Sía ár


Yfirfasteignamatsnefnd

30.11.2017

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 16. nóvember 2017 í máli nr. 6/2017.
Fasteign: Vindmyllur, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, matshlutar nr. 51 og 52, fnr. 220-2843, lnr. 166701.
Kæruefni: Fasteignamat.

Árið 2017, 16. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 6/2017 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 18. maí 2017, kærði Ívar Pálsson hrl. fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps, kt. 540602-4410, ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat tveggja vindmylla við Búrfellsvirkjun, fastanúmer 220-2843, landnúmer 166701, matshluta nr. 51 og 52 fyrir árið 2016. Krefst kærandi að yfirfasteignamatsnefnd endurmeti fasteignamatið til hækkunar.

Með bréfum, dags. 24. maí 2017, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögnum frá Landsvirkjun og Þjóðskrá Íslands, vegna kærunnar. Með bréfi, dags. 21. júní 2017, barst umsögn frá Landsvirkjun. Með bréfi, dags. 11. júlí 2017, var kæranda og Þjóðskrá Íslands send umsögn Landsvirkjunar og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina athugasemdum sínum við umsögnina.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2017, barst yfirfasteignamatsnefnd umsögn Þjóðskrár Íslands vegna kærunnar. Umsögnin var send kæranda og Landsvirkjun 11. júlí 2017 og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina athugasemdum sínum.

Kærandi gerði athugasemdir við umsagnir Þjóðskrár Íslands og Landsvirkjunar með bréfi, dags. 18. ágúst 2017, sem kynntar voru Þjóðskrá Íslands og Landsvirkjun með bréfi, dags. 1. september 2017, og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina athugasemdum sínum ef einhverjar væru. Engar frekari athugasemdir bárust.

Yfirfasteignamatsnefnd gekk á vettvang 9. október 2017 og skoðaði eignirnar í fylgd fulltrúa kæranda og Landsvirkjunar.

Málið var tekið til úrskurðar 14. nóvember 2017.

I. Málavextir.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 24. september 2012, var Landsvirkjun veitt leyfi forsætisráðuneytisins til að reisa tvær 900kW vindmyllur í rannsóknar- og þróunarskyni á svæði sem er innan þjóðlendu og liggur vestan við inntakslón Búrfellsvirkjunar á svæði sem nefnt er ,,Haf”. Í kjölfar útboðs samdi Landsvirkjun við þýska fyrirtækið Enercon um kaup á tveimur 900kW vindmyllum, uppsetningu og aðstoð við rekstur þeirra. Samhliða því var unnið að öflun leyfa auk nauðsynlegra breytinga á skipulagi og öðrum undirbúningi. Virkjunarleyfi fyrir framkvæmdinni var veitt 11. september 2012. Kærandi veitti byggingar- og framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni og annaðist skráningu mannvirkjanna í fasteignaskrá. Vindmyllurnar voru síðan reistar í lok árs 2012 og hafa framleitt raforku inn á landsnetið frá þeim tíma.

Með tölvupósti, dags. 27. febrúar 2015, óskaði Þjóðskrá Íslands eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um byggingarkostnað vindmyllanna. Í framhaldi af fyrirspurninni óskaði Landsvirkjun eftir formlegu erindi frá Þjóðskrá Íslands ef til stæði að meta vindmyllurnar til fasteignamats.

Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 8. apríl 2015, til Landsvirkjunar, var óskað eftir upplýsingum um byggingarkostnað á vindmyllunum vegna fyrirhugaðs fasteignamats. Landsvirkjun veitti Þjóðskrá Íslands umbeðnar upplýsingar með bréfi, dags. 14. apríl 2015.

Þann 12. ágúst 2015 var Landsvirkjun tilkynnt um niðurstöðu Þjóðskrár Íslands um fyrsta fasteignamat á vindmyllunum, fnr. 220-2843, mhl. nr. 51 og 52. Kærandi kærði þá niðurstöðu til yfirfasteignamatsnefndar þann 2. október 2016. Yfirfasteignamatsnefnd komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum frá 4. janúar 2016 í máli nr. 15/2016 að vísa bæri kærunni frá nefndinni þar sem um væri að ræða frummat samkvæmt 30. gr. laga nr. 6/2001 en ekki endurmat samkvæmt 1. mgr. 31. gr. sömu laga. Ákvarðanir um frummat fasteigna eru ekki kæranlegar til yfirfasteignamatsnefndar.

Með bréfi kæranda, dags. 6. janúar 2016, til Þjóðskrár Íslands óskaði kærandi eftir endurmati á fasteignamati vindmyllanna. Með úrskurði Þjóðskrár Íslands, dags. 20. desember 2016 var kæranda tilkynnt að ekki væri tilefni til breytinga á fasteignamati eignanna og því skyldi það vera óbreytt. Með bréfum, dags. 29. desember 2016 og 4. janúar 2017, óskaði kærandi eftir því við Þjóðskrá Íslands að fyrrgreind ákvörðun um óbreytt fasteignamat yrði rökstudd. Þjóðskrá Íslands veitti kæranda umbeðinn rökstuðning með bréfi dags. 3. mars 2017.

Þann 18. maí 2017 sendi kærandi kæru til yfirfasteignamatsnefndar þar sem hann kærði fyrrgreinda ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 20. desember 2016, varðandi endurmat fasteignamats tveggja vindmylla Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun, fnr. 220-2843, matshluta nr. 51 og 52, líkt og að framan greinir.

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi gerir þá kröfu að yfirfasteignamatsnefnd endurmeti fasteignamat tveggja vindmylla Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun, fnr. 220-2843, mhl. nr. 51 og 52, til hækkunar. Kærandi byggir kröfu sína fyrst og fremst á því að vindmyllurnar séu ekki rafveitur í skilningi 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 og því beri að meta þær að fullu til fasteignamats.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skuli öll mannvirki virt til fasteignamats. Undantekningar frá því séu taldar upp í 26. gr. laganna en engin þeirra töluliða sem þar sé gerð grein fyrir eigi beint við um vindmyllur. Í 3. tl. 26. gr. laganna komi fram að rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum, skuli undanþegnar fasteignamati en þó skuli meta eftir venjulegum reglum hús, sem reist eru yfir aflstöðvar og spennistöðvar, og þær lóðir er þau standa á.

Kærandi telur það skipta meginmáli við úrlausn þessa álitaefnis hvort leggja beri rúman skilning í orðið rafveita, og hvort vindmylla, sem framleiði rafmagn, geti talist rafveita. Kærandi tekur fram að 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 sé undantekning frá þeirri meginreglu laganna að öll mannvirki skuli virða til fasteignamats og að skýra beri slíkar undanþágur þröngri lögskýringu. Því megi vera ljóst að vindmylla sé ekki rafveita og því beri að meta hana að fullu til fasteignamats.

Til stuðnings röksemdum sínum vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2015, frá 8. október 2015. Í því máli hafi verið deilt um úrskurð innanríkisráðuneytisins sem hafi staðfest þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands að fallast á beiðni Fljótsdalshéraðs um að taka vatnsréttindi Landsvirkjunar sf. í Jökulsá á Dal til skráningar og mats samkvæmt lögum nr. 6/2001. Landsvirkjun hafi krafist þess að úrskurður innanríkisráðuneytisins yrði ógiltur m.a. á þeim forsendum að vatnsréttindi væru undanþegin fasteignamati þar sem fyrirtækið starfræki rafveitu og vatnsréttindi væru forsenda fyrir starfsrækslu hennar. Hæstiréttur Íslands hafi ekki fallist á þessar röksemdir Landsvirkjunar og vísað til þess að í 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 komi fram að undanþegnar fasteginamati séu rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum en af forsögu lagaákvæðisins og orðalagi þess sé ljóst að vatnsréttindi Landsvirkjunar í Jökulsá á Dal geti hvorki talist rafveita í skilningi þess lagaákvæðis né forsenda fyrir rekstri hennar. Þá hafi Hæstiréttur Íslands í fyrrgreindum dómi jafnframt tekið fram að fyrrgreind málsástæða Landsvirkjunar fái hvorki samrýmst lögbundnu hlutverki hans né ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003 þar sem greint sé á milli raforkuvinnslu, flutnings, dreifingar og raforkuviðskipta. Að mati kæranda staðfesti fyrrgreind niðurstaða Hæstaréttar Íslands svo ekki verði um villst að túlka beri 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 með þröngri lögskýringu.

Kærandi mótmælir þeirri staðhæfingu Þjóðskrár Íslands að orðalag 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 sé til marks um að löggjafinn hafi ekki viljað breyta þeim skilningi sem stofnanir ríkisins hafi lagt í það. Þannig verði að telja tilvísun Þjóðskrár Íslands og Landsvirkjunar til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 7/1984 langsótta enda hafi sá úrskurður ekki fordæmisgildi í því máli sem hér er til meðferðar. Vindmyllur séu verulega frábrugðnar hefðbundnum vatnsaflsvirkjunum þar sem við byggingu þeirra þurfi ekki að ráðast í umfangsmikla mannvirkjagerð neðanjarðar eins og þegar um er að ræða vatnsaflsvirkjanir. Öll mannvirki vindmylla séu ofan jarðar og engar pípur eða göng liggi að þeim sem eðlilegt geti talist að undanskilja fasteignamati. Af því leiði að meta beri þessi mannvirki í heild til fasteignamats.

Kærandi tekur undir sjónarmið Landsvirkjunar og Þjóðskrár Íslands um að rétt sé að miða við byggingarkostnað skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Kærandi telur að af því leiði að fasteignamat hvorrar vindmyllu um sig geti ekki orðið lægra en sem nemi stofnkostnaði þeirra, skv. upplýsingum Landsvirkjunar sbr. og ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001, þ.e. kr. 200.353.993.- fyrir hvora vindmyllu. Verði ekki fallist á að miða við heildarkostnað telur kærandi, m.t.t. þeirra úrskurða sem Landsvirkjun vísi sjálf til og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001, að miða beri fasteignamat vindmyllanna við allan kostnað að frátöldum kostnaði við vélbúnað. Fasteignamat hvorrar vindmyllu fyrir sig geti þá ekki verið lægra en kr. 85.758.474.-

III. Sjónarmið Landsvirkjunar.

Af hálfu Landsvirkjunar eru þær kröfur aðallega gerðar í málinu að kröfu kæranda verði vísað frá nefndinni. Til vara er þess krafist að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat vindmylla verði felld úr gildi þar sem vindmyllur séu ekki matsskyldar samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Til þrautavara krefst Landsvirkjun þess að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat á vindmyllum. Til þrautaþrautavara gerð krafa um að kröfur kæranda verði lækkaðar verulega. Þá gerir Landsvirkjun kröfu um að kæranda verði gert að greiða Landsvirkjun hæfilegan málskostnað að mati yfirfasteignamatsnefndar þar sem um tilefnislausa kæru sé að ræða, sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 6/2001. 

I.                    

Landsvirkjun byggir kröfu sína um frávísun málsins aðallega á aðildarskorti. Vísað er til þess að í 34. gr. laga nr. 6/2001 komi fram að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Í greinargerð með lögum nr. 83/2008 um breytingu á lögum nr. 6/2001 sé að finna umfjöllun um þá breytingu sem gerð var á 34. gr. laga nr. 6/2001 með fyrrgreindum lögum nr. 83/2008 en þar segi að í reynd hafi yfirfasteignamatsnefnd tekið kærur vegna endurmats fasteignamats til meðferðar hvort sem ákvörðunin hafi grundvallast á 31. eða 32. gr. laga nr. 6/2001. Með breytingunni sé lagt til að lögfest verði að eigandi hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum Fasteignaskrár Íslands (nú Þjóðskrár Íslands) um endurmat fasteignamats til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga.

Landsvirkjun telur ljóst að kærandi geti ekki talist eigandi í skilningi ákvæðisins og hafi því ekki kæruheimild samkvæmt fyrrgreindum lögskýringargögnum. Kærandi sé sveitarfélag sem gegni sérstöku hlutverki við skráningu fasteigna samkvæmt lögum nr. 6/2001 og í fjölda ákvæða laganna komi fram að sveitarfélög annist skráningu fasteigna og aðra upplýsingagjöf í fasteignaskrá og teljist til svokallaðra skráningarstjórnvalda.

Að mati Landsvirkjunar er gerður skýr greinarmunur í 31. og 32. gr. laga nr. 6/2001 á sveitarfélögum annars vegar og aðilum sem eigi verulegra hagsmuna að gæta hins vegar. Í 31. gr. laganna sé fjallað um heimild aðila sem eigi verulegra hagsmuna að gæta til þess að óska eftir endurmati. Í 32. gr. laganna sé hins vegar fjallað um úrræði sveitarfélaga, en þar komi fram að Þjóðskrá Íslands sé heimilt, að kröfu sveitarfélags, að framkvæma endurmat. Ljóst sé því að lögin geri skýran greinarmun á hagsmunaðilum annars vegar og sveitarfélögum hins vegar. Þá sé skýrt skv. 34. gr. laganna að þeir einu sem hafi kæruheimild til æðra stjórnvalds séu hagsmunaaðilar eða nánar tiltekið eigendur samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 83/2008.

Landsvirkjun telur að kærandi sem sveitarfélag og skráningarskylt stjórnvald samkvæmt ákvæðum laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna geti ekki talist eigandi eða hagsmunaaðili, enda sé um að ræða stjórnvald sem komi með beinum hætti að framkvæmd við skráningu og mat fasteigna og geti haft áhrif á niðurstöðu ákvörðunar. Það sé í hæsta máta óeðlilegt að sama stjórnvald og komi að stjórnvaldsákvörðun með skráningu í fasteignaskrá og upplýsingagjöf vegna fasteignamats, geti jafnframt talist aðili að máli vegna fasteignamatsins. Í raun sé kærandi lægra sett stjórnvald sem komi að stjórnvaldsákvörðun á fyrri stigum en Þjóðskrá Íslands sé æðra stjórnvald. Í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna komi ekki fram með skýrum hætti kæruheimild sveitarstjórnar og því beri að vísa kærunni frá yfirfasteignamatsnefnd.

Þá byggir Landsvirkjun kröfu sína um frávísun málsins einnig á því að hin kærða ákvörðun Þjóðskrár Íslands í málinu sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt erindi kæranda til Þjóðskrár Íslands 6. janúar 2016 hafi kærandi gert kröfu um endurmat fasteignamats með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001. Í lögum nr. 6/2001 sé hins vegar skýr greinarmunur á heimild hagsmunaaðila annars vegar og sveitarfélaga hins vegar til þess að óska eftir endurmati. Heimild sveitarfélagsins byggi á 32. gr. laganna en í því ákvæði sé að finna heimild til handa Þjóðskrá Íslands til þess að endurskoða eða endurmeta einstakar tegundir eigna eða eignir í tilteknum hverfum, sveitarfélögum eða landshlutum ef beiðni um slíkt kemur frá ráðuneyti eða sveitarfélögum. Skilyrði fyrir því að slík endurskoðun fari fram skv. 32. gr. laganna sé að Þjóðskrá Íslands telji að matsverð sé ekki í samræmi við gangverð eins og til sé ætlast lögum samkvæmt. Þannig skuli málsmeðferð af hálfu Þjóðskrár Íslands við slíkt endurmat ekki hefjast nema Þjóðskrá Íslands telji að matsverð sé ekki í samræmi við gangverð. Kærandi telur að þar sem niðurstaða Þjóðskrár Íslands hafi verið á þá leið að fasteignamat vindmyllanna skyldi standa óbreytt, sé ljóst að endurmat hafi ekki farið fram. Þannig sé gerður skýr greinarmunur á málsmeðferð og skyldu Þjóðskrár Íslands til þess að verða við slíkri beiðni, eftir því hvort um sé að ræða eiganda eða stjórnvald. Í lögum um skráningu og mat fasteigna sé þess hvergi getið að sveitarfélagi eða ráðuneyti sé heimilt að kæra niðurstöðu eða afstöðu Þjóðskrár Íslands samkvæmt 32. gr. laga nr. 6/2001. Með vísan til þess að skilyrði fyrir endurmati hafi ekki verið fyrir hendi samkvæmt 32. gr. laga nr. 6/2001 verði ekki séð að ákvörðun Þjóðskrár Íslands sem byggi á 32. gr. laganna sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar.

Þá telur Landsvirkjun rétt að yfirfasteignamatsnefnd taki afstöðu til þess hvort annmarkar á málsmeðferð eigi að leiða til frávísunar málsins ex officio. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi lagt fram beiðni um endurmat þann 6. janúar 2016. Bæði kæranda og eiganda vindmyllanna hafi verið birt tilkynning um árlegt endurmat eignanna samkvæmt 32. gr. a í júní 2016 eða sex mánuðum síðar. Ekki hafi verið óskað eftir rökstuðningi eða lögð fram kæra vegna þeirrar tilkynningar. Úrskurður sem kveðinn var upp af hálfu Þjóðskrár Íslands í desember 2016 virðist samkvæmt gögnum málsins byggja á beiðni kæranda um endurmat frá 6. janúar 2016, en í úrskurðinum sé byggt á því að tilkynnt endurmat sem hafi legið fyrir í júní 2016 eða sex mánuðum eftir að beiðni var lögð fram, kalli ekki á endurskoðun fasteignamatsins. Landsvirkjun telur að ekki verði komist hjá því að gera athugasemdir við fyrrgreinda málsmeðferð.

Í 32. gr. a. laga nr. 6/2001 komi fram að Þjóðskrá Íslands skuli endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skuli það matsverð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Frestur eiganda til athugasemda skuli vera mánuður frá tilkynningu ákvörðunar. Í 2. mgr. 32. gr. laganna komi svo fram að Þjóðskrá Íslands beri eigi síðar en í júnímánuði ár hvert að gera hverju sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats samkvæmt 1. mgr. sem tekur gildi í viðkomandi sveitarfélagi næsta 31. desember. Árlegt endurmat fyrir vindmyllurnar hafi legið fyrir í júní 2016. Af hálfu kæranda hafi ekki verið lögð fram kæra né farið fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun. Því sé ljóst að kærufrestir vegna endurmats og frestir til þess að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið löngu liðnir og því beri að vísa kærunni frá.

II.

Til vara gerir Landsvirkjun kröfu um að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat vindmylla verði felld úr gildi þar sem vindmyllur séu ekki matsskyldar samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

Vísar Landsvirkjun til þess að með bréfi, dags. 14. apríl 2015, hafi Þjóðskrá Íslands verið veittar umbeðnar upplýsingar um byggingarkostnað umræddra vindmylla við Búrfellsvirkjun. Í bréfinu hafi komið fram að engin fordæmi væru fyrir skráningu og mati á vindmyllum og væri það afstaða kæranda að vindmyllur væru ekki matsskyldar. Vísaði Landsvirkjun meðal annars máli sínu til stuðnings til úrskurða yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 7/1984 og 12/1994. Að mati Landsvirkjunar eru vindmyllur verulega frábrugðnar hefðbundnum vatnsaflsvirkjunum. Vindmyllur samanstandi að mestu leyti af mastri, túrbínu og tengdum vélbúnaði sem ekki sé talið skráningar- eða matsskylt samkvæmt fyrrgreindum úrskurðum. Ekki sé um að ræða uppsteypt stöðvarhús eða sambærilegar byggingar sem séu skráningar- og matsskyldar.

Landsvirkjun telur að ekki verði séð af úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar að möstur séu matskyld, en stærsti hluti vindmylla séu stálmöstur sem standi á steyptum grunni. Ekki sé um að ræða uppsteypt mannvirki í skilningi laga um mannvirki. Fjölmörg möstur séu á Íslandi sem ekki séu matsskyld til dæmis möstur flutnings- og dreififyrirtækja raforku. Slík möstur standi á steyptum grunni líkt og vindmyllur. Sama eigi við um svokölluð fjarskiptamöstur fyrir sjónvarps- og útvarpssendibúnað, möstur fyrir farsíma- og tetrabúnað og fleira. Í slíkum tilvikum sé um að ræða mjög há og umfangsmikil möstur með áföstum gervihnattadiskum og öðrum mjög dýrum fjarskiptabúnaði og festibúnaði af ýmsu tagi sem nái oft langt út fyrir mastrið sjálft. Stærstu möstrin séu að svipaðri hæð og umræddar vindmyllur og hafa að geyma sendibúnað og annan vélbúnað. Slík mannvirki eru ekki matsskyld og telur Landsvirkjun að gæta beri jafnræðis og sanngirni í þessum efnum.

Þá er vísað til þess að í 26. grein laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sé fjallað um undanþágur frá fasteignamati en samkvæmt ákvæðinu eru hlutar rafveitna líkt og burðarstólpar undanskildir fasteignamati. Mastur hverrar vindmyllu gegni sama hlutverki og burðarstólpi sem haldi uppi vélbúnaði. Ekki verði séð að önnur sjónarmið eigi að gilda um burðarstólpa (möstur) fyrir vindmyllur en fyrir annan búnað. Þá sé samkvæmt sama lagaákvæði fjarskiptamannvirki og rafveitur undanþegnar fasteignamati, en hús sem reist eru yfir slík mannvirki séu hins vegar matsskyld. Vindmyllur samanstandi af mastri ásamt áföstum vélbúnaði og spöðum. Að mati Landsvirkjunar er erfitt að sjá að unnt sé að skilgreina möstur sem hús eða mannvirki sem reist er yfir rafbúnað. Af þeim sökum sé ljóst að mat á vindmyllum í fasteignamati skorti lagastoð.

Landsvirkjun telur að umræddar vindmyllur teljist ekki til mannvirkja sem séu matsskyld samkvæmt lögum nr. 6/2001 og í ljósi þess beri að fella úr gildi ákvörðun Þjóðskrár Íslands um mat á vindmyllum.

III.

Landsvirkjun gerir þá kröfu til þrautavara að kröfu kæranda verði hafnað og staðfest verði ákvörðun Þjóðskrár Íslands varðandi fasteignamat á vindmyllunum verði það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að þær séu á annað borð matsskyldar í fasteignamati.

Landsvirkjun byggir á því að ákvörðun Þjóðskrár Íslands eigi sér ekki stoð í fyrirliggjandi fordæmum yfirfasteignamatsnefndar við mat á öðrum virkjunarmannvirkjum. Vísar Landsvirkjun í því sambandi til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar frá 2. janúar 1985, í máli nr. 7/1984, þar fjallað var um skráningu og mat vatnsaflvirkjana í Þjórsá og Sogi. Samkvæmt þeim úrskurði skulu stöðvarhús slíkra virkjana metin í fasteignamati en þó sé tiltekinn hluti þeirra undanskilin. Þá eigi ekki að meta í fasteignamati önnur mannvirki eða búnað virkjunar né hluta jarðvinnu slíkra mannvirkja. Þá er einnig vísað til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar dags. 25. janúar 1995 í máli nr. 12/1994 er varðaði fasteignamat Blönduvirkjunar.

Með vísan til fyrrgreindra úrskurða yfirfasteignamatsnefndar telur Landsvirkjun ljóst að einungis lóð, steyptar undirstöður og takmarkaður hluti masturs, geti fallið undir við fasteignamat vindmylla. Ástæða þess sé sú að aðrir hlutar vindmyllu séu augljóslega ekki hluti af stöðvarhúsi heldur vélbúnaði virkjunar sem séu undanskilin skráningu og mati í ofangreindum fordæmum yfirfasteignamatsnefndar. Landsvirkjun vekur þó sérstaka athygli á því að með öllu sé óljóst hvort eða hvaða hluti masturs geti talist vera stöðvarhús í skilningi ofangreindra úrskurða.

Landsvirkjun bendir á að flestar vindmyllur samanstandi af mastri sem styður bæði hjólnöf sem spaðarnir eru festir við og vélarhús sem hýsir rafala, gírkassa og eftirlitsbúnað. Spennir ásamt stjórnbúnaði sé staðsettur í neðsta hluta mastursins. Þvermál masturs þeirra vindmylla sem hér um ræðir er 3,3 m við jörð, þvermál masturs við topp er 1,32 m. Heildarrúmmál masturs er um 240 m3 en þar af er rúmmál neðstu 5,56 metrana um 48 m3 sem samsvarar 20% af heildarrúmmáli vindmyllunnar.

Fram kemur í fyrrgreindum úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 7/1984 og nr. 12/1994 að stöðvarhús vatnsaflsvirkjana skuli skráð og metið í fasteignamati. Sé tekið mið af því fordæmi ætti skráning og fasteignamat vindmylla að taka mið af kostnaði við undirstöður og þann hluta masturs þeirra sem unnt er að skilgreina sem hluta af stöðvarhúsi, sem er neðstu 5,56 m af 53,95 m háu mastri sem samsvarar um 20% af rúmmáli mastursins.

Landsvirkjun vísar jafnframt til rökstuðnings Þjóðskrár Íslands sem var sendur kæranda 13. júlí 2016. Í þeim rökstuðningi kom m.a. fram að lög kveði á um að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti (staðgreiðsluverð) fasteignar sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001 þar um. Þá komi ennfremur fram í 2. mgr. sömu greinar að sé gangverð ekki þekkt skuli matsverð ákveðið eftir bestu fáanlegu vitneskju með hliðsjón af nánar tilgreindum atriðum. Í rökstuðningi Þjóðskrár Íslands komi þá fram að fasteignamat sérhæfðra eigna eins og vindmylla sé fundið með svokölluðu markaðsleiðréttu kostnaðarmati þar sem fasteignamat sé fundið sem hlutfall byggingarkostnaðar miðað við staðsetningu eignarinnar. Við útreikning á byggingarkostnaði vindmyllanna hafi Þjóðskrá Íslands stuðst við uppgefin gögn Landsvirkjunar. Með vísan til úrskurða yfirfasteignamatsnefndar hafi Þjóðskrá Íslands fallist á að miða skiptingu eininga vindmyllu virkjana við alþjóðlega staðla sem og kostnaðarskiptingu. Fasteignamat vindmyllanna hafi verið byggt á markaðsleiðréttu kostnaðarmati, sem og hlutfalli byggingarkostnaðar miðað við staðsetningu, sem eigi sér skýra lagastoð. Kærandi hafi ekki með neinum hætti lagt fram haldbær rök sem getað hnekkt því mati eða sýnt fram á að miða skuli við önnur viðmið.

Landsvirkjun mótmælir þeim fullyrðingum kæranda að vindmyllur séu ekki rafveita í skilningi laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þá er mótmælt þeim röksemdum kæranda að áðurnefndir úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 7/1984 og nr. 12/1994 hafi ekki þýðingu vegna vindmylla þar sem vatnsaflsvirkjanir og vindmyllur séu verulega frábrugðnar, m.a. þar sem vatnsaflsvirkjanir eru að miklu leyti neðanjarðar.

Í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 7/1984 hafi verið byggt á ákvæði 16. gr. laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna, sem fjallar um rafveitur. Umrætt ákvæði er samhljóða 26. gr. núgildandi laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði og áðurnefndum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar séu virkjanir skilgreindar sem rafveitur og séu eingöngu hús utan um slíkar veitur teknar til fasteignamats. Ekki verður séð að með setningu laga nr. 6/2001, er komu í stað eldri laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna, hafi verið gerð breyting í þá veru að virkjanir teldust ekki rafveitur né að tilteknar tegundir virkjana féllu ekki undir undanþáguákvæði 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001. Það sé ljóst að eðlismunur sé á vatnsaflsvirkjunum og vindmyllum þar sem önnur virkjar vatn en hin vind. Í báðum tilvikum sé þó um að ræða rafveitur í skilningi laganna og því ljóst að úrskurðir nefndarinnar hafi fordæmisgildi. Í þessu sambandi vísast einnig til rökstuðnings Þjóðskrár Íslands frá 3. mars 2017 þar sem fram kemur það mat Þjóðskrár Íslands, að hafi löggjafinn viljað breyta þeim skilningi sem lagður hefur verið í orðið rafveita þá hefði sú breyting átt að koma inn með síðustu lögum um skráningu og mat fasteigna. Það hafi löggjafinn hins vegar ekki gert og er það til marks um það að löggjafinn hafi ekki viljað breyta þeim skilningi sem stofnanir ríkisins og æðri stjórnvöld hafa lagt í hugtakið rafveita.

Að mati Landsvirkjunar hefur dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 ekkert fordæmisgildi fyrir það mál sem hér er til meðferðar.

Landsvirkjun mótmælir því alfarið að við fasteignamat vindmyllanna eigi að taka mið af kostnaði masturs í heild og vísar í því sambandi til ákvæði 26. gr. laga nr. 6/2001 svo og tilvitnaðra úrskurða yfirfasteignamatsnefndar. Samkvæmt lagaákvæðinu séu hlutar rafveitna líkt og burðarstólpar undanskildir fasteignamati. Eingöngu eigi að meta eftir venjulegum reglum, hús sem reist eru yfir aflstöðvar og þær lóðir sem þær standa á. Mastur hverrar vindmyllu gegni sama hlutverki og burðarstólpi sem heldur uppi vélbúnaði. Með vísan til þess er það mat Landsvirkjunar að ekki eigi að meta mastur í fasteignamati. Afar hæpið sé að líta á hluta af mastri sem hús í skilningi 26. gr. laga nr. 6/2001. Í úrskurði Þjóðskrár Íslands var komist að þeirri niðurstöðu með vísan til fyrri úrskurða yfirfasteignamatsnefndar að unnt sé að skilgreina hluta af mastri sem stöðvarhús, þ.e. neðstu 5,56 metrana af 53,95 metra háu mastri sem samsvarar um 20% af rúmmáli mastursins. Sú niðurstaða Þjóðskrár Íslands sé ekki byggð á traustum grunni.

Landsvirkjun bendir á að í kæru sé byggt á því að taka eigi inn nýjan lið í fasteignamat til hækkunar sem kallast öxulhús. Nafn á umræddum búnaði er misvísandi en enska þýðingin á þeim búnaði er „rotor hub“. Þar er ekki um að ræða hús eða mannvirki í skilningi áðurnefndra úrskurða yfirfasteignamatsnefndar heldur hólf sem tengir saman spaða og öxul sem snýr rafalnum. Þá geri kærandi einnig kröfu um að vélarhús og undirstaða undir vélarhús eigi að vera hluti af mati. Sú krafa eigi sér ekki stoð í fordæmum yfirfasteignamatsnefndar þar sem ekki er um að ræða hús eða undirstöður í skilningi þeirra. Vélarhús og undirstaða sé hluti af vélbúnaði. Allur búnaður sem sé festur á mastrið sé í raun ein vél. Spaðar séu festir á öxul sem snúi rafalnum. Til þess að hámarka afköst sé spöðum ávallt snúið upp í vindinn og það því hlutverk vélarhúss ásamt undirstöðum og mótorum að snúa spöðum að vindi. Vélarhúsið sé því hluti af vélbúnaði. Íslenska þýðingin „vélarhús“ geti verið misvísandi en um sé að ræða þýðingu á enska orðinu „nacelle housing“. Þá vekur Landsvirkjun athygli á því að í kæru sé jarðvinna, steypa og járnabinding reiknuð sem hluti af kröfu kæranda að nýju mati. Sá hluti byggingarkostnaðar hafi verið að fullu reiknaður með í niðurstöðum Þjóðskrár Íslands sem og í greinargerð Landsvirkjunar.

Landsvirkjun telur að ljóst sé að þær viðbætur sem kærandi hafi lagt til að komi til hækkunar á fasteignamatinu eigi sér ekki stoð í lögum um skráningu og mat fasteigna og séu ekki til samræmis við fyrrnefnda úrskurði yfirfasteignamatsnefndar.

IV.

Landsvirkjun gerir þá kröfu til þrautaþrautavara í málinu að kröfur kæranda verði lækkaðar verulega. Er í því sambandi m.a. vísað til þess að kostnaðarútreikningur sem lagður hafi verið til grundvallar við fasteignamat byggi á verði í Bandaríkjadölum. Mikil styrking hafi orðið á gengi krónunnar sem leiði til þess að sá kostnaðargrunnur sem lagður sé til grundvallar ætti að vera mun lægri. Að öðru leyti vísar Landsvirkjun til þeirra röksemda sem fram koma fyrir aðal-, vara- og þrautavarakröfu Landsvirkjunar í málinu.

V.

Landsvirkjun gerir jafnframt kröfu um að kæranda verði gert að greiða Landsvirkjun hæfilegan málskostnað að mati yfirfasteignamatsnefndar vegna tilefnislausrar kæru til nefndarinnar sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 6/2001. Vísar Landsvirkjun til þess að Þjóðskrá Íslands hafi gefið út frummat, tilkynnt um endurmat og auk þess tekið til sérstakrar skoðunar hvort þörf væri á endurmati samkvæmt 32. gr. laga nr. 6/2001 en niðurstaða Þjóðskrár Íslands hafi í öllum tilvikum verið sú sama. Því telur Landsvirkjun að kæran sé tilefnislaus en í því sambandi beri einnig að taka tillit til þess að kærandi sé skráningarstjórnvald, sem gegni lögbundnu hlutverki samkvæmt lögum nr. 6/2001, hafi sérþekkingu á því sviði og hafi notið liðsinnis lögmanna við undirbúning og meðferð málsins.

IV. Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands, dags. 3. júlí 2017, er vísað til rökstuðnings stjórnvaldsins frá 3. mars 2017 um að orðalag 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 sé til marks um að löggjafinn hafi ekki haft í hyggjuað breyta þeim skilningi sem stofnanir ríkisins hafi lagt til grundvallar hingað til. Í fyrrgreindum tölulið kemur fram að rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum séu undanþegnar fasteignamati. Hins vegar skuli meta til fasteignamats hús, sem reist séu yfir aflstöðvar og spennistöðvar, og þær lóðir er þau standi á. Á grundvelli 3. tl. 26. gr. laganna hafi ýmis mannvirki tengd orkuvinnslu ekki verið metin fasteignamati og megi í því tilviki nefna raflínur, mannvirki tengd þeim, uppistöðulón og stíflumannvirki. Vélarhús hafi hins vegar lotið fasteignamati í samræmi við seinni málslið 3. tl. 26. gr. laganna.

Þjóðskrá Íslands lítur svo á að við túlkun á 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 beri m.a. að líta til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar frá 2. janúar 1985 í máli nr. 7/1984sem varðar virkjana í Þjórsá og Sogi þar sem fjallað hafi verið um skráningu og mat vatnsaflsvirkjana. Í þeim úrskurði hafi yfirfasteignamatsnefnd vísað til 3. tl. 16. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, en sé það borið saman við 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna megi sjá að ákvæðin séu samhljóða. Engin breyting hafi orðið á lagaákvæðinu með lögum nr. 6/2001 og sé það til marks um það að löggjafinn hafi ekki viljað breyta þeim skilningi sem stofnanir ríkisins og stjórnvöld hafa lagt í fyrrgreint lagaákvæði. Því megi segja að túlkun yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 7/1984 eigi enn við þó að rafveitan, í þessu tilfelli vindmylla, sé með öðrum hætti byggingarlega og tæknilega séð. Þjóðskrá Íslands telur að hafi ætlun löggjafans verið að breyta fyrri túlkun í þessu efnum hefði löggjafanum verið það í lófa lagið við frumvarpsgerð og lagasetningu laga nr. 6/2001um skráningu og mat fasteigna.

Þjóðskrá Íslands bendir á að vélbúnaður orkuvirkjana lúti ekki fasteignamati og sé það stutt við langa stjórnsýsluframkvæmd varðandi fasteignamat slíkra mannvirkja. Af gögnum Landsvirkjunar megi sjá að stór hluti eininga og kostnaðar vindmylla felst í vélbúnaði. Því sé ljóst að sá hluti kostnaðar vindmylla komi ekki til skoðunar við fasteignamat. Hins vegar beri hluti vindmylla einkenni stöðvarhúss, þ.e. mannvirki sem hýsir vélbúnað líkt og vélarhús vatnsaflsvirkjana. Slík vélarhús hafa lotið fasteignamati. Við gerð fasteignamats á vindmyllum telur Þjóðskrá Íslands rétt að litið sé til tveggja þátta. Annars vegar hvaða hlutar vindmylla teljist til vélbúnaðar og hins vegar hvaða hlutar mannvirkisins teljist til „húss“ í skilningi 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001.

Þjóðskrá Íslands telur með hliðsjón af byggingarfyrirkomulagi og eiginleikum vindmylla að slík mannvirki falli ekki vel að hugtakinu „hús“ í skilningi seinni málsliðar 3. tl. þrátt fyrir að vindmyllur „hýsi“ vélbúnað. Uppbygging, byggingarfyrirkomulag og eiginleikar húsa séu að mörgu leyti ólíkir vindmyllum og því verði að gefa hugtakinu „hús“ takmarkað vægi í tilviki vindmylla. Að mati Þjóðskrár Íslands bendi þetta fremur til þess að telja eigi stærstan hluta vindmylla sem rafveitu og orkumannvirki. Benda megi á fyrri málslið 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 en þar komi fram að burðarstólpar og spennistöðvar séu undanþegin fasteignamati og skuli telja sem rafveitu og styðji það undanþágu vindmylla, og þá sérstaklega masturs þeirra, að stórum hluta og einnig skilgreiningu þeirra sem rafveitna. Þá megi einnig gagnálykta frá 1., 5. og 7. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 þar sem orðið mannvirki komi fram, að hugtakið „hús“ í 3. tl. sömu lagareinar hafi líklega ekki átt að eiga við um mannvirki í víðari merkingu eða hafa aðra álíka víða merkingu.

Að mati Þjóðskrár Íslands bera hlutar af mannvirki vindmylla engu að síður einkenni húsa. Grunnur þeirra sé á margan hátt sambærilegur og þá komist undirstöður og neðsti hluti vindmylla nálægt því að mynda mannvirki sem hægt væri að kalla stöðvarhús. Við endanlegt mat Þjóðskrár Íslands hafi verið lagðar til grundvallar sambærilegar forsendur og Landsvirkjun tók fram í bréfi frá 14. apríl 2015 við útreikning á því mati. Matið hafi byggst á því hvaða hluti vindmylla væri hægt að meta til „húss“ í skilningi 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001. Slíkt mat kunni að virðast huglægt eða jafnvel handahófskennt en til hliðsjónar verði að benda á að engin lögbundin eða skráð viðmið sé að finna í lögum um hvaða hlutar vindmylla skuli teljast hús. Í þessu samhengi bendir Þjóðskrá Íslands sérstaklega á 2. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um kostnaðarmat og 2. mgr. 28. gr. sömu laga um huglægt mat sem aðferðir við fasteignamat. Sú nálgun að meta einungis hluta af mannvirkinu fasteignamati styðjist einnig við úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 12/1994 og 7/1984 en í þeim málum var matskenndum aðferðum beitt við að meta einungis hluta húss til fasteignamats.

Þjóðskrá Íslands telur að vindmyllur séu í eðli sínu rafveitur og byggir á því að þær sé í raun ekkert án vélabúnaðarins sem framleiði rafmagnið og því sé stofnuninni með vísan til 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 ekki heimilt að meta annað til fasteignamats en þann hluta hvers masturs sem telja megi ígildi stöðvarhúss. Í því efni sé Þjóðskrá Íslands sammála Landsvirkjun um að einungis neðstu 5,56 m af 53,95 m hæð mastranna séu ígildi stöðvarhúss sem samsvari um 20% af heildarrúmmáli mastursins.

Þjóðskrá Íslands bendir á að fasteignamat sérhæfðra mannvirkja lúti almennt matsaðferð sem kallist markaðsleiðrétt kostnaðarmat og hafi verið talið rétt að beita þeirri aðferð í tilviki vindmyllanna. Fasteignamatið sé hlutfall byggingarkostnaðar miðað við staðsetningu eignarinnar. Markaðsleiðrétt kostnaðarmat feli m.a. í sér mat á byggingarkostnaði einstakra hluta mannvirkis ásamt kostnaði við uppsetningu á þeim hlutum. Þar sem vindmyllurnar höfðu ekki verið metnar fasteignamati áður hafi ekki verið til staðar matsmódel né fordæmi hjá Þjóðskrá Íslands til að meta vindmyllurnar, hluta og byggingarkostnað þeirra á fyllilega nákvæman hátt. Því hafi verið talið nauðsynlegt að óska eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um byggingarkostnað vindmyllanna svo að matið hefði faglegan grundvöll. Við útreikning á fasteignamati hafi verið stuðst við upplýsingar og gögn frá Landsvirkjun um byggingarkostnaði vindmyllanna.

Af hálfu Þjóðskrá Íslands er bent á að við útreikning fasteignamats vindmyllanna hafi verið beitt varfærnum og hóflegum matsaðferðum enda sé uppi nokkur vafi um hvernig meta eigi slík mannvirki til fasteignamats. Matið hafi farið fram með þeim hætti að einungis þeir hlutar vindmyllu hafi legið til mats, sem töldust falla eða geta fallið, undir hugtakið „hús“ í skilningi 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001. Fáir hlutar vindmyllanna hafi talist geta fallið undir þá skilgreiningu. Þjóðskrá Íslands telur að núverandi mat vindmyllanna falli nokkuð vel að fyrri framkvæmd yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 7/1984 og nr. 12/1994 bæði að aðferðarfræði og niðurstöðu. Þjóðskrá Íslands telur því að fasteignamat eignanna sé réttilega ákvarðað.

V. Athugasemdir kæranda við umsagnir Landsvirkjunar og Þjóðskrár Íslands.

Í bréfi, dags. 18. ágúst 2017, kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við umsagnir Landsvirkjunar, dags. 21. júní 2017 og Þjóðskrár Íslands, dags. 3. júlí 2017.

Kærandi telur að hafna beri kröfum Landsvirkjunar um frávísun málsins. Hvað varði þá málsástæðu Landsvirkjunar að kærandi sem sveitarfélag geti ekki talist eigandi eða hagsmunaaðili skv. 34. gr. laga nr. 6/2001 liggi fyrir að í 32. gr. laganna komi fram að Þjóðskrá Íslands sé heimilt, sé þess krafist af hálfu ráðuneytis eða sveitarfélags, að taka til endurmats einstakar tegundir eigna eð eignir í tilteknum hverfum, sveitarfélögum eða landshlutum. Í 34. gr. sömu laga komi fram að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Telur kærandi það augljóst að sveitarfélag teljist hagsmunaaðili í skilningi ákvæðis 34. gr. laganna m.a. þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir séu í húfi í formi fasteignaskatta sbr. II. kafli laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Telur kærandi að óljóst orðalag í greinargerð með lögunum, sem Landsvirkjun vísi til, haggi ekki skýru orðalagi laganna. Til stuðnings þessari túlkun vísar kærandi m.a. til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar frá 6. maí 2010 í máli nr. 11/2009 þar sem fram komi að um valdsvið nefndarinnar fari eftir 34. gr. laga nr. 6/2001.

Varðandi þá málsástæðu Landsvirkjunar að ákvörðun Þjóðskrár Íslands sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem endurmat hafi ekki farið fram í skilningi laganna vísar kærandi til þess að í 32. gr. laganna sé að finna skýra heimild til handa sveitarfélögum að krefjast þess að Þjóðskrá Íslands taki tilteknar eignir til endurmats. Kærandi hafnar því alfarið að það sé skilyrði fyrir því að endurmat teljist hafa farið fram í skilningi ákvæðisins að gerðar séu breytingar á fyrra mati. Þá liggi skýrt fyrir í gögnum málsins að um endurmat hafi verið að ræða og allri málsmeðferð hafi verið hagað í samræmi við það. Samkvæmt 2. ml. 32. gr. laga nr. 6/2001 fari málsmeðferð samkvæmt ákvæðinu og endurmat einstakra eigna eftir ákvæðum 32. gr. laganna.

Varðandi þá kröfu Landsvirkjunar um að fella beri úr gildi ákvörðun Þjóskrár Íslands um fasteignamat vindmylla þar sem slík mannvirki séu ekki matsskyld samkvæmt lögum nr. 6/2001 bendir kærandi á að það sé óumdeild meginregla laganna að öll mannvirki skuli virt til fasteignamats. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur beri að skýra allar undantekningar frá þeirri meginreglu þröngt. Kærandi telur að óumdeilt sé að ekkert í 26. gr. laga nr. 6/2001 undanþiggi vindmyllur að öllu leyti frá fasteignamati og vísar kærandi í því sambandi einnig til þess að í 2. málsl. 3. tl. 26. gr. laganna komi fram að meta skuli eftir venjulegum reglum hús sem reist séu yfir aflstöðvar og spennistöðvar.

Kærandi telur að ekki sé hægt að bera saman annars vegar vindmyllur og hins vegar fjarskiptamöstur líkt og Landsvirkjun geri í þessu samhengi, m.a. vegna mismunandi kostnaðar við gerð þeirra og mögulegra tekna sem hægt sé að hafa af þeim. Þá liggi það einnig fyrir að slík fjarskiptamöstur geti fallið undir 6. og 8. tl. 26. gr. laganna og því undanþegin fasteignamati á grundvelli þeirra ákvæða.

Kærandi hafnar sjónarmiðum Landsvirkjunar um að staðfesta beri ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat á vindmyllunum, með vísan til úrskurða yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 7/1984 og 12/1994. Varðandi tilvísun til fyrrgreindra úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar vísar kærandi til umfjöllunar í kæru þar sem meðal annars komi fram að vindmyllur séu verulega frábrugðnar vatnsaflsvirkjunum. Þá sé rétt að taka fram að álitaefni fyrrgreindra úrskurða snúi að mestu leyti um seinni málsl. 3. tl. 26. gr. en í þessu máli sé að mestu leyti deilt um fyrri málsliðinn, þ.e. hvort vindmyllur teljist vera rafveitur í skilningi laganna. Vísar kærandi máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015.

Þá hafnar kærandi kröfu Landsvirkjunar um að fasteignamat vindmyllanna verði lækkuð verulega með vísan til þess að kostnaðarútreikningur sem lagður sé til grundvallar við fasteignamat byggi á verði í Bandaríkjadölum en ljóst sé að byggingarkostnaður hafi mikið vægi við fasteignamatið óháð því hvaða matsaðferð sé beitt. Kærandi bendir á að í lögum nr. 6/2001 sé ekki að finna heimild fyrir því að sá kostnaður taki breytingum í samræmi við gengi tiltekinna gjaldmiðla á tilteknum tíma. Miða beri við byggingarkostnað eins og hann hafi verið þegar mannvirki var byggt.

Kærandi telur jafnframt að hafna beri kröfu Landsvirkjunar um málskostnað á grundvelli 2. mgr. 33. gr. laga nr. 6/2001 enda sé augljóst að kæran sé ekki tilefnislaus.

Kærandi tekur undir sjónarmið Þjóðskrár Íslands um að það sem mestu skipti við úrlausn þess álitaefnis sem mál þetta tekur til sé hvort löggjafinn leggi rúman skilning í orðið rafveitu og hvort vindmylla sem framleiði rafmagn geti talist rafveita. Kærandi ítrekar í þessu sambandi að 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 sé undantekning frá þeirri meginreglu laganna að öll mannvirki skuli virt til fasteignamats. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur beri að skýra slíka undanþágu þröngt. Því megi vera ljóst að vindmylla sé ekki rafveita frekar en aðrar virkjanir.

VII. Niðurstaða.

Kærandi, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, gerir kröfu um að yfirfasteignamatsnefnd endurmeti til hækkunar fasteignamat á tveimur vindmyllum í eigu Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun, fnr. 220-2843, lnr. 166701, mhl. nr. 51 og 52.

I.

Af hálfu Landsvirkjunar er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá yfirfasteignamatsnefnd vegna aðildarskorts. Er á því byggt að kærandi sé ekki eigandi í skilningi 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna en í 31. og 32. gr. þeirra laga sé gerður skýr greinarmunur annars vegar á sveitarfélögum og hins vegar á aðilum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 geta hagsmunaaðilar kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Í umsögn Landsvirkjunar er vísað til greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 83/2008 um breytingu á lögum nr. 6/2001 hvað þetta varðar. Þar segir um þá breytingu á 34. gr. að yfirfasteignamatnefnd hafi tekið kærur vegna endurmats fasteignamats til greina hvort sem ákvörðunin hafi grundvallast á 31. gr. eða 32. gr. laganna. Því sé í frumvarpinu lagt til að lögfest verði að eigandi hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum um endurmat fasteignamats til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 getur aðili, sem verulega hagsmuni getur átt í matsverði eigna og sættir sig ekki við skráð mat skv. 29. og 30. gr. laganna krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Þá segir í 34. gr. sömu laga að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Að mati yfirfasteignamatsnefndar er augljóst af orðalagi lagaákvæðanna að þær heimildir sem þar er um rætt einskorðast ekki við eiganda viðkomandi eigna. Breytir þar engu ónákvæmt orðalag í áðurnefndri greinargerð enda hefði verið óþarfi að nota orðið hagsmunaaðilar, eins og gert er, ef ætlun löggjafans hefði verið að aðeins eigendur ættu kærurétt. Þá verður að túlka hugtakið hagsmunaaðilar í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttar þar sem á því er byggt að aðili máls sé sá sem eigi beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Yfirfasteignamatsnefnd telur að kærandi hafi hagsmuna að gæta varðandi niðurstöðu fasteignamats þeirra eigna sem hér um ræðir. Samkvæmt því ber að hafna kröfu Landsvirkjunar um frávísun málsins á þeim grunni að kærandi sé ekki aðili málsins.

II.

Krafa Landsvirkjunar um frávísun málsins er einnig byggð á því að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 20. desember 2016 sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem fasteignamat umræddra vindmylla hafi verið látið standa óbreytt milli ára og því hafi ekkert endurmat farið fram. Árlegt endurmat hafi legið fyrir í júní 2016. Af hálfu kæranda hafi ekki verið lögð fram kæra né farið fram á rökstuðning á þeirri ákvörðun. Því sé ljóst að kærufrestir vegna endurmats og frestir til þess að óska eftir rökstuðningi hafi löngu verið liðnir.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal Þjóðskrá Íslands hlutast til um að allar nýjar eða breyttar eignir, sem upplýsingar berast um samkvæmt 19. gr. sömu laga, skuli metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar um þær berast Þjóðskrá Íslands nema sérstakar ástæður hamli. Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laganna skal nýtt matsverð skráð í fasteignaskrá og gildir það með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati.

Í 1. mgr. 31. gr. laganna kemur fram að aðili, sem verulega hagsmuni geti átt í matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr., geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Krafa um slíkt endurmat skal vera skrifleg og studd rökum og nauðsynlegum gögnum. Samkvæmt 3. mgr. 31. gr. áðurnefndra laga gilda ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga ekki við meðferð mála samkvæmt 30. og 31. gr. laganna, en eiganda skal tilkynnt um nýtt eða breytt fasteignamat. Sætti eigandi sig ekki við ákvörðun fasteignamats getur hann gert skriflega og rökstudda kröfu um endurupptöku málsins innan eins mánaðar frá tilkynningu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 32. gr. a. laganna er fjallað um árlegt endurmat allra skráðra fasteigna en þar kemur fram að Þjóðskrá Íslands skuli endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skal það verð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember ár hvert skulu taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs. Þjóðskrá Íslands skal eigi síðar en í júní ár hvert gera viðkomandi sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a laga nr. 6/2001 sem þá tekur gildi næsta 31. desember.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 geta hagsmunaaðilar kært niðurstöðu endurmats samkvæmt 1. mgr. 31. gr. sömu laga til yfirfasteignamatsnefndar. Með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 6/2001 með lögum nr. 83/2008 var lögfest að eigandi fasteignar hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum um endurmat matsverðs til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig sæta allar ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um endurmat hvort heldur um er að ræða endurmat samkvæmt 1. mgr. 31. gr. eða 1. mgr. 32. gr. a laga nr. 6/2001, kæru til yfirfasteignamatsnefndar samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga.

Með erindi, dags. 2. október 2015, kærði kærandi ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat tveggja vindmylla við Búrfellsvirkjun, fnr. 220-2843, lnr. 166701, mhl. nr. 51 og 52 fyrir árið 2015. Með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 14/2015 uppkveðnum 4. janúar 2016 var kröfunni vísað frá nefndinni á þeim grunni að um hafi verið að ræða frummat samkvæmt 30. gr. laga nr. 6/2001 og endurmat hafi ekki farið fram á eignunum í samræmi við 1. mgr. 31. gr. laganna. Með bréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands, dags. 6. janúar 2016, beiddist kærandi endurmats á fasteignamati umræddra vindmylla til hækkunar. Beiðni kæranda var ekki svarað fyrr en með úrskurði Þjóðskrár Íslands, dags. 20. desember 2016, en þá var kæranda tilkynnt að fasteignamat umræddra vindmylla fyrir árið 2016 yrði óbreytt. Af framansögðu er ljóst að kærandi óskaði endurmats en afstaða til erindisins var ekki tekin fyrir fyrr en með fyrrgreindum úrskurði Þjóðskrár Íslands þar sem ákveðið var að ekki væri tilefni til matsbreytinga. Samkvæmt því er kröfu Landsvirkjunar um að vísa málinu frá yfirfasteignamatsnefnd á þeim grundvelli að endurmat hafi ekki farið fram hafnað.

III.

Kærandi krefst þess að yfirfasteignamatsnefnd endurmeti fasteignamat vindmyllanna til hækkunar. Þjóðskrá Íslands hafi borið að meta allt mannvirkið til fasteignamats í stað þess að aðeins hluti þess hafi verið metinn. Kærandi telur að meta eigi mannvirkið í heild sinni til fasteignamats. Vindmyllurnar geti ekki talist rafveita og verði þær því ekki undanskildar fasteignamati á grundvelli 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001. Bent er á að vindmyllur séu að öllu leyti ofan jarðar og engar pípur eða göng liggi að þeim sem leiði til þess að undanskilja eigi þessi mannvirki fasteignamati.

Þjóðskrá Íslands byggði mat sitt á því að vindmyllurnar séu í eðli sínu rafveitur og því sé stofnuninni ekki heimilt að meta annað til fasteignamats en þann hluta hvors masturs sem telja megi ígildi stöðvarhúss.

Landsvirkjun telur að ekki séu lagaskilyrði til þess að meta vindmyllur til fasteignamats. Á það er bent að vindmyllur samanstandi að mestu leyti af mastri, túrbínu og tengdum vélbúnaði sem ekki sé skráningar- eða matsskylt. Þessu til stuðnings er vísað til úrskurða yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 7/1984 og 12/1994. Af þeim megi ráða að möstur séu ekki matsskyld en vindmyllurnar séu stálmöstur sem standi á steyptum grunni. Þau verði tæplega skilgreind sem hús eða mannvirki sem reist eru yfir rafbúnað eins og stöðvarhús.

Landsvirkjun gerir kröfu um að vindmyllurnar séu ekki metnar til fasteignamats en verði ekki á það fallist er gerð krafa um að fasteignamat þeirra verið lækkað frá því sem Þjóðskrá Íslands hefur ákveðið. Varðandi þessar kröfur Landsvirkjunar er til þess að líta að Landsvirkjun hefur ekki óskað endurmats á ákvörðunum Þjóðskrár Íslands varðandi fasteignamat á fyrrgreindum vindmyllum og koma því áðurnefndar kröfur þeirra ekki til skoðunar af hálfu yfirfasteignamatsnefndar í því máli sem hér um ræðir.

Samkvæmt lögum nr. 6/2001 skal meta öll mannvirki til fasteignamats að undanskyldum þeim fasteignum sem sérstaklega eru tilgreindar í 26. gr. þeirra laga. Í 3. tl. lagagreinarinnar segir að undanþegnar fasteignamati séu: „Rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum. Meta skal eftir venjulegum reglum hús, sem reist eru yfir aflstöðvar og spennistöðvar og þær lóðir sem þau standa á.“

Í lögum nr. 6/2001 er hvergi að finna skilgreiningu á því hvað sé rafveita. Í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 7/1984 var gerður greinarmunur á aflstöð, sem ekki bæri að taka til fasteignamats, og húsi, sem reist er yfir aflstöðvar og spennistöðvar og þær lóðir sem þær standa á sem skyldi metið fasteignamati. Því var stöðvarhús skilgreint í þrengri merkingu frá aflstöð og aðeins stöðvarhúsið metið í fasteignamati. Stöðvarhúsið var talið frá snigilgólfi, þ.e. frá efra gólfi í stöðvarhúsi áður en niðursetning véla hefst ásamt áföstum þjónustubyggingum. Í úrskurðinum segir að í samræmi við þetta beri ekki að taka með í fasteignamati stöðvarhúsa ýmsan búnað ásamt undirstöðum. Byggt var á sömu sjónarmiðum í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar nr. 12/1994.

Þær tvær vindmyllur sem hér um ræðir eru af sömu gerð og samanstanda af 53,95 metra háu mastri sem hvílir á steyptum gegnheilum grunni auk spaða. Í neðsta hluta hvors masturs er afmarkað rými sem hefur m.a. að geyma spenna ásamt stjórnbúnaði og er hæð þess 5,56 metrar. Stigi liggur upp í efsta hluta mastursins sem hefur að geyma rafala, gírkassa o. fl.

Yfirfasteignamatsnefnd fellst á það með Þjóðskrá Íslands að það rými, 5,56 metrar, teljist vera ígildi stöðvarhúss og verði metið í fasteignamati. Annar hluti vindmyllanna telst því vera rafveita í skilningi 3. tl. 26. gr. laga nr. 6/2001 og því undanþeginn fasteignamati. Er kröfu kæranda um hækkun fasteignamats þar af leiðandi hafnað og staðfest ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 20. desember 2016.

IV.

Vegna kröfu Landsvirkjunar um að kæranda verði gert að greiða þeim málskostnað þá skal það tekið fram að það er utan valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar að úrskurða um málskostnað. Yfirfasteignamatsnefnd getur þó með vísan til ákvæða 3. mgr. 33. gr. laga nr. 6/2001 gert eiganda fasteignar að greiða kostnað vegna tilefnislausrar kæru til nefndarinnar. Það ákvæði á ekki við í því máli sem hér um ræðir og er kröfunni því vísað frá.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 20. desember 2016 um endurmat á fasteignamati fyrir tvær vindmyllur við Búrfellsvirkjun, fnr. 220-2843, lnr. 166701, mhl. nr. 51 og 52, fyrir 2016 er staðfest.

  

__________________________________

Valtýr Sigurðsson

  

 ______________________________           ________________________________

Ásgeir Jónsson                                     Björn Jóhannesson