Hoppa yfir valmynd
23. desember 2014 Dómsmálaráðuneytið, Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR12030163

Ár 2014, 23. desember er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR12030163


[A] kærir ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 7. mars 2012, kærði [L], f.h. [A], kt. […], ríkisborgara [X] (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. febrúar 2012, að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis hér á landi.

Upphaflega var þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar yrði felld úr gildi en með bréfi, dags. 28. nóvember 2014,var þess óskað að ráðuneytið vísaði málinu á ný til Útlendingastofnunar svo stofnunin geti fjallað um hvort kærandi eigi rétt á dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 12. gr. f.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Þann 4. júní 2007 sótti kærandi um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar. Það dvalarleyfi var veitt með gildistíma frá 29. júlí 2008 til 15. júní 2009. Útlendingastofnun afturkallaði dvalarleyfi umsækjanda þann 3. apríl 2009 þar sem umsækjandi og maki hennar bjuggu ekki saman. Dómsmálaráðuneytið felldi þá ákvörðun úr gildi 4. nóvember 2009 þar sem ráðuneytið taldi að Útlendingastofnun hefði ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hjúskapur umsækjanda og maka væri til málamynda og ekki hefði verið hægt að byggja á þeirri málsástæðu að kærandi og maki hennar byggju ekki á sama stað því þau væru skráð með sama lögheimili. Dvalarleyfi umsækjanda var endurnýjað með gildistíma frá 29. mars 2010 til 31. mars 2011. Kærandi sótti um endurnýjun dvalarleyfis þann 8. febrúar 2011 sem Útlendingastofnun synjaði með ákvörðun sinni dags. 21. febrúar 2012.

Þann 12. mars 2012 barst ráðuneytinu kæra í málinu dags. 7. s.m. Þann 13. mars 2013 óskaði ráðuneytið eftir gögnum málsins frá Útlendingastofnun og þann 20. mars 2012 bárust ráðuneytinu gögnin. Með bréfi, dags. 11. apríl 2012, var lögmanni kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð í málinu. Þann 8. febrúar 2013 barst ráðuneytinu frá Útlendingastofnun skýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. […]. Með bréfi ráðuneytisins dags. 6. nóvember 2014 voru lögmanni kæranda send framangreind gögn og kæranda veitt færi á að andmæla áður en úrskurðað yrði í málinu. Andmæli kæranda bárust ráðuneytinu þann 28. nóvember 2014 ásamt viðbótargögnum.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

Málsatvik:

Umsækjandi sótti fyrst um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar 4. júní 2007. Það dvalarleyfi var veitt með gildistíma frá 29. júlí 2008 til 15. júní 2009. Útlendingastofnun afturkallaði dvalarleyfi umsækjanda 3. apríl 2009 þar sem umsækjandi og maki hennar bjuggu ekki saman. Dómsmálaráðuneyti felldi þá ákvörðun úr gildi 4. nóvember 2009 þar sem ráðuneytið taldi að Útlendingastofnun hefði ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hjúskapur umsækjanda og maka væri til málamynda og ekki hefði verið hægt að byggja á þeirri málsástæðu að kærandi og maki hennar byggju ekki á sama stað því þau væru skráð með sama lögheimili. Dvalarleyfi umsækjanda var endurnýjað með gildistíma frá 29. mars 2010 til 31. mars 2011. Umsókn um endurnýjun dvalarleyfis barst 8. febrúar 2011.

Í ljósi þess að staðgreiðsluskrá sýnir að maki umsækjanda er ekki að þiggja laun hér á landi var ákveðið að skoða hvort umsókn samræmdist 13. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga um fjölskyldusameiningu. Umsækjandi var boðuð í viðtal hjá Útlendingastofnun sem fór fram 10. júní 2011.

Hér eru rakin helstu atriði viðtalsins við umsækjanda. Í viðtali við umsækjanda kom meðal annars fram að maki hennar býr í [Y] en hún vissi ekki hvar í [Y]. Umsækjandi og maki hafi aldrei búið saman hér á landi og þau hafa ekki hist síðan til hjúskapar var stofnað í [X] árið 2007.

Umsækjandi vissi lítið um eiginmann sinn, ekki hvort hann hafi verið í námi eða hvenær hann hefði skilið við fyrri eiginkonu sína, þá vissi hún ekki hvað bróður maka héti fullu nafni eða hversu gamall hann væri. Þá kvað umsækjandi þau tala saman á ensku eða að vinkona hennar hjálpaði þeim að tala saman, umsækjandi gat þó ekki svarað einföldum spurningum sem spurðar voru á ensku. Hún gengur ekki með giftingarhring en kveður það vera vegna þess að hún vinni á hóteli og þurfi að þvo sér oft.

Umsækjandi sagði þau maki töluðu saman þegar hann hefði tíma en hún hringdi aldrei í hann. Hann hefði síðast hringt í hana í mánuðinum á undan. Aðspurð kvaðst hún aldrei hafa heimsótt maka í [Y] en hún hygðist gera það þegar hún fengi íslenskan ríkisborgararétt.

Hinn 13. september 2011 var umsækjanda sent bréf þar sem málsatvik voru rakin og henni gerð grein fyrir því að rökstuddur grunur væri uppi um að til hjúskapar hennar og maka hefði verið stofnað til málamynda. Meðfylgjandi bréfinu voru send ljósrit af viðtölum við umsækjanda og maka. Umsækjanda var veittur 15 daga frestur til að leggja fram gögn eða andmæli gegn því sem fram kom í bréfi Útlendingastofnunar. Hinn 30. september 2011 barst tölvupóstur frá [L] þar sem óskað var eftir frest til að skila andmælum til 10. október 2011. Umbeðinn frestur var veittur. Hinn 10. október 2011 barst greinargerð frá lögmanni umsækjanda í tölvupósti.

Í greinargerð umsækjanda segir að eiginmaður hennar hafi starfað um tíma í [Z] en dveljist nú í [Y] þar sem hann vinni hjá […]. Hann hafi ágætis laun, eða a.m.k mun betri en hann gæti fengið hér á landi miðað við menntun og reynslu auk þess sem erfitt sé að fá vinnu hérlendis vegna atvinnuleysis. Margir íslenskir ríkisborgarar hafi freistað þess að leita að vinnu annarsstaðar í heiminum vegna efnahagskreppunnar og sumir jafnvel flutt tímabundið erlendis til þess að afla sér og fjölskyldu sinni tekna. Þrátt fyrir það haldi þeir sínum ríkisborgararétti enda ætlunin að búa á Íslandi í framtíðinni. Eiginmaður umsækjanda sé skuldum vafinn og neyðist hann til að vinna þar sem hann viti af öruggu atvinnuástandi og öruggum tekjum. Umsækjandi segir það að eiginmaður hennar starfi fjarri henni vera tímabundið ástand. Eiginmaður umsækjanda hyggist búa með eiginkonu sinni um leið og tækifæri gefist. Umsækjandi segir þetta ekki óþekkt fyrirkomulag í [X], að eiginmenn starfi og dvelji mánuðum og jafnvel árum saman í öðrum löndum fjarri fjölskyldu sinni í von um betra líf. Þar sem umsækjandi geti lifað góðu lífi á sínum tekjum hafi ekki verið ástæða til að eiginmaður hennar sendi henni peninga. Umsækjandi kveðst gera sér grein fyrir því að búsetufyrirkomulag þeirra hjóna kunni að koma undarlega fyrir sjónir Útlendingastofnunar og tekur fram að einungis sé um tímabundið ástand að ræða, þrátt fyrir að tímabilið sé nú orðið nokkuð langt. Eiginmaður umsækjanda hafi ítrekað reynt að fá hana til að flytja til sín en hún hafi ekki viljað búa annars staðar en á Íslandi eins og staðan sé núna. Eiginmaður umsækjanda hringi reglulega og óski þess að hún komi til sín. Umsækjandi kveðst vera ánægð í vinnunni og hafi verið að fá annað starf hjá […] sem hafi m.a orðið til þess að hún hafi tekið miklum framförum í íslensku. Það sé einnig vandkvæðum bundið fyrir umsækjanda að fá dvalarleyfi í [Y] þar sem hún sé ekki með íslenskan ríkisborgararétt eins og eiginmaðurinn. Hún vilji því frekar bíða og hafi þrýst á eiginmann sinn að koma heim til Íslands, en án árangurs. Hvað framtíð þeirra beri í skauti sér varðandi framtíðarbúsetu sé erfitt að segja til um, en staðan sé svona í dag. Þrátt fyrir að nokkrir tungumálaörðugleikar séu fyrir hendi í hjónabandi umsækjanda og maka hennar þá takist þeim með einhverjum hætti að eiga samskipti í síma a.m.k einu sinni í mánuði. Sé þörf á, hafi vinkona umsækjanda hjálpað við að túlka og greitt þannig fyrir að þau geti átt eðlileg samskipti sín á milli.

Lagarök:

Um umsókn þessa gilda lög nr. 96/2002 um útlendinga (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga.

Niðurstaða:

Í 5. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga segir að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Á umsókn segir að tilgangur dvalar umsækjanda á Íslandi sé: „Búa með eiginmanni“.

Verður því farið með umsóknina sem umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 13. gr. útlendingalaga.

Heimild til veitingar dvalarleyfis fyrir aðstandendur er að finna í 13. gr. útlendingalaga og 1. mgr. 47. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Í 3. mgr. 13. gr. laganna segir:

„Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.“

Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 20/2004 um breytingu á útlendingalögum eru í 2. gr. talin upp atriði sem geta bent til þess að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Segir meðal annars:

„Skilyrði þess að neitað verði um dvalarleyfi aðstandanda fyrir maka er í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Þannig verður að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þessa átt geta til dæmis verið að aðilar hafa ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilja ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Í því sambandi má huga að því hvort sá maki, sem hér dvelst löglega, hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi. Sé samkvæmt framangreindu eða af öðrum ástæðum rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi verður umsækjandinn að sýna fram á annað.“

Eins og fram kemur hér að framan er það skilyrði fyrir synjun á dvalarleyfi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Er jafnframt tekið fram að glögg vísbending verði að vera til staðar og tekin dæmi um hvað geti talist vísbendingar í þá veru að um málamyndahjúskap sé að ræða. Athygli skal vakin á því að ekki er um tæmandi talningu á vísbendingum að ræða og er það því háð mati hverju sinni hvað teljist vera glögg vísbending.

Ljóst er af gögnum málsins að maki umsækjanda er nú búsettur í [Y] og var þar áður búsettur í [Z]. Í viðtali við umsækjanda kom fram að maki hennar kom síðast til Íslands í apríl 2008 og fór aftur úr landi til [Y] í júní sama ár. Umsækjandi kom til Íslands í byrjun […]. Umsækjandi og maki hennar hafa því aldrei búið saman á Íslandi. Þá kom fram í viðtali við umsækjanda að hún og maki höfðu þekkst í sex mánuði og búið saman í einn mánuð áður en þau gengu í hjúskap. Fyrir utan þennan eina mánuð sem þau bjuggu saman í [X] og gengu í hjúskap hafa þau ekki búið saman og ekki hist síðan snemma árs 2007. Í greinargerð umsækjanda dags. 10. október 2011 segir umsækjandi að það að þau búi í sitt hvoru landinu sé einungis tímabundið ástand þó það hafi nú varað í langan tíma. Þetta fyrirkomulag sé alls ekki óþekkt í [X]. Eins og fram hefur komið er það háð mati hverju sinni hvað teljist glögg vísbending í málum sem þessum og er það mat Útlendingastofnunar að umrædd atriði séu í máli þessu glögg vísbending um að umræddur hjúskapur sé til málamynda. Sérstaklega í ljósi þess að önnur atriði styðja þá niðurstöðu.

Umsækjandi þekkir ekki til einstakra atriða í lífi maka síns. Umsækjandi vissi ekki hvar maki hennar væri búsettur í [Y]. Þá vissi hún ekki hvað faðir maka hennar hét, ekki hvenær maki hennar skyldi við fyrrverandi maka sinn, hvort hann hefði lokið einhverju námi, hvað bróður maka hennar sem býr á Íslandi heitir fullu nafni eða hversu gamall hann væri.

Umsækjandi kvaðst tala einu sinni í mánuði við maka sinn í síma. Hann hringdi alltaf í hana en hún aldrei í hann. Umsækjandi sagðist tala við maka sinn á ensku eða að vinkona þeirra hjálpaði þeim að tala saman, þá tali eiginmaður hennar nokkur orð í [X]. Í greinargerð dags. 10. október 2011 kemur fram að nokkrir tungumálaörðugleikar séu fyrir hendi í hjónabandi þeirra en þeim takist með einhverjum hætti að eiga samskipti sín á milli í síma a.m.k einu sinni í mánuði. Þegar umsækjandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun var hún spurð á ensku hvort hún gæti sagt hvort það væri sólskin eða rigning úti, hversu gömul hún væri og hvort hún elskaði eiginmann sinn. Umsækjandi virtist ekki skilja neitt sem sagt var nema orðið ,,husband“. Útlendingastofnun þykir afar ólíklegt að umsækjandi og maki geti átt í einhverjum samskiptum á ensku þegar umsækjandi skilur ekki afar einfaldar spurningar á því tungumáli sem hún var spurð í viðtali hjá stofnuninni. Þykir Útlendingastofnun þetta benda til þess að umsækjandi og maki hennar eigi ekki í samskiptum og styðst það jafnframt við það að umsækjandi þekkir lítið til einstakra þátta í lífi maka síns eins og fram hefur komið.

Þegar litið er heildstætt á málavöxtu og gögn málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að til hjúskapar umsækjanda og maka hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla umsækjanda dvalarleyfis hér á landi. Umsækjandi veit afar lítið um maka sinn og þau hafa aldrei búið saman utan eins mánaðar í [X] að sögn umsækjanda. Þá er ljóst að þau geta ekki átt í samskiptum þar sem þau tala ekki sama tungumál. Að öllu virtu er það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að um málamyndahjúskap umsækjanda sé að ræða eins og greinir í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga og að ekki hafi verið sýnt fram á annað. Verður dvalarleyfi ekki gefið út á grundvelli fyrrgreinds hjúskapar. Eðli málsins samkvæmt verður ekki unnt að byggja nein réttindi á upphaflegu dvalarleyfi umsækjanda þar sem það var veitt á fölskum forsendum.

Með hliðsjón af því sem fram hefur komið er rétt að árétta að umsækjandi getur ekki talist hafa, á þeim tíma sem hún hefur dvalið hér á landi á fölskum forsendum, myndað svo sérstök tengsl að réttlæti útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f. útlendingalaga, en að jafnaði er kannað hvort umsækjendur um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar geti öðlast annars konar dvalarleyfi, en sótt er um.

Það athugist að Útlendingastofnun leggur ávallt fram kæru til lögreglu vegna rangs framburðar og framlagningar ganga sem ætluð eru til að blekkja stjórnvald. Í máli þessu verður kæra lögð fram gegn umsækjanda og maka hennar.

Umsækjandi hefur ekki dvalarleyfi hér á landi og lögum samkvæmt er henni ekki heimil dvöl án þess en heimild til dvalar án dvalarleyfis er eingöngu til staðar á meðan sú umsókn sem hér er til umfjöllunar er til vinnslu. Af þeim sökum ber umsækjanda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar þessarar þar sem hún hefur ekki gilt dvalarleyfi, ella telst dvöl hennar á landinu ólögmæt. Það athugist að skv. 20. gr. útlendingalaga getur ólögmæt dvöl leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands, tímabundið eða að fullu og öllu.

Því er ákvarðað:

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], kt.[…], ríkisborgara [X], um endurnýjun dvalarleyfis á Íslandi, er synjað.

[A] skal yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar þessarar.

Ákvörðun þessi er kæranleg til innanríkisráðuneytisins skv. 30. gr. laga nr. 96/2002. Kæra verður ákvörðun innan 15 daga frá birtingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Kæra frestar framkvæmd ákvörðunar sbr. 1. mgr. 31. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Að öðru leyti fer um kæru samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um stjórnsýslukæru.“

 

 IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 28. nóvember 2014, kemur m.a. fram að maki kæranda hafi flutt til Íslands í lok febrúar 2012 og þau hafi búið saman um tíma en í […] hafi maki kæranda flutt aftur af heimilinu og búi nú erlendis. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sé maki hennar ekki væntanlegur til landsins á ný og sambandi þeirra í raun lokið og ekki annað í stöðunni en að sækja um skilnað. Kærandi hafni því þó að til hjúskaparins hafi verið stofnað til þess eins að afla henni dvalarleyfis. Á þeim tíma sem ákvörðun útlendingastofnunar hafi verið kærð hafi þau hjónin búið saman og ætlað sér að stofna fjölskyldu. 

Langt sé um liðið frá því að málið var kært og aðstæður séu breyttar en vegna breyttra aðstæðna sé þess óskað að ráðuneytið vísi málinu á ný til Útlendingastofnunar til þóknanlegrar meðferðar þar sem 12. gr. f útlendingalaga eigi við um kæranda þannig að henni verði gert kleift að sækja um dvalarleyfi að nýju. Þar með geti Útlendingastofnun fjallað um dvalarleyfisumsókn kæranda að teknu tilliti til ofangreinds lagaákvæðis.

Kærandi byggi á því að hún eigi rétt á dvalarleyfi á grudvelli mannúðarsjónarmiða þar sem hún tilheyri trúarsöfnuði sem fylgi […] og […] aðferðinni. Í [X] hafi því verið haldið fram að […] stundaði trúarlegan áróður í þeim tilgangi að vera með andóf gegn [X] og því hafi verið bannað að iðka þessa trú og iðkendur hennar hafi sótt um hæli í öðrum löndum vegna þeirra ofsókna sem þeir hafi sætt í heimalandi sínu. Kærandi hafi þurft að flýja land á tíunda áratug síðustu aldar vegna trúar sinnar og hún hafi búið í flóttamannabúðum í […] í um fjögur ár ásamt fleiri iðkendum […].

Þá er á því byggt að tengsl kæranda við Ísland séu gífurlega sterk. Hún hafi komið til landsins þann […]og því dvalist á landinu í sex og hálft ár. Ef ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við dvalarleyfisumsókn hennar þá væri hún komin með dvalarleyfi og myndi uppfylla öll skilyrði þess að sækja um ríkisborgararétt í það minnsta í júlí 2015. Hún eigi í góðum samskiptum við Íslendinga og þá sérstaklega íslenska ríkisborgara af [X] uppruna. Hún sé í góðum samskiptum við vinkonu sína sem búi hér á landi en þær hafi kynnst í flóttamannabúðum í […] og hafi verið sem systur síðan. Kærandi hafi engin tengsl við [X] en móðir hennar hafi látist þegar hún var níu ára og faðir hennar þegar hún var tvítug. Kærandi eigi engin börn og þar sem hjúskap hennar sé í raun lokið sé áðurgreind vinkona hennar nánasti aðstandandi og synjun dvalarleyfis og brottvísun myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim.

Kærandi sé fyrirmyndarþegn. Hún hafi ekki komist í kast við lögin, hvorki á Íslandi né í [X]. Hún hafi verið í fastri vinnu frá því að hún kom til landsins og meðfylgjandi séu meðmælabréf frá vinnuveitendum hennar.

Að teknu tilliti til ofangreinds og þess að aðstæður í [X] eru ekki góðar fyrir iðkanda […], jafnvel beinlínis hættulegar, þá sé ljóst að ákvæði 12. gr. f útlendingalaga eigi við um kæranda og þess sé krafist að fjallað verði um mál hennar á þeim grundvelli og henni gert kleift að sækja um nýtt dvalarleyfi

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

1. Lagarök

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við 12. – 12. gr. e eða 13. gr., að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Í 13. gr. útlendingalaga er fjallað um dvalarleyfi fyrir aðstandendur og þar segir að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 12. gr., 12. gr. b og 12. gr. f eða á grundvelli búsetuleyfis geta samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í d-lið 1. mgr. 11. gr., auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. Sama gildir um nánustu aðstandendur þeirra sem stunda doktorsnám hér á landi á grundvelli 12. gr. e.

Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.

Fram kemur í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir það ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar  brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga. Ef annar makinn er 24 ára eða yngri skal ávallt kanna hvort málsatvik eru með þeim hætti sem um getur í 1. og 2. málsl.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. f útlendingalaga, er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Vekja ber athygli á að með lögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 9. september 2010 um breytingar á lögum um útlendinga var nýjum málslið bætt við 12. gr. f útlendingalaga. Þar segir nú í 2. mgr. ákvæðisins: „Veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum, kemur fram að ljóst sé að við mat á því hvort rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita dvalarleyfi samkvæmt núgildandi 12. gr. f. verði að líta til þess að þeir sem geti sýnt fram á þörf á vernd skv. 2. mgr. 44. gr. laganna eigi nú rétt á að fá hæli og njóta réttarverndar sem flóttamenn. Þá segir að því verði að ætla að þörf á því að gefa út dvalarleyfi af mannúðarástæðum komi sjaldnar til en verið hefur en engu að síður geti það enn komið til ef ekki hefur verið sýnt fram á að skilyrðum 44. gr. sé fullnægt, en að útlendingurinn þarfnist verndar skv. 1. mgr. 45. gr. 

2. Niðurstaða

Útlendingastofnun synjaði kæranda um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar með ákvörðun sinni, dags. 21. febrúar 2012, vegna gruns um að hjúskapurinn væri til málamynda. Kærandi hefur ætíð mótmælt því að til hjúskaparins hafi einvörðungu verið stofnað til að afla henni dvalarleyfis.

Fyrir liggur að aðstæður kæranda hafa breyst á meðan málið hefur verið til meðferðar hjá ráðuneytinu og kærandi og maki hennar eru ekki lengur í samvistum. Kærandi byggir nú á því að hún eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f og óskar nú eftir því að Útlendingastofnun taki afstöðu til þess hvort hún uppfylli skilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli þess ákvæðis.

Í fyrsta lagi er byggt á því veita beri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna þess að kærandi tilheyri trúarsöfnuði sem fylgi […] og […] aðferðinni en í [X] hafi því verið haldið fram að […] hafi stundaði trúarlegan áróður í þeim tilgangi að vera með andóf gegn [X] og því hafi verið bannað að iðka þessa trú. Kærandi byggir á því að hún hafi um tíma dvalið í flóttamannabúðum í […] vegna þessa.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að hún uppfylli skilyrði þess að fá dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla sbr. 12. gr. f útlendingalaga en hún hafi komið til landsins þann […] og því dvalist hér á landi í sex og hálft ár.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið rétt að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. febrúar 2012 og leggja fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar að nýju með tilliti til þess hvort kærandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Ráðuneytið vekur athygli á því að lengd lögmætrar dvalar getur haft þýðingu við mat á sérstökum tengslum. Komi til skoðunar hvort veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skiptir máli hversu lengi hún telst hafa verið hér í lögmætri dvöl og kemur því til skoðunar hvort og þá hversu lengi hún getur talist hafa verið hér á landi í lögmætri dvöl á grundvelli hjúskapar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. febrúar 2012 í máli [A] er felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar að nýju.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum