Hoppa yfir valmynd
10. mars 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Forgangur að leikskólavist

Vísað er til erindis yðar, sem lýtur að forgangi við innritun leikskólabarna í A skólaárið 2010-2011, en erindið var framsent mennta- og menningarmálaráðuneytinu með bréfi frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, mótt. 6. september 2010. 

 

I.

Í erindi yðar kemur fram að tilefni þess sé að ákveðið hafi verið að veita átta börnum grunnskólakennara forgang að leikskólavist í sveitarfélaginu síðastliðið haust.  Teljið þér að þetta kunni að hafa áhrif á inngöngu barns yðar, sem fætt er í apríl 2009, þar sem yngri börn hafi nú fengið úthlutuð pláss á ósanngjarnan máta eins og segir í erindi yðar.  Jafnframt kemur þar fram að umrædd ákvörðun kunni að hafa töluvert fjárhagstjón í för með sér þar sem leikskólavist sé töluvert mikið ódýrari en vistun hjá dagmóður.  Þá er óskað upplýsinga um það hvort forgangur leikskólastarfsfólks að leikskólavist fyrir börn þeirra og afsláttur af vistinni standist jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

 

II.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. september sl., var óskað eftir umsögn og afstöðu skólaskrifstofu A til erindis yðar.  Umsögn A barst með bréfi, mótt. 15. október sl.  Fram kemur í umsögninni að þann 4. febrúar 2008 hafi fræðsluráð A samþykkt reglur um úthlutun leikskólavistar í A.  Í reglunum komi fram sú meginregla að leikskólavist sé úthlutað eftir aldri barns, en kveði jafnframt á um að A áskilji sér rétt til að taka tillit til ákveðinna þátta við úthlutun leikskólavistar, sem nánar eru tilgreindir í umsögninni, þar á meðal þess að um sé að ræða börn starfsfólks í leikskólum og fagfólks í grunnskólum A en beiðni frá skólastjóra skuli þá fylgja umsókn.  Þá er greint frá því að þann 20. apríl 2010 hafi verið tekin ákvörðun á stjórnendafundi skólaskrifstofu, í samráði við formann fræðsluráðs, að forgangur barna fagfólks í grunnskólum A  væri ekki lengur virkur og yrði sú ákvörðun staðfest með formlegum hætti í fræðsluráði í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar, samhliða breytingum á gjaldskrá leikskóla.  Við aðalúthlutun leikskólavistar í A fyrir skólaárið 2010-2011 hafi átta kennarabörn fengið leikskólavist á grundvelli forgangsins en skólaárið 2011-2012 verði forgangurinn með öllu fallinn niður.  Þá er það rakið í umsögninni að forgangur fagfólks í grunnskólum við úthlutun leikskólavistar hafi tekið gildi á tímum mikillar þenslu í íslensku samfélagi þegar erfitt hafi reynst að fá fagfólk til starfa í grunnskólum, sem sé lögbundin þjónusta sveitarfélags, og því hafi verið gripið til ýmissa úrræða til að fjölga fagfólki.  Það sé mat A að forgangur barna fagfólks í grunnskólum hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum á þeim tíma er hann var settur en eigi hins vegar ekki við með sama hætti í dag.  Af þeirri ástæðu hafi verið tekin ákvörðun um að fella forganginn úr gildi en hins vegar ekki talið réttmætt að hafna umsóknum frá grunnskólakennurum við úthlutun vegna skólaársins 2010-2011 sem voru í góðri trú um að forgangurinn væri virkur og höfðu að auki fengið vilyrði um leikskólavist á þeirri forsendu. 

 

Þá kemur fram í umsögn A að forgangur leikskólastarfsfólks hafi lengi verið við lýði hjá A og byggi á sömu sjónarmiðum, þ.e. að tryggja mönnun leikskóla sem hafi oft á tíðum verið erfiðleikum bundin enda séu störf í leikskólum upp til hópa láglaunastörf.  Jafnframt hafi verið horft til forgangsins og afsláttar á leikskólagjöldum sem hluta af starfstengdum hlunnindum leikskólastarfsfólks.  Þá er vísað til 26. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, sem fjallar um reglur um innritun, en þar komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að setja reglur um innritun í sveitarfélaginu enda njóti viðkomandi leikskóli framlags úr sveitarsjóði.  Þessar reglur skulu annars vegar settar með tilliti til aðstæðna barna og foreldra og hins vegar með tilliti til aðstæðna í leikskólum.  A hafi metið það svo að ákveðnir hópar barna skuli hafa forgang við úthlutun leikskólavistar.  Annars vegar byggi þær forgangsreglur á sjónarmiðum sem snúi að hagsmunum barna og foreldra og hins vegar á sjónarmiðum sem snúi að starfseminni sem slíkri og hlutverki A sem atvinnurekanda, en mönnun leikskóla og möguleikar til úthlutunar leikskólavistar fari að miklu leyti saman.  Það hafi því verið talið lögmætt og málefnalegt sjónarmið að veita börnum leikskólastarfsfólks forgang.  Það sé því álit A að settar reglur um leikskólavist byggi á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og standist lög.  Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. nóvember sl., var yður gefinn kostur á að tjá yður um umsögn A, en engar athugasemdir bárust.  Með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 22. febrúar sl., var óskað upplýsinga um það hvort framangreindur forgangur hafi haft áhrif á inngöngu barns yðar í leikskóla A.  Í svari yðar, sem barst sama dag, kom fram að þér teljið forganginn geta haft áhrif á inngöngu barns yðar þar sem börn séu tekin inn eftir aldri og hefji jafnframt aðlögun eftir aldri fyrir næsta skólavetur.

 

III.

Í 26. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, er fjallað um reglur um innritun.  Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. er sveitarstjórn heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu enda njóti viðkomandi leikskóli framlags úr sveitarsjóði, en reglurnar eru annars vegar settar með tilliti til aðstæðna barna og foreldra og hins vegar með tilliti til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins.  Samkvæmt 2. mgr. skulu reglur sveitarstjórnar skv. 1. mgr. birtar opinberlega og vera aðgengilegar íbúum sveitarfélagsins.  Samkvæmt 30. gr. laganna eru ákvarðanir um aðgang að skóla, sbr. 4. og 26. gr., kæranlegar til ráðherra.  Það er mat ráðuneytisins, að lokinni yfirferð erindis yðar og í ljósi þeirra gagna og upplýsinga sem aflað hefur verið, að ekki séu forsendur að lögum til að taka erindi yðar til kærumeðferðar á grundvelli 30. gr. að svo stöddu þar sem engin ákvörðun hefur enn verið tekin um leikskólavist barns yðar.  Telur ráðuneytið því að mál þetta, eins og það liggur fyrir, verði ekki tekið til frekari skoðunar og meðferðar í ráðuneytinu að svo komnu máli.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á afgreiðslu erindis yðar í ráðuneytinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum