Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2015 Innviðaráðuneytið

Mál nr. IRR14060100

  Ár 2015, þann 30. janúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR14060100

 

Kæra [HÞ]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 9. júní 2014 barst ráðuneytinu kæra [HÞ] hér eftir nefndur HÞ), […], vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli nr. 18/2014 frá 11. mars 2014. Með ákvörðun Samgöngustofu var flugfélagið Orbest talið bera skaðabótaábyrgð vegna glataðrar tösku HÞ samkvæmt 1. mgr. 140. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. Þá var hafnað kröfu HÞ um frekari bætur en greiddar höfðu verið vegna glataðra muna úr farangri. Af kæru verður ráðið að HÞ krefjist frekari bóta en greiddar hafi verið.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

Af gögnum málsins má ráða að HÞ hafi ferðast þann 1. maí 2013 með Heimsferðum frá Keflavík til Barcelona, en flugfélagið Orbest hafi annast flugið. Hafi farangur verið innritaður við komu til Keflavíkur. Hins vegar hafi taska HÞ ekki skilað sér til Barcelona. Eftir að hafa lagt fram kvörtun hafi Orbest greitt 550 evrur inn á reikning HÞ. Telur HÞ að fjárhæð bótanna sé ekki rétt og krefst þess að fá innihald töskunnar bætt að fullu.

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

I.                    Erindi

Þann 6. september 2013 barst Samgöngustofu kvörtun frá [HÞ]. Kvartandi hafði ásamt unnustu sinni ferðast á vegum Heimsferða með flugfélaginu Orbest til Barcelona með ætlaðri heimkomu 5. maí 2013. Taskan týndist á leiðinni og hefur ekki skilað sér síðan.

Atvik málsins eru nánar reifuð í kvörtuninni. Þar kemur fram að eftir heimkomu hafi kvartandi sett sig í samband við Heimsferðir og óskað eftir aðstoð vegna töskunnar. Hafi honum verið bent á eyðublað vegna tapaðs farangurs sem hann fyllti út og sendi með ábyrgðarpósti til Orbest. Nokkrum vikum síðar hafi hann fengið svar þar sem óskað var eftir reikningsnúmeri svo unnt væri að leggja inn á hann bætur. Í kjölfarið voru lagðar inn á hann 550 evrur. Kvartandi telur það þó ekki fullnægjandi bætur.

Kvartandi fer fram á að fá töskuna ásamt innihaldi bætt að fullu. Kvörtuninni fylgdu nánari upplýsingar um töskuna og innihald hennar sem listað var upp hvert og eitt. Telur kvartandi að tjón hans nemi 363.890 kr.

 

II.                  Málavextir og bréfaskipti

Samgöngustofa sendi Orbest kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 23. október sl. Daginn eftir barst svar frá Orbest þar sem fram kemur að þeir telji málinu lokið af sinni hálfu. Þar sem innihald töskunnar hafi ekki verið sérstaklega tilgreint við innritun telji þeir sig hafa bætt kvartanda tjón sitt með fullnægjandi hætti.

Umsögn Orbest var send kvartanda til athugasemda með tölvupósti þann 24. október sl. Athugasemdir bárust samdægurs þar sem kvartandi ítrekaði að hann teldi 550 evrur ekki rétta upphæð og hann teldi málinu því ekki lokið. Í öðrum tölvupósti, sendum 25. október sl. benti kvartandi á að tilgreint væri í Montreal samningnum að 1131 SDR sé hámarksupphæð fyrir týndan farangur.

 

III.               Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998 eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Í ljósi þess að ágreiningur aðila hefur ekki verið jafnaður er með þessari ákvörðun Samgöngustofu tekin afstaða til ábyrgðar Oberst á farangri kvartanda á grundvelli laga nr. 60/1998 um loftferðir og reglugerðar nr. 1048/2012 um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum ú flugi sem neitað er umf ar og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum.

Um ábyrgða flytjanda á farangri er fjallað í 104 gr. loftferðalaga og 10. gr. reglugerðar nr. 1048/2012. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. ber flytjandi ábyrgð á tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari, eða meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Þó er flytjandi ekki ábyrgur ef og að því leyti sem tjón  á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs. Ákvæði 1. mgr. 104. gr. mælir fyrir um hlutlæga ábyrgð flytjanda á tjóni sem innritaður farangur kann að verða fyrir meðan hann er í vörslu flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Ábyrgð flytjanda vegna glataðs farangurs takmarkast við 1.150 SDR skv. 2. mgr. 108. gr. laganna, nema ásetningur eða stórfellt gáleysi flytjanda eða einhverra þeirra sem hann ber ábyrgð á sé sannaður. Svara ákvæði 104. gr. og 108. gr. loftferðalaga til 2. mgr. 17. gr. og 22. gr. Montreal-samningsins.

Svo sem fram er komið felur 1. mgr. 104. gr. loftferðalaga í sér hlutlæga ábyrgðarreglu, þ.e. skaðabótaskylda flytjanda án sakar á tjóni því sem innritaður farangur kann að verða fyrir meðan hann er í vörslu flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Hagræði tjónþola sem af því leiðir er að hann þarf einungis að sýna fram á að hin hlutlæga ábyrgðarregla eigi við og orsakatengsl, en þarf ekki að sýna fram á að önnur hlutlæg skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi svo til skaðabótaábyrgðar flytjanda komi. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 104. gr. getur flytjandi getur flytjandi einungis takmarkað ábyrgð sína ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs.

Kvartandi fer fram á bætur vegna glataðs farangurs. Fyrir liggur að ferðataska kvartanda týndist þegar hún var í vörslu Oberst og hefur hún ekki skilað sér. Það er mat Samgöngustofu að hin glataða ferðataska falli undir hlutlæga bótaábyrgðarreglu 1. mgr. 140. gr. loftferðalaga og að Oberst beri ábyrgð á því. Oberst hefur greitt 550 evrur en hafnað frekari bótaskyldu á þeim grundvelli að engin sönnun liggi fyrir um nánar tilgreint innihald töskunnar.

Samkvæmt framansögðu er það álit Samgöngustofu að nægilega sé fram komið að stofnast hafi til skaðabótaábyrgðar Oberst á grundvelli 1. mgr. 104. gr. loftferðalaga þegar taska kvartanda kom ekki í leitirnar. Hins vegar hefur Samgöngustofa ekki forsendur til að staðfesta hvað raunverulega var í töskunni og tekur Samgöngustofa því ekki afstöðu í ákvörðun þessari til sönnunar um innihald töskunnar og þar með upphæð rauntjóns kvartanda. Er hlutverk dómstóla að skera úr um slíka sönnun.

Er það mat Samgöngustofu að kvartandi hafi ekki fært fullnægjandi sönnur fyrir því að umræddir hafi glatast meðan farangur var í umsjá Oberst. Frekari bótakröfu vegna glataðra muna úr farangri er því hafnað.

 

Ákvörðunarorð:

Oberst ber skaðabótaábyrgð vegna glataðrar tösku skv. 1. mgr. 140. gr. loftferðalaga nr. 60/1998.

 Kröfu kvartanda um frekari bætur vegna glataðra muna úr farangri er hafnað.

 

III.      Málsástæður HÞ, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra HÞ barst ráðuneytinu með tölvubréfi þann 9. júní 2014 og var móttekin þann sama dag. Er ekki gerð grein fyrir kröfum eða sjónarmiðum HÞ í kæru og lítur ráðuneytið svo á sem í því felist að gerðar séu sömu kröfur og HÞ hafði uppi við meðferð málsins hjá SGS.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 16. júní 2014. Bárust gögn málsins ráðuneytinu með bréfi SGS dags. 4. júlí 2014. Taldi SGS ekki tilefni til að koma að athugasemdum vegna kærunnar.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 7. júlí 2014 og tölvubréfi dags. 18. ágúst 2014 var HÞ gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Með tölvubréfi HÞ dags. 13. september 2014 lýsti HÞ því yfir að hann hefði litlu við að bæta. Væri fjárhagslegt tap hans og ófyrirséð útgjöld útskýrt.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 15. september 2014 og bréfi dags. 2. október 2014 var HÞ tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

 

IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun er fjallað um ábyrgð flytjanda á farangri í 104 gr. loftferðalaga nr. 60/1998 og 10. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 sem sett er á grundvelli laganna. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. loftferðalaga ber flytjandi ábyrgð á tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari eða meðan innritaður farangur er í vörslu flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Flytjandi er þó ekki ábyrgur ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga takmarkast ábyrgð flytjanda vegna þess að farangur glatast, eyðileggst, skemmist eða tefst við 1.150 SDR vegna hvers farþega, nema farþegi hafi við innritun farangurs sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu farangurs á ákvörðunarstað og greitt umkrafið aukagjald og gildir þá hið tilgreinda verðmæti sem hámark á ábyrgð flytjanda, nema hann sanni að raunverulegir hagsmunir farþega hafi verið minni. Svara tilgreind ákvæði loftferðalaga til 2. mgr. 17. gr. og 22. gr. Montreal samningsins.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er flytjandi ábyrgur fyrir tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari eða meðan innritaður farangur er í vörslu flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Flytjandi er ekki ábyrgur ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs. Flytjandi er ábyrgur fyrir tjóni á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Er SGS heimilt að ákvarða fjárhæð bóta vegna tjóns á farangri þegar ekki verður byggt á reikningi, sölunótu, greiðslukvittun eða öðrum sannanlegum gögnum og tjón hefur sannanlega orðið sem réttlætir slíka ákvörðun. Við ákvörðun skal að því marki sem unnt er byggja á almennum viðmiðum að teknu tilliti til gæða, slits og annarra þátta sem geta haft áhrif á fjárhæð bóta vegna tjóns á farangri.

Fyrir liggur að ferðataska HÞ týndist í ferð hans á vegum Heimsferða með flugfélaginu Orbest frá Keflavík til Barcelona þann 1. maí 2013. Þá liggur fyrir að Orbest hefur greitt HÞ 550 evrur í bætur vegna tapaðs farangurs en HÞ telur þær bætur ekki fullnægjandi. Er því ekki ágreiningur um bótaskylduna sem slíka heldur eingöngu um fjárhæð bótanna.

Ráðuneytið vísar til þess að ákvæði 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga felur í sér hámark þeirra bóta sem flytjanda verður gert að greiða vegna tapaðs farangurs nema farþegi hafi við innritun farangurs sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu hans á ákvörðunarstað og greitt umkrafið aukagjald. Er ekki um það að ræða að bætur skuli ávallt nema þeirri fjárhæð er í ákvæðinu greinir líkt og HÞ heldur fram.

Ráðuneytið tekur undir það með SGS að ljóst megi vera að til bótaskyldu Orbest hafi stofnast á grundvelli 1. mgr. 104. gr. loftferðalaga þegar ferðataska HÞ kom ekki í leitirnar í tilgreindri ferð. Hins vegar liggi ekkert fyrir um innihald töskunnar og þau verðmæti sem HÞ kveður að hafi verið í töskunni hafi ekki verið tilgreind sérstaklega, sbr. 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga. Með vísan til þessa er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum