Hoppa yfir valmynd
19. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á greiðslu táknmálstúlkaþjónustu

Ár 2014, fimmtudaginn 19. júní, er kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið og málsmeðferð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst 5. maí 2014 bréf frá X, formanni Hagsunasamtaka A f.h. Y, (hér eftir nefnd kærandi), þar sem kvartað er yfir þeirri ákvörðun Háskólans í Reykjavík (hér eftir nefndur skólinn), sem tilkynnt var 11. október 2013, um að synja kæranda um greiðslu táknmálstúlkaþjónustu í BA námi við lagadeild skólans. Með hliðsjón af gögnum málsins er erindi kæranda skilið þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og málsaðstæður.

Málavextir eru þeir að 24. júní 2013 undirrituðu kærandi og formaður námsráðs lagadeildar skólans samning um BA nám og námsframvindu kæranda við lagadeild skólans. Í samningnum var sérstaklega tilgreint að kostnaður vegna táknmálstúlkaþjónustu og aðstoðarmanns kæranda verði ekki greiddur af skólanum. Í kjölfar bréfaskipta á milli A og skólans hafnaði skólinn kröfum kæranda um greiðslu táknmálstúlkaþjónustu með bréfi, dags. 11. október 2013. Í bréfinu kom fram að skólinn hefði ekki fjárhagslega burði til að mæta kostnaði við sértæka þjónustu við fatlaða nemendur. Kærandi kærði synjun skólans til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sem starfar skv. 20. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, sbr. reglur nr. 1152/2006. Áfrýjunarnefndin vísaði kærunni frá með úrskurði uppkveðnum 24. mars 2014 og vísaði í rökstuðningi til þess að ágreiningur um kostnað af táknmálstúlkun félli ekki undir valdsvið áfrýjunarnefndarinnar.

Málefni háskóla heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti skv. d-lið 2. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013, með áorðnum breytingum. Háskólinn í Reykjavík hlaut 22. apríl 2008 viðurkenningu ráðuneytisins skv. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006 og reglum um viðurkenningu háskóla, nr. 1067/2006, í tilteknum undirflokkum fræðasviðs félagsvísinda, þ.m.t. lögfræði.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður eru hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda:

Af hálfu kæranda er til þess vísað að skólinn hafi hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra skv. II. kafla laga um háskóla, nr. 63/2006 og að í gildi sé þjónustusamningur milli mennta- og menningarmálaráðueytisins og skólans um fjárframlög til kennslu og rannsókna á grundvelli heimildar í 1. mgr. 21. gr. sömu laga. Kærandi vísar til þess að skv. 6. mgr. 19. gr. sömu laga beri skólanum að veita honum sérstakan stuðning í námi, þ.m.t. sérfræðilega aðstoð og viðeigandi aðbúnað eftir því sem þörf krefji. Kærandi telur að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við framangreint ákvæði laga nr. 63/2006 og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Að auki sé ákvörðunin í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Hin kærða ákvörðun er tekin af Háskólanum í Reykjavík þar sem kærandi stundar laganám. Eins og fyrr segir hlaut skólinn viðurkenningu skv. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006 og reglna um viðurkenningu háskóla, nr. 1067/2006, fyrir kennslu og rannsóknir í lögfræði sem undirflokk fræðasviðsins félagsvísindi. Með heimild í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 63/2006 hafa ráðuneytið og skólinn gert með sér samning um kennslu og rannsóknir, dags. 29. desember 2011, sem gildir fyrir 2012-2016. Í grein 2.1 í samningnum segir að skólinn veiti nemendum nauðsynlega þjónustu og aðbúnað sem almennt tíðkist m.a. vegna náms í lögfræði. Í grein 3.1 er áskilið að skólinn hafi á vefsíðu sinni greinargóðar upplýsingar um réttindi og skyldur nemenda, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra. Í grein 3.2 kemur fram að innritun nemenda sé á ábyrgð skólans sbr. VII. kafla laga nr. 63/2006. Í grein 4.1 segir að skólinn beri ábyrgð á að þjónusta við nemendur sé fagleg og fullnægi kröfum um gæði og sé í samræmi við lög. Í grein 5.1 kemur fram að rekstrarframlög ríkisins til skólans séu ákveðin í fjárlögum hvers árs sbr. 21. gr. laga nr. 63/2006 og 3. mgr. 21. gr. laga um fjárreiður ríkisisins, nr. 97/1998. Í grein 5.4 er kveðið á um undirbúning fjárlaga um árlegt rekstrarframlag til skólans og viðmiðunarfjölda nemenda. Í viðauka við samning skólans og ráðuneytisins, dags. 29. desember 2011, er lýsing á starfsemi skólans og áherslum. Í kafla 5.1 um stjórnun og skipulag kemur fram að skólinn hafi sett sér stefnu varðandi aðstoð við fatlaða nemendur. Á heimasíðu skólans kemur fram að stefna skólans sé að styðja við alla nemendur þannig að þeir nái að hámarka hæfni sína og auka styrk sinn á námstímanum. Haft sé að leiðarljósi að nemendum með fatlanir, sértæka námsörðugleika og aðrar hamlanir séu sköpuð skilyrði til að taka virkan þátt í starfsemi háskólans. Fram kemur að fyrir nemendur með heyrnarskerðingu sé unnið á einstaklingsmiðaðan hátt. Tæki í kennslustofum bjóði upp á að heyrnarskertir fái magnað upp hljóð úr tækjum og tal kennara. Ekki er fjallað um þjónustu við þá nemendur sem þurfa á táknmálstúlkun að halda vegna heyrnarleysis.

Í 6. mgr. 19. gr. laga nr. 63/2006 er fjallað um þjónustu háskóla við fatlaða nemendur. Þar kemur fram að háskólar skuli veita fötluðum nemendum, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skuli í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefji. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun telur skólinn sig ekki hafa fjárhagslega burði til að mæta kostnaði af nauðsynlegri táknmálstúlkaþjónustu vegna náms kæranda.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 geta tilteknar ákvarðanir háskóla í málum sem varða nemendur sætt kæru til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Í gögnum málsins liggur fyrir úrskurður áfrýjunarnefndarinnar í máli kæranda, dags. 24. mars 2014, þar sem fram kemur að hin kærða ákvörðun falli utan valdsviðs nefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá er Háskólinn í Reykjavík rekinn sem einkahlutafélag og heyrir því ekki stjórnarfarslega undir ráðuneytið.

Í samræmi við framangreint fellur hin kærða ákvörðun utan valdsviðs ráðuneytisins á stjórnsýslustigi og ber því að vísa kærunni frá afgreiðslu í ráðuneytinu eins og fram kemur í eftirfarandi úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun Háskólans í Reykjavík, sem tilkynnt var þann 11. október 20113, um að synja Y um greiðslu táknmálstúlkaþjónustu í BA námi við lagadeild skólans sætir ekki kæru til æðra stjórnvalds og er því vísað frá afgreiðslu í ráðuneytinu.

 

Fyrir hönd ráðherra 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum