Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Innviðaráðuneytið

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11070225

Ár 2012, 28. mars er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR11070225

Bente Hansen

gegn

Skeiða- og Gnúpverjahreppi

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 22. júlí 2011 kærði Bente Hansen, (hér eftir nefnd BH) eftirfarandi ákvarðanir skólastjóra Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er fram koma í bréfum hans til BH

  • dags. 27. apríl 2011 um að segja upp ráðningarsamningi við hana, þrátt fyrir að hún væri trúnaðarmaður starfsmanna og 
  • dags. 9. júní 2011 um að hafna kröfu hennar um rétt til biðlauna.

BH krefst að ákvarðanir skólastjórans verði ógiltar.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur (hér eftir nefndur S) krefst þess að synjað verði um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

Kæra er borin fram innan kærufrests.

Kært er á grundvelli 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, þ.e. laga nr. 45/1998.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

BH sem var starfandi kennari og trúnaðarmaður við Þjórsárskóla fékk tvö bréf undirrituð af skólastjóra Þjórsárskóla þann 27. apríl 2011, í öðru bréfinu var henni tilkynnt að starfshlutfall hennar hefði verið lækkað um 20%, en í hinu var henni sagt upp 100% stöðu og henni boðið kennarastarf í 80% starfshlutfalli. Í síðara bréfinu segir m.a.;

,,Eins og fram hefur komið er af rekstrarlegum ástæðum nauðsynlegt að lækka starfshlutfall þitt við Þjórsárskóla um 20%. Vegna þessa er ráðningarsamningi þínum sem kennara við skólann dagsettum 30.06.2010 sem tók gildi 01.08.2010 og hljóðar upp á 100% stöðuhlutfall sagt upp. Uppsögn þessi er með þriggja mánaða fyrirvara miðað við næstu mánaðarmót. Frá og með sama tíma stendur þér til boða kennararstarf við skólann í 80% starfshlutfall. Þú ert vinsamlega beðin um að tilkynna undirritaðri ekki seinna en 15. maí n.k. hvort þú takir þessu boði.“

Telur BH að orðalag bréfsins sé ekki unnt að skilja á annan veg en þann að henni hafi verið sagt upp starfi að fullu, en ekki eingöngu 20% hlutfalli eins og sveitarfélagið heldur fram.

Með bréfi dags. 10. maí 2011 tilkynnti BH að hún myndi ekki taka boði skólans um 80% starfshlutfall og áskildi sér rétt til biðlaun. Því bréfi var svarað af skólastjóranum þann 9. júní 2011 þar sem BH er tilkynnt að hún eigi ekki rétt til biðlauna.

Lögfræðingur BHM og Kennarasambands Íslands ritaði skólastjóra bréf dags. 17. maí 2011 þar sem gerðar eru athugasemdir við uppsögn á starfshlutfalli trúnaðarmanns við Þjórsárskóla og talið að uppsögnin brjóti í bága við 2.-4. mgr. 30. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Lögfræðingurinn og skólastjórinn voru síðan í tölvusamskiptum í lok júní og byrjun júlí sumarið 2011 þar sem lögfræðingurinn óskaði eftir því við skólastjórann að uppsögnin yrði dregin til baka en ekki var orðið við því.

BH vildi ekki una þessu og kærði hún fyrrgreindar ákvarðanir til ráðuneytisins.

Stjórnsýslukæra BH barst ráðuneytinu þann 25. júlí 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 2. ágúst 2011 var S gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 24. ágúst 2011. 

Með bréfi ráðuneytisins dags. 30. ágúst 2011 var BH gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 30. september 2001.

Með bréfi dags. 3. október 2011 gaf ráðuneytið S kost á að koma að frekari sjónarmiðum og bárust þau þann 14. október 2011.

Með bréfi dags. 21. október 2011 tilkynnti ráðuneytið aðilum máls um tafir á uppkvaðningu úrskurðar.

Með bréfum dags. 18. og 24. janúar 2012 óskaði ráðuneytið frekari upplýsinga frá BH og S og bárust þær upplýsingar með bréfum dags. 18. janúar og 17. febrúar 2012.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður BH

BH bendir á að hún hafi fengið tvö bréf undirrituð af skólastjóra Þjórsárskóla þann 27. apríl 2011. Í því fyrra var henni tilkynnt að starfshlutfall hennar hefði verið lækkað um 20%, en í hinu síðara var henni sagt upp 100% starfi og henni boðið kennarastarf í 80% starfshlutfalli. Telur hún að ekki sé unnt að skilja orðalag seinna bréfsins öðruvísi en svo að henni hafi verið sagt upp starfi að fullu, en ekki eingöngu 20% hlutfalli. Telur BH að hvorki hafi verið gerðar lítilsháttar breytingar á starfinu eins og lögmaður S heldur fram, né hafi henni verið boðið sambærilegt starf. Því eigi hún rétt til biðlauna, sbr. kjarasamningsákvæði 14.12. Skólastjóra hafi verið gefið tækifæri til að draga uppsögnina til baka en hann hafnað því. BH bendir á að það sé grundvallaratriði að starfsmanni sé ljóst hvort um niðurlagningu eða breytingu á starfi sé að ræða en bréfið sé óljóst hvað þetta varðar og ekki minnst á að um breytingu á starfi sé að ræða.

Bendir BH á að kveðið sé á um biðlaunarétt í kjarasamningi KÍ vegna Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem í grein 14.12. segir:

,,Sé starf lagt niður gildir eftirfarandi um starfsmann sem hóf störf sín sem kennari, námsráðgjafi eða stjórnandi grunnskóla í tíð laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla nr. 72/1996 (sem giltu til og með 31. júlí 2008) eða fyrir gildistöku þeirra og hefur starfað óslitið síðan, enda sé um stöðu í skilningi 14. gr. nefndra laga að ræða:

„Nú er staða lögð niður og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í sex mánuði frá því að hann lét af starfi ef hann hefur verið í þjónustu sveitarfélaga skemur en 15 ár, en í tólf mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá sveitarfélögum.““

BH bendir á að hún hafi í bréfi í maí 2011 tilkynnt skólastjóra að hún myndi ekki taka boði um 80% starf og áskilið sér rétt til biðlauna frá 1. ágúst 2011. Í svarbréfi skólastjórans kemur fram að um breytingu á starfi hafi verið að ræða en orðrétt segir í bréfinu:

,,Orðalag fyrra bréfs sem þér barst átti ekki að gefa til kynna niðurlagningu eða uppsögn. Þar var tilkynnt breyting á starfi og lækkun á starfshlutfalli. Um er að ræða breytingu á starfi en meginreglan er hins vegar sú að starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga.“

BH vísar jafnframt til ákvæðis 14.6 í fyrrgreindum kjarasamningi en þar segir:

,,Skylt er starfsmanni að hlíta því að starfssvið hans sé aukið eða því breytt, enda sé það nauðsynlegt vegna skipulagsbreytingar í viðkomandi starfsgrein eða af öðrum ástæðum.

Ennfremur er honum skylt að taka við annarri sambærilegri stöðu, enda verði föst laun hans og starfsskilyrði ekki lakari við breytinguna ... Mælt er með því að ávallt sé rætt við starfsmann og leitað eftir viðhorfum hans áður en endanleg ákvörðun um breytingu á störfum er tekin.“

BH telur að henni hafi ekki verið skylt að taka við annarri sambærilegri stöðu í skilningi fyrrgreinds kjarasamningsákvæðis, þar sem í fyrsta lagi var hvorki verið að auka starfssvið hennar né breyta og í öðru lagi var um að ræða lakari föst laun við breytinguna. Jafnframt bendir hún á að ekki hafi verið rætt við hana og leitað eftir viðhorfum hennar áður en ákvörðun var tekin. Þá bendir BH á að um stjórnvaldsákvörðun var að ræða og því hafi borið að veita henni andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en það var ekki gert.

Að mati BH snýst álitaefnið um það hvort uppsögn á starfshlutfalli teljist vera „niðurlagning stöðu“ og hvort 80% staða teljist „sambærileg“ við 100% stöðu. Telur BH augljóst að starfshlutfallið sem sagt er upp, hafi verið lagt niður og að 80% starf geti ekki talist sambærilegt við 100% starf, slík breyting sé niðurlagning stöðu í skilningi kjarasamningsákvæðis 14.12. Vísar BH til dóms Hæstaréttar í máli nr. 165/1985, en málavextir voru þeir að staða skrifstofustjóra Hjúkrunarskóla Íslands var lögð niður en starfsmanninum boðið annað starf við hjúkrunarfræðibraut Háskóla Íslands. Í dóminum komi fram að við mat á niðurlagningu stöðu beri að líta til tímamarksins þegar niðurlagning stöðu eða breyting á stöðu á sér stað en þegar niðurlagningin var tilkynnt starfsmanninum og honum boðið annað starf, lá ekki skýrt fyrir að um sambærilegt starf við hið fyrra væri að ræða. Dómurinn lagði því til grundvallar að starfið hefði ekki verið sambærilegt eins og það horfði við starfsmanninum á umræddum tíma.

BH telur að það sama eigi við um hana, þ.e. að það hafi ekki legið skýrt fyrir að um sambærilegt starf væri að ræða við hið fyrra starf hennar. Hún hafi því ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá sveitarfélaginu þar sem 80% starf geti ekki verið sambærilegt við 100% starf eins og áður er vikið að. Bendir BH á að samkvæmt meginreglum vinnuréttarins sé um svo mikla breytingu að ræða að stafsmanni sé rétt að líta á hana sem uppsögn. Auk þess sé það verulegur forsendubrestur fyrir starfi ef starfshlutfall er lækkað um 20%.

BH ítrekar að breyting á starfshlutfalli úr 100% í 80% teljist vera niðurlagning stöðu. Við slíkar aðstæður eigi starfsmaður þann kost að tilkynna að hann líti á breytinguna sem niðurlagningu stöðu og honum sé ekki skylt að taka tilboði vinnuveitandans um nýtt 80% starf þar sem það er ekki sambærilegt fyrra starfinu. BH telur því ljóst að hún eigi biðlaunarétt samkvæmt nánari ákvæðum kjarasamningsins.

BH áréttar að henni hafi ekki verið boðin biðlaun í 20% starfshlutfallinu, hins vegar hafi samkennara hennar verið tilkynnt um biðlaunarétt sem svarar til 20% starfshlutfalls í 12 mánuði í sama bréfi og starfshlutfalli hans var sagt upp. Telur BH slíkt brot á grundvallarreglu um jafnræði.

BH vísar á bug rökum lögmanns S um að hún hafi árið 2010 verið í 80% starfshlutfalli og ítrekar að hún hafi verið í 100% starfi samkvæmt gildandi ráðningarsamningi.

BH bendir á að í lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sé fjallað um hlutverk og vernd trúnaðarmanna, en í 2.-4. mgr. 30. gr. laganna segir:

,,Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hefur valist til þessa trúnaðarstarfs.
Óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
Sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skal hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

Þá bendir BH jafnframt á að vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda sé hornsteinn þeirra reglna sem gilda um trúnaðarmenn en reglunni er ætlað að tryggja það að trúnaðarmenn geti sinnt skyldum sínum án þess að eiga á hættu að vera sagt upp störfum vegna þeirra. Telur BH að sömu reglur gildi um uppsögn/lækkun starfshlutfalls og við uppsögn úr starfi, því ella sé hægt að misnota það til þess að veikja stöðu trúnaðarmanna. Sem dæmi megi nefna að sú regla gildi að óheimilt sé að flytja trúnaðarmenn í lægri launaflokk meðan þeir gengi starfi trúnaðarmanns, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986. Verndin snúi að því að girða fyrir að hægt sé að refsa trúnaðarmanni með einhverjum hætti fyrir að hann sinni hlutverki sínu lögum samkvæmt. Þá hefur Félagsdómur í dómum sínum fjallað um vernd trúnaðarmanna í starfi og hafi þannig mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn, sbr. nýlegan dóm Félagsdóms nr. 6/2011.

Þá kemur fram hjá BH að alloft hafi reynt á trúnaðarmannaþáttinn hjá henni við Þjórsárskóla. Í því sambandi bendir hún á að varaformaður félags grunnskólakennara hafi unnið greinargerð varðandi aðstöðu til íþrótta- og sundkennslu við skólann veturinn 2010 að beiðni oddvita sveitarfélagsins. Hún hafi síðan þann 20. apríl 2011 sent bréf til sveitarstjórnar þar sem hún óskaði eftir betrumbótum á kennslu- og geymsluaðstöðu en viku síðar hafi henni borist uppsögn.

BH gerir jafnframt athugasemd við regluna „síðastur inn og fyrstur út“, þ.e. þau rök sveitarfélagsins að hún hafi fengið uppsögn á starfshlutfalli þar sem hún hefði verið með nýjasta ráðningarsamninginn. Sú regla sé í engu samræmi við meginreglu 4. mgr. 30. gr. um kjarasamninga opinberra starfsmanna um að trúnaðarmaður skuli sitja fyrir um að halda vinnunni og að hann eigi að ganga fyrir um endurráðningu.

BH bendir einnig á að sama dag og hún fékk uppsagnarbréf frá skólastjóra Þjórsárskóla hafi verið birt auglýsing um lausa kennarastöðu við skólann, stöðu sem skiptist í 80% starfshlutfall sem sérkennari og 20% starfshlutfall í verkefnastjórnun.

Loks telur BH að tilefnið og rökin sem tilgreind séu í uppsagnarbréfinu sýni ekki fram á ríkar ástæður fyrir breytingunni enda sé á sama tíma auglýst eftir kennara, sbr. hér að framan. Þá bendir BH einnig á að hún, trúnaðarmaðurinn, sé annar af tveimur kennurum við skólann sem sæti skerðingu starfshlutfalls en aðrir kennarar við skólann haldi sínu hlutfalli. 

Í ljósi alls þessa telur BH ljóst að uppsögn á starfshlutfalli trúnaðarmanns brjóti í bága við 2.-4. mgr. 30. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.

IV.       Málsástæður S

S hafnar því að orðalag uppsagnarbréfsins hafi verið óskýrt þannig að það færi á milli mála hver réttaráhrif uppsagnar á 20% hluta starfsins væru. Þvert á móti hafi bréfið verið afar skýrt og engum vafa undirorpið hver væri þýðing þess. Þá sé fráleitt að líta þannig á að lækkun starfshlutfalls geti ein og sér talist fela í sér niðurlagningu stöðu eins og virðist vera skilningur BH.

S mótmælir þeirri staðhæfingu BH að henni hafi verið sagt upp störfum, henni hafi einungis verið sagt upp 20% af starfi hennar. Starf hennar hafi ekki verið lagt niður heldur hafi verið gerðar lítilsháttar breytingar á starfinu sem höfðu það í för með sér að starfshlutfallið varð 80% í stað 100%. Um nauðsynlegar breytingar hafi verið að ræða, sem BH hafi verið fullkunnugt um, vegna fyrirkomulags kennslu við skólann og voru breytingarnar fullkomlega heimilar samkvæmt kjarasamningum sem BH er aðili að. BH hafi því ekki verið boðin ný staða heldur hafi henni verið boðið að starfa í sömu stöðu en með lægra starfshlutfall. Bendir S á að BH hafi áður verið í 80% starfi en haustið 2010 hafi hlutfallið verið aukið í 100%.

S bendir á að sú hagræðing sem gerð hafi verið í rekstri skólans og tók gildi í upphafi skólaárs 2011 hafi falist í því að nýta betur það fé sem varið sé til skólastarfsins. Ákveðið hafi verið að lækka starfshlutfall almennra kennara, vegna þess að starfskraftar þeirra hafi ekki nýst skólanum nægilega vel og nota það fé sem þannig sparaðist í að ráða sérkennara. Vorið 2011 hafi verið samþykkt að skólastjóri Þjórsárskóla, sem sinnt hafði sérkennslu, færi í launalaust leyfi næstu skólaár og því hafi verið nauðsynlegt að ráða sérstakan sérkennara í 80% starf auk þess sem um hafi verið að ræða viðbrögð við kröfum frá fulltrúum foreldra í skólanefnd um að auka þyrfti sérkennslu.

S telur að hann hafi ekki brotið gegn jafnræðisreglu þegar öðrum starfsmanni voru boðin biðlaun en ekki BH, þar sem sá starfsmaður hafi verið ráðinn til skólans árið 2001. Um ákvörðun þá er snéri að þeim starfsmanni gildi gr. 14.2 í kjarasamningi um biðlaunarétt, enda hafi viðkomandi starfsmaður hafið störf í gildistíð laga nr. 72/1976 og starfað í 89% hlutfalli allt þar til starfshlutfall hans hafi verið lækkað í 67% haustið 2011. BH hafi hins vegar hafið 80% starf við Þjórsárskóla þann 1. ágúst 2007 sem var í gildistíð þessara eldri laga, sem giltu til 31. júlí 2008, en starf hennar hafi verið hækkað upp í 100% hlutfall haustið 2010. Þetta aukna starfshlutfall hafi átt sér stað í gildistíð yngri laga og hafi sveitarfélaginu verið heimilt að segja því upp án biðlaunaréttar enda hafi BH boðist að halda því 80% starfi sem hún hafi áður gegnt.

Þá hefur S upplýst að við mat á því hvaða starfsmenn þyrftu að sæta lækkun á starfshlutfalli hafi verið miðað við það hvaða starfskraftar myndu nýtast skólanum best en að öðru leyti hafi verið gætt jafnræðis og leitast við að segja upp starfshlutfalli þeirra sem höfðu hæst starfshlutfall. Meðalhófs hafi verið gætt við uppsagnirnar og starfshlutfall hvers og eins ekki minnkað meira en nauðsyn krafði.

Uppsögn á 20% starfsins hafi ekkert með það að gera að BH var trúnaðarmaður starfsmanna. Ástæða uppsagnarinnar hafi verið endurskipulagning og hagræðing í rekstri skólans eins og BH hafi verið gert ljóst í upphafi. Við þær aðgerðir hafi ekki reynt með neinum hætti á ábyrgð og hlutverk BH sem trúnaðarmanns hjá Þjórsárskóla enda ekki hægt að segja að um hópuppsagnir hafi verið að ræða, sbr. sérstakt hlutverk trúnaðarmanna við þær aðstæður skv. 5. og 6. gr. laga nr. 63/2000 og ennfremur hlutverk trúnaðarmanna skv. lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.  

Þá fellst S ekki á það sjónarmið BH að brotið hafi verið gegn reglum um vernd trúnaðarmanns, þ.e. gegn 2.-4. mgr. 30. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Jafnframt mótmælir S því að þær röksemdir sem lágu til grundvallar niðurstöðu Félagsdóms í máli nr. 6/2011 eigi við hér enda einungis um að ræða uppsögn á 20% starfsins en ekki stórfelldar aðgerðir og hópuppsagnir þar sem reyni á hlutverk trúnaðarmanns eins og áður er fram komið. Verði ekki með nokkrum hætti séð að unnt sé að rekja uppsögn BH á 20% starfs hennar til slíkra viðhorfa. Þá hafnar S því að Þjórsárskóla hafi borið að láta BH sitja fyrir um vinnu vegna þess að hún var trúnaðarmaður.

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Álitaefni máls þessa er tvíþætt. Annars vegar lýtur það að því hvort BH hafi átt rétt til biðlauna og hins vegar að því hvort óheimilt hafi verið að segja upp ráðningarsamningi við hana þar sem hún gegndi stöðu trúnaðarmanns.

Ráðuneytið telur rétt áður en fjallað er um fyrrgreind álitaefni að víkja að því að í andmælum BH við umsögn S kom fram að hún teldi að í bréfi skólastjóra til hennar, dags. 27. apríl 2011, hafi ekki verið sýnt fram á að ríkar ástæður væru til þeirra breytinga á starfsmannahaldi sem farið var í. Varðandi þessa málsástæðu vill ráðuneytið taka fram að ekki verður annað séð en að ástæður þær sem S hefur gefið upp hafi verið þess eðlis að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að standa að þeim breytingum sem það kaus að gera við skólann. Er þá m.a. að líta til þess að stjórnvöldum ber að gæta hagræðis í störfum sínum og leita leiða til þess að starfsemi þeirra samrýmist því markmiði. Því verður að telja að ákvörðunin um breytingu á starfi BH hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og gætt hafi verið meðalhófs en S hefur bent á að leitast hafi verið við að segja upp starfshlutfalli þeirra sem höfðu hæst starfshlutfall og fær það stoð í gögnum málsins.

Biðlaunaréttur. Í málflutningi sínum varðandi biðlaun vísar BH til gr. 14.2 í kjarasamningi KÍ vegna Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga er tók gildi 1. maí 2011 en í málinu liggur fyrir að ákvörðun S um lækkun á starfshlutfalli BH var tilkynnt henni með bréfi, dags. 27. apríl 2011, þ.e. áður en sá kjarasamningur sem BH vísar til tók gildi. Sá kjarasamningur var því ekki í gildi þegar það tilvik sem hér um ræðir átti sér stað heldur kjarasamningur milli sömu aðila er tók gildi 1. júní 2008. Um biðlaun er fjallað í grein 1.12 þess samnings en ákvæðið er efnislega samhljóða hinu nýja ákvæði í grein 14.2. Ráðuneytið telur rétt að geta framangreinds þótt það hafi ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa.

Samkvæmt gögnum málsins hóf BH störf hjá Þjórsárskóla árið 2007 í 80% starfshlutfalli. Árið 2010 var gerður við hana nýr ráðningarsamningur þar sem starfshlutfallið var hækkað í 100%. Ráðuneytið telur að ráðningarsamband BH og S hafi því staðið óslitið frá árinu 2007.

Í kjarasamningi aðila er skýrt kveðið á um það að sé starf lagt niður skuli starfsmaður, sem hóf störf sem kennari, námsráðgjafi eða stjórnandi grunnskóla fyrir 1. ágúst 2008, hafi hann starfað óslitið síðan, jafnan fá föst laun er starfanum fylgdu greidd í sex mánuði frá því að hann lét af starfi ef hann hefur verið í þjónustu sveitarfélaga skemur en 15 ár en í tólf mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá sveitarfélögum.

Í málinu liggur fyrir að þann 29. apríl 2011 var öðrum starfsmanni (hér eftir nefndur A) sem ráðinn hafði verið til Þjórsárskóla árið 2001 tilkynnt að starfshlutfall hans yrði lækkað sem næmi 22%. Var honum jafnframt boðið kennarastarf við skólann í 67% starfshlutfalli. Í bréfi skólastjóra til A segir að um fyrrgreinda ákvörðun gildi ,,...að öðru leyti gr. 14.2 í kjarasamningi um biðlaunarétt, en þó þannig að almennur 3ja mánaða uppsagnarfrestur dregst frá biðlaunatíma sem verður því 9 mánuðir frá og með 1. september að telja. Takir þú við aukastarfi eða auknu starfshlutfalli í þjónustu sveitarfélags á umræddu tímabili koma launagreiðslur fyrir það til frádráttar biðlaunagreiðslum, sbr. niðurlag í nefndri kjarasamningsgrein.“

Óumdeilt er að sveitarfélagið tilkynnti starfsmanninum A að hann ætti rétt til biðlauna, sbr. tilvitnað bréf hér að framan, en tilkynnti BH ekki um slíkan rétt í sambærilegu bréfi og hafnaði síðan kröfu hennar þar að lútandi á þeim grundvelli að starfshlutfall hennar hefði verið aukið í gildistíð yngri laga og því hafi verið heimilt að segja hinu aukna starfshlutfalli upp án biðlaunaréttar. BH bauðst að halda 80% starfshlutfalli en hún hafði upphaflega, þ.e. árið 2007, verið ráðin í 80% starfshlutfall eins og áður hefur verið vikið að.

Ljóst er að BH uppfyllti það skilyrði kjarasamningsákvæðisins eins og A að hafa hafið störf við skólann fyrir 1. ágúst 2008 og starfað þar óslitið síðan. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að starfshlutfall BH var aukið um 20% eftir 1. ágúst 2008. Verður að telja að áunninn biðlaunaréttindi BH takmarkist við það starfshlutfall sem hún gegndi fyrir 1. ágúst 2008, þ.e. þegar unnt var að ávinna sér slíkan rétt. Verður ekki fallist á að aukning starfshlutfalls BH síðar hafi skapað henni frekari rétt til biðlauna enda var þeim er hófu störf eftir 1. ágúst 2008 ómögulegt að ávinna sér slíkan rétt.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að synjun skólastjóra Þjórsárskóla á kröfu BH um rétt til biðlauna hafi verið lögmæt.

Störf trúnaðarmanns. Óumdeilt er að BH gegndi starfi trúnaðarmanns á þeim tíma sem henni var tilkynnt að ráðningarsamningi hennar væri sagt upp en í 30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir m.a. um trúnaðarmenn:

„Gefa skal trúnaðarmanni upplýsingar um ef staða losnar á vinnustað hans eða í ráði er að bæta við starfsmanni. Jafnframt skal láta honum í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfann.

Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hefur valist til þessa trúnaðarstarfs.

Óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
Sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skal hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.“

BH heldur því fram að hún hafi verið látin gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður þar sem alloft hafi reynt á trúnaðarmannaþátt hennar. Í því sambandi nefnir hún tvö tilvik er bæði varða umbætur og aðstöðu til íþrótta- og sundkennslu. Ráðuneytið fellst ekki á þá ályktun BH enda verður ekki séð að atvik þau sem hún vísar til standi í neinu sambandi við þær aðgerðir sveitarfélagsins að lækka starfshlutfall kennara við Þjórsárskóla. Ráðuneytið telur því ekkert fram komið sem bendir til þess að BH hafi verið látin gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður.

Ráðuneytið telur eins og vikið var að hér að framan að ákvörðun S varðandi breytingar á starfsmannahaldi, þ.e. að minnka starfshlutfall kennara, hafi stuðst við lögmæt sjónarmið enda almennt heimilt eins og S kaus að gera að taka mið af sjónarmiðum um starfsaldur og hvaða starfsmenn nýtist stofnuninni best. Ráðuneytið telur að sú staðreynd að BH var trúnaðarmaður breyti engu hér um. Samkvæmt gögnum málsins var í stað BH ráðinn starfsmaður í 70% starfshlutfall en það styður röksemdir S um að ekki hafi verið rekstrarlegt svigrúm til þess að halda úti 100% stöðu. 

Ráðuneytið telur því ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að ákvörðun S um lækkun starfshlutfalls BH sem kennara við Þjórsárskóla hafi átt rætur að rekja til starfa hennar sem trúnaðarmaður í umræddum skóla eða hún hafi verið látin gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu Bente Hansen um að ákvörðun skólastjóra Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, dags. 9. júní 2011, þess efnis að synja henni um rétt til biðlauna hafi verið ólögmæt.

Hafnað er kröfu Bente Hansen um að skólastjóra Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafi í apríl 2011 verið óheimilt að lækka starfshlutfall hennar sem kennara við skólann þar sem hún sinnti starfi trúnaðarmanns starfsmanna á þeim tíma.

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir                                                                                                                                   Hjördís Stefánsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum