Sía ár


Yfirfasteignamatsnefnd

15.12.2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 30. nóvember 2016 í máli nr. 12/2016.
Fasteign: Vatnsréttindi jarða sem nýtt eru í þágu Kárahnjúkavirkjunar, og landréttindi (eignarnumið land) á jörðinni Laugavöllum, fnr. 235-7931, Fljótsdalshérað.
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2016, 30. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 12/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 18. mars 2016, kærði Landsvirkjun, kt. 420269-1299, álagningu fasteignaskatta á vatnsréttindi Landsvirkjunar á Fljótsdalshéraði, sem nýtt eru í þágu Kárahnjúkavirkjunar, og á landréttindi kæranda í landi jarðarinnar Laugavalla á Fljótsdalshéraði, fnr. 235-7931.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 1. apríl 2016, eftir umsögn Fljótsdalshéraðs vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 22. apríl 2016.

Hinn 25. apríl 2016 var umrædd umsögn send kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 4. maí 2016, bárust frekari athugasemdir af hálfu kæranda. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu sem gerði frekari athugasemdir með bréfi, dags. 25. maí 2016. Umræddar athugasemdir voru kynntar kæranda. Málið var tekið til úrskurðar 16. september 2016.

Málavextir
Með lögum nr. 38/2002 um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar var kæranda veitt heimild til að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal (Kárahnjúkavirkjun) og virkja til þess vatnsföllin Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum. Forsætisráðuneytið gaf út leyfi til kæranda 30. júlí 2002 þar sem honum var heimiluð nýting vatnsréttinda, náma og annarra jarðefna til framkvæmda við virkjunina að svo miklu leyti sem nýtingarlandið teldist þjóðlenda og var leyfið veitt á grundvelli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  

Með sérstökum samningi milli kæranda og eigenda jarða við Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum frá 13. desember 2005 varð kærandi eigandi vatnsréttinda fyrrgreinda vatnsfalla sem áður höfðu tilheyrt fjölda jarða. Landeigendur sem framseldu kæranda vatnsréttindi sín staðfestu með yfirlýsingum afmörkun vatnsréttindanna. Samkvæmt yfirlýsingum þeirra, sem þinglýst var á viðkomandi jarðir, námu framseld vatnsréttindi hverrar jarðar eignarhluta hennar í rennsli viðkomandi ár og falli þess fyrir landi jarðarinnar í samræmi við forsendur úrskurðar sérstakrar matsnefndar. Íslenska ríkið, sem eigandi ríkisjarða á Fljótsdalshéraði, gaf sams konar yfirlýsingar og aðrir landeigendur.

Fljótsdalshérað óskaði eftir því við Þjóðskrá Íslands 18. júní 2008 að umrædd vatnsréttindi vegna Jökulsár á Dal yrðu metin fasteignamati óháð stöðu þeirra samkvæmt þinglýsingu. Þjóðskrá Íslands féllst á kröfu sveitarfélagsins um skráningu og mat þeirra  vatnsréttinda sem framseld höfðu verið kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Þjóðskrár Íslands 10. febrúar 2012. Kærandi höfðaði mál 14. desember 2012 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á fyrrgreindri ákvörðun Þjóðskrár Íslands. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu kæranda og felldi úr gildi ákvörðun Þjóðskrár Íslands.. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands sem með dómi í máli nr. 22/2015, uppkveðnum 8. október 2015, sneri við dómi héraðsdóms og sýknaði Þjóðskrá Íslands og Fljótsdalshérað af öllum kröfum kæranda í málinu.

Eftir að úrskurður innanríkisráðuneytisins lá fyrir í febrúar 2012 gerðu kærandi og sveitarfélagið Fljótsdalshérað með sér samkomulag í lok árs 2012 þar sem frekari vinnu við skráningu og mat vatnsréttindanna var frestað þar til endanleg niðurstaða dómstóla lægi fyrir. Liður í samkomulaginu var yfirlýsing kæranda um að hann væri reiðubúinn að greiða fasteignaskatt af vatnsréttindunum frá og með árinu 2013 ef endanlegur dómur yrði sveitarfélaginu í vil en þó með þeim fyrirvara að framkvæmd fasteignamats vatnsréttindanna og álagning fasteignaskatts færi fram með lögmæltum og óumdeildum hætti.

Eftir að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 lá fyrir ákvað Þjóðskrá Íslands að taka til skráningar og mats vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar og var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 28. desember 2015. Í fyrrgreindu bréfi kom fram að vegna skráningar vatnsréttindanna á Fljótsdalshéraði hefði verið stofnuð sérstök lóð úr landi Laugavalla, landnúmer 223696, og væru vatnsréttindin skráð sem vatnsorkuréttindi með fastanúmerið 235-7931.

Í kjölfar skráningar og mats Þjóðskrár Íslands á vatnsréttindum kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar og í samræmi við fyrrgreint samkomulag kæranda og Fljótsdalshéraðs í árslok 2012 tilkynnti Fljótsdalshérað með bréfi til kæranda, dags. 14. janúar 2016, um álagningu fasteignaskatts umræddra vatnsréttinda vegna áranna 2013, 2014 og 2015. Þá var kæranda tilkynnt í byrjun febrúar 2016 um álagningu fasteignaskatts á umrædd vatnsréttinda auk landréttindi á jörðinni Laugavöllum, fnr. 235-7931, vegna ársins 2016. Fram kom í bréfi Fljótsdalshéraðs og álagningarseðlum að stuðst væri við mat Þjóðskrár Íslands og að álagning fasteignaskatts væri samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærandi gerði athugasemdir við umrædda álagningu 9. febrúar 2016 og krafðist þess að álagningin yrði felld úr gildi og að öll réttindin yrðu tekin til endurálagningar fyrir umrædd ár. Gerði kærandi þá kröfu að álagning fasteignaskatts á umrædd vatns- og landréttindi yrðu samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2016, hafnaði sveitarfélagið kröfu kæranda um endurálagningu og vísaði til fyrri ákvörðunar og rökstuðnings um að ákvarða bæri fasteignaskatt vegna þessara réttinda samkvæmt c. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir. 

Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

  1. að ákvörðun Fljótsdalshéraðs um álagningu 1,65% fasteignaskatts á vatnsréttindi jarða á Fljótsdalshéraði, sem nýtt eru í þágu Kárahnjúkavirkjunar, og á landréttindi (eignarnumið land) kæranda á jörðinni Laugavöllum á Fljótsdalshéraði, fnr. 235-7931, samkvæmt c- lið 3. mgr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, verði felld úr gildi, og

  2. að engin fasteignaskattur verði lagður á kæranda vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar á Fljótsdalshéraði sem eru innan þjóðlendu, og

  3. að álagning fasteignaskatts á umrædd vatnsréttindi jarða utan þjóðlendna og nefnd landréttindi (eignarnumið land) á jörðinni Laugavöllum á Fljótsdalshéraði, taki þess í stað mið af a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Að mati kæranda styðst ákvörðun Fljótsdalshéraðs um álagningu fasteignaskatts á umrædd vatnsréttindi kæranda ekki við skýra lagaheimild. Um sé að ræða fordæmalausa álagningu fasteignaskatts þar sem engin dæmi séu fyrir skattlagningu sambærilegra vatnsréttinda, þrátt fyrir að slík réttindi hafi verið skráð og metin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015. Að sögn kæranda hafi aldrei verið lagður fasteignaskattur á orkunýtingarréttindi samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Að mati kæranda verði að gæta fyllsta jafnræðis við jafn íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda og við álagningu skatta. Vísar kærandi í þessu sambandi til ákvæða stjórnarskrár Íslands um að skýra lagaheimild þurfi fyrir álagningu skatta sbr. 40. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og að allan vafa um heimild til skattlagningar beri að túlka gjaldanda í hag.

Kærandi telur að með þeirri ákvörðun Fljótsdalshéraðs að færa einhliða umrædd vatnsréttinda úr flokki fasteignaskatts samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga í fasteignaskattsflokk samkvæmt c-lið sömu lagagreinar hafi sveitarfélagið brotið gegn lögmætis- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem og ákvæðum stjórnarskrár þar sem skýra lagaheimild hafi skort fyrir slíku. Engin fordæmi séu fyrir því að vatnsréttindi, hvort sem þau séu hluti af jarðeignum eða hafi verið skilin frá jörðum, séu felld undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Kærandi bendir á að vatnsréttindin hafi áður verið hluti af mörgum jörðum og þannig hluti af fasteignmati viðkomandi jarða og hafi álagning fasteignaskatts tekið mið af því og réttindin skattlögð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Sú eina breyting að kærandi hafi yfirtekið umrædd réttindi leiði ekki sjálfkrafa til þess að þau færist til um skattflokk. Gæta verði jafnræðis og haga skattlagningu samskonar réttinda með sama hætti. Í þessu sambandi bendir kærandi á hvernig framkvæmdin hafi verið á öðrum virkjunarsvæðum til dæmis þar sem kærandi sé ekki umráðaaðili eða eigandi vatnsréttinda eins og á sér stað vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í efri hluta Þjórsár eigi kærandi lögvarinn rétt til orkunýtingar án þess að vera eigandi lands eða vatnsréttinda og í neðri hluta Þjórsár hafi verið gerðir leigusamningur um leigu vatnsréttinda til tiltekins tíma. Í slíkum tilvikum teljast vatnsréttindin áfram til viðkomandi „jarðeignar“ og séu skattlögð á grundvelli a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en ekki samkvæmt c-lið sömu lagagreinar. Að mati kæranda er löggjöfin á þessu sviði óljós og því afar ósanngjarnt og óeðlilegt að haga skattheimtu með þeim hætti að hún feli í sér augljósa mismunun gjaldenda eftir því hvernig staðið er að fyrirkomulagi og skráningu vatnsréttindanna og þar með skattálagningunni.

Að mati kæranda ber við álagningu fasteignaskatts af vatnsréttindum að miða við sama hlutfall og sambærilegar eignir eða réttindi og vísar kærandi í þeim efnum til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 451/1998. Í því máli reyndi á álagningu fasteignaskatta af vatns- og veiðiréttindum og komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þar sem sambærilegar eignir væru almennt skattlagðar með lægra skatthlutfalli bæri að greiða fasteignaskatt að réttindunum, með sama hætti. Fasteignaskattur vegna vatns- og veiðiréttinda sé í dag ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar Íslands og núverandi skráningar þessara réttinda telur kærandi ljóst að sú ákvörðun Fljótsdalshéraðs að fella vatnsréttindi í eigu kæranda undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sé í andstöðu við gildandi lagaákvæði, auk þess sem hún sé verulega íþyngjandi, feli í sér brot á jafnræðisreglu og sé í andstöðu við þau fáu dæmi hér á landi sem geti talist sambærilegt. Ákvörðun sveitarfélagsins sé því ólögmæt.

Að mati kæranda ber því að fella úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins um álagningu fasteignaskatts samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga á vatnsréttindi jarða á Fljótsdalshéraði, sem nýtt séu í þágu Kárahnjúkavirkjunar og séu utan þjóðlendu, þar sem lagaheimild fyrir þeirri skattlagningu sé ekki skýr, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 319/2015.

Kærandi bendir á að almennt sé fasteignaskattur lagður í einu lagi á jarðir og þau réttindi sem þeim fylgja, þar með talin vatnsréttindi (jarðeignir) samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Sérstaklega verði að hafa í huga að hugtakið vantsréttindi sé mjög víðtækt og nái ekki eingöngu til nýtingu vatnsfalla til orkuframleiðslu. Í ljósi þess að vatnsréttindi séu almennt metin í fasteignamati sem hluti viðkomandi jarðar, óháð nýtingu, verði að gæta jafnræðis við álagningu fasteignaskatta. Með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að túlka 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga með þeim hætti að fasteignaskattur vegna vatnsréttinda kæranda falli undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Þá byggir kærandi á því að ákvörðun sveitarfélagsins sé ekki í samræmi við skýrt orðalag 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Að mati kæranda falla umrædd vatnsréttindi samkvæmt orðanna hljóðan undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Réttindin séu ótvírætt áfram hluti af „jarðeignunum“ þó að kærandi hafi fengið heimild til þess að nýta vatnsréttindi viðkomandi jarða. Vatnið haldi áfram að renna um jarðirnar. Heimildum kæranda til nýtingar vatnsréttindanna hafi með sjálfstæðum yfirlýsingum verið þinglýst á jarðirnar. Réttindin séu því áfram hluti jarðanna þó að nýtingarrétturinn á vatninu hafi verið framseldur til kæranda. Með samningi aðila um yfirtöku vatnsréttinda hafi ekki fylgt eignaréttur að landi heldur eingöngu vatnsréttindin sjálf. Með vatnsréttindunum hafi ekki fylgt veiðiréttur sem sé þó órjúfanlegur hluti vatnsréttinda í ám og óheimilt að skilja frá jörðum, þó að um slíkan rétt hafi að takmörkuðu leyti verið að ræða á Kárahnjúkasvæðinu. Um veiðirétt sé hins vegar að ræða í öðrum vatnsföllum þar sem kærandi fari með nýtingarétt. Afar sérkennilegt sé því að tengja ekki vatnsréttindi lengur við viðkomandi jörð þar sem veiðiréttur í vatnsfallinu helst áfram hjá jörðinni. Þar sem vatnsréttindin hafi áður verið hluti af umræddum jarðeignum hafi vatnsréttindin við álagningu fasteignaskatts verið felld undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna sem hluti viðkomandi „jarðeigna“. Mikilvægt sé að samræmis sé gætt og því sé eðlilegt að skattlagningarhlutfallið (prósenta) sé áfram það sama þó að annar umráðaaðili komi til.

Kærandi vísi jafnframt til þess að í lagaákvæðinu sé tilgreint að hlunnindi jarða skuli felld undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í jarðalögum nr. 65/1976 (nú l. 81/2004) hafi vatnsréttindi verið skilgreind sem hlunnindi, sbr. 3. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé litið á vatnsréttindi sem hluti af hlunnindum jarða.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun eignarlanda, þjóðlendna og afrétta (þjóðlendulög) sé íslenska ríkið eigandi lands og hverskonar landréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki er háð einkaeignarrétti. Í ljósi þess fer íslenska ríkið með öll réttindi innan þjóðlendna. Kærandi hafi með samningi við íslenska ríkið öðlast nýtingarrétt á vatnsréttindunum innan þjóðlendunnar meðan Kárahnjúkavirkjun er starfrækt og greiði gjald til íslenska ríkisins fyrir þau afnot. Skýrt komi fram í 7. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga að þjóðlendur skulu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum.

Að mati kæranda er skattlagning Fljótsdalshéraðs á umrædd vatnsréttindi innan þjóðlendu á Kárahnjúkasvæðinu á grundvelli samninga við íslenska ríkið, sem eitt fari með eignarrétt vatnsréttindanna, ólögmæt. Álagningu fasteignaskatts á þann hluta vatnsréttindanna beri því að ógilda en þar sé um að ræða 32,55% af þeim vatnsréttindum kæranda sem séu innan Fljótsdalshéraðs. Að mati kæranda eigi að beina álagningu vatnsréttindanna að íslenska ríkinu, sem fari með eignarhald á þjóðlendum samkvæmt lögum, en ekki að kæranda, sem einungis byggi afnotarétt sinn á vatnsréttindunum á samningum við íslenska ríkið. Í umræddum samningi sé ekki gert ráð fyrir því að kærandi skuli bera skatta vegna afnotaréttar síns á vatnsréttindunum. Af þessum ástæðum einum beri að fella niður álagningu fasteignaskatts á þann hluta vatnsréttinda kæranda sem sé innan þjóðlendu í Fljótsdalshéraði.

Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi, sem lögð var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012-2013, sé ljóst að ekki hafi verið um varanlegt framsal vatnsréttinda að ræða í þeim tilvikum sem réttindin séu innan þjóðlendna. Vatnsréttindin séu því enn hluti af þeim jörðum ríkisins sem fari með land innan þjóðlendna. 

Kærandi telur með vísan til 1. mgr. 3. gr. jarðalaga nr. 81/2004 að hugtakið „jarðeignir“ taki einnig til réttinda sem þeim fylgja, þar með talin vatnsréttinda. Samkvæmt orðanna hljóðan beri að skýra ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga með þeim hætti að vatnsréttindi falli þar undir sem hluti jarðeigna.

Sú ákvörðun Fljótsdalshéraðs að leggja á fasteignaskatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga á hin umræddu vatnsréttindi eigi sér ekki lagastoð samkvæmt skýru orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu taki það til fasteigna eingöngu og eru þar sem dæmi talin upp tilteknar tegundir mannvirkja sem nýtt séu vegna atvinnustarfsemi. Í ákvæðinu eru ekki talin upp hlunnindi eða önnur réttindi, svo sem vatnsréttindi, veiðiréttindi, æðarvarp eða önnur fasteignatengd réttindi sem fylgi jarðeignum, líkt og skilgreint er í jarðalögum. Vatnsréttindi verði alls ekki flokkuð sem „aðrar fasteignir“ enda engin skýr lagaheimild fyrir slíku. Svo rúm túlkun ákvæðisins til skattlagningar standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.

Kærandi telur jafnframt með vísan til þágildandi 1. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 562/2008 að ekki beri að fara með vatnsréttindi, sem hafa verið seld eða afhent öðrum til umráða í langan tíma án þess að eignarréttur að landi fylgi, sem sjálfstæða fasteign. Í samningum kæranda um vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi engin landréttindi fylgt. Ljóst sé að vatnsréttindi teljast ekki vera sjálfstæð fasteign, og verði slík réttindi því ekki skattlögð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, nema fyrir því sé skýr heimild í lögum.

Þá vísar kærandi til þess að í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 19. janúar 2006, sem var staðfestur af Hæstarétti Íslands í máli nr. 85/2006, hafi komið fram að í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga að fasteignaskattur sé skilgreindur sem gjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélags en ekki sem eignarskattur. Með skattlagningu vatnsréttinda kæranda og landréttinda á Laugavöllum sem atvinnuhúsnæði sé ætlast til þess að kærandi greiði gjald fyrir þjónustu sem sveitarfélagið veiti ekki enda sjái kærandi um allt sem viðkemur eignum og réttindum hans á virkjanasvæðinu án nokkurrar aðkomu sveitarfélagsins. 

Að mati kæranda hafi þurft að taka fram með skýrum og ótvíræðum hætti í lögum eða öðrum réttarheimildum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 85/2006, hafi það verið ætlun löggjafans að ákveðin tegund vatnsréttinda skyldi skattlögð með öðrum hætti en vatnsréttindi almennt. Kærandi tekur fram að vatnsréttindi hafi aldrei verið skattlögð á grundvelli c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Á hinn bóginn hafi vatnsréttindi vegna vatns- og veiðiréttinda verið skattlögð á grundvelli a-liðar sama ákvæðis, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 451/1998.

Kærandi telur úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 23/2010 og 4/2012 og þá lagabreytingu sem gerð hafi verið í tilefni fyrrnefnda málsins, sbr. lög nr. 56/2012, sýni glögglega mikilvægi þess að lagaákvæði sem kveði á um heimild til skattlagningar séu skýr og óumdeild. Það sjónarmið hafi sérstaklega verið áréttað í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 56/2012.

Þá telur kærandi að eðlilegt sé að flokka landréttindi kæranda á Laugavöllum sem ,,annað land” eins og oft sé gert með úthaga og annað land úr jörðum sem ekki er ,,iðnaðar eða athafnalóð”. Fyrrgreint land kæranda að Laugavöllum sé mjög stórt og því ekki lóð í almennri merkingu þess orðs, engin starfsemi sé á landinu og á því séu engar fasteignir. Á landinu safnast fyrst og fremst vatn. Mörg dæmi séu til þess að jörðum sé skipt upp í fleiri einingar án þess að álagningarprósentu fasteignarskatts sé breytt. Hér verði sem fyrr að gæta jafnræðis við skattlagningu og allan vafa um varðandi réttmæti skráningar og heimildar til skattlagningar beri að túlka kæranda, sem gjaldanda, í hag.

Sjónarmið Fljótsdalshéraðs
Í umsögn Fljótsdalshéraðs, dags. 22. apríl 2016, eru gerðar eftirfarandi kröfur:

  1. Að b. lið kröfugerðar kæranda verði vísað frá yfirfasteignamatsnefnd. 

  2. Að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að ákvörðun Fljótsdalshéraðs um álagningu 1.65% fasteignaskatts á eignir sem kæra vísar til standi óröskuð.

Frávísunarkrafa sveitarfélagsins er byggð á því að b. liður kröfugerðar kæranda feli í sér að gerð sé athugasemd við aðferðarfræði Þjóðskrár Íslands við skráningu vatnsréttinda kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þannig feli kröfugerðin í raun í sér athugasemd við skráðan gjaldstofn en samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skal vísa ágreiningi um gjaldstofn til úrskurðar Þjóðskrár Íslands. Þeim úrskurði megi síðan skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Þar sem Þjóðskrá Íslands hafi ekki úrskurðað um kröfur kæranda um gjaldstofn skráðra vatnsréttinda, svo sem um ætlaðan hluta vatnsréttinda eftir uppruna þeirra, beri yfirfasteignamatsnefnd að vísa umræddum kröfulið frá.

Þá telur sveitarfélagið að í raun sé kröfugerð kæranda í málinu í heild sinni byggð á því að ekki sé rétt að skrá vatnsorkuréttindi Kárahnjúkavirkjunar innan Fljótsdalshéraðs í tengslum við eignarnámslóð úr landi Laugavalla, og því gæti komið til greina að vísa kærunni frá í heild í sinni, án sérstakrar kröfu þar um. Athugasemdir kæranda varða í raun athugasemdir við gjaldstofn réttindanna sem hluta af eigninni Laugavellir, eignarnámslóð. Telur sveitarfélagið að Þjóðskrá Íslands beri að úrskurða um slík atriði áður en slíkt komi til úrlausnar yfirfasteignamatsnefndar.

Til vara sé bent á að hægt að líta svo á að í b. lið kröfugerðar kæranda felist krafa um að skipta upp álagningu fasteignaskatts á umrædd réttindi, sbr. 6. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í slíkum tilvikum eigi byggingarfulltrúi að meta hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka en það hafi ekki verið gert í því máli sem hér um ræðir. Í ljósi þess ætti yfirfasteignamatsnefnd að vísa fyrrgreindum kröfulið kæranda frá nefndinni.

Verði ekki fallist á frávísun b. liðar kröfugerðar kæranda eru af hálfu sveitarfélagsins sett fram efnisleg mótmæli við kröfuliðinn.

Fljótsdalshérað telur að hafna beri öllum kröfum kæranda þar sem ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignaskatts á vatnsorkuréttindi kæranda og sérstaka eignarnámslóð úr landi Laugavalla, hvíli á réttum lagagrundvelli. Að mati sveitarfélagsins taki dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 af öll tvímæli um að umþrætt vatnsréttindi skuli skráð og metin til fasteignamats. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga skuli leggja árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Heimild til álagningar fasteignaskatts á eignarnámslóðar úr landi Laugavalla og vatnsréttindi henni tengdri sé skýr. Fljótsdalshérað telur meginágreiningsefni málsins vera í hvaða gjaldflokk eignir sem kæra vísi til skuli vera, það er hvort skattleggja beri þær samkvæmt a- eða c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Að mati sveitarfélagsins skilgreini lög um tekjustofna sveitarfélaga sérstaklega hvaða eignir falli undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Í c-lið lagagreinarinnar sé gert ráð fyrir að allar aðrar fasteignir falli þar undir. Þetta leiði til þess að a-liður ákvæðisins sé í raun undantekning frá þeirri meginreglu að fasteignir falli almennt undir c-lið sama ákvæðis.

Telji kærandi a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga óskýran, þá leiði grundvallarreglur um lögskýringu til þess að umþrættar eignir skuli falla í gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 23/2010 og 4/2012.

Sveitarfélagið tekur fram að gjaldflokkaröðun laga um tekjustofna sveitarfélaga hvíli á því að vísað sé til tegunda eigna og notkunar þeirra. Í því felist vísun til annarra lagareglna, skráðra og óskráðra, um það hvernig framkvæma skuli gjaldflokkun. Þannig geti verið um að ræða sérreglur sem skilgreina viðkomandi eignir og sérreglur um notkun eigna. Í gildandi lögum sé að finna skýran lagagrunn sem skilgreini notkun eigna, það er skipulagslög nr. 123/2010. Á grundvelli þeirra séu staðfestar skipulagsáætlanir, svo sem deiliskipulag og svæðisskipulag, sem skilgreini notkun eigna með afdráttarlausum hætti.

Framkvæmd laga um tekjustofna sveitarfélaga hvíli á því að líta skuli á raunverulega notkun eigna, jafnvel þótt skráning þeirra feli í sér að flokka eigi eign í annan gjaldflokk, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015.

Sveitarfélagið vísar til þess að eignarnámslóð kæranda úr landi Laugavalla sé sérstök fasteign, sem hafi verið stofnað til með eignarnámi á grundvelli 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Sérstakt svæðisskipulag frá árinu 2002 gildi um þetta svæði og með framkvæmdum kæranda hafi svæðisskipulagið komið til framkvæmda þannig að fyrrgreind lóð hafi verið tekin til iðnaðarnota. Þá vísar sveitarfélagið til þess að starfsemi vatnsaflsvirkjana sé í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 talið falla undir iðnaðarnot.

Þá er vísað til þess að kærandi hafi óskað eftir gerð sérstaks deiliskipulags fyrir hluta af eignarnámslóðinni en stærsti hluti lóðarinnar sé þó nýttur undir miðlunarlón fyrir Kárahnjúkavirkjun. Að mati sveitarfélagsins sé það engum vafa undirorpið að lóðin sé nú skipulagt iðnaðarsvæði og sé raunveruleg nýting lóðarinnar í samræmi við það.

Sveitarfélagið telur að jarðeignir í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga séu hvers kyns lóðir og lendur að frátöldum lóðum sem hafa sérstaklega verið skipulagðar til annarra nota. Þannig skipti ekki máli hvort landbúnaður fari í raun fram á slíkum lóðum og lendum sem teljast jarðir, þær beri að flokka samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna sem jarðeignir. Hins vegar sé ljóst að landspildur á svæðum sem hafi verið skipulögð sérstaklega til annarrar starfsemi en landbúnaðar, svo sem til iðnaðar, geti ekki talist jarðeignir í skilningi laganna. Framangreind niðurstaða sé í samræmi við forsögu lagaákvæða laga um tekjustofna sveitarfélaga og í samræmi við eðlilega samræmisskýringu við c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, sem bersýnilega feli í sér að iðnaðarlóðir falli í hærri skattflokk.

Þá bendir sveitarfélagið á að á eignarnámslóð kæranda úr landi Laugavalla standi iðnaðarmannvirki. Lóðarréttindi slíkra lóða falli því undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt undanþáguákvæði 26. gr. laga um skráningu og mat fasteigna geti tiltekin iðnaðarmannvirki verið undanþegin fasteignamati en það breyti þó ekki stöðu lóðarinnar. Þá sé aðstaðan sú að Kárahnjúkastífla er að hluta til innangeng og hafi þau einkenni að vera húsnæði. Þá séu á svæðinu húseignir til þjónustu fyrir ferðamenn, sem standi í skjóli lóðarréttinda kæranda. Iðnaðarlóð kæranda, Laugavellir eignarnámsland, falli því undir ákvæði c-liðar 3. Mgr. 3. Gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Sveitarfélagið telur að skýra verði eðli þeirra vatnsorkuréttinda sem mál þetta varðar út frá ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923 með síðari breytingum. Kárahnjúkastífla, sem standi á eignarnámslandi kæranda að Laugavöllum, sé dæmi um stíflu í vatnsfarvegi þar sem vatni sé veitt úr eðlilegum farvegi og slíkt nauðsynlegt vegna vatnsorkunota, sbr. 50. Gr. vatnalaga. Þá hafi kærandi á grundvelli laga nr. 38/2002 um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal, sérstaka heimild til þess að reisa stíflur við Fremri Kárahnjúka, til að veita vatni úr Jökulsá á Dal yfir í Fljótsdal. Þessi lagaheimild feli þannig í sér rétt til handa kæranda umfram almenn ákvæði 50. Gr. vatnalaga, það er að vatni úr Jökulsá á Dal sé ekki veitt aftur í farveg árinnar. Þessi aðstaða hafi leitt til þess að kærandi hafi orðið að afla sér réttinda yfir orkunýtingarréttindum í Jökulsá á Dal, allt til sjávarmáls, til að nýta með stíflum við Fremri Kárahnjúka.

Framangreint ákvæði 50. gr. vatnalaga, sbr. 49. gr. sömu laga, feli þannig í sér að réttur til vatnsorkuréttinda og stíflumannvirki fari saman. Í ljósi þessa sé sú ákvörðun Þjóðskrár Íslands að skrá vatnsorkuréttindi kæranda á eignarnámslóð úr landi Laugavalla rökrétt. Réttur til nýtingar vatnsorkuréttinda Jökulsár á Dal fylgi þeirri fasteign sem stífla kæranda í farvegi árinnar standi.

Kærandi hafi ákveðið við öflun vatnsorkuréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar að fara fram á að fá vatnsorkuréttindi jarða neðan Kárahnjúkastíflu, framseld til fullrar eignar, sbr. 15. gr. vatnalaga. Í samræmi við úrskurð matsnefndar hafi umfang vatnsorkuréttinda kæranda verið ákveðið. Að mati sveitarfélagsins séu vatnsorkuréttindi kæranda orkunýtingarréttur samkvæmt 49. gr. vatnalaga.

Sú aðferðarfræði Þjóðskrár Íslands að skrá vatnsorkuréttindi kæranda vegna Kárahnjúka-virkjunar í Jökulsá á Dal í tengslum við lóð kæranda við Kárahnjúkastíflu sé því í alla staði rökrétt. Til hliðsjónar vísar sveitarfélagið til 3. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, þar sem gert sé ráð fyrir að önnur réttindi tengd fasteign skuli skráð. Skráning og fasteignamat einstakra eigna samkvæmt g-lið 2. mgr. 3. gr. laganna í tengslum við tiltekið land fari fram án þess að fyrir liggi sérstök staðfesting landeiganda að eignirnar tengist tiltekinni fasteign. Þjóðskrá Íslands líti til raunverulegra tengsla, til dæmis að ræktun liggi á landi, hús eða mannvirki sé þar staðsett og/eða vatnsorkuréttindi séu órjúfanlegur hluti þeirrar starfsemi sem fari fram á lóð. Framangreind sjónarmið eigi einnig við um vatnsréttindi í þjóðlendu.

Þá byggir sveitarfélagið á því að við álagningu fasteignaskatts á eignarnámslóðina Laugavelli beri að leggja skatt á í samræmi við ákvörðun Þjóðskrár Íslands á gjaldstofni. Sveitarfélagið sé þannig bundið af ákvörðun Þjóðskrá Íslands um gjaldstofn og varðandi skráningu réttindanna. Kærandi hafi ekki hnekkt þeirri skráningu né þeim ákvörðunum til úrskurðar Þjóðskrár Íslands. Kærandi hafi þó ákveðið að gera ekki athugasemdir við útreiknaðan matsgrunn Þjóðskrár Íslands.

Sveitarfélagið telur að aðferðarfræði Þjóðskrár Íslands varðandi skráningu réttindanna eigi ekki undir kærumeðferð yfirfasteignamatsnefndar. Hins vegar sé eðlilegt með vísan til 49. gr. og 50. gr. vatnalaga að líta á vatnsorkuréttindi sem fasteignarréttindi sem fylgi þeirri lóð sem stífla í farvegi vatnsfalls standi á. Þá felist jafnframt í niðurstöðu matsnefndar varðandi umfang þeirra vatnsréttinda sem kærandi hafi fengið framseld, að vatnsorkuréttindin hafi verið með beinum hætti tengd við nýtingu þeirra með Kárahnjúkastíflu.

Hvort sem litið sé til vatnalaga, niðurstöðu matsnefndar eða raunverulegrar nýtingar vatnsorkuréttindanna séu umrædd réttindi kæranda í Jökulsá á Dal, tengd þeirri lóð sem Kárahnjúkastífla standi á. Valdheimildir Þjóðskrár Íslands nái til þess að skrá fasteignarréttindi í samræmi við raunveruleg atvik. Í ljósi skráningar vatnsorkuréttindanna á iðnaðarlóð kæranda sé rétt og eðlilegt að skattlagning fasteignaskatts réttindanna fari eftir því sem gildi um iðnaðarlóðir.

Verði ekki fallist á framangreint verði að líta til þess hvernig vatnsorkuréttindi falli að gjaldflokkun laga um tekjustofna sveitarfélaga að öðru leyti. Sveitarfélagið mótmælir því að vatnsorkuréttindi sem skilin hafa verið frá landareign falli undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga þar sem þau geti talist jarðeign eða hlunnindi. Af hálfu sveitarfélagsins falli vatnsorkuréttindi sem skilin hafa verið frá landareign ekki undir hugtakið jarðaeign. Varðandi það hvort vatnsorkuréttindi geti fallið undir hugtakið hlunnindi hafi hugtakið almennt þá merkingu að varða tiltekin gæði, lífræn eða ólífræn, sem hægt sé að nýta á tiltekinni jörð. Hlunnindi séu nýtt innan marka jarðarinnar sjálfrar til hagsbóta fyrir búrekstur á jörð. Í þessum almenna skilningi sé greinarmunur gerður á fasteignarréttindum og hlunnindum, það er hlunnindi vísi til þeirrar nýtingar sem fari fram á tiltekinni jörð eða í órjúfanlegum tengslum við viðkomandi land.

Hugtakið hlunnindi í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nái ekki til vatnsorkuréttinda kæranda. Þau vatnsorkuréttindi sem kærandi hafi fengið framseld séu orkunýtingarréttindi sem ekki séu í neinum tengslum við heimilis eða búsnot. Þá telur sveitarfélagið eðlilegra að líta til skýringar á hugtakinu hlunnindum í lögum um skráningu og mat fasteigna heldur en þeirrar skýringar sem fram kemur í jarðalögum, enda tengist hin fyrrnefnda löggjöf framkvæmd laga um tekjustofna sveitarfélaga mun nánar en jarðalög.

Með vísan til 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 5. lið 7. gr. reglugerðar nr. 406/1978 um fasteignaskráningu og fasteignamat sé ljóst að vatnsréttindi falli ekki undir þá aðferðarfræði sem gildi um hlunnindi. Þvert á móti komi fram í 4. lið 5. gr. fyrrgreindrar reglugerðar að meta skuli sérstaklega fasteignaréttindi, þar á meðal vatnsréttindi sem hafa verið skilin frá jörð. Því séu engar lagalegar forsendur til þess að líta svo á að vatnsorkuréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar falli undir hugtakið hlunnindi í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá bendir sveitarfélagið á að jafnvel þótt litið yrði til þeirrar skilgreiningar á hlunnindum sem fram komi í jarðalögum nr. 81/2004 þá falli vatnsorkuréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar ekki undir hugtakið hlunnindi, sbr. skilgreining hugtaksins í 2. gr. laganna. Sú skilgreining sé í samræmi við almenna merkingu hugtaksins, það er að hlunnindi fylgi tilteknu landi og verði nýtt í tengslum við nýtingu þess lands.

Þá sé einnig til þess að líta að með svæðisskipulagi fyrir Kárahnjúkavirkjun hafi skipulagssvæðið verið látið ná til Jökulsár á Dal, frá upptökum til ósa. Svæðisskipulagið feli í sér að vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar hafi verið tekin til iðnaðarnota. Sú nýting falli með engum hætti undir það að vera nýting hlunninda. Gjaldflokkun vatnsorkuréttinda sem nýtt séu til iðnaðar samræmist vel þeirri meginstefnu að eignir í iðnaðarnotum falli undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Vatnsorkuréttindi séu órjúfanlegur hluti af lóðarréttindum mannvirkja starfandi vatnsaflsvirkjunar. Samkvæmt orðalagi 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga falli vatnsorkuréttindi kæranda ekki undir a-lið ákvæðisins, heldur verði í samræmi við þá meginreglu sem komi fram í c-lið sama ákvæðis að falla undir liðinn „aðrar fasteignir“.

Af hálfu sveitarfélagsins er ekki dregið í efa að íslenska ríkið sé eigandi að vatnsréttindum innan þjóðlendna í samræmi við ákvæði þjóðlendulaga en það sé hins vegar óumdeilt að kærandi sé notandi þeirra réttinda sem hér um ræðir. Með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga telur Fljótsdalshérað ákvörðun sína um álagningu fasteignaskatts því réttilega beint að kæranda, hvað sem líði eignarhaldi umræddra réttinda. Kærandi sé ótvíræður notandi réttindanna samkvæmt útgefnu virkjunarleyfi, skipulags-ákvörðunum, sérlögum um Kárahnjúkavirkjun og sérstöku leyfi forsætisráðuneytisins.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að meginsjónarmið kæranda um að vatnsréttindi innan þjóðlendna skuli undanþegin fasteignaskatti sé byggð á 7. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga þar sem fram kemur að þjóðlendur skuli undanþegnar öllum sköttum og gjöldum. Bent er á að í athugasemdum með lögum nr. 65/2000, um breytingu á lögum nr. 58/1998, komi skýrt fram að undanþágan taki einungis til þjóðlendunnar sem slíkrar, en eigi ekki við um réttindi sem veitt séu til nýtingar þjóðlendu.

Þá hafi allt frá setningu þjóðlendulaga og með úrskurðum Óbyggðanefndar um afmörkun þjóðlenda átt sér stað athugasemdalaus framkvæmd vegna fjölmargra mannvirkja og tilheyrandi réttinda í þjóðlendu þar sem fasteignaskattur hafi verið lagðir á viðkomandi eignir og megi í því sambandi nefna nokkrar af aflstöðvum kæranda við Þjórsá sem séu staðsettar í þjóðlendu. Fasteignaskattur sé lagður á stöðvarhús og lóðarréttindi. Varðandi vatnsréttindi sérstaklega þá sé ljóst að með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 hafi verið tekinn af allur vafi um skyldu til skráningar og fasteignamats vatnsréttinda. Í ljósi ákvæðis 7. mgr. 3. mr. þjóðlendulaga sé ekki tilefni til annars en að almennar reglur gildi, þegar kærandi færi sérgreindan notkunarrétt yfir þjóðlendu, hvort sem þar sé um að ræða land, fasteignarréttindi eða önnur réttindi sem falli undir lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

Samkvæmt leyfi forsætisráðuneytisins, dags. 30. Júlí 2002, hafi kærandi meðal annars fengið heimild til að nýta vatnsréttindi og nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þeim réttindum. Heimild til nýtingar vatnsorkuréttinda sé beinlínis hluti af lóðarréttindum kæranda innan þjóðlendunnar. Þá ætti að vera óumdeilt að kærandi hafi raunverulega afnot af umræddum réttindum og umfang þeirra afnota séu metin til fasteignamats..

Að áliti sveitarfélagsins virðast sjónarmið kæranda um þennan þátt málsins í einu og öllu varða það hvort gjaldstofn fasteignamats samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár Íslands sé réttilega ákveðinn. Sjónarmið kæranda um að umrædd vatnsréttindi hafi ekki verið skilin frá þjóðlendu og því verði ekki lagður fasteignaskattur á þau, feli í sér að kærandi telji að Þjóðskrá Íslands ekki hafa fylgt lögum. Ekki verði séð að gjaldstofninn og framkvæmd fasteignamats á þessum réttindum eigi sér ekki lagastoð, en ágreiningur um slíkt verður ekki rekinn án aðildar Þjóðskrár Íslands. Kæranda hefur verið veitt veiti leyfi til afnota af vatnsréttindum og landi þjóðlendu. Með því myndast sérgreindur nýtingarréttur á vatnsréttindum og landi, sem Þjóðskrá Íslands beri að meta eftir almennum reglum. Engar forsendur séu til að meta vatnsréttindi í þjóðlendu með öðrum hætti til verðs en önnur vatnsorkuréttindi. Þannig skipti sjónarmið kæranda um að forsætisráðuneytið hafi ekki verið bundið af úrskurði matsnefndar engu máli þegar Þjóðskrá Íslands meti réttindin með sjálfstæðum hætti.

Af hálfu sveitarfélagsins er því mótmælt að ákvörðun þess hafi falið í sér brot á jafnræðisreglum. Þvert á móti sé virkjunarrekstur iðnaðarstarfsemi og húsnæði, mannvirki á iðnaðarlóðum, réttindi tengd iðnaðarlóðum og iðnaðarlóðir almennt felld undir gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Sjónarmið kæranda feli í sér að það ójafnræði verði skapað að tilteknar eignir tengdar iðnaðarnotum verði færðar undir a-lið sama ákvæðis.

Bent er á að innan Fljótsdalshéraðs séu meðal annars virkjanirnar Grímsárvirkjun og Lagarfossvirkjun og þeim fylgi lóðir þar sem stöðvarhús virkjananna séu, hluti inntakslóna og bakki vatnsfalla sem vatnsréttindi fylgja og séu nýtt með virkjunum. Umræddar lóðir séu skráðar iðnaðarlóðir og fasteignaskattur ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Álagning á þessar lóðir taki mið af skipulagsákvörðunum og raunverulegri notkun lóðanna vegna virkjunarstarfsemi.

Þá telur sveitarfélagið að hvort sem vatnsréttindi séu framseld eða leigð, beri að gera grein fyrir breytingu á notkun eigna sem verði vegna iðnaðarnota vatnsaflsvirkjunar, með sambærilegum hætti og ef leigulóðir úr jörð séu teknar til iðnaðarnota.

Að mati sveitarfélagsins kunna vatnsorkuréttindi eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2015 að verða metin þar sem séu starfandi vatnsaflsvirkjanir og slíkt mat hafi farist fyrir, hvort heldur þar sem vatnsorkuréttindi fylgi fasteign eða þar sem eignarhald hafi verið skilið frá fasteign. Í öllum tilfellum sé þó um það að ræða að vatnsorkuréttindin séu nýtt til iðnaðarnota og nýting þeirra fari fram með mannvirkjum virkjunaraðila og séu hluti af réttindum sem þeim fylgi í raun. Ef hluti fasteignar sé með beinum hætti tekinn til iðnaðarnota í samræmi við skipulagsákvarðanir falli sá hluti undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og eftir atvikum í samræmi við ákvæði 6. gr. sömu laga. Vatnsréttindi jarðeigna eða iðnaðarlóða, sem nýtt séu fyrir vatnsaflsvirkjun á annarri fasteign eigi því að falla undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá telur sveitarfélagið dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 451/1997 er varða veiðiréttindi ekki hafa þýðingu fyrir mál þetta. Veiðiréttindi séu allt annars eðlis en vatnsorkuréttindi þar sem veiðréttindi verða einungis nýtt á eða við þá fasteign sem veiðiréttindin tengjast. Veiðiréttindi falli þannig undir hefðbundna skilgreiningu hlunninda. Nýting veiðiréttinda falli undir landbúnaðarnot hvort heldur sem slík réttindi hafi verið skilin frá fasteign eða ekki. Nýting vatnsorkuréttinda sé hins vegar iðnaðarstarfsemi. Þá er í gildandi löggjöf grundvallarmunur á stöðu veiðiréttinda og vatnsorkuréttinda, meðal annars megi skilja vatnsréttindi frá fasteign, en slíkt er hins vegar ekki heimilt varðandi veiðiréttindi. Réttarstaða vatnsréttinda sé því allt önnur en veiðiréttinda, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 562/2008. Þá tekur sveitarfélagið ekki undir þau sjónarmið kæranda að veruleg réttaróvissa sé varðandi álagningu fasteignaskatts af vatnsréttindum. Löggjöf um tekjustofna sveitarfélaga og um skráningu og mat fasteigna gildi um slíka skattlagningu þótt ný eða breytt notkun fasteigna eigi sér stað.


Athugasemdir kæranda vegna umsagnar Fljótsdalshéraðs
Kærandi mótmælir frávísunarkröfu sveitarfélagsins. Kærandi bendir á að í b. lið kröfugerðar hans felist að sú ákvörðun sveitarfélagsins að leggja fasteignaskatt á þann hluta réttinda sem séu innan þjóðlendu, verði felld úr gildi. Hin kærða ákvörðun lúti þannig ekki að skráningu, aðferðarfræði eða ákvörðun Þjóðskrár Íslands, heldur eingöngu að þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að leggja fasteignaskatt á vatnsréttindi kæranda innan þjóðlendu. Umrædd krafa beinist því eingöngu að ákvörðun sveitarfélagsins um álagningu fasteignaskatts á fyrrgreind réttindi en eðli málsins samkvæmt séu tengsl á milli ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um hvernig staðið var að mati og skráningu réttindanna og ákvörðunar sveitarfélagsins um álagningu fasteignaskatts.

Þá ítrekar kærandi að álagning fasteignaskatts þurfi að eiga sér skýra lagastoð en svo virðist sem skattlagning Fljótsdalshéraðs sé byggð á matskenndri lögskýringareglu og/eða matskenndri viðmiðun um túlkun undanþáguákvæða. Að mati kæranda uppfylli skattlagning byggð á slíkum grunni ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Telur kærandi að sveitarfélaginu hafi ekki tekist að sýna fram á að ákvörðun þess varðandi skattlagningu vatnsréttindanna eigi sér skýra lagastoð.

Þá geti kærandi ekki tekið þá nálgun sveitarfélagsins að heimfæra eigi dæmi er snúa að raunverulegri notkun íbúðar- eða atvinnuhúsnæðis yfir á ákvörðun um skattlagningu vatnsréttinda, enda alls ekki um að ræða sambærileg réttindi.

Þá mótmælir kærandi því að hann hafi á einhvern hátt viðurkennt niðurstöðu Þjóðskrár Íslands um gjaldstofn og skráningu réttinda á eignarnámslóð úr landi Laugavalla óháð því hvort slík réttindi séu innan þjóðlendu eða ekki. Kærandi bendir á að af rökstuðningi sveitarfélagsins megi ráða að það telji sér með öllu óviðkomandi hvort vatnsréttindi séu innan þjóðlendna eða ekki. Þeim sé ekki eingöngu heimilt heldur skylt að leggja fasteignaskatt á slík réttindi og á þeim hvíli engin upplýsinga- eða rannsóknarskylda til að ganga úr skugga um hvort grundvöllur skattlagningar sé fyrir hendi eða ekki. Kærandi telur að þessi afstaða sveitarfélagsins, leiði sjálfkrafa til ógildingar ákvörðunar enda sé um að ræða augljóst brot á meginreglum stjórnsýslulaga.

Kærandi bendir á að samkvæmt þjóðlendulögum sé íslenska ríkinu óheimilt að framselja orkunýtingarréttindi í sinni eigu. Einungis sé heimilt að leigja slík réttindi til tiltekins tíma. Afnot kæranda af vatnsréttindum taki mið af fyrrgreindum takmörkunum. Það að réttindi séu leigð kæranda leiði ekki til þess að þau geti orðið grundvöllur til álagningar fasteignaskatts, enda sé leiguréttur að landi eða landréttindum ekki fasteignaskattskyldur.

Af hálfu kæranda komi ekkert fram í ákvæðum 49. gr. og 50. gr. vatnalaga sem gefi til kynna að vatnsréttindi eigi að færast frá þeirri jörð sem þau tilheyri, á aðra jörð þar sem stíflumannvirki hafi verið reist. Þvert á móti megi ráða af orðalagi ákvæðisins að vatnsréttindi tilheyri ávallt þeim landareignum sem þau séu hluti af.

Athugasemdir Fljótsdalshéraðs
Með bréfi Fljótsdalshéraðs, dags. 25. maí 2016, voru sjónarmið sveitarfélagsins um frávísun málsins að hluta eða í heild sinni áréttuð. Vísað var til þess að málsástæður kæranda lúti að því að skipta eigi upp fasteignamati tiltekinnar eignar og meðhöndla fasteignaskattlagningu hluta eignarinnar mismunandi. Slíkar málsástæður lúti að aðferðarfræði Þjóðskrár Íslands við fasteignamat, enda gera lög um tekjustofna sveitarfélaga einungis ráð fyrir að sveitarfélag geti viðhaft mismunandi skattlagningu á eign samkvæmt 6. gr. laganna. Möguleika sveitarfélaga til mismunandi skattlagningar á skráða og metna eign, einskoðast við mismunandi afnot hennar. Það eigi ekki við í því máli sem hér um ræðir og þá hafi byggingarfulltrúi ekki lagt mat á slíka skiptingu, enda notkun allra vatnsorkuréttindanna hin sama. Engin lagagrundvöllur sé fyrir sveitarfélag að skipta álagningu fasteignaskatts samkvæmt þeim sjónarmiðum sem kærandi byggi á.

Þá ítrekar sveitarfélagið að fyrrgreind vatnsréttindi falli ekki undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga heldur c-lið sama ákvæðis, í ljósi stöðu iðnaðarlóða og þess að lóðin og vatnsréttindi verði ekki felld undir a-lið fyrrnefnd ákvæðis samkvæmt lögskýringu. Vegna lagatæknilegrar uppbyggingar 3. mgr. 3. gr. laganna, verði að vera skýrt að eign falli undir a- eða b-lið ákvæðisins, enda er kveðið á um það að í c-lið falli allar aðrar eignir. Ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki þýðingu í málinu, heldur reyni á almennar lögskýringaraðferðir við flokkun eigna sem óumdeilt sé að skuli metar fasteignamati.

Þá er tekið fram af hálfu sveitarfélagsins fram að við álagningu fasteignaskatts sé við ákveðnar aðstæður litið til raunverulegrar notkunar eignarinnar, hvort sem hún leiði til þess að eign falli í lægra eða hærra skatthlutfall. Ekkert liggi fyrir um að eignarnámslóð kæranda úr landi Laugavalla sé annað en iðnaðarlóð. Eignin geti kallast landareign en hún sé ekki jarðeign í skilningi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Vatnsréttindi tengd eigninni samkvæmt fyrirliggjandi skráningu og mati Þjóðskrár Íslands séu ekki hluti jarðeignar eða nýtt sem hlunnindi jarðeignar, þar sem landbúnaður sé mögulegur. Umfjöllun kæranda um dóm Hæstaréttar í máli nr. 451/1998 og fasteignamat jarðhitahlunninda bújarða hafi því ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Þá hafnar sveitarfélagið alfarið þeim sjónarmiðum kæranda að sveitarfélagið hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar við álagningu fasteignaskattsins. Þá ítrekar sveitarfélagið að í málinu liggi fyrir fasteignamat á Laugavöllum eignarnámslóð, þar sem vatnsorkuréttindi séu fasteignametin í einu lagi þar undir og sjónarmið kæranda um stöðu hluta vatnsréttindanna vegna reglna um þjóðlendur varðandi atriði sem Þjóðskrá Íslands tekur til umfjöllunar í sinni málsmeðferð.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru önnur málsatvik, málsástæður aðila og lagarök í gögnum málsins ekki rakin.

Niðurstaða
Kærandi gerir kröfu um að felld verði úr gildi sú ákvörðun sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs að leggja fasteignaskatt á vatnsréttindi kæranda vegna jarða á Fljótsdalshéraði sem nýtt eru í þágu Kárahnjúkavirkjunar, og á landréttindi (eignarnumið land) kæranda á jörðinni Laugavöllum á Fljótsdalshéraði, fnr. 235-7931, samkvæmt c-lið 3. mgr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Kærandi gerir jafnframt kröfu um að fasteignaskattur verði ekki lagður á þann hluta fyrrgreindra vatnsréttinda sem eru innan þjóðlendu, en að öðru leyti verði álagning fasteignaskatts á umrædd vatnsréttindi utan þjóðlendu og áðurnefnd landréttindi að Laugavöllum á Fljótsdalshéraði samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Af hálfu sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs hefur komið fram krafa um frávísun á þeim hluta kröfugerðar kæranda er lýtur að kröfu hans um að fasteignaskattur verði ekki lagður á vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar innan þjóðlendu og vísar sveitarfélagið til þess að umrædd kröfugerð feli í raun í sér athugasemd við skráðan gjaldstofn fasteignaskatts, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Slíkur ágreiningur eigi undir Þjóðskrá Íslands en ekki beint undir yfirfasteignamatsnefnd og því beri að vísa kröfunni frá nefndinni. Jafnframt telur sveitarfélagið að vísa beri kærunni frá í heild sinni, án kröfu, þar sem kröfugerðin sé í raun byggð á því að ekki sé rétt að skrá vatnsréttindin í tengslum við eignarnámslóð kæranda úr landi Laugavalla. Þjóðskrá Íslands beri að úrskurða um slík sjónarmið áður en yfirfasteignamatsnefnd fjalli um málið. Til vara telur sveitarfélagið að hluti kröfugerðar kæranda feli í sér kröfu um að skipta eigi upp álagningu fasteignaskatts á umrædd vatnsréttindi samkvæmt 6. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Byggingarfulltrúi hafi hvorki sett fram slíka hlutfallsskiptingu né tekið afstöðu til slíks erindis. Í ljósi þess eigi yfirfasteignamatsnefnd að vísa þeim hluta kærunnar frá nefndinni.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar snýr álitaefni máls þessa meðal annars að því hvort vatnsréttindi innan þjóðlendu séu undanþegin fasteignaskatti með vísan til 7. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Verði ekki á það fallist er auk þess á því byggt af hálfu kæranda að kröfu um greiðslu fasteignaskatts af þessum vatnsréttindum sé ranglega beint að honum þar sem hann sé ekki eigandi þeirra vatnsréttinda sem séu innan þjóðlendunnar. Ekki verður hins vegar ráðið af kærunni að kærandi geri  athugasemdir við gjaldstofn fasteignaskatts fyrrgreindra vatnsréttinda en ágreiningi um gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts skal vísa til úrskurðar Þjóðskrár Íslands sbr. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Yfirfasteignamatsnefnd telur ljóst af framansögðu að fyrrgreindur ágreiningur snúi að gjaldskyldu kæranda en ekki að gjaldstofni fasteignaskatts, en nefndin sker úr slíkum ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Kærunni er því réttilega beint að yfirfasteignamatsnefnd og verður áðurgreindum hluta kröfugerðar kæranda því ekki vísað frá nefndinni á fyrrgreindum forsendum.

Þá hefur yfirfasteignamatsnefnd talið það innan valdsviðs nefndarinnar að beita 6. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga þegar fjallað er um gjaldskyldu samkvæmt stafliðum a-c 3. mgr. 3. gr. þeirra laga þó að hlutfallsleg skipting byggingarfulltrúa liggi ekki fyrir, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015. Verður málinu því ekki vísað frá á þeim grundvelli. 

Ágreiningur málsins þessa snýr jafnframt að því hvort fasteignaskattur umræddra vatnsréttinda kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar skuli ákvarðaður samkvæmt a- eða c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Ágreiningurinn snýr þannig að því hvort vatnsréttindin falli undir skilgreiningu hugtaksins „hlunnindi“ samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna eða hvort fara eigi með réttindin á sama hátt og um „allar aðrar fasteignir“ samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga.

Eins og áður hefur verið rakið voru umrædd vatnsréttindi aðskilin frá tilgreindum fjölda jarða á Fljótsdalshéraði og framseld kæranda. Þau vatnsréttindi sem kærandi fékk framseld voru orkunýtingar- eða fallréttindi árinnar Jökulsár á Dal. Samkvæmt forsendum Hæstaréttar Íslands í dómi réttarins frá 8. október 2015 í máli nr. 22/2015 hefur það verið talinn órjúfanlegur þáttur hinnar almennu skilgreiningar fasteignar að eftir að lífrænir og ólífrænir hlutar fasteignar hafa endanlega verið skildir frá henni teljast þeir ekki lengur til fasteignarinnar sem slíkrar en geti eftir atvikum talist sjálfstætt verðmæti í skilningi laga og sem slíkir verið sérstakt andlag framsals, veðsetningar eða annars konar takmarkaðra eignarréttinda. Þá vísar Hæstiréttur Íslands í fyrrgreindum dómi sínum til forsenda dóms réttarins í máli nr. 562/2008 sem varðaði mat á stöðu vatnsréttinda sem höfðu verið seld frá jörð án þess að eignarréttur að landareign fylgdi með. Í dóminum er meðal annars rakið efni 1. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 fyrir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með lögum nr. 132/2011, en lagagreinin fjallar um framsal vatnsréttinda án þess að eignarréttur að landareign sé  jafnframt framseldur. Þar komi fram að löggjafinn hafi ekki litið svo á að vatnsréttindi sem látin væru af hendi án þess að land fylgdi væri sjálfstæð fasteign. Til samræmis við þetta yrði skylda til skráningar aðskilinna vatnsréttinda í fasteignaskrá ekki leidd af stöðu þeirra sem sjálfstæðrar fasteignar í skilningi laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Jafnframt kom fram í forsendum dómsins að með hinni sérstöku reglu þágildandi 1. mgr. 16. gr. vatnalaga hefði verið ákveðið að vatnsréttindi, sem skilin hefðu verið frá landareign, skyldu engu að síður lúta sömu reglum og fasteignir í stað þess að fara eftir reglum sem gilda um óbein eignarréttindi í fasteign annarra.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að umrædd vatnsréttindi teljast ekki sjálfstæð fasteign þó reglur um fasteignir gildi um slík réttindi eftir því sem við getur átt. Umrædd vatnsréttindi voru skráð og metin í fasteignaskrá á grundvelli þeirra reglna sem gilda um skráningu og mat fasteigna, sbr. lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Með hliðsjón af því og í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga var lagður fasteignaskattur á fyrrgreind vatnsréttindi kæranda.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem fjallar meðal annars um hlunnindi er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Þá er með 4. mgr. 3. gr. laganna sveitarstjórn veitt heimild til þess að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt 7. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 er fasteign afmarkaður hluti lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt. Samhljóða skilgreiningu á fasteign er að finna í 1. mgr. 3. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Hugtakið hlunnindi er hins vegar hvorki skilgreint í lögum um tekjustofna sveitarfélaga né í lögum um skráningu og mat fasteigna. Hugtakið er hins vegar skilgreint í 10. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 sem hvers konar auðlindir, nytjar aðrar en grasnytjar, lífræn og ólífræn efni og efnasambönd, villt dýr, plöntur, annað lífríki og önnur nýtanleg réttindi sem fylgja jörð. Vatnsréttindi jarða falla að fyrrgreindri skilgreiningu hlunninda í jarðalögum. Yfirfasteignamatsnefnd telur að við afmörkun á inntaki hugtaksins hlunnindi sé eðlilegt að líta til fyrrgreindrar skilgreiningar 10. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Ekki verður ráðið af lögum um skráningu og mat fasteigna né lögum um tekjustofna sveitarfélaga, að greinarmunur sé gerður á hlunnindum samkvæmt þeim lögum eftir því hvort þau fylgja jörðum eða hafi verið skilin frá þeim. Þannig verður ekki séð af ákvæði 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga að álagningu fasteignaskatts af hlunnindum eigi að vera mismunandi í þessu tilliti enda engin slík aðgreining gerð í lagaákvæðinu, heldur þvert á móti er talað þar um ,,öll hlunnindi“. Því verður að telja að skattlagning hlunninda samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skuli vera sú sama óháð því hvort hlunnindin fylgi ákveðinni jarðareign eða hafi verið skilin frá henni. Með vísan til þess sem að framan er rakið telur nefndin að ákvarða beri fasteignaskatt á vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.  

Til stuðnings þeirri kröfu sinni um að ekki sé heimilt  að leggja fasteignaskatt á kæranda vegna vatnsréttinda innan þjóðlendu, hefur kærandi annars vegar vísað til 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta (þjóðlendulög), svo og til þess að íslenska ríkið sé eigandi þessara réttinda en ekki kærandi. Áðurnefnt ákvæði 7. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga um að þjóðlendur skyldu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum kom inn í þjóðlendulögin með 1. gr. laga nr. 65/2000. Í athugasemdum með lögum nr. 65/2000 við fyrrnefnda 1. gr. segir: „Undanþágan tekur þó eingöngu til landsvæðanna sem slíkra, en ekki til mannvirkja sem þar kunna að vera eða réttinda sem þeim fylgja.“ Með vísan til fyrrgreindra lögskýringargagna telur yfirfasteignamatsnefnd ljóst að ákvæðið eigi einungis við um landsvæði en hvorki um mannvirki né hlunnindi innan þjóðlendu og því séu þau vatnsréttindi sem hér um ræðir ekki undanþegin fasteignaskatti. Í 2. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga kemur fram að eigandi greiði fasteignaskatt nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða en í slíkum tilvikum greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda. Fyrir liggur að kærandi er notandi vatnsréttindanna innan þjóðlendunnar  samkvæmt sérstöku leyfi forsætisráðuneytisins. Með hliðsjón af tilvitnuðu lagaákvæði um hver beri skattskyldu hverju sinni telur yfirfasteignamatsnefnd að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að láta kæranda, sem notanda réttindanna, greiða fasteignaskatt fyrir umþrætt vatnsréttindi innan þjóðlendu. 

Álitaefni máls þessa snýr jafnframt að því hvort álagning fasteignaskatts vegna eignarnumins lands úr jörðinni Laugavöllum, fnr. 235-7931, skuli vera samkvæmt a- eða c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Samkvæmt 14. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 er jörð skilgreind sem land með ákveðnum landamerkjum eða með ákveðnum tún- og engjamerkjum ef um er að ræða jörð eða hjáleigu sem hefur sameiginlegt beitiland með annarri jörð eða jörðum. Það gildir þó ekki um lóðir undir sumarbústaði án tillits til þess hvort þær eru í skipulögðu sumarbústaðahverfi og heldur ekki landspildur á svæðum sem skipulögð hafa verið fyrir aðra starfsemi en landbúnað.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru landréttindi eða eignarnumið land kæranda á jörðinni Laugavöllum í Fljótsdalshéraði skilgreind sem 777 ha iðnaðar- og athafnalóð, en eins og fyrir liggur í gögnum málsins fékk kærandi heimild til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Laugavalla vegna byggingar og reksturs Kárahnjúkavirkjunar á grundvelli 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, með áorðnum breytingum. Eins liggur fyrir í gögnum málsins sérstakt svæðisskipulag Kárahnjúkavirkjunar frá árinu 2002 þar sem not lóðarinnar eru sérstaklega skilgreind. Með hliðsjón af framangreindum gögnum er ljóst að fyrrgreint landsvæði er sérstök fasteign kæranda sem nýtt er samkvæmt gildandi skipulagi fyrir starfsemi Kárahnjúkavirkjunar. Þá er að mati yfirfasteignamatsnefndar ekki um að ræða jörð í skilningi jarðalaga, enda landspildan nýtt fyrir aðra starfsemi en landbúnað.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar falla umrædd landréttindi kæranda hvorki undir upptalningu a- né b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt því verður að telja að ákvarða beri fasteignaskatt af landréttindum kæranda á Laugavöllum, eignarmunið land, fnr. 235-7931, Fljótsdalshéraði, samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en undir þann gjaldflokk falla allar aðrar fasteignir sem ekki falla undir upptalningu stafliða a og b.

Þá er kveðið á um það í 6. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga að ef afnotum fasteignar, sem metin er sem ein heild, er á þann veg háttað að greiða beri fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, ákveði byggingarfulltrúi hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Að mati yfirfasteignamatsnefndar er því ekkert til fyrirstöðu að framangreindu ákvæði sé beitt í umræddu tilviki þegar litið er til fyrirliggjandi gagna og skilgreiningu þeirra réttinda sem um ræðir í samræmi við 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að álagning fasteignaskatts á vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar innan Fljótsdalshéraðs, jafnt innan sem utan þjóðlendu skuli ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, og að álagning fasteignaskatts vegna landréttinda (eignarnumið land) kæranda á jörðinni Laugavöllum, fnr. 235-7931, Fljótsdalshéraði, skuli ákvörðuð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Úrskurðarorð

Fasteignaskattur vegna vatnsréttinda kæranda á Fljótsdalshéraði, sem nýtt eru í þágu Kárahnjúkavirkjunar, jafnt utan sem innan þjóðlendu, skal ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Fasteignaskattur vegna landréttinda (eignarnumið land) á jörðinni Laugavöllum, fnr. 235-7931, Fljótsdalshéraði, skal ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.


__________________________________

Ásgeir Jónsson

 

 ______________________________           ________________________________

   Valtýr Sigurðsson                                  Björn Jóhannesson