Hoppa yfir valmynd
23. október 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Kæra vegna mats á fimleikanámi

Ár 2008, fimmtudaginn 23. október, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur:

 

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið og málsmeðferð

Þann 22. apríl sl. barst menntamálaráðuneytinu bréf frá A f.h. sonar síns, B, hér eftir nefndur kærandi, vegna ágreinings um mat á fimleikanámi kæranda til eininga við X.  Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. maí sl., var óskað eftir umsögn X og barst hún ráðuneytinu 28. s.m.  Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við umsögn skólans með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. ágúst sl., en engar athugasemdir hafa borist frá honum.      

Krefst kærandi þess að fimleikanám hans verði metið til eininga til stúdentsprófs frá X sem frjálst val.  Í umsögn X kemur fram að skólinn hafi hafnað því að meta fimleika sem hluta af frjálsu vali við skólann.  Skólinn hafi hins vegar metið fimleikaástundun kæranda til eininga í líkamsrækt, samtals tvær einingar sl. vetur, og hafi þannig komið til móts við óskir kæranda um að tekið yrði tillit til fimleikanáms hans.

 

Málsatvik og málsástæður

Samkvæmt gögnum málsins æfir kærandi fimleika í meistaraflokki A21 hjá Y og er samanlagður tími æfinga rúmlega 25 klukkustundir á viku.  Auk þess sækir kærandi áfangann íþróttir 102 sem er á vegum Z og Þ. Kærandi hefur óskað eftir því við X, þar sem hann stundar nám á félagsfræðibraut til stúdentsprófs, að fimleikaástundun hans verði metin til bóklegra eininga sem frjálst val við skólann.  Því hefur skólinn hins vegar hafnað og í umsögn hans er m.a. vísað til þess að skólinn starfi samkvæmt gildandi framhaldsskólalögum, aðalnámskrá framhaldsskóla og skólanámskrá og sé bóknámsskóli sem hafi það meginhlutverk að undirbúa nemendur sína fyrir framhaldsnám á háskólastigi.  Af fimm brautum skólans séu fjórar hreinar bóknámsbrautir en sú fimmta sé listdansbraut til stúdentsprófs sem sé tilraunabraut í samvinnu við þrjá listdansskóla sem fengið hafa viðurkenningu menntamálaráðuneytis.  Skólinn standi ítrekað frammi fyrir álitamálum um mat og sé þá lagt til grundvallar að gæta innbyrðis samræmis í skólanum eftir því sem kostur er og að verkefnið standist faglega rýni m.t.t. markmiða skólans og námskrár.  Skólinn telji sig hafa komið til móts við óskir kæranda með tilhliðrun í líkamsrækt og hefur fimleikanám hans verið metið til eininga í þeim áfanga.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

Kærandi, sem stundar nám á bóknámsbraut við X, hefur óskað eftir því að fimleikaástundun hans verði metin til bóklegra eininga sem frjálst val við skólann.  Í 1. mgr. 16. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, sem giltu þegar atvik máls áttu sér stað en féllu úr gildi 1. ágúst sl. við gildistöku nýrra laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, kemur fram að námsbrautir framhaldsskóla skiptist í starfsnámsbrautir, bóknámsbrautir, listnámsbrautir og almenna námsbraut.  Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að bóknámsbrautir veiti undirbúning að námi á háskólastigi og séu fjórar, félagsfræðabraut, viðskipta- og hagfræðibraut, náttúrufræðabraut og tungumálabraut.  Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. sömu laga skulu námsbrautir framhaldsskóla skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins og skiptast þær í brautarkjarna, kjörsvið og frjálst val.  Hlutfall þessara þátta er ákveðið í aðalnámskrá og getur verið mismunandi eftir brautum.  Í 2. til 3. mgr. 17. gr. er að finna nánari lýsingu á hverjum þætti fyrir sig.  Í 23. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 er fjallað um námsbrautarlýsingar.  Í 3. mgr. 23. gr. kemur fram að námsbrautarlýsingar skuli byggðar upp í samræmi við ákvæði almenns hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og skólanámskrár viðkomandi skóla.  Í námsbrautarlýsingu skuli kveðið á um innihald og vægi áfanga í einstökum greinum, samhengi í námi, vægi námsþátta og lokamarkmið náms.  Þar sé ákveðinn lágmarksfjöldi áfanga og eininga í einstökum námsgreinum og inntak náms í megindráttum.

Í núgildandi aðalnámskrá framhaldsskóla, sem sett var með stoð í 21. gr. laga nr. 80/1996, eru sett fram meginmarkmið framhaldsskóla og skilgreind markmið einstakra námsbrauta og námsgreina, svo og námslok.  Einnig er kveðið á um umfang og uppbyggingu einstakra námsbrauta, inntak í megindráttum og námskröfur og tilgreindur meðalnámstími á hverri námsbraut.  Þá er m.a. gerð grein fyrir inntökuskilyrðum á einstakar námsbrautir, réttindum og skyldum nemenda, námsmati og prófum, undanþágum frá námi í einstökum áföngum eða námsgreinum og meðferð ágreiningsmála.  Í kafla 4.4.1. í aðalnámskránni er fjallað um bóknám til stúdentsprófs, m.a. nám í frjálsu vali.  Fram kemur að það nemi alls 12 einingum og að frjálst val gefi nemanda kost á að kynna sér greinar sem ekki tilheyra því námssviði sem hann hefur valið sér.  Einnig geti nemandi notað frjálsa valið til að bæta við kjörsvið sitt.  Bjóði viðkomandi skóli ekki upp á þær greinar sem nemandi óskar sérstaklega að taka er sá möguleiki fyrir hendi að taka þær við annan skóla, t.d. í fjarnámi.  Í kafla 7.6 í aðalnámskrá er fjallað um mat á námi úr öðrum skólum, óformlegu námi og starfsreynslu.  Þar kemur m.a. fram að skólameistarar framhaldsskóla beri ábyrgð á að meta fyrra nám nemenda, hvort sem um formlegt eða óformlegt nám er að ræða.  Með óformlegu námi er vísað til þekkingar eða færni sem aflað hefur verið á annan hátt en með formlegri skólagöngu.  Við matið skuli ekki leita eftir því að fyrra nám sé nákvæmlega það sama og skilgreint er í námskrá heldur skuli leggja áherslu á að athuga hvort ekki sé hægt að meta námið sem jafngilt og hvort nemandinn hafi forsendur til að ljúka náminu.  Þá er tekið fram í grein 7.6 að nemandi sem stundar umfangsmikla líkamsþjálfun á vegum sérsambands og/eða íþróttafélags undir stjórn sérmenntaðs þjálfara, íþróttafræðings eða kennara samhliða námi í framhaldsskóla geti óskað eftir því að skólameistari veiti honum undanþágu frá vissum áföngum eða áfangahlutum í íþróttum, líkams- og heilsurækt.

 

Menntamálaráðuneyti lítur svo á að sá ágreiningur sem uppi er í þessu máli heyri undir grein 11.5 sem varðar ágreining um námsframvindu.  Fyrir liggur að skólinn hefur fallist á að meta fimleikanám kæranda til eininga í líkamsrækt og telur að námsefni kæranda í fimleikum falli að langmestu leyti undir áfangamarkmið í líkamsrækt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla og skólanámskrá skólans.  Þannig hefur beiðni kæranda um að fimleikanám hans yrði metið til frekari eininga sem hluti af frjálsu vali við skólann verið hafnað.  Þegar horft er til þeirra ákvæða í aðalnámskrá sem fjalla um frjálst val má ráða að því er ætlað að veita nemendum tækifæri til að kynna sér greinar sem kenndar eru innan skólans en tilheyra ekki námssviði þeirra.  Því er þannig ætlað að víkka sjóndeildarhring þeirra og veita þeim svigrúm til frekara vals og samsetningar námsins eftir þörfum þeirra og áhugasviði.  Um mat á óformlegu námi er tekið fram að ekki skuli leitað eftir því að fyrra nám sé nákvæmlega það sama og skilgreint er í námskrá heldur skuli leggja áherslu á að athuga hvort ekki sé hægt að meta námið sem jafngilt og hvort nemandinn hafi forsendur til að ljúka náminu.  Þá er sérstaklega fjallað um hvernig fara skuli með mál þeirra nemenda sem stunda umfangsmikla líkamsþjálfun.  Þegar þessi ákvæði eru lesin saman má ráða að svigrúm menntaskóla til að meta líkamsþjálfun og afreksíþróttir nemenda, þ.á m. fimleikanám, er mjög takmarkað og markast af heimild til að veita undanþágu í vissum áföngum eða áfangahlutum í íþróttum, eins og nánar er tilgreint í aðalnámskrá framhaldsskóla og rakið er hér að framan.  Það er mat menntamálaráðuneytis að samkvæmt ákvæðum í aðalnámskrá, sem útfæra nánar menntastefnu framhaldsskóla, sé við það miðað að líkamsþjálfun og afreksíþróttir sem nemendur leggja stund á utan skóla sé ekki metin til eininga sem frjálst val heldur skuli slík þjálfun vera metin til eininga eða tilhliðrunar í áföngum í líkamsrækt innan viðkomandi skóla.  Ráðuneytið telur, með hliðsjón af því sem og því sem fram kemur í umsögn kærða, að X hafi lagt málefnalegt mat á beiðni kæranda og að afgreiðsla hans á beiðninni sé í samræmi við tilgang og markmið þeirra ákvæða aðalnámskrár sem mál þetta heyrir undir.

 

3.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun X um að synja beiðni B um mat á fimleikanámi hans til eininga sem frjálst val við skólann er staðfest.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum