Hoppa yfir valmynd
7. desember 2000 Matvælaráðuneytið, Úrskurðir landbúnaðarráðuneytis - til 2008

4/2000 Úrskurður frá 7. desember 2000

 


 

Árið 2000, fimmtudaginn 7. desember, var í landbúnaðarráðuneytinu kveðinn upp svofelldur


 


 

ÚRSKURÐUR


 

I.


 

Með bréfi dagsettu 25. október 2000 hefur Helgi Jóhannesson hrl., f.h. A, kært til úrskurðar landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar á jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð.


 

Hin kærða ákvörðun var tekin 21. september sl. og var ákvörðunin tilkynnt kaupanda með bréfi dagsettu 27. september sl. Bréf með andmælum var sent sveitarstjórn Dalabyggðar 6. október, þar sem þess var krafist að fallið yrði frá þeirri ákvörðun að neyta forkaupsréttarins. Barst svar við því bréfi frá sveitarstjóra þann 11. október, þar sem fram kemur að byggðaráð telji að sveitarstjórn hafi farið að lögum um beitingu forkaupsréttar og engin ástæða sé til þess að breyta þeirri ákvörðun. Kæran ásamt fylgiskjölum barst ráðuneytinu 26. október sl. og var tekin til úrskurðar eftir að ráðuneytinu höfðu borist athugasemdir sveitarstjórnar dagsettar 13. nóvember og 27. nóvember sl. og athugasemdir kærenda dagsettar 20. nóvember og 24. nóvember sl.


 


 

II.


 

Hinn 24. ágúst 2000 gerði A, f.h. óstofnaðs einkahlutafélags, kauptilboð í jörðina Sælingsdalstungu, Dalabyggð. A og B, stofnuðu síðan hlutafélaga , sem er kaupandi jarðarinnar. Kaupanda barst bréf frá sveitarstjóra Dalabyggðar, dagsett 15. september 2000, þar sem óskað var upplýsinga um hvað hann hyggðist fyrir með kaupum á jörðinni, m.a. hvort föst búseta yrði þar og hvaða starfsemi væri þar fyrirhuguð. Sama dag sendi kaupandi bréf til sveitarstjórnar Dalabyggðar þar sem gerð var grein fyrir áformum hans með jörðina.


 

Þann 27. september sl. tilkynnti sveitarstjórn Dalabyggðar kaupanda að ákveðið hefði verið að neyta forkaupsréttar á jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð. Bréf með andmælum var sent sveitarstjórn þann 6. október, þar sem þess er krafist að fallið verði frá þeirri ákvörðun sveitarstjórnar að neyta forkaupsréttarins. Með bréfi dagsettu 11. október barst svar við því bréfi frá sveitarstjóra, þar sem fram kemur að byggðaráð telji að sveitarstjórn hafi farið að lögum um beitingu forkaupsréttar og engin ástæða sé til þess að breyta þeirri ákvörðun.


 

Með bréfi dagsettu 25. október sl., sem barst ráðuneytinu þann 26. október sl. kærði Helgi Jóhannesson hrl., f.h. umbjóðenda sinna, ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar. Í kærunni er þess krafist að landbúnaðarráðuneytið felli úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar, dags. 21. september 2000, um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu.


 

Með bréfi ráðuneytisins dagsettu 27. október var sveitarstjórn Dalabyggðar gefinn kostur á að neyta andmælaréttar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gefinn frestur til 7. nóvember sl. Sá frestur var síðan framlengdur að beiðni Inga Tryggvasonar hdl., f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar, til 13. nóvember.


 

Með bréfi dagsettu 13. nóvember sl. bárust athugasemdir Inga Tryggvasonar hdl., f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar. Kæranda var síðan gefinn kostur á því að koma að frekari athugasemdum sem bárust með bréfi 20. nóvember sl. og aftur með bréfi 24. nóvember. Aftur bárust andmæli f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar með bréfi dagsettu 27. nóvember sl.


 


 

III.


 

Sveitarstjórn Dalabyggðar tók hina kærðu ákvörðun á fundi sínum 21. september sl. Á fundinum var gerð svofelld bókun:


"2. Forkaupsréttarákvæði skv. heimild í jarðalögum:

A. Erindi frá Fasteignamiðstöðinni, dags. 3. september 2000, vegna sölu jarðarinnar Sælingsdalstungu.


Oddviti jarðarinnar lagði fram eftirfarandi tillögu:


Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkir að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu á grundvelli jarðalaga, sbr. kaupsamning dags. 24. ágúst 2000 sem sendur hefur verið sveitarstjórn.


Ákvörðun sveitarstjórnar byggir á því að hagsmunum sveitarfélagsins verði best borgið með því að neytt verði forkaupsréttar. Land Sælingsdalstungu liggur að landi Lauga þar sem Dalabyggð tekur þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í þeim tilgangi að treysta eins og hægt er búsetu í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn álítur að Dalabyggð standi mun betur að vígi við frekari uppbyggingu í ferðþjónustu í Dalasýslu neyti sveitarstjórn forkaupsréttar enda býður land Sælingsdalstungu upp á mikla möguleika í sambandi við þjónustu við ferðamenn og hentar m.a. vel til skógræktar og hvers konar útivistar. Þá hyggst sveitarfélagið gera landið að hluta til fólkvangi. Dalabyggð á einnig vatnsréttindi í landi Sælingsdalstungu en nýting þeirra skiptir sveitarfélagið mjög miklu máli til að treysta búsetu í sveitarfélaginu. Með því að taka þátt í ferðaþjónustu í Dalasýslu er sveitarstjórn að gera atvinnulíf í Dalabyggð fjölbreyttara þannig að búseta á svæðinu standi ekki og falli með hefðbundnum búskap.



Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að veita sveitarstjóra heimild til að taka lán hjá Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupanna.



Tillagan borin upp og samþykkt með 4 atkvæðum. Ástvaldur Elísson og Bryndís Karlsdóttir greiddu atkvæði á móti."

Kærandi krefst þess, sem fyrr segir, að ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar þess efnis að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð, verði felld úr gildi.


Kröfur sínar byggja kærendur einkum á eftirfarandi málsástæðum:


Að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi ekki lagaheimild til að neyta forkaupsréttarins eins og atvikum er háttað í máli þessu. Ákvæði um forkaupsrétt að jörðum eins og mál þetta snýst um, eru í jarðalögum nr. 65/1976. Í 1. gr. laganna er kveðið á um tilgang laganna, sem er að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðfélagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.


 

Kærandi segir jafnframt að ljóst sé að sveitarfélög geti ekki frjálst og óhindrað neytt forkaupsréttar og skert þannig samningsfrelsi manna sem er grundvallarregla í íslenskum rétti. Kærandi telur að túlka verði forkaupsréttarákvæði 30. gr. jarðalaga þröngt þar sem í því felist undantekning frá samningsfrelsinu og með tilliti til 1. gr. jarðalaga um tilgang þeirra. Kærandi telur að fyrirhuguð not þeirra á jörðinni og hagsmunir sveitarfélagsins fari saman. Kærandi hyggst nota landið á sama hátt og sveitarfélagið lýsir fyrirætlunum um að gera og samrýmast ætlanir kæranda fyllilega þeim tilgangi er lýst er í 1. gr. jarðalaga. Kærandi telur því ekki hægt að sjá að hagsmunum sveitarfélagsins sé frekar borgið með því að sveitarstjórnin neyti forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu. Tilgangur með forkaupsréttarákvæði jarðalaga sé sá að veita sveitarstjórn heimild til að grípa inn í ef með sölu jarðar er ljóst að hún verði ekki nýtt á þann hátt er komi sveitarfélaginu sem best, einkum hvað varðar uppbyggingu sveitarfélagsins, búsetu í því og landbúnað. Kærandi telur að gangi sala jarðarinnar ekki gegn þessum hagsmunum sveitarfélagsins, hafi sveitarstjórn ekki heimild til að nýta sér forkaupsréttarákvæðið í 30. gr. jarðalaganna. Kærendur telja skilyrði fyrir beitingu forkaupsréttarákvæðis jarðalaga ekki uppfyllt í þessu tilviki.


 


 

IV.


 

Í athugasemdum sveitarstjórnar Dalabyggðar, dagsettum 13. nóvember sl., kemur fram að áður en sveitarstjórn tók ákvörðun í málinu leitaði hún eftir því hjá tilboðsgjafa, A, hvernig hann hyggðist nýta jörðina. Áður höfðu Sigurður Rúnar Friðjónsson, oddviti og Jónas Guðmundsson, formaður byggðaráðs, rætt við A og í þeim samtölum hafi A rætt fyrirætlanir sínar um nýtingu á jörðinni. Í athugasemdum hreppsnefndar Dalabyggðar kemur jafnframt fram að kauptilboðið sé í nafni einkahlutafélags í eigu A og B. Fram kemur að þau ætli sér að flytja að Sælingsdalstungu næsta vor og hafa þar fasta búsetu. Þar ætli þau að stunda landbúnað í víðasta skilningi þess orðs. Ennfremur hafi komið fram að kærandi hafi uppi hugmyndir um bleikjueldi ef hægt væri að fá heitt vatn.


 

Í athugasemdum sveitarstjórnar Dalabyggðar kemur fram að oddviti sveitarstjórnar hafi rætt við seljendur áður en ákvörðun var tekin og hafi komið fram hjá þeim að þau væru ekki mótfallin því að sveitarfélagið neytti forkaupsréttar að jörðinni. Einnig kemur fram í athugasemdum að tilgangur sveitarstjórnar með því að neyta forkaupsréttar að jörðinni sé sá að treysta búsetu í Dalabyggð. Er það rökstutt í athugasemdum sveitarstjórnar með eftirfarandi hætti:

"Atvinnulíf í Dalabyggð hefur aðallega byggst á hefðbundnum landbúnaði, sauðfjárrækt og kúabúskap, og úrvinnslu landbúnaðarafurða. Eins og kunnugt er hefur hefðbundinn landbúnaður á landinu öllu átt undir högg að sækja á undanförnum árum og þá aðallega sauðfjárrækt. Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur því um nokkurt skeið leitast við að treysta undirstöður annarra atvinnugreina í sveitarfélaginu en hefðbundins landbúnaðar. Einn liður í þeirri viðleitni sveitarstjórnar er þátttaka í uppbyggingu tengdri ferðarþjónustu á Laugum í Sælingsdal, sem er næsta jörð við Sælingsdalstungu. Er Dalabyggð stór hluthafi í einkahlutafélaginu Dalagistingu sem nú þegar hefur keypt hluta af skólahúsnæðinu á Laugum og ráðist þar í fjárfrekar endurbætur. Á aðalfundi Dalagistingar ehf. í október var samþykkt að auka hlutafé félagsins verulega í þeim tilgangi að ráðast í enn frekari endurbætur og uppbyggingu á Laugum. Þess má einnig geta í þessu sambandi að Dalabyggð hefur tekið þátt í mikilli uppbyggingu á Eiríksstöðum í Haukadal og fyrirhugað er að ráðast í framkvæmdir í Búðardal tengdum ferðaþjónustu. Þessar aðgerðir sveitarstjórnar hafa nú þegar skilað sér í mjög auknum ferðamannafjölda í Dalasýslu og fært sveitarstjórn heim sanninn um það að ýmsir möguleikar eru á þessu sviði ef rétt verður haldið á málum á næstu árum."


Í athugasemdum er einnig tekið fram að land Lauga og Sælingsdalstungu liggi saman og hafi það skipt miklu máli þegar að sveitarstjórn tók ákvörðun sína. Sveitarstjórn telur mikla möguleika felast í því að hafa eignarhald á Sælingsdalstungu við enn frekari uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Það bjóði m.a. upp á þann möguleika að koma upp fólkvangi á svæðinu og góðu útivistarsvæði tengdu rekstri hótels á Laugum og hugsanlegri frístundahúsabyggð. Dalabyggð á vatnsréttindi í landi Sælingsdalstungu, kalt vatn, og getur enn frekari nýting þess styrkt byggð í sveitarfélaginu segir í athugasemdum. Nú sé tekið neysluvatn fyrir Búðardal þar en áhugi sé á því að nýta vatnsréttindin enn frekar og geti þar skipt máli að sveitarfélagið hafi eignarhald á jörðinni.

Jafnframt segir í athugasemdum að skv. 1. gr. jarðalaga sé tilgangur laganna að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðinni sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda og í samræmi við þennan tilgang laganna sé sveitarstjórnum veittur forkaupsréttur að jörðum nema í undantekningartilfellum, sbr. 1. mgr. 30. gr. jarðalaga. Í athugasemdum segir einnig að eins og fram hafi komið hafi sveitarstjórn Dalabyggðar talið hagsmunum sveitarfélagsins best borgið með því að neyta forkaupsréttar að Sælingsdalstungu. Hafi sveitarstjórnin ekki eignarhald á jörðinni muni það takmarka mjög fyrirhugaða uppbyggingu á Laugum auk þess sem eignarhald mun tryggja mun fjölbreyttari möguleika á sviði ferðaþjónustu í Dalabyggð.


 

Í athugasemdum sveitarstjórnar er fjallað um það að í samtali oddvita og kæranda hafi sveitarstjórn talið áform kaupanda/tilboðsgjafa í mörgum atriðum óljós og að A hafi að hluta til lýst öðrum áformum í samtölum við oddvita og formann byggðaráðs en þeim sem koma fram í bréfi því er A sendi sveitarstjórn og dagsett er þann 15. september sl.


 

Í athugasemdum sveitarstjórnar kemur einnig fram að hvers kyns þjónusta við ferðamenn hafi aukist mjög mikið um allt land. Margir bændur sem áður hafi stundað hefðbundinn landbúnað hafi snúið sér að ferðaþjónustu einvörðungu með góðum árangri. Þannig hafi m.a. tekist að forða því að sveitir landsins legðust í eyði um leið og hefðbundnum búskap væri hætt. Nú á tímum sé ekki síður mikilvægt fyrir sveitarfélög að geta haft áhrif á ráðstöfun jarða þar sem ferðaþjónusta er stunduð heldur en jarða þar sem rekinn er hefðbundinn landbúnaður. Það sama gildi um jarðir þar sem möguleiki er á að byggja upp aðrar atvinnugreinar en hefðbundinn landbúnað.


 


 

V.


 

Kærandi gerði athugasemdir við andsvör sveitarstjórnar Dalabyggðar með bréfi dagsettu 20. nóvember sl. Þar segir m.a. að komið hafi fram í bréfi frá kæranda til sveitarstjórnar Dalabyggðar, dagsett 15. september sl., að fyrirætlan hans sé meðal annars að halda áfram því starfi sem unnið hafi verið varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu í Dalabyggð. Kærandi segir einnig í athugasemdum sínum að komið hafi fram í röksemdum sveitarstjórnar að sveitarstjórnin hafi talið áform kæranda í mörgum atriðum óljós og kærandi hefði áður að hluta lýst öðrum áformum sínum í samtölum við oddvita og formann byggðaráðs. Þessu er mótmælt af hálfu kæranda. Kærandi telur að hafi sveitarstjórn talið áform hans óljós í einhverjum atriðum hafi hún átt að leitast við að fá nánari skýringar áður en ákvörðun var tekin um að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Vísar kærandi um þessa skyldu sveitarfélagsins til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Kærandi fjallar einnig um uppbyggingu ferðaþjónustu í Dalabyggð og það að engin áætlun sveitarfélagsins liggi fyrir um uppbygginguna. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Sveitarstjórnin hefur ekki sýnt fram á að ekki megi ná þeim markmiðum sem hún hugsanlega hefur sett sér varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu með samvinnu við kæranda. Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur þannig ekki sýnt fram á að eignarhald á jörðinni Sælingsdalstungu sé nauðsynlegt fyrir hagsmuni sveitarfélagsins og þeirra sem landbúnað stunda, eins og tilgangur jarðalaga nr. 65/1976 kveður á um segir í athugasemdum. Kærandi telur engin efnisleg rök liggja að baki ákvörðuninni.


 

Kærandi fjallar einnig um það að meginregla sé í íslenskum rétti að samningsfrelsi ríki milli manna. Aðilar eiga rétt á að velja sína viðsemjendur sjálfir. Ákvæði laga sem veita öðrum aðilum forkaupsrétt að ákveðnum eignum eru íþyngjandi ákvæði sem ávallt skulu túlkast þröngt og til að slík ákvæði haldi gildi sínu þurfa þau skilyrði sem sett eru fyrir því að hægt sé að neyta forkaupsréttarins að vera uppfyllt. Séu skilyrðin óljós eða vafi leiki á um hvort þau séu uppfyllt verði að túlka það forkaupsréttarhafa í óhag.


 

Í frekari athugasemdum kæranda, dagsettum 24. nóvember sl., er tekið fram að fram hafi komið í athugasemdum sveitarstjórnar Dalabyggðar að oddviti sveitarstjórnar hafi rætt við seljendur áður en ákvörðun hafi verið tekin og að fram hafi komið hjá þeim að þau væru því ekki mótfallin að sveitarfélagið neytti forkaupsréttar að jörðinni. Kærandi tekur fram varðandi þetta atriði að sveitarstjórnin hafi hvergi lagt fram formlegt svar seljanda við þessu, enda hafi seljendur tjáð kæranda að þau vildu miklu heldur selja honum heldur en sveitarfélaginu. Sú meginregla gildi að aðilar eigi rétt á að velja sína viðsemjendur sjálfir og séu reglur um forkaupsrétt ekki undantekningar frá þeirri rótgrónu meginreglu og beri því að skýra þær þröngt.


 


 

VI.


 

Í frekari athugasemdum sveitarstjórnar Dalabyggðar, dagsettum 27. nóvember sl., segir m.a. að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi á undanförum misserum unnið markvisst að því að efla ferðaþjónustu í Dalabyggð til þess að treysta búsetu í sveitarfélaginu. En fram til þessa hafi búseta í sveitarfélaginu byggst á hefðbundnum landbúnaði. Einn liður sé þátttaka og uppbygging á Laugum í Sælingsdal, en Sælingsdalstunga er næsta jörð. Í athugasemdum kemur fram að sveitarstjórn telur mjög mikilvægt að hafa eignarráð á Sælingsdalstungu, en eignarhaldið á jörðinni muni auka líkur á því að áform sveitarfélagsins, hvað varðar uppbyggingu í ferðaþjónustu á Laugum og nágrenni, gangi eftir. Sveitarstjórn telur augljóst að mun minni líkur og jafnvel engar séu á því að áform sveitarfélagsins gangi eftir verði annar aðili eigandi Sælingsdalstungu.


 

Einnig er tekið fram að sveitarstjórn hafi ekki getað aflað sér frekari upplýsinga um áform tilboðsgjafa en að fá frá honum skriflega hvað hann ætlaði sér með jörðina. Hið skriflega svar hans hafi hins vegar ekki að öllu leyti verið í samræmi við samtöl hans við forsvarsmenn sveitarfélagsins og það bendi til þess að tilboðsgjafi hafi ekki fullmótaðar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar.


 

Sveitarstjórn ítrekar að fullkomið eignarhald á Sælingsdalstungu sé forsenda þess að áform sveitarfélagsins gangi eftir. Tilgangur sveitarstjórnar með því að nýta sér forkaupsrétt sé sá að tryggja að eignarhald á jörðinni sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins sem falli þannig að tilgangi jarðarlaga, sbr. 1. gr. laganna.


 

Í athugasemdum sveitarstjórnar er það ítrekað að oddviti sveitarstjórnar hafi rætt við seljendur Sælingsdalstungu áður en ákvörðun um að nýta forkaupsrétt var tekin og seljendur hafi ekki haft athugasemdir við að sveitarstjórn nýtti sér forkaupsrétt.


 

Sveitarstjórn bendir einnig á það að Sælingsdalstunga sé landmikil jörð og að hluti hennar muni nýtast sem afréttur fyrir nágrannabændur en mjög mikilvægt sé að bændur sem stunda sauðfjárrækt hafi aðgang að góðu beitilandi, m.a. vegna mikillar áherslu á lífræna framleiðslu. Nýting jarðarinnar skipti því miklu fyrir Dalabyggð.


 

VII.


 

Máli þessu var skotið til landbúnaðarráðuneytisins með heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum. Kæran barst ráðuneytinu innan tilskilins kærufrests eða 26. október sl. Eins og gerð er grein fyrir hér að framan var sveitarstjórn Dalabyggðar gefinn kostur á að tjá sig um kæruna og síðan var hvorum málsaðila um sig gefið færi á að koma að frekari athugasemdum sínum.

Krafa kæranda er orðuð svo, að "landbúnaðarráðuneytið felli úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar, dags. 21. september 2000 um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu."

Krafa sveitarstjórnar Dalabyggðar er orðuð svo, "þess er krafist að staðfest verði sú ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 21. september 2000 að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð."

Með hinni kærðu ákvörðun samþykkti sveitarstjórnin fyrir sitt leyti að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð. Í bókun hreppsnefndar eru jafnframt færð rök fyrir ákvörðuninni.

Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð, er byggð á jarðalögum nr. 65/1976, með síðari breytingum. Í IV. kafla laganna er fjallað um forkaupsrétt sveitarstjórna. Nánar tiltekið segir í 1. mgr. 30. gr. laganna:

"Eigi að selja fasteignaréttindi, sem lög þessi taka til, sbr. 3. gr., á sveitarstjórn þess sveitarfélags þar sem eignin er, forkaupsrétt að þeim, nema um ráðstöfun ættaróðals sé að ræða, sbr. 35. gr. laga þessara."

Reglan hefur þann tilgang að veita sveitarstjórnum kost á að hafa við sölu jarða í sveitarfélaginu áhrif á að þeim verði ráðstafað í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins og þeirra sem landbúnað stunda, en um tilgang laganna er fjallað í 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976 sem hljóðar svo:

"Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda."

Í frumvarpi til jarðalaga og athugasemdum við 1. gr. segir m.a.:

"Rétt verður að teljast að gefa þéttbýlisbúum og öðrum, sem eftir sækjast, kost á landspildum til ræktunar og útivistar og til að reisa sumardvalarhús.


Reynslan sýnir hins vegar nú þegar, að brýn þörf er á að fylgjast með slíkum ráðstöfunum lands og hafa áhrif á hvar og hvernig landi er ráðstafað á þann hátt. Að öðrum kosti vofir yfir stórfelld röskun á búsetuaðstöðu fólks á dreifbýlissvæðum umfram það, sem þegar er orðið og óeðlileg verðhækkun lands.


Lögum þessum er m.a. ætlað að veita byggðarlögunum meira áhrifavald í þessu efni, styrkja stöðu bænda, bændaefna og sveitarfélaga til jarðakaupa, skapa aðstöðu til að fylgjast með öllum ráðstöfunum fasteigna og fasteignaréttinda, utan skipulagðra þéttbýlissvæða og hafa áhrif á verðlag þeirra."

Skv. 1. mgr. 30. gr. jarðalaga fer sveitarstjórn með opinbert vald og þarf því ekki eingöngu að gæta ákvæða jarðalaga um tilgang þeirra heldur einnig ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Tilgangur jarðalaga er, eins og sjá má af 1. gr. laganna, fyrst og fremst sá að tryggja nýtingu lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða í þágu þeirra sem landbúnað vilja stunda og með hliðsjón af hagsmunum sveitarfélaga af því að innan vébanda þeirra geti landbúnaður þróast með eðlilegum hætti. Áður en sveitarstjórn tók ákvörðun hafði hún samband við A, kæranda þessa máls og gaf honum kost á því að koma að skriflegum upplýsingum um fyrirhugaða nýtingu hans á jörðinni. Gaf sveitarstjórnin þar með A kost á því að koma að athugasemdum sínum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulagan. Hvað varðar fullyrðingar sveitarstjórnar þess efnis að annars vegar hið skriflega svar A og hins vegar upplýsingar úr samtali sem sveitarstjórn átti við hann nokkru áður, hafi ekki farið saman, þá bar sveitastjórn skylda til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þó er því hafnað að þeir annmarkar á ákvörðun sveitarfélagsins, að gæta ekki að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, séu slíkir að ógilda beri hana af hálfu ráðuneytisins sem æðra stjórnvalds.


Ákvörðun sveitarstjórnarinnar um að neyta forkaupsréttar á jörðinni var tilkynnt með bréfi dagsettu 27. september sl. Í bréfinu kemur fram að heimilt sé að fá rökstuðning fyrir ákvörðuninni skv. 21. gr. stjórnsýslulaga og einnig er bent á það í bréfi sveitarstjórnar að heimilt sé að bera ákvörðun sveitarstjórnar undir æðra stjórnvald, í þessu tilviki landbúnaðarráðuneyti.

Í stjórnsýslukæru A er sérstaklega byggt á því að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi ekki lagaheimild til að neyta forkaupsréttarins eins og atvikum er háttað í þessu máli. Lagaákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum eins og hér um ræðir eru í jarðalögum, nánar tiltekið í 1. mgr. 30. gr. þeirra. Í athugasemdum við 1. mgr. 21. gr. jarðalaga, nú 1. mgr. 30. gr. jarðalaga, segir að greinin komi í stað 2. gr. laga nr. 40/1948 um kauprétt á jörðum. Í 2. gr. þeirra laga segir m.a.: "Sveitarstjórn hvers hrepps skal hafa forkaupsrétt á þeim jörðum innan hreppsins, sem ganga kaupum og sölum og ekki eru opinber eign...." Fyrir gildistöku jarðalaga voru í gildi sérlög, lög nr. 40/1948, sem fjölluðu um kauprétt á jörðum. Við setningu jarðalaga var ákveðið að fella lögin inn í einn kafla laganna, en ekki er að sjá af lögskýringargögnum að ætlun löggjafans hafi verið að gera lagaákvæði er varðar forkaupsrétt sveitarstjórna að undantekningarákvæði, heldur þvert á móti að heimila sveitarfélögum að grípa inn í viðskipti manna með jarðir þannig að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og eignarráð á landi og búseta á jörðum samrýmist hagsmunum sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.


Í ljósi þeirra hagsmuna og röksemda sem lágu að baki ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar verður ekki talið að sveitarstjórnin hafi getað náð markmiði því sem að var stefnt, þ.e.a.s. að tryggja að eignarhald á jörðinni sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins og markmiða hennar er hún stefnir að við uppbyggingu jarðarinnar, með öðru og vægara móti, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, eða að sveitarstjórn hafi íþyngt kæranda að nauðsynjalausu.


Vegna sjálfstæðis sveitarfélaga til að ráða eigin málefnum verður að játa sveitarstjórn verulegu svigrúmi við mat á því hvort beiting forkaupsréttarákvæði jarðalaga, samrýmist tilgangi laganna.

Því er hafnað kröfu kæranda að ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 21. september 2000, þess efnis að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð, verði felld úr gildi.


 


 

ÚRSKURÐARORÐ:


 


 

Ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 21. september 2000 um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð, er staðfest.


 


 

Guðni Ágústsson.


 

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum