Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2014 Dómsmálaráðuneytið, Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR13050318

Ár 2014, 17. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. irr 13050318

 

Kæra [A]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með kæru, dags. 20. maí 2013, kærði [A], ríkisborgari [X] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. maí 2013, að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með beiðni, dags. 17. apríl 2013, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í þrjár vikur hjá sendiráði Svíþjóðar í [X]. Í umsókn kemur fram að tilgangur ferðar kæranda hingað til lands væri meðal annars að heimsækja vinkonu og ferðalag til að skoða landið. Því til stuðnings fylgdi boðsbréf frá fyrirsvarsmanni kæranda. Umsókn kæranda um vegabréfsáritun var sem fyrr segir synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. maí 2013. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu. 

Kæran barst Útlendingastofnun þann 21. maí 2013. Þann 14. júní 2013 barst ráðuneytinu kæran ásamt gögnum málsins frá Útlendingastofnun.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

 

The Icelandic Directorate of Immigration hereby requests the representative to inform the applicant that the Directorate cannot issue a visa based on documents submitted.

Reasoning
All foreigners that want to enter Iceland and stay must have a valid visa in accordance with Article 6 of the Act on Foreigners No. 96/2002 unless they are exempt from visa requirements, cf. Article 6 of the before mentioned Act. [X] nationals are not exempt from visa requirements.

The Icelandic Directorate of Immigration only grants a visa if it is certain that the applicant will solely remain in Iceland for 3 months or less.  The supporting documents shall cover the purpose of the journey, means of transport and return, means of subsistence and accommodation.

Supporting documents regarding the purpose of the journey shall be, for example a letter of invitation, a tour organized by a travel bureau.

Supporting documents regarding means of transport and return shall be, for example a roundtrip or onward ticket to the country of residence.

Supporting documents regarding means of subsistence shall be, for example cash in convertible currency, travelers cheques or credit cards. The level of means of subsistence shall be proportionate to duration and purpose of the visit, and also the cost of living in the Schengen State or States to be visited.

Supporting documents inter alia may be accepted as proof of accommodation, for example a hotel reservation or reservation for a similar establishment. If the applicant has an invitation to stay with friends or family members, the identity and the address of the host should be specified.

The Icelandic Directorate of Immigration does not grant a visa if there is a reason to believe that the applicant intends to stay in the Schengen area longer than stated in his/her application.


Decision:

The application is refused in accordance with Article 6 of the Act on Foreigners No. 96/2002 and Article 32 of Regulation on Visas No. 1160/2010.  The refusal of the application is supported by the fact that:

The applicant is asking for a visa for 21 days to visit his friend in Iceland, [...].  The reference person and the applicant have not met in person, but apparently communicated on the internet since December 2012.

In order to grant visas to boyfriends/girlfriends, the couple must document that they are in an actual relationship. That is, they must be able to document that they are both unmarried and that they know each other personally, and that they have seen each other in the year leading up to the visa application. It is not enough that the couple only know each other through telephone and/or written contact.

The applicant's  intention to leave the territory of the Member States before the expiry of the visa could not be ascertained. When visa applications are examined, attention is paid to the applicant's ties to his home country or country of residence. Among the documentation allowing for the assessment of the applicant's intention to leave the territory of the member states are; proof of employment: bank statements; proof of real estate property and proof of integration into the country of residence: family ties, professional status. The applicant is young, single, unemployed and his ties to his home country are considered to be weak.

As the applicant is deemed to be an immigration risk in the Schengen area, a visa will not be issued.

The Icelandic Directorate of Immigration requests the representative to inform the applicant that he may appeal this decision to the Ministry of the Interior. An appeal shall be sent to The Icelandic Directorate of Immigration, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík, within 15 days of receiving this decision.

Notice: An appeal must be submitted directly to the Icelandic Directorate of Immigration. The applicant is requested to specify IVR no., full name, nationality and date of the Directorate's decision in the appeal.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í september 2013 hafði fyrirsvarsmaður kæranda samband við ráðuneytið og greindi frá því að hún hafi sumarið sem leið farið til [X] til að hitta kæranda. Kærandi væri nú unnusti hennar.

Þann 24. janúar 2014 barst ráðuneytinu tölvupóstur frá fyrirsvarsmanni kæranda ásamt greinargerð, dags. 23. sama mánaðar, ásamt vottorði, dags. 22. janúar 2014, um hjúskaparstöðu kæranda, og fleiri gögnum.

Í greinargerð kemur meðal annars fram að í lok 2012 hafi kynni tekist með þeim á samskiptamiðli á veraldarvefnum. Vináttusamband hafi fljótt þróast í tilfinningasamband og þau hafi nú átt í daglegum samskiptum í eitt ár. Með því móti hafi þau varið miklum tíma „saman“ og samband kæranda og fyrirsvarsmanns hvíli á traustum grunni. Kærandi leggur áherslu á að það hafi aldrei hvarflað að þeim að kærandi myndi dvelja hér á landi með ólögmætum hætti. Kærandi hafi í hvívetna farið að lögum og hafi ekki uppi áform um annað. Málsmeðferð ráðuneytisins hafi dregist og því hafi talsmaður kæranda í þrígang ferðast til [X]. Í [...] 2013 hafi hún dvalið í landinu í tvær vikur og 4 daga í [...] sama ár. Þá hafi hún dvalið í [X] í níu daga í [...] 2014. Í kjölfar fyrstu heimsóknar hafi legið ljóst fyrir að um ástarsamband var að ræða og fyrirsvarsmaður kæranda hafi af því tilefni upplýst ráðuneytið um breyttar aðstæður. Ávallt þegar fyrirsvarsmaður kæranda hafi komið til [X] hafi samband þeirra staðið traustari fótum. Í [...] hafi þau opinberað trúlofun og þau vilji vera saman í framtíðinni. Fjölskyldum og vinum þeirra sé kunnugt um sambandið. Er óskað eftir að kæranda verði veitt vegabréfsáritun og gert kleift að kynnast betur fjölskyldu unnustu sinnar og verja meiri tíma með henni.      

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

1. Lagarök

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma til landsins, nema annað sé ákveðið í reglum sem innanríkisráðherra setur. Ríkisborgarar [X] þurfa vegabréfsáritun til að koma til Íslands. Í 5. mgr. 6. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir segir hvenær skuli synja um vegabréfsáritun. Í 5. mgr. 6. gr. útlendingalaga segir að heimilt sé að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildi á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a. - h. liða 5. mgr. sé fullnægt. Skilyrði sem fram koma í 5. mgr. eru að útlendingur þarf að hafa gild skilríki, heimild til að ferðast til baka til heimaríkis eða annars ríkis og sýna fram á að hann geti séð fyrir sér meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur og geta greitt fyrir ferð til baka til upprunalandsins. Þá verður útlendingur að geta sýnt fram á tilgang dvalar, hann má ekki vera á skrá yfir þá sem synja á um komu eða ástæða er til að brottvísa eða teljast ógn við allsherjarreglu. Þá verður útlendingur einnig að framvísa gögnum um að hann hafi gilda sjúkrahúskostnaðar- og heimferðartryggingu. Samkvæmt 6. mgr. 6. gr. útlendingalaga, skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 7. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun, skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.

Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins þann 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur þá skyldu að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Vegabréfsáritun má gefa út til dvalar í allt að þrjá mánuði. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu, sem tók gildi fyrir Ísland þann 25. mars 2001, fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir, sem leysti af hólmi 9. - 17. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins.

 

2. Niðurstaða

Meginástæða synjunar á umsókn kæranda um vegabréfsáritun var sú að Útlendingastofnun taldi ekki leitt í ljós að um raunverulegt samband væri að ræða milli kæranda og fyrirsvarmanns hans. Einnig var það ályktun Útlendingastofnunar að líkur væru á að kærandi myndi reyna að dvelja lengur á landinu en vegabréfsáritun heimilaði og að hugsanlegt væri að kærandi ætlaði sér að setjast hér að.

Með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld sem fyrr segir á hendur þá skyldu að fylgja samræmdum reglum um útgáfu á vegabréfsáritunum. Við veitingu vegabréfsáritana ber Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um hvort formskilyrðum sé fullnægt heldur ber jafnframt að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúa ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 7. mgr. 6. gr. laga um útlendinga. Við mat á umsóknum um vegabréfsáritun ber því meðal annars að skoða hvort tilefni sé til að telja hættu á að umsækjandi muni dvelja ólöglega á Schengen-svæðinu að lokinni heimsókn. Þannig er reynt eftir fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 86/2008 kemur fram að með 4. gr. laganna hafi verið lagt til að lögfesta ákveðin sjónarmið sem við bæri að miða við mat á umsókn um vegabréfsáritun. Það þótti rétt að bæta úr því þar sem ekki var að finna neina vísbendingu um það í settum rétti eftir hvaða sjónarmiðum ætti að fara þegar umsókn um vegabréfsáritun væri afgreidd. Þau sjónarmið er voru lögfest með breytingarlögum nr. 86/2008 voru í samræmi við markmið laganna og höfðu þau mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Ennfremur kemur fram í frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja, þar sem stefnan í framkvæmd hefur verið mótuð að verulegu leyti á sameiginlegum vettvangi þeirra. Leiðir það af eðli samstarfsins að mikilvægt er að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr., synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Þau tilvik sem meðal annars eru nefnd eru þegar umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, færir ekki sönnur á að hann hafi nægt fé sér til framfærslu á meðan fyrirhugaðri dvöl stendur og til þess að snúa aftur til uppruna- eða búsetulands síns, er á skrá í Schengen-upplýsingakerfinu yfir óæskilega einstaklinga sem synja á um komu, er talinn vera ógnun við allsherjarreglu, innra öryggi eða almannaheilsu eða ef rökstudd ástæða er til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans að fara frá yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin, sem sótt er um, rennur út.

Hin kærða ákvörðun er byggð á því mati Útlendingastofnunar að kærandi fullnægi ekki skilyrðum 32. gr. reglugerðar nr. 1160/2010 um útlendinga sbr. 6. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun bendir á að kærandi hafi aldrei hitt gestgjafa sinn og einu samskipti þeirra hafi farið fram í gegnum [...]. Stofnunin tekur fram að til að unnt sé að veita unnusta/unnustu vegabréfsáritun verði par að sýna fram á að um raunverulegt samband sé að ræða. Þau verði þannig að sýna fram á að þau þekkist persónulega og að þau hafi hist á undangengnu ári miðað við framlagningu umsóknar um vegabréfsáritun. Í þessu sambandi nægi ekki að parið þekkist í gegnum síma- eða bréfasamskipti. Jafnframt vísar Útlendingastofnun til þess að kærandi sé einhleypur, atvinnulaus og tengsl hans við heimalandið því ekki sterk. Þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir lágu við úrlausn málsins hjá Útlendingastofnun verður að mati ráðuneytisins ekki annað ráðið en að mat stofnunarinnar hafi verið í samræmi við gögn málsins.

Við mat á því hvort veita beri unnusta vegabréfsáritun er meðal annars horft til þess að fólk hafi hist í eigin persónu. Fyrir ráðuneytinu hefur fyrirsvarsmaður kæranda lagt fram frekari gögn þar að lútandi og fellst ráðuneytið á með kæranda, á grundvelli hinu nýju gagna, að kærandi og fyrirsvarsmaður hans hafi ítrekað hist á undangengnu ári. Ráðuneytið telur enga ástæðu til að draga í efa að samband kæranda og fyrirsvarsmanns sé raunverulegt. Verður því ekki heldur talið að sé ástæða sé til að vefengja uppgefinn tilgang kæranda með komu hingað til lands. Ráðuneytið telur heldur ekki ástæðu til að draga í efa þá frásögn talsmanns kæranda að hann hafi ekki í hyggju að dvelja ólöglega hér á landi eftir að vegabréfsáritun rennur út.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið því ekki efni til að synja kæranda um vegabréfsáritun til Íslands á þeim forsendum að kærandi hafi aldrei áður hitt fyrirsvarsmann sinn og að samband þeirra sé ekki raunverulegt. Ráðuneytið telur því rétt eins og hér háttar til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju og veita kæranda áritun skili hann inn tilskildum gögnum í samræmi við reglur reglugerðar um vegabréfsáritun nr. 1160/2010.  

Ráðuneytið biðst velvirðingar á því að úrlausn þessa máls hefur dregist.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar frá 14. maí 2013 í máli [A], er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til meðferðar að nýju og veita [A] vegabréfsáritun til 21 dags uppfylli hann tilgreind skilyrði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum