stöðugildi G hafi verið lagt niður og enginn starfsmaður ráðinn í hans stað. G hafi starfað við skipulagsmál á skipulags- og umhverfissviði. Samdráttur í verkefnafjölda á umræddu sviði hafi verið mjög verulegur frá því sem var þegar G var ráðinn til starfa. Í fundargerð fundar skipulagsnefndar þann 13. desember 2010 komi fram upplýsingar um málafjölda síðustu 10 ár. Um það leyti sem G hafi verið ráðinn hafi tæplega 800 mál verið tekin til afgreiðslu á ári en árið 2010 hafi þau einungis verið 228. Það sé því augljóst að ekki sé lengur þörf á sama starfsmannafjölda og áður í umræddum málaflokki.

G bendi á að auglýst hafi verið eftir mannauðsfulltrúa stuttu eftir að honum hafi verið sagt upp. Eins og komi fram í bréfi sveitarfélagsins til hans, dags. 28. febrúar 2011, hafi engar ráðningar átt sér stað á því sviði sem G hafi starfað á. Þrátt fyrir að þörf hafi verið á sérhæfðum starfsmönnum á öðrum sviðum hafi það engin áhrif á hagræðingarþörf á umhverfissviði né heldur á réttmæti þeirrar ákvörðunar að fækka starfsmönnum á því sviði. Í því sambandi verði að líta á hverja deild eða svið út af fyrir sig, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands þann 3. mars 2011 í máli nr. 472/2010. Allar ráðningar sem farið hafi fram um svipað leyti og uppsögn G átti sér stað hafi verið í störf þar sem kröfur um sérhæfingu hafi verið á þann veg að ógjörningur hafi verið að flytja starfsmenn umhverfissviðs í þau störf. Eina starfið sem G hefði hugsanlega geta komið til greina í hafi verið starf tæknistjóra í sundlaugum sem auglýst hafi verið skömmu eftir uppsögn hans. G hafi verið bent á þetta starf í bréfi sveitarfélagsins, dags. 28. febrúar 2011, en hann hafi kosið að sækja ekki um starfið.

Þá fjalli G um ráðningar starfsfólks á félagssviði allt aftur til ársins 2009. Ráðningar sem hafi átt sér stað þá geti ekki haft nokkur áhrif á mál þetta. Síðastliðið ár hafi enginn starfsmaður verið ráðinn í störf á félagssviði sem ekki krefjast sérhæfingar. G nefni að tveir starfsmenn hafi komið til skipulags- og umhverfissviðs árið 2009 á vegum Vinnumálastofnunar. Það sé rétt að þessir starfsmenn hafi verið við störf á sviðinu í sex mánuði árið 2009. Annar þeirra hafi verið í sömu deild og G. Þessir starfsmenn hafi unnið að sérstöku átaksverkefni í tiltekt og skönnun og því ekki um að ræða sömu verkefni og G hafi haft með hendi. Þetta hafi átt sér stað löngu áður en ákvörðun um uppsagnir hafi verið tekin. Síðan 2009 hafi enginn stafsmaður á vegum Vinnumálastofnunar verið ráðinn til skipulags- og umhverfissviðs. Það geti ekki haft nein áhrif á réttmæti uppsagnar G þó að einn starfsmaður hafi komið inn á viðkomandi deild í nokkurra mánaða átaksverkefni u.þ.b. einu og hálfu ári áður en G var sagt upp.

Þá er rakið í umsögn Kópavogsbæjar að G geri athugasemd við að í uppsagnarbréfi sé vísað til ráðningarsamnings frá 30. október 2006. Sá samningur hafi verið tímabundinn en starf G hafi síðar verið auglýst og ákveðið á fundi bæjarráðs þann 20. desember 2007 að ráða G til starfa ótímabundið. G fullyrði að gerður hafi verið nýr ráðningarsamningur við hann í framhaldi af ákvörðun bæjarráðs. Þrátt fyrir mikla leit á bæjarskrifstofum Kópavogs hafi ótímabundinn samningur við G ekki fundist og þá stjórnendur sem hugsanlega hefðu getað komið að gerð slíks samnings reki ekki minni til þess að samningurinn hafi verið gerður. Fyrrnefndur samningur frá 2006 hafi verið um ráðningu í starf verkefnastjóra og hafi G starfað sem slíkur óslitið frá dagsetningu samningsins þar til hann lét af störfum í kjölfar uppsagnar. Með ákvörðun bæjarráðs þann 20. desember 2007 hafi verið ákveðið að ráðningin yrði ótímabundin. Einhver breyting kunni að hafa orðið á störfum G samkvæmt starfslýsingu sem samþykkt hafi verið í bæjarráði þann 15. nóvember 2007 en sú breyting hafi þó ekki verið veruleg. Nýr ráðningarsamningur virðist hins vegar ekki hafa verið gerður. Það sé því á engan hátt villandi eða rangt að vísa til upphafslegs ráðningarsamnings enda gefi hann rétta mynd af starfsaldri G hjá bænum. Samþykkt bæjarráðs frá 20. desember 2007 hafi ekki för með sér aukinn rétt til handa G hvað varðar uppsagnarfrest. Því verði ekki talið að tilvísun til ráðningarsamningsins hafi nokkur áhrif á lögmæti ákvörðunar bæjarsins um að segja G upp störfum.

Þá vill Kópavogsbær taka fram að ekki hafi verið til staðar skylda til að hafa samráð við stéttarfélag G í aðdraganda uppsagnarinnar þar sem ekki hafi verið um að ræða hópuppsögn í skilningi laga um hópuppsagnir nr. 63/2000. Ekki hafi heldur verið skylt að hafa samráð við G eða gefa honum kost á að koma að andmælum áður en ákvörðun var tekin þar sem ástæða uppsagnarinnar hafi ekki verið tengd frammistöðu hans í starfi. Í því sambandi vísar sveitarfélagið til dóms Hæstaréttar Íslands þann 16. desember 1999 í máli nr. 296/1999.

Þá bendir sveitarfélagið á að G færi ekki fram nein lagarök til stuðnings kæru sinni. Hann tiltaki ekki gegn hvaða laga- eða samningsákvæðum hann telji að sveitarfélagið hafi brotið eða hvað það nákvæmlega hann telji að geti valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Það sé hins vegar hverjum manni ljóst að sveitarfélaginu hafi verið nauðsynlegt og skylt að lækka útgjöld sín í ljósi þeirra fjárhagsstöðu sem upp hafi verið komin í kjölfar efnhagshrunsins. Eðlilegur liður í sparnaðaraðgerðum hafi verið að fækka starfsfólki á þeim sviðum þar sem verkefni höfðu dregist verulega saman.

Af hálfu Kópavogsbæjar sé því talið að rétt hafi verið staðið að hinni kærðu ákvörðun og að hún hafi byggst á málefnalegum ástæðum. Ekki hafi komið fram neitt í málatilbúnaði G sem leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2012, óskaði ráðuneytið frekari upplýsinga frá sveitarfélaginu um nánar tiltekin atriði. Þannig óskaði ráðuneytið í fyrsta lagi m.a. eftir því að sveitarfélagið gerði nánari grein fyrir þeim breytingum á skipuriti sveitarfélagsins sem tóku gildi þann 1. febrúar 2011, þ. á m. hvaða svið/deildir stjórnsýslu sveitarfélagsins hafi verið sameinuð, og þá sérstaklega hvað skipulags- og umhverfissvið snerti. Þá óskaði ráðuneytið eftir afriti af úttekt KMPG á stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Í öðru lagi óskaði ráðuneytið upplýsinga um hvaða sjónarmið hafi ráðið því hvaða stöðugildi voru lögð niður á umhverfis- og skipulagssviði sveitarfélagsins og hvar ákvarðanavald þar að lútandi lægi innan sveitarfélagsins. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um hvort þau verkefni er áður tilheyrðu þeim stöðugildum er lögð voru niður hafi flust til annars starfsfólks eða hvort að nýtt starfsfólk hefði verið ráðið til að sinna þeim. Þá óskaði ráðuneytið eftir að fá sent afrit af reglum bæjarstjórnar um ráðningu starfsmanna.

Umbeðnar upplýsingar og gögn bárust ráðuneytinu með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 28. mars 2012. Þar kemur fram að breytingar á skipuriti hafi m.a. falið í sér að skipulags- og umhverfissið hafi verið sameinað framkvæmda- og tæknisviði og nefnist hið sameinaða svið nú umhverfissvið. Starfsfólki hafi verið fækkað um samtals sex á þessum sviðum og hafi þremur verið sagt upp á hvoru sviði. Þá kemur fram að við breytingar á skipuriti hafi verið stuðst við tillögur KMPG en endanleg útfærsla hafi þó verið örlítið frábrugðin henni.

Þá kemur fram í bréfi Kópavogsbæjar að tilgangur sveitarfélagsins með skipulagsbreytingu og fækkun starfsfólks hafi verið að hagræða í rekstri og lækka rekstrarkostnað en það hafi verið nauðsynlegt í ljósi slæmrar stöðu bæjarsjóðs í kjölfar efnahagshrunsins. Það sjónarmið sem fyrst og fremst hafi ráðið því hvaða stöðugildi hafi verið lögð niður hafi verið að verkefni viðkomandi starfsmanna hefðu dregist það mikið saman að ekki hafi lengur verið þörf fyrir stöðugildin. Bæjarstjórn hafi samþykkt nýtt skipurit en ákvörðun um einstök stöðugildi hafi verið tekin af bæjarstjóra og viðkomandi sviðsstjórum. Verkefni sem áður hafi tilheyrt þeim stöðugildum sem lögð hafi verið niður hafi ekki verið til staðar í þeim mæli og þegar upphaflega var ráðið í þau. Að því marki sem verkefnin hafi enn verið til staðar við skipulagsbreytingu hafi þau verið flutt til annarra starfsmanna. Enginn starfsmaður hafi verið ráðinn á umhverfissviði frá því að skipulagsbreytingin hafi átt sér stað.

Að auki vill Kópavogsbær koma því á framfæri að frá hruni efnhagslífsins haustið 2008 hafi Kópavogsbær þurft að grípa til margvíslegra aðgerða til að spara í rekstri. Meginástæðurnar fyrir kröfu um sparnað séu þrjár. Í fyrsta lagi hafi tekjur bæjarins dregist saman að raungildi. Í öðru lagi hafi skuldir sveitarfélagsins vaxið mjög mikið. Í þriðja lagi hafi útgjöld til einstakra málaflokka vaxið s.s. fjárhagsaðstoð og sé sá vöxtur óumflýjanlegur sökum þess ástands sem ríki í íslensku samfélagi. Í bréfi sveitarfélagsins er svo gerð nánari grein fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og þeim aðgerðum er það hefur þurft að grípa til til að bregðast við efnhagshruninu. Kemur þar m.a. fram að við gerð fjárhagsáætlunar 2011 hafi bæjarstjórn Kópavogs enn og aftur verið nauðsynlegt að leita sparnaðar og hagræða í rekstri. Þegar hefði verið gengið hart að ýmsum málaflokkum og við afgreiðslu áætlunarinnar hafi bæjarstjórn m.a. gert kröfu um hagræðingu í stjórnsýslu bæjarins. Samkvæmt áætluninni hafi verið gert ráð fyrir lækkun launakostnaðar að upphæð 60 milljónum króna á árinu. Ljóst hafi verið að slíkri hagræðingu yrði ekki náð í stjórnsýslunni nema með uppsögnum starfsfólks. Við breytingar á skipuriti bæjarins sem bæjarstjórn hafi samþykkt á fundi sínum þann 25. janúar 2011 hafi verið leitast við að ná fram hagræðingu í rekstri en jafnframt horft til þess að spara með því að draga úr þjónustu og starfsemi. Starfsemi bæjarins hafi fyrir breytingarnar verið skipt niður í sex svið en nú séu þau fjögur. Þannig hafi verið fækkað í yfirstjórn bæjarins og náð fram hagræðingu í starfseminni.

Rétt er að taka fram að Kópavogsbær hefur fært fram ýmis fleiri rök og málsástæður máli sínu til stuðnings sem ráðuneytið telur ekki nauðsynlegt að rekja hér en hefur haft í huga við úrlausn málsins.

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

1.         Ráðuneytið telur rétt þegar í upphafi að víkja að ágreiningi málsaðila aðlútandi ráðningarsamningi G við Kópavogsbæ. Óumdeilt er í málinu að G hóf störf á framkvæmda- og tæknisviði Kópavogsbæjar, síðar skipulags- og umhverfissviði, þann 30. október 2007 og var þá gerður við hann tímabundinn ráðningarsamningur. Á fundi sínum þann 20. desember 2007 ákvað bæjarráð Kópavogs svo að G yrði fastráðinn í starf verkefnisstjóra á bæjarskipulagi framkvæmda- og tæknissviðs. Aðila greinir hins vegar á um hvort í kjölfarið hafi verið gerður formlegur ráðningarsamningur við hann.

Ekki verður leyst úr þeim ágreiningi með úrskurði ráðuneytisins. Í ljósi þess að fyrir liggur að bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 20. desember 2007 að G skyldi ráðinn í starf verkefnisstjóra á bæjarskipulagi framkvæmda- og tæknisviðs telur ráðuneytið hins vegar rétt að miða við að hann hafi verið fastráðinn frá því tímamarki. Ráðuneytið tekur þó fram að ekki verður séð að ágreiningur um þetta atriði geti haft áhrif á lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

2.         Það verður ráðið af gögnum málsins G telji að þær breytingar sem gerðar voru á skipuriti Kópavogsbæjar og tóku gildi þann 1. febrúar 2011 og uppsagnir starfsfólks í kjölfarið hafi ekki byggst á nauðsyn eða verið undirbúnar á forsvaranlegan hátt. Þá hefði mátt ná fram þeim sparnaði sem var markmið umræddra breytinga á annan hátt. Þá telur G einnig að umrædd stöðugildi hafi ekki verið lögð niður heldur hafi störfin verið færð til annarra starfsmanna.

Af því tilefni tekur ráðuneytið fram að mat Kópavogsbæjar á nauðsyn þess að grípa til sparnaðaraðgerða í rekstri sveitarfélagsins í ljósi efnhagsþrenginga eða mat sveitarfélagsins á því hvaða aðferðir væru best fallnar til þess að ná því markmiði verður ekki endurskoðað af ráðuneytinu. Verður þannig að játa sveitarfélögum töluvert svigrúm til þess að hagræða í rekstri sínum, eftir atvikum með sameiningu stofnana, breytinga á skipuriti sveitarfélagsins, eða uppsögnum starfsfólks. Slíkar breytingar þurfa þó ávallt að vera undirbúnar á forsvaranlegan hátt og byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Jafnframt verður að gæta að þeim reglum stjórnsýsluréttar, skráðum sem óskráðum, við kunna að eiga í hverjum tilviki, s.s. rannsóknarskyldu og meðalhófsreglu.

Á fundi sínum þann 25. janúar 2011 samþykkti bæjarstjórn Kópavogsbæjar breytingar á skipuriti í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Breytingin fól m.a. í sér að skipulags- og umhverfissvið og framkvæmda- og tæknisvið voru sameinuð í umhverfissvið. Var þremur starfsmönnum af hvoru sviði í kjölfarið sagt upp. Munu slíkar breytingar hafa verið í samræmi við málefnasamning Lista Kópavogsbúa, Næsta besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna í Kópavogi, sem m.a. er lýst í fundargerð fundar bæjarstjórnar Kópavogs þann 15. júní 2010. Þar kemur m.a. fram undir liðnum Fjármál að helstu áherslur séu endurskipulagning skulda og lækkun greiðslubyrði, úttekt á fjármálum Kópavogs, hagræðing í stjórnsýslu og rekstri bæjarsins, endurskoðun skipurits Kópavogs með hagræðingu í huga og fækkun nefnda og einföldun stjórnsýslu. Mun Kópavogsbær hafa óskað eftir því að ráðgjafafyrirtækið KPMG gerði úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins og gerði tillögur um mögulegar breytingar á skipuriti. Samkvæmt upplýsingum Kópavogsbæjar var stuðst við þær tillögur en endanleg útfærsla þó örlítið frábrugðin þeim.

Að mati ráðuneytisins er ekkert það fram komið í máli þessu sem bendir til þess að umræddar breytingar á skipuriti Kópavogsbæjar hafi ekki verið undirbúnar á faglegan og forsvaranlegan máta. Ekki verður heldur annað séð heldur en að málefnalegar ástæður hafi búið þeim að baki. Ítrekar ráðuneytið í því sambandi að játa verður sveitarfélögum svigrúm til þess að meta þörf á breytingum á stjórnsýslu þeirra og á hvaða hátt slíkar breytingar verða framkvæmdar. Að sama skapi verður mat á verkefnastöðu á einstökum sviðum eða deildum sveitarfélags og hvar sé svigrúm til niðurskurðar ekki endurskoðað af ráðuneytinu. Verður enda að telja að sveitarfélagið sjálft sé í bestri aðstöðu til að leggja mat á umfang starfsemi sinnar. Telur ráðuneytið jafnframt ljóst að uppsögn G úr starfi hans hafi verið hluti af almennum aðgerðum Kópavogsbæjar og er ekkert fram komið sem bendir til þess að þær hafi beinst sérstaklega að honum eða öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins. Þá er heldur ekkert komið fram í máli þessu sem bendir til þess að gengið hafi verið lengra í uppsögnum starfsfólks heldur en nauðsyn bar til í ljósi þeirrar hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins sem stefnt var að.

3.         Af hálfu G er því haldið fram að starf hans hafi í raun ekki verið lagt niður heldur fært til annarra starfsmanna sveitarfélagsins. Af hálfu Kópavogsbæjar kemur fram að það sé vissulega rétt að ekki hafi öll verkefni horfið sem áður voru á borði G. Verkefnin hafi hins vegar dregist verulega saman og því þurfi ekki sama starfsmannafjölda til að sinna þeim. Stöðugildi G hafi verið lagt niður og enginn starfsmaður ráðinn í hans stað. Í skýringum sveitarfélagsins kemur ennfremur að verkefnin sem áður hafi tilheyrt þeim stöðugildum sem lögð hafi verið niður hafi ekki lengur verið til staðar í sama mæli og þegar upphaflega var ráðið í þau. Að því marki sem verkefnin hafi enn verið til staðar við skipulagsbreytingu hafi þau verið flutt til annarra starfsmanna. Enginn starfsmaður hafi verið ráðinn á umhverfissvið frá því að skipulagsbreytingin hafi átt sér stað.

Í ljósi skýringa sveitarfélagsins telur ráðuneytið ljóst að þau verkefni sem G hafði áður á hendi hafi verið færð til annarra starfsmanna umhverfissviðs eftir umræddar breytingar á skipuriti sveitarfélagsins enda hafi ekki lengur verið þörf á sama fjölda stöðugilda. Hefur ráðuneytið engar forsendur til þess að efast um þær fullyrðingar sveitarfélagsins. Er því ekkert sem bendir til annars en að stöðugildi G hafi verið lagt niður með umræddum breytingum.

4.         Þá telur ráðuneytið rétt að víkja að því að lokum að ekki er annað að sjá en að rétt hafi verið staðið að uppsögn G að öðru leyti. Bendir ráðuneytið sérstaklega á í því sambandi að samkvæmt 61. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar ræður bæjarstjórn starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá bæjarfélaginu svo sem yfirmenn sviða og forstöðumenn stofnana og fyrirtækja bæjarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Í 62. gr. segir svo að um ráðningu annarra starfsmanna fari eftir reglum sem bæjarstjórn setur.

Í reglum um ráðningar hjá Kópavogsbæ kemur fram listi yfir starfsheiti samkvæmt áðurnefndri 61. gr. og er starf það er G gegndi áður ekki þar á meðal og þurfti bæjarstjórn því ekki að veita honum lausn frá störfum. Uppsagnarbréf G, dags. 27. janúar 2011, er undirritað af sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Kópavogsbæjar og verður því ekki annað talið en að uppsögnin hafi stafað frá réttum aðila og verið í samræmi við fyrirhugaðar breytingar á skipuriti Kópavogsbæjar.

Í ljósi alls framangreinds og þess að ekkert er fram komið í máli þessu sem bendir til þess að uppsögn G hafi verið ólögmæt að öðru leyti er kröfu hans um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hafnað.

Úrskurðarorð

Kröfu G um að ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 27. janúar 2011, um að segja honum upp störfum við skipulags- og umhverfissvið sveitarfélagsins, verði felld úr gildi, er hafnað.

 

                                                           Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum