Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Kæra vegna synjunar á greiðslu námsstyrks 2008

Ár 2008, mánudagurinn 18. ágúst, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur úrskurður:

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið og málsmeðferð

Þann 18. febrúar sl. barst menntamálaráðherra bréf frá A og B f.h. C, hér eftir nefndur kærandi, vegna þeirrar ákvörðunar námsstyrkjanefndar, dags. 23. nóvember sl., að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks vegna nýliðins skólaárs, 2007-2008. Óskað var eftir því við kæranda að formleg stjórnsýslukæra yrði send menntamálaráðuneytinu og barst hún 28. mars sl.

Krefst kærandi þess að ákvörðun námsstyrkjanefndar verði felld úr gildi og honum úrskurðaður námsstyrkur vegna náms síns við X framangreint skólaár. Af hálfu námsstyrkjanefndar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 4. apríl sl., var óskað eftir umsögn námsstyrkjanefndar og barst hún ráðuneytinu 28. apríl s.l. Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við svör námsstyrkjanefndar með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. maí sl. Vegna ófullnægjandi upplýsinga um heimilisfang kæranda var bréfið, ásamt umsögn námsstyrkjanefndar, endursent ráðuneytinu og sent kæranda að nýju með bréfi, dags. 19. maí sl. Jafnframt voru þau gögn send á rafrænu formi til A og B sem komið hafa fram í málinu fyrir hönd kæranda. Athugasemdir við umsögn námsstyrkjanefndar voru sendar f.h. kæranda með bréfi sem barst ráðuneytinu í tölvupósti 4. júní sl.

Málsatvik og málsástæður

Málavextir eru þeir helstir að þann 8. nóvember 2007 barst Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) tölvupóstur frá kæranda þar sem kvartað var yfir synjun á umsókn hans um námsstyrk vegna náms síns við X. Í bréfi LÍN til kæranda, dags. 22. nóvember s.á., kom fram að sjóðurinn hefði "yfirfarið svar kæranda við fyrirspurn LÍN vegna umsóknar hans um jöfnunarstyrk." Grunnskilyrði styrkveitingar væru að umsækjandi stundaði nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni, sbr. skilgreiningu í c) lið 2. gr. og undanþáguheimild í 4. mgr. 6. gr. Niðurstaða sjóðsins væri sú að í svarinu væri ekki sýnt fram á að kærandi félli undir þessi tilgreindu skilyrði reglugerðarinnar. Því væri ekki heimilt að veita honum styrk og umsókn hans því synjað vegna yfirstandandi skólaárs.

Námsstyrkjanefnd tók erindi kæranda fyrir 23. s.m. Vísaði nefndin til c) liðar 4. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, en í 1. málsl. ákvæðisins kemur fram að nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu vegna námsins, sem er eitt af skilyrðum fyrir því að hljóta námsstyrk samkvæmt lögum nr. 79/2003 um námsstyrki og fyrrgreindri reglugerð. Tók námsstyrkjanefnd fram að kærandi hefði hvorki sýnt fram á fjölskyldutengsl við skráð lögheimili né að hann stundaði nám fjarri fjölskyldu, sbr. c) lið 2. gr. reglugerðarinnar þar sem móðir hans byggi í Z en faðir hans byggi á Y. Niðurstaða nefndarinnar var því sú að staðfesta synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna á umsókn kæranda um námsstyrk þar sem hann teldist ekki uppfylla tilskilin skilyrði til að hljóta námsstyrk. Í bréfi LÍN til kæranda, dags. 22. nóvember sl., var jafnframt vísað til þess að umsókn kæranda væri synjað vegna yfirstandandi skólaárs, en í niðurstöðu námsstyrkjanefndar var synjað um styrk vegna náms á haustönn 2007. Þó hefur komið fram í erindum kæranda til ráðuneytisins að LÍN hafi enn ekki svarað kæranda með formlegum hætti vegna umsóknar hans um námsstyrk á vorönn 2008. Með hliðsjón af því að í ákvörðun LÍN, dags. 22. nóvember sl., er skýrt tekið fram að synjunin taki til yfirstandandi skólaárs, því að sú ákvörðun er staðfest af námsstyrkjanefnd og að aðstæður kæranda eru enn að öllu leyti óbreyttar lítur ráðuneytið svo á að kærð sé synjun um námsstyrk til kæranda vegna nýliðins skólaárs, 2007-2008.

Bréf var sent f.h. kæranda til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 28. nóvember sl., þar sem nánari grein var gerð fyrir erfiðum aðstæðum kæranda og færð fram rök fyrir því að hann ætti tilkall til greiðslu námsstyrks vegna náms síns við X. Lengst af skólagöngu sinni hefði kærandi átt heimilisfesti í Z þar sem stjúpmóðir hans byggi ásamt tveimur hálfsystrum hans en vegna aðstæðna hennar hafi hún þurft að flytja lögheimili kæranda frá sér. Hafi lögheimili kæranda þá til bráðabirgða verið flutt til föður hans sem byggi á Y. Kærandi ætti ekki hefðbundna fjölskyldu og ekkert samband hefði verið milli kæranda og föður hans um langa hríð. Síðan þá, eða frá ársbyrjun, hafi kærandi í raun hvergi átt heima þar til frændkona hans hafi ákveðið að skjóta skjólshúsi yfir hann og leyft honum að skrá sig til heimilis hjá henni. Kærandi hafi stundað fullt nám við X síðastliðið skólaár og ætti fullan rétt á að hljóta námsstyrk. Var þess farið á leit í bréfinu að Lánasjóðurinn endurskoðaði ákvörðun sína frá 22. nóvember sl. um að synja umsókn kæranda um námsstyrk.

Með bréfi, dags. 14. febrúar sl., sem sent var f.h. kæranda til "námsstyrkjanefndar, menntamálaráðuneytinu", var óskað eftir því að nefndin endurskoðaði og breytti fyrrgreindri ákvörðun LÍN um synjun umsóknar kæranda um greiðslu námsstyrks. Sent var bréf f.h. kæranda, dags. sama dag, til menntamálaráðherra og fylgdu með því bréfi afrit af fyrri bréfaskriftum vegna máls þessa. Í símtali lögfræðisviðs menntamálaráðuneytis við fyrirsvarsmann kæranda þann 25. mars sl. var óskað eftir gögnum varðandi synjun námsstyrkjanefndar. Jafnframt var óskað eftir staðfestingu á því að um væri að ræða kæru til ráðuneytisins þar sem óskað væri eftir endurskoðun þess á niðurstöðu nefndarinnar og að fyrirsvarsmaðurinn færi með málið f.h. kæranda. Ráðuneytinu barst svo formleg kæra þann 28. mars sl., undirrituð af kæranda og fyrirsvarsmanni hans, ásamt afritum af gögnum málsins.

Rökstuðningur niðurstöðu

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ágreiningur milli kæranda og námsstyrkjanefndar um það hvort kærandi teljist uppfylla skilyrði laga nr. 79/2003 um námsstyrki og reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, um sama efni, til að eiga rétt á greiðslu námsstyrks vegna náms síns við X skólaárið 2007-2008.

1.

Í lögum nr. 79/2003 um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna eiga þeir nemendur rétt til námsstyrkja sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað. Dvalarstyrkur skv. 1. tl. 3. gr. laganna samanstendur af ferðastyrk, fæðisstyrk og húsnæðisstyrk og er það skilyrði fyrir greiðslu hans að nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins.

Sett hefur verið reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, á grundvelli 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. hennar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Í c) lið 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að skilyrði fyrir veitingu dvalarstyrks sé að nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu vegna námsins. Í c) lið 2. gr. kemur fram að með hugtakinu fjölskylda sé átt við foreldra nemanda, sé þeim til að dreifa - nánar tiltekið kynforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra eða kjörforeldra, en ella ömmur og afa nemanda; maka samkvæmt hjúskap aðila, maka samkvæmt staðfestri samvist eða maka samkvæmt skráðri sambúð í þjóðskrá, svo og börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, stjúpbörn, fósturbörn eða kjörbörn.

2.

Í niðurstöðu námsstyrkjanefndar, dags. 23. nóvember sl., er vísað til c) liðar 4. gr. tilvitnaðrar reglugerðar, þar sem það er gert að skilyrði fyrir dvalarstyrk að umsækjandi stundi nám fjarri lögheimili sínu og fjarri fjölskyldu, sbr. skilgreiningu í c) lið 2. gr. Tekur nefndin fram að sé foreldrum til að dreifa beri fyrst að miða við lögheimili þeirra, en móðir kæranda [þar mun vera átt við stjúpmóður] búi í Z og faðir hans sé til heimilis á Y. Hafi kærandi hvorki sýnt fram á fjölskyldutengsl við skráð lögheimili né stundi hann nám fjarri fjölskyldu. Komst nefndin því að þeirri niðurstöðu að kærandi félli ekki undir tilgreind skilyrði reglugerðarinnar og staðfesti synjun LÍN um umsókn kæranda um námsstyrk. Í umsögn námsstyrkjanefndar um kæru þessa voru fyrri sjónarmið hennar ítrekuð. Í umsögn sem send var ráðuneytinu f.h. kæranda vegna umsagnar námsstyrkjanefndar kemur fram að þegar stjúpmóðir hans þurfti vegna aðstæðna sinna að skrá hann út af lögheimili sínu hafi kærandi í raun verið heimilislaus. Tengsl hans við foreldra sína séu lítil sem engin og ekki sé eðlilegt að honum, sem sé löngu orðinn lögráða, sé gert skylt að eiga lögheimili hjá föður sínum á Y en afar takmarkað samband hafi verið milli þeirra um árabil. Kærandi eigi enga möguleika á stuðningi foreldra sinna, allra síst fjárhagslegum stuðningi, og eigi nú lögheimili hjá fólki sem hann hefur sterk fjölskyldutengsl við. Það fólk líti á kæranda sem hluta stórfjölskyldunnar eftir að náfrænka þeirra, stjúpmóðir kæranda, fékk forræði yfir kæranda þegar hann var enn á barnsaldri. Kærandi stundi nám fjarri heimabyggð og hafi brýna þörf fyrir námsstyrk.

Í 2. gr. laga um námsstyrki er afmarkað hverjir það eru sem njóti réttar til námsstyrkja samkvæmt lögunum. Þá kemur fram í 1. tl. 3. gr. að skilyrði dvalarstyrks sé að nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Hliðstæð ákvæði eru í reglugerð um námsstyrki, sem sett hefur verið á grundvelli laganna. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er með skráð lögheimili hjá náfrænku stjúpmóður sinnar, en stjúpmóðir kæranda hefur farið með forræði yfir honum frá skilnaði við föður hans og allt þar til kærandi varð sjálfur lögráða. Lögheimili kæranda, að Þ, er í meira en 30 km fjarlægð frá leiguhúsnæði hans á Y þar sem hann hefur stundað menntaskólanám síðastliðin ár. Aðstæðum kæranda er nánar lýst í fyrirliggjandi gögnum og telur menntamálaráðuneytið að ekki sé annað komið fram en að sú lýsing sem þar kemur fram gefi rétta mynd af högum hans og fjölskyldutengslum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í gögnum málsins, er samband kæranda við kynforeldra sína mjög takmarkað og hefur verið stopult í gegnum tíðina. Fram hefur komið í gögnum frá kæranda að þegar stjúpmóðir hans, og forráðamaður þar til hann varð lögráða, skráði hann af lögheimili sínu þá hafi kærandi í raun ekki átt neitt fast athvarf þar til náfrænka stjúpmóður hans bauð honum fastan dvalarstað og lögheimili hjá sér. Í c) lið 2. gr. reglugerðarinnar, sem og í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 79/2003, er að finna skilgreiningu á hugtakinu fjölskylda. Er þar vísað til foreldra „sé þeim til að dreifa“ eins og segir í reglugerðarákvæðinu. Þær fjölskylduaðstæður sem kærandi hefur búið við samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru ekki tilgreindar í reglugerðarákvæðinu, samkvæmt þröngum skilningi þess. Það er þó mat ráðuneytisins að ákvæði þetta, eins og það er orðað, og almennar athugasemdir í lagafrumvarpi geti eigi girt fyrir að tekið sé tillit til svo sérstakra aðstæðna eins og hér um ræðir.

Fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 79/2003 að markmið endurskoðunar eldri löggjafar um sama efni sé að stuðla að því að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu eða efnahags. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um rýmkun hugtaksins fjölskylda, að nemendur verði lögráða við 18 ára aldur og telja verði óeðlilegt að setja það skilyrði í löggjöf að einstaklingur hafi sama lögheimili og foreldrar hans eftir að þeim aldri er náð. Fyrir liggur að hvorki móðir né faðir kæranda fengu forræði yfir kæranda við skilnað föður hans og stjúpmóður, meðan hann var enn ólögráða, og að kærandi bjó eftir það á heimili stjúpmóður hans. Með hliðsjón af því þykir unnt að líta svo á að náfrændfólk hennar sé kæranda sem fjölskylda og, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um fjölskylduhagi kæranda, það fólk sem stendur honum næst. Þegar horft er til markmiða laga um námsstyrki, sjónarmiða um jafnræði og óvenjulegra fjölskylduaðstæðna kæranda verður að mati ráðuneytisins að líta svo á að ákvæði c) liðar 2. gr. reglugerðarinnar standi því ekki í vegi að kærandi teljist uppfylla það skilyrði 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki að hann þurfi að dvelja fjarri fjölskyldu sinni vegna náms. Þykir því, með hliðsjón af öllum aðstæðum kæranda, mega jafna þeim fjölskyldutengslum sem hann hefur við það fólk er hann á lögheimili hjá við þau tengsl sem ákvæði c) liðar 2. gr. reglugerðarinnar kveður á um.

3.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun felld úr gildi eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun um synjun námsstyrks til C er felld úr gildi. Lagt er fyrir námsstyrkjanefnd að greiða kæranda dvalarstyrk vegna náms hans við X skólaárið 2007-2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum