Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2014 Dómsmálaráðuneytið, Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR12070229

Ár 2014, 6. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12070229

 

Kæra A

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

  

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu þann 19. júlí 2012 kærði B, f.h. A, fd. […], ríkisborgara X, ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júlí 2012, um að synja umsókn kæranda um útgáfu dvalarleyfis.

Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og er kæran borin fram innan kærufrests.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með umsókn, dags. 13. desember 2011, sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi og var þeirri beiðni synjað með hinni kærðu ákvörðun, dags. 6. júlí 2012. Þá liggur fyrir í málinu að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars 2012, var kæranda synjað um útgáfu atvinnuleyfis hér á landi.

Framangreind ákvörðun var kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 17. júlí 2012. Með bréfi, dags. 24. júlí 2012, óskaði ráðuneytið eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 11. september 2012.

Með bréfi, dags. 18. september 2012, gaf ráðuneytið kæranda færi á að koma á framfæri frekari gögnum eða upplýsingum teldi hann tilefni til. Athugasemdir kæranda þar að lútandi bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 28. september 2012.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um útgáfu dvalarleyfis hljóðar svo:

Lagarök:

Um umsókn þessa gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002 (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerðar um útlendinga nr. 53/2002, með síðari breytingum.

Niðurstaða:

Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 skal tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi  vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Í umsókn kemur ekki fram hver tilgangur dvalar sé, en þar sem umsækjandi skilaði inn ráðningarsamningi telst umsóknin vera um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli.

Samkvæmt 12. gr. a. útlendingalaga er það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars 2012, var umsókn umsækjanda um atvinnuleyfi synjað. Getur Útlendingastofnun því ekki fallist á að veita umsækjanda dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli.

Í 1. mgr. 12. gr. f. útlendingalaga er heimild til að veita útlendingi dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla hans við Ísland. Í greinargerð með lögum nr. 115/2010 um breytingar á lögum um útlendinga nr. 96/2002 segir í athugasemdum að undir sérstök tengsl geti fallið tilvik þar sem útlendingurinn hefur búið hér áður, eða hann á hér ættingja, án þess að falla undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Þá bera að geta þess að 12. gr. f. útlendingalaga felur í sér heimildarákvæði. Hefur Útlendingastofnun því heimild en ekki skyldu til að veita dvalarleyfi á grundvelli þessa ákvæðis. Ávallt þarf að fara fram heildarmat á aðstæðum umsækjanda til að kanna hvort þær aðstæður geti orðið til þess að hægt sé að veita umsækjanda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið.

Leyfi samkvæmt 12. gr. f. útlendingalaga er aðeins veitt í undantekningartilfellum þegar rík ástæða þykir til. Umsækjandi á eins og fram hefur komið föður hér á landi, í umsókn er ekki getið til um aðra ættingja hérlendis og ekki verður séð að umsækjandi hafi önnur tengsl við Íslands. Þegar um foreldra fullorðinna einstaklinga er að ræða hefur ekki verið litið svo á í framkvæmd að fyrir hendi séu svo sérstök tengsl að réttlætt geti veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla.

Því er ákvarðað:

 ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], ríkisborgara [X], um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli skv. 12. gr. a. laga nr. 96/2002 um útlendinga, er synjað.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í kæru til ráðuneytisins er m.a. tekið fram að kærandi eigi föður, þrjár frænkur, einn frænda og sjö frændsystkini hér á landi. Kærandi og faðir hans vilji búa saman sem fjölskylda á Íslandi. Kærandi eigi mjög auðvelt með að aðlagast nýju umhverfi.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá                 13. desember 2011 um útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli.

Í 12. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 segir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku á vinnumarkaði hér á landi í samræmi við 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu eru m.a. þau að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. a, og að atvinnuleyfi á grundvelli 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi verið veitt, sbr. b-lið 1. mgr. 12. gr. a laga nr. 96/2002. Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars 2012, var umsókn umsækjanda um atvinnuleyfi synjað og hefur þeirri ákvörðun ekki verið hnekkt. Því er ljóst að skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli eru ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Þá ber að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið hér áður, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Í máli þessu liggur fyrir að faðir kæranda býr á Íslandi og var þann […] veittur íslenskur ríkisborgararéttur […]. Þá kemur fram í kæru að kærandi eigi hér á landi þrjá frænkur og einn frænda og að auki sjö frændsystkini. Ekki verður hins vegar séð af gögnum málsins að þær upplýsingar hafi legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Líkt og tekið er fram í hinni kærðu ákvörðun sem og athugasemdum við framangreinda 12. gr. f útlendingalaga í lögskýringargögnum er um undanþáguheimild að ræða sem meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort rík ástæða sé til að beita. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi eigi föður hér á landi sem nú er íslenskur ríkisborgari auk þess sem tekið er fram í kæru að hann eigi frændur og frænkur hér landi. Hins vegar hefur verið litið svo á í framkvæmd að þegar um fullorðna einstaklinga er að ræða, nægi það eitt og sér að þeir eigi ættingja hér á landi, jafnvel foreldra, ekki til þess að talið verði að þeir hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 12. gr. f útlendingalaga. Í því ljósi sem og þess að ekkert annað er fram komið sem bendir til þess að kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland eða að aðstæður hans í heimalandi séu með einhverjum þeim hætti að fallið geti undir ákvæðið, verður hin kærða ákvörðun staðfest. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júlí 2012, um að synja umsókn A, fd. […], ríkisborgara X, um útgáfu dvalarleyfis, er staðfest.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum