Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Úrskurður undanþágunefndar framhaldsskóla verði felldur úr gildi

Ár 2008, föstudaginn 8. febrúar, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið

Menntamálaráðuneytinu barst hinn 23. febrúar 2006 stjórnsýslukæra frá A hrl., f.h. B, vegna þeirrar ákvörðunar undanþágunefndar framhaldsskóla að heimila skóla X að ráða C, M.Sc. í matvælafræði, til að kenna raungreinar við skólann skólaárið 2005-2006. Krefst kærandi þess að úrskurður undanþágunefndar verði felldur úr gildi og kröfur hans, eins og þær voru settar fram í greinargerð lögmanns hans til undanþágunefndar, dags. 2. september 2005, verði teknar til greina.

Málsatvik og málsástæður

Málavextir eru þeir helstir að hinn 6. júní 2005 barst undanþágunefnd framhaldsskóla bréf frá skólameistara skóla X þar sem óskað var eftir því að C fengi undanþágu til að kenna efnafræði í skólanum skólaárið 2005-2006. Fram kom að það hafi verið samþykkt eindregið og samhljóða í skólanefnd 26. maí 2005 að mæla með því að C fengi undanþágu og yrði ráðin. Með bréfi, dags. 15. júní 2005, kynnti skólameistari skóla X kæranda rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að ráða C í umrætt kennarastarf, með fyrirvara um samþykki undanþágunefndar. Hinn 28. júní 2005 barst undanþágunefnd framhaldsskóla bréf skólameistara með yfirskriftinni: „viðbótarrökstuðningur vegna ráðningar C“. Í bréfinu eru tilgreindar ástæður þess að kærandi var ekki ráðinn, en þ. á m. hafi verið neikvæðar umsagnir í garð kæranda. Með bréfi undanþágunefndar til kæranda, dags. 30. júní 2005, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um þau atriði sem þar komu fram, með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7. gr. reglugerðar nr. 699/1998 um undanþágunefnd framhaldsskóla. Kærandi vísaði á bug athugasemdum um sig í bréfi skólameistarans til undanþágunefndar í bréfi, dags. 13. júlí 2005 og krafðist þess að nefndin hafnaði beiðninni. Með bréfi undanþágunefndar, dags. 20. júlí s.á., var kæranda tilkynnt að bréf hans hefði verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 18. júlí s.á. Var kæranda greint frá því að formaður nefndarinnar hefði leitað til skólameistara þeirra tveggja framhaldsskóla sem hann starfaði við síðast og hefði niðurstaðan orðið sú að kærandi hefði í hvorugum skólanum fengið góð meðmæli sem kennari. Var kæranda greint frá þeirri niðurstöðu nefndarinnar að meirihluti hennar hefði fallist á að verða við framkominni beiðni um undanþágu fyrir C til að kenna efnafræði við skóla X skólaárið 2005-2006, sbr. 20. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, en hún hefði uppfyllt faglegar kröfur kennslugreinarinnar, haft kennslureynslu og fengið góð meðmæli frá skólanum.

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 2. september 2005, var þess krafist að málið yrði endurupptekið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga og ákvörðun nefndarinnar um að veita skólanum undanþágu yrði felld úr gildi, en ella að bréfið yrði meðhöndlað sem kæra til menntamálaráðherra. Byggðist krafan á því að ófullnægjandi athugun hefði farið fram af hálfu nefndarinnar á starfsferli kæranda sem hefði leitt til þess að nefndin hefði lagt rangar og villandi upplýsingar um hann til grundvallar niðurstöðu sinni. Vegna þessa hefði nefndin byggt ákvörðun sína á ófullnægjandi og röngum upplýsingum og bæri nefndinni því að endurupptaka málið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá var þess ennfremur krafist að skoðuð yrðu fleiri gögn við úrlausn málsins en var gert þegar umsóknin var samþykkt. Undanþágunefnd tók málið fyrir að nýju og á fundi nefndarinnar 24. nóvember 2005 ákvað meirihluti hennar að hafna þeirri kröfu kæranda að fella úr gildi fyrri samþykkt nefndarinnar. Var þessi niðurstaða tilkynnt lögmanni kæranda með bréfi dagsettu sama dag.

Í kæru lögmanns kæranda, dags. 23. febrúar 2006, er þess krafist að úrskurður undanþágunefndar verði felldur úr gildi og kröfur kæranda, eins og þær voru settar fram í greinargerð lögmannsins til undanþágunefndar, dags. 2. september 2005, verði teknar til greina. Með bréfi ráðuneytisins til undanþágunefndar, dags. 2. maí 2006, var kæran send til umsagnar nefndarinnar, sem barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 26. maí 2006. Umsögn nefndarinnar var send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 30. maí s.á, en athugasemdir bárust ekki. Tafir hafa orðið á því að kveða upp úrskurð í máli þessu og var lögmanni kæranda tilkynnt um það með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. janúar sl., að úrskurður yrði kveðinn upp í málinu að liðnum tveimur vikum frá dagsetningu bréfsins og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan þess tíma.

Af hálfu lögmanns kæranda hafa verið færð frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar og er hér gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en þær hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Rökstuðningur niðurstöðu

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 86/1998 fer um ráðningu skólastjórnenda og framhaldsskólakennara eftir ákvæðum laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 2. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um skyldu til auglýsingar og hvað skuli koma fram í auglýsingu. Af 5. gr. laga nr. 70/1996 og lokamálslið 2. mgr. 11. gr. laga nr. 80/1996 leiðir að skólameistari ræður kennara.

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996 og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 86/1998 verður kennari við framhaldsskóla að hafa leyfi menntamálaráðherra til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, sbr. 1. mgr. 11. gr. þeirra laga. Í 2. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 86/1998, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 699/1998 er gert ráð fyrir því að heimilt sé að ráða aðra en framhaldsskólakennara þegar enginn þeirra sem sótt hefur um hefur leyfi menntamálaráðherra til að starfa sem framhaldsskólakennari þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og þegar hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu framhaldsskólakennara í skólastarf. Þegar svo ber undir getur skólameistari, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., leitað til undanþágunefndar framhaldsskóla, sbr. 4. mgr. 20. gr. laga nr. 86/1988 og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 699/1998 er gert ráð fyrir því þegar umsókn um undanþágu sé byggð á 4. mgr. 20 .gr. laga nr. 86/1998 beri undanþágunefnd að gefa framhaldsskólakennaranum kost á að tjá sig um framkomin gögn í málinu áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn. Þá leiðir af 3. mgr. 20. gr. laga nr. 56/1988 og 11. gr. reglugerðar 699/1998 að framhaldskólakennari sem skólameistari og meirihluti skólanefndar hefur ekki treyst sér til þess að mæla með í starfið getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til menntamálaráðherra. Eins og kærandi hefur afmarkað kærunefnið verður ekki séð að deilt sé um mat undanþágunefndar á hæfi C til þess að sinna því kennslustarfi sem skólameistari skóla X óskaði eftir undanþágu fyrir, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 699/1998. Af málatilbúnaði kæranda verður á hinn bóginn ráðið að hann telji að sú ákvörðun skólameistara að ráða hann ekki til starfsins hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Ákvörðun um að ráða annan til starfsins þrátt fyrir umsókn kæranda byggði á meðmælum sem skólameistari hafði aflað um fyrri störf kæranda, sbr. bréf hans, dags. 28. júní 2005. Fylgdi bréfið, ásamt þeim rökstuðningi sem þar kemur fram, umsókn skólameistara um umrædda undanþágu, sbr. d-lið 2. mgr. 3. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Voru því að þessu leyti uppfyllt skilyrði d-liðar 4. gr. reglugerðarinnar. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að undanþágunefndin sinnti rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og kannaði sjálfstætt þær upplýsingar er lágu að baki undanþágubeiðninni.

Þegar litið er til þeirra lagaheimilda sem hér hefur verið vísað til verður ekki séð að þar sé gert ráð fyrir því að undanþágunefnd framhaldsskóla skuli endurskoða ákvörðun skólameistara um að ráða ekki framhaldsskólakennara sem sótt hefur um laust starf í framhaldsskóla. Í því tilliti er nefndin bundin af ákvæðum laga nr. 86/1998 og þeim ákvæðum reglugerðar nr. 699/1998 sem skýrð verða til samræmis við þau. Þannig er ljóst að undanþágunefndin kannar ekki frekar en að framan er rakið þær forsendur er kunna að liggja að baki þeirri ákvörðun skólameistara að synja kæranda um ráðningu til kennslu í efnafræði skólaárið 2005-2006. Þegar málavextir í máli þessu eru virtir verður ekki annað ráðið en að undanþágunefnd hafi kynnt kæranda fyrirliggjandi gögn málsins og að honum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um þau áður en undanþágunefnd framhaldsskóla veitti umrædda undanþágu. Var þar fylgt ákvæðum 7. gr. reglugerðar nr. 669/1998. Verður því ekki annað ráðið en að málsmeðferð undanþágunefndar hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 86/1988 og reglugerð nr. 699/1998. Það athugast í samræmi við framangreint að ráðuneytið tekur í úrskurði þessum enga afstöðu til lögmætis þeirrar ákvörðunar skólameistara skóla X að hafna umsókn kæranda um umrætt starf.

Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum, sbr. ákvæði 4. mgr. 20. gr. laga nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, c) lið 4. gr., 5. gr. og 6. gr. reglugerðar nr. 699/1998 um undanþágunefnd framhaldsskóla, og því ber að staðfesta hann eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun undanþágunefndar framhaldsskóla, dags. 20. júlí 2005, um að verða við umsókn skóla X um undanþágu fyrir C til að kenna efnafræði skólaárið 2005-2006, er staðfestur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum