Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2012 Innviðaráðuneytið

Úrskurður í máli nr. IRR11090091

Ár 2011, þann 22. september er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 11090091

Gunnar Dungal

gegn

Mosfellsbæ

 

I.       Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 8. september 2011, kærði Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. Gunnars Dungal (hér eftir nefndur GD) þá ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar að hafna kröfu hans um lækkun á verði fyrir heitt vatn fyrir jörð hans, Dalland.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Í kæru GD kemur m.a. fram að hann hafi reynt að fá fá lækkun á vatnsreikningi frá Mosfellsbæ, og leiðréttingu á slíkum reikningum aftur í tímann. Bæjarráð Mosfellsbæjar hafi hins vegar hafnað þeirri beiðni þar sem slíkt ætti sér ekki stoð í gjaldskrá. Byggir GD á því að þegar Hitaveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) lagði hitaveituleiðslu frá Nesjavöllum til Reykjavíkur hafi hún að hluta verið lögð um jörð hans, Dalland, og vegna þeirrar röskunar hefði Hitaveitan samþykkt að útvega GD heitt vatn til kyndingar húsa á jörðinni. Hitaveitan hafi séð fyrir afhendingarstað og sett upp mæli en GD séð um á eigin kostnað að leggja heimæð frá afhendingarstað í íbúðarhúsið og síðar í útihús á jörðinni. Hitaveita Reykjavíkur hafi hins vegar ekki haft heimild til að selja GD vatnið vegna einkaleyfis Mosfellsbæjar á sölu og dreifingu á heitu vatni í sveitarfélaginu og hafi GD þá samið við Mosfellsbæ um það. Þegar GD hafi samið við Hitaveitu Reykjavíkur árið 1987 hafi honum verið gert ljóst að Hitaveitan myndi ekki tryggja stöðuga afhendingu vatns og það yrði nauðsynlegt að GD viðhéldi öðrum upphitunarkosti til vara. Í kærunni kemur ennfremur fram að GD hafi fengið þær upplýsingar að það verð sem Mosfellsbær rukkar fyrir heitt vatn skiptist þannig að 40% renni til Orkuveitu Reykjavíkur sem heildsala en Mosfellsbær fái 60% í sinn hlut. Gagnvart öðrum íbúum Mosfellsbæjar komi bærinn því fram sem smásali á vatni sem viðhaldi dreifikerfinu og beri af því kostnað. GD heldur því fram að svo sé ekki í hans tilviki þar sem bærinn hafi engan kostnað af notkun hans á heitu vatni. Þá bendir GD einnig á að frá árinu 1990 hafi margsinnis komið til skerðingar á heitu vatni til hans án viðvörunar, vegna einhliða aðgerða Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hætt hafi verið að flytja vatn tímabundið um Nesjavallaleiðsluna. Byggir GD á því að hann fái ekki þá þjónustu frá Mosfellsbæ er gjaldinu, er hann greiðir til sveitarfélagsins fyrir vatn, sé ætlað að standa undir. Að hans mati feli innheimta gjaldsins því í sér skattheimtu sem ekki eigi sér viðhlítandi stoð í lögum, sbr. 40. gr. og 77. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Fallist ráðuneytið ekki á, að í þessu tilviki sé um skattheimtu að ræða heldur þjónustugjöld, telur GD að gjaldtakan styðjist ekki við næga lagastoð.

Eftir að hafa sent bréf þessa efnis til framkvæmdastjóra umhverfissviðs Mosfellsbæjar, dagsett 13. apríl 2010 og annað bréf til bæjarstjóra Mosfellsbæjar, dagsett 26. apríl s.á. var málið tekið fyrir á fundum bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 14. maí 2010 og aftur 1. júlí 2010. Komst bæjarráð að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að fallast á beiðni um lækkun á reikningum fyrir heitt vatn. Það var þó talið eðlilegt að veita afslátt vegna þeirrar skerðingar á heitu vatni sem jörð GD, Dalland, verður fyrir. Af gögnum málsins verður ráðið að GD hafi verið tilkynnt um ákvörðun bæjarráðs með bréfi, dags. 4. ágúst 2010, sem barst honum 20. ágúst s.á. Með stjórnsýslukæru, dags. 8. sept. 2011, var umrædd ákvörðun bæjarráðs svo kærð til ráðuneytisins svo sem fyrr segir.

Rétt er að taka fram að í kæru GD koma fram ýmsar fleiri málsástæður og lagarök sem ekki þykir ástæða til að rekja hér frekar.

III.    Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. kemur svo fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Af gögnum málsins verður svo sem fyrr segir ráðið að GD hafi verið tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi dagsettu þann 4. ágúst 2010 sem barst honum þann 20. ágúst s.á. Var ákvörðunin svo kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 8. september 2011. Ljóst er að liðið er meira en ár síðan tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun en skv. 2. mgr. 28. gr. skal ekki sinna kærum sem berast svo seint. Ekki er gert ráð fyrir að afsakanlegar eða veigamiklar ástæður geti réttlætt frávik frá ákvæði 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga (sjá m.a. álit umboðsmanns Alþingis frá 26. október 2000 í máli nr. 2770/1999 og niðurstöðu hans í máli nr. 6485/2011). Rétt er að taka fram í því sambandi að það að stjórnvald vanræki að leiðbeina aðila um kæruheimild, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, kann að teljast afsakanleg ástæða í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimilar að kæra verði tekin til meðferðar þó að hún berist að loknum hinum almenna þriggja mánaða kærufresti (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 272), en slíkt getur hins vegar ekki haggað fortakslausu ákvæði 2. mgr. 28. gr. um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að tilkynnt var um ákvörðun. Eiga undantekningarheimildir 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þannig ekki við ef meira en ár er liðið frá því að aðila er tilkynnt um ákvörðun. Telur ráðuneytið óhjákvæmilegt af þeim sökum að vísa málinu frá.

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru Ásgeirs Þórs Árnasonar hrl., f.h. Gunnars Dungal á ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar um að hafna kröfu Gunnars Dungal um lækkun á verði fyrir heitt vatn fyrir jörð hans Dalland, er vísað frá ráðuneytinu.

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum