Hoppa yfir valmynd
13. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á greiðslu akstursstyrk

Ár 2009, mánudaginn 18. maí, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR:

 

 

 

Kæruefnið og málsmeðferð.

 

Menntamálaráðuneytinu barst þann 16. mars sl. stjórnsýslukæra frá A, hér eftir nefndur kærandi, vegna þeirrar ákvörðunar námsstyrkjanefndar, dags. 20. febrúar sl., að synja umsókn hans um greiðslu skólaakstursstyrks vegna haustannar 2008.

 

Fer kærandi fram á að ákvörðun námsstyrkjanefndar verði felld úr gildi og honum úrskurðaður skólaakstursstyrkur vegna haustannar 2008. Af hálfu námsstyrkjanefndar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. mars sl., var óskað eftir umsögn námsstyrkjanefndar og barst hún 30. s.m. Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við umsögn námsstyrkjanefndar með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. apríl sl. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda við umsögn nefndarinnar.

 

Málsatvik og málsástæður.

 

Málavextir eru þeir helstir að með ákvörðun námsstyrkjanefndar, dags. 20. febrúar sl., var kæranda synjað um greiðslu skólaakstursstyrks vegna haustannar 2008. Í rökstuðningi sínum vísaði námsstyrkjanefnd til þess að skilyrði fyrir styrk væru þau að nemandi hefði gengið til prófs í a.m.k. 12 eininga námi á önn, sbr. a) lið 2. gr. reglugerðar um námsstyrki, nr. 692/2003, með síðari breytingum. Fyrir lægi að kærandi hafi verið skráður í 13 einingar á haustönn 2008 en einungis gengið til prófs í 10 einingum. Hvorki hafi verið um lokaönn né veikindi að ræða og því væri niðurstaðan sú að ekki væri heimilt að veita kæranda styrk, sbr. a) lið 2. gr. reglugerðar um námsstyrki. Var synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna því staðfest með ákvörðun námsstyrkjanefndar.

 

Kærandi hefur í kæru sinni vísað til þess að hann hafi verið skráður í 13 einingar í dagskóla og 6 einingar í fjarnámi í skóla X, en hins vegar aðeins gengið til prófs í 10 einingum í dagskóla og 1 einingu í fjarnámi. Hann uppfylli því ekki skilyrði um einingafjölda en það séu ástæður fyrir því. Fram kemur í fyrirliggjandi kæru að kærandi hafi eignast barn í lok nóvember sl. og verið í töluverðu uppnámi í aðdraganda þess þar sem honum hafi ekki fundist hann tilbúinn til að eignast barn svo ungur og axla þá ábyrgð sem því fylgdi. Þá sé fjárhagsstaða hans erfið. Því hafi hann alla haustönnina verið niðurdreginn og ekki gengið vel að læra, þar til kom að því að hann hafi ákveðið að gerast ábyrgur faðir og taka virkan þátt í uppeldi dóttur sinnar. Hafi hann tekið sér fæðingarorlof í desember til að hjálpa til með dóttur sína, en hann og barnsmóðir hans séu þó ekki í sambúð enn sem komið er. Á sama tíma hafi próf staðið yfir í skóla kæranda en hann ekki treyst sér til að ganga til prófs í þeim öllum. Kærandi telur að hann hafi jafnvel verið þunglyndur á umræddum tíma. Hann hafi þó ekki haft dug í sér til að leita læknis en fengið andlegan stuðning frá foreldrum sínum. Með kærunni fylgdi læknisvottorð, dags. 14. janúar sl., þar sem fram kemur að kærandi eignaðist barn í lok nóvember sl. og hafi af þeim sökum misst töluvert mikið úr skólanum, að eigin sögn.

 

Rökstuðningur niðurstöðu.

 

1.

Í lögum nr. 79/2003 um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna eiga þeir nemendur rétt til námsstyrkja sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað. Eins og fram kemur í 3. gr. laganna eru námsstyrkir samkvæmt lögunum dvalarstyrkur, sbr. 1. tl., skólaakstursstyrkur, sbr. 2. tl. og sérstakir styrkir sem námsstyrkjanefnd er heimilt að veita efnalitlum nemendum, sbr. 3. tl.. Skilyrði skólaakstursstyrks er að nemandi verði að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni og eigi ekki rétt á dvalarstyrk, sbr. 2. tl. 3. gr. laganna.

 

Sett hefur verið reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, á grundvelli 8. gr. laga um námsstyrki. Samkvæmt 1. gr. hennar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Eitt af þeim skilyrðum er að nemandi stundi reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sbr. a) lið 1. gr. reglugerðarinnar. Í 2. gr. hennar er að finna skilgreiningar á hugtökum sem þar koma fyrir og kemur fram í a) lið ákvæðisins að með reglubundnu námi sé átt við það að nemandi teljist stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla eða skóli staðfestir námsárangur með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi. Sé námi ekki lokið vegna veikinda skal skóli staðfesta móttöku á fullgildu læknisvottorði. Þá er heimilt að miða við sex einingar sé um lokaönn að ræða og nemandi hefur lokið a.m.k. 12 einingum á undangenginni önn. 

 

2.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi gekk aðeins til prófs í 10 einingum á haustönn 2008. Röksemdir kæranda eru raktar hér að framan og er þar gerð grein fyrir þeim aðstæðum sem hann telur hafa leitt til þess að sá lágmarkseiningafjöldi sem kveðið er á um í reglugerð um námsstyrki, svo um reglubundið nám geti talist að ræða, var ekki uppfylltur. Synjaði námsstyrkjanefnd kæranda um skólaakstursstyrk með vísan til a- liðar 2. gr. reglugerðar um námsstyrki. Í ákvæði a- liðar 2. gr. reglugerðarinnar er að finna afdráttarlausa skilgreiningu á því hvað reglubundið nám telst fela í sér og er þar átt við að nemandi hafi tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla, eða staðfesting skóla á námsárangri nemanda með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi. Samkvæmt ákvæðinu eru tvær undantekningar heimilar frá þessu skilyrði, þ.e. ef um staðfest veikindi með læknisvottorði eða lokaönn er að ræða. Sé lágmarkseiningafjölda ekki lokið af öðrum ástæðum en undantekningarheimildin kveður á um telst ekki vera um reglubundið nám að ræða. Í máli þessu liggur fyrir að hvorki er um lokaönn né veikindi kæranda, í skilningi ákvæðisins, að ræða. Verður að telja skilgreiningu á því hvað felst í reglubundnu námi, og undantekningar frá því, vera byggða á málefnalegum sjónarmiðum með tilliti til jafnræðis nemanda gagnvart þeirri lágmarksnámsframvindu sem framangreind lög og reglugerð gera áskilnað um svo til greiðslu námsstyrkja samkvæmt þeim geti komið.

 

Menntamálaráðuneytið telur að afgreiðsla námsstyrkjanefndar hafi verið í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laga um námsstyrki, og að óhjákvæmilegt sé að byggja niðurstöðu málsins á þeirri skilgreiningu á reglubundnu námi, sem þar er kveðið á um.

 

3.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum. 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Hin kærða ákvörðun um synjun skólaakstursstyrks til A vegna haustannar 2008 er staðfest.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum