Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2013 Innviðaráðuneytið

Mál nr. IRR12070030

Ár 2013, þann 27. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12070030

vegna stjórnsýslukæru Félags vélstjóra og málmtæknimanna á ákvörðun mönnunarnefndar skipa

  

I. Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 28. júní 2012, kærði Jónas Þór Jónasson hrl. f.h Félags vélstjóra og málmtæknimanna (hér eftir nefnt VM) úrskurð mönnunarnefndar skipa frá 15. júní 2012, þar sem heimilað var að fækka vélstjórum um borð í Heimaey VE-001 (2812) úr þremur í tvo. Er þess krafist að úrskurður mönnunarnefndar verði felldur úr gildi.

Kæruheimild er í 7. gr. reglugerðar nr. 420/2003 og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn Ísfélags Vestmannaeyja hf., útgerðar skipsins Heimaeyjar VE-001, sknr. 2812, þann 4. maí 2012 var sótt um heimild til að fækka vélstjórum um borð í skipinu um einn þannig að tveir yrðu í áhöfn, þ.e. yfirvélstjóri og 1. vélstjóri.  Með úrskurði mönnunarnefndar þann 15. júní 2012 var það niðurstaða nefndarinnar að heimila fækkun vélstjóra á skipinu þannig að tveir vélstjórar verði í áhöfn enda liggi fyrir gögn því til staðfestingar að sjálfvirkni vélarrúmsins sé slík að það geti starfað tímabundið ómannað. Gilti heimildin til 1. desember 2012 til reynslu.

Úrskurður mönnunarnefndar var kærður til ráðuneytisins með bréfi VM dags. 28. júní 2012.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. júlí 2012 var útgerðaraðila skipsins Heimaeyjar VE-001, Ísfélagi Vestmanneyja hf., gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi félagsins dags. 9. ágúst 2012.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. júlí 2012 var mönnunarnefnd gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi mönnunarnefndar dags. 13. ágúst 2012.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 29. ágúst 2012 var VM gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum mönnunarnefndar. Bárust þau andmæli með bréfi VM dags. 27. september 2012.

Með bréfum til aðila dags. 22. október 2012 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Með bréfi ráðuneytisins til mönnunarnefndar dags. 21. janúar 2013 var óskað eftir frekari gögnum frá mönnunarnefnd og bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi nefndarinnar dags. 30. janúar 2013.

Þá bárust ráðuneytinu viðbótarathugasemdir frá VM með tölvubréfum dags. 24. og 25. janúar 2013.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III. Málsástæður og rök VM

VM byggir á því að í úrskurði mönnunarnefndar frá 15. júní 2012 sé ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða og skilyrða sem fram komi í úrskurði ráðuneytisins frá 17. nóvember 2011 varðandi skipið Brimnes RE-027. Hafi niðurstaða ráðuneytisins verið sú að meðferð mönnunarnefndar á því máli hafi verið andstæð rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Telur VM að málið sé ekki nægjanlega  upplýst og lagaskilyrði geti ekki talist vera fyrir því að fallast beri á umsókn Ísfélags Vestmannaeyja hf. Hafi mönnunarnefnd tekið málið til úrskurðar án þess að tekið hafi verið tillit til þeirra sjónarmiða sem ráðuneytið vísi til í úrskurði sínum frá 17. nóvember 2011 og engin úttekt liggi fyrir sem varpað geti ljósi á málið og svarað þeim spurningum sem þörf sé á. Þá hafi umsækjandi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að skilyrði laga nr. 30/2007 séu uppfyllt varðandi frávik frá mönnun skipsins. Telur VM því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi þar sem skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið uppfyllt.

Í andmælum sínum bendir VM á að engin sjálfstæð og fagleg úttekt hafi farið fram á því hvort tækjabúnaður, vinnuálag o.fl. í skipinu sé með slíkum hætti að heimila megi undanþágu frá ákvæðum laga nr. 30/2007 um fjölda vélstjóra um borð í íslenskum fiskiskipum. Þurfi að skoða hverja umsókn sérstaklega enda sé vélbúnaður, vélarstærð, vinnuálag, aldur og gerð skipanna og búnaðar þeirra mjög misjafn. Vottorð sem útgerðir kunni að hafa lagt fram um vaktfrítt vélarrúm leysi mönnunarnefnd ekki undan skilyrðislausri rannsóknarskyldu nefndarinnar, þ.e. að lagt sé sjálfstætt og faglegt mat á það hvort lagaskilyrði standi til þess að vikið sé frá meginreglum laga nr. 30/2007 um mönnun vélstjóra. Þar sem slík skoðun eða úttekt liggi ekki fyrir í tilviki ofangreinds skips beri að fella úrskurð mönnunarnefndar úr gildi enda skilyrðum 10. gr. stjórnsýslulaga ekki fullnægt. 

 

IV. Úrskurður og umsögn mönnunarnefndar

Í ákvörðun mönnunarnefndar frá 15. júní 2012 kemur fram að samkvæmt c-lið 3. mgr. 12. gr. laga nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa eigi vélstjórar skipa með vélarafl yfir 1800 kW að vera þrír. Í a-lið 2. mgr. 13. gr. sömu laga segi að mönnunarnefnd hafi heimild til þess að ákveða frávik frá ákvæðum 12. gr. um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna, svo sem vegna tæknibúnaðar. Sé tekið fram að taka skuli tillit til vinnuálags sem breytingin kunni að hafa í för með sér. Samkvæmt 12. gr. laganna sé meginreglan sú að kröfur um fjölda og réttindi vélgæslumanna aukist því stærri sem aðalvélar skipa eru, að 1801 kW. Þegar þeirri stærð sé náð sé gerð krafa um þrjá vélstjóra. Í málinu liggi fyrir vottorð Det Norske Veritas um að sjálfvirkni vélarrúms skipsins sé slík að það geti starfað tímabundið ómannað. Þá kemur fram að meirihluti mönnunarnefndar, þ.e. fulltrúi LÍÚ og formaður nefndarinnar fallist á erindið samkvæmt heimild í b-lið 2. mgr. 13. gr. laga nr. 30/2007 tímabundið til reynslu. Telji þeir að tæknibúnaður vélarrúmsins veiti svigrúm til fækkunar vélstjóra eins og óskað sé eftir. Eigi sömu sjónarmið við og í sambærilegum eldri málum sem vísað er til í úrskurðinum. Gildi heimildin til 1. desember 2012 og skuli útgerðin skila til mönnunarnefndar ítarlegri greinargerð um reynsluna af þessu fyrirkomulagi. Í greinargerðinni skuli fjalla um mönnun vélarrúmsins, vaktstöður, vinnuálag, störf vélstjóra og annað sem máli kunni að skipta. Þá kemur fram að fulltrúi VM leggist gegn því að erindið verði samþykkt. Telji hann ekki hafa verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti hvernig kostir ómannaðs vélarrúms verði nýttir þannig að unnt verði að fækka vélstjórum um borð án þess að vinna vélstjóra aukist eða dregið sé úr öryggi. Þá telur hann að ekki hafi farið fram fullnægjandi könnun á því hvort tveir vélstjórar dugi til vélstjórnarstarfa á skipinu. Sé málsmeðferðin andstæð lögum og góðum stjórnsýsluháttum.

Í umsögn mönnunarnefndar kemur fram að meirihluti nefndarinnar hafi fallist á umsóknina með vísan til tæknibúnaðar skipsins og fordæma. Vegna mikillar andstöðu VM og niðurstöðu ráðuneytisins í máli IRR10121860 frá 17. nóvember 2011 hafi verið ákveðið að heimildin yrði tímabundin til reynslu samkvæmt heimild í b-lið 2. mgr. 13. gr. laga nr. 30/2007. Sé það mat meirihlutans að ekki verði kannað betur með öðrum hætti hvort tveir vélstjórar nægi til starfa á skipinu.

 

 

V. Athugasemdir Ísfélags Vestmannaeyja hf.

Í athugasemdum Ísfélags Vestmannaeyja hf. mótmælir félagið kröfu VM. Lögð hafi verið inn umsókn um mönnunarfrávik ásamt öllum gögnum sem mönnunarnefnd hafi talið fullnægjandi til að geta tekið ákvörðun í málinu. Meðal þeirra gagna hafi verið vottorð frá Det Norske Veritas sem er flokkunarfélag skipsins. Sé vottorðið staðfesting opinbers sýslunaraðila að skoðunarmaður félagsins hafi skoðað og staðfest að skipið uppfylli kröfur flokkunarfélagsins um vaktfrítt vélarrúm í skipinu, svonefndan E0 viðbótarklassa. Hafi VM engar brigður borið á vægi vottorðsins eða leitt fram nein önnur rök sem ættu að leiða til þess að nefndin gæti ekki treyst viðkomandi vottorði eða öðrum framlögðum gögnum með umsókn. Hafi það verið mat mönnunarnefndar að tæknibúnaður skipsins veitti svigrúm til að fækka vélstjórum og sé það í samræmi við eldri úrskurði og fordæmi nefndarinnar í sambærilegum málum.

 

 

VI. Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er úrskurður mönnunarnefndar um að heimila fækkun vélstjóra um borð í Heimaey VE-001. Var það gert að beiðni útgerðaraðila skipsins, Ísfélags Vestmannaeyja hf., en úrskurður mönnunarnefndar er kærður til ráðuneytisins af VM. Telur ráðuneytið að játa beri VM kæruaðild með vísan til álits umboðsmanns Alþingis nr. 5475/2008 frá 6. júlí 2009 en með álitinu komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að játa bæri VM kæruaðild í sambærilegu máli í samræmi við hinar óskráðu reglur um kæruaðild félaga og samtaka manna.

Samkvæmt c-lið 4. mgr. 12. gr. laga nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa (hér eftir nefnd áhafnalög) skulu á skipi með vélarafl yfir 1800 kW vera yfirvélstjóri, fyrsti vélstjóri og undirvélstjóri. Skipið Heimaey VE-001 er með 4500 kW aðalvél og fellur því undir ákvæðið. Skulu þannig þrír vélstjórar vera um borð í skipinu.

Um mönnunarnefnd er fjallað í 13. gr. áhafnalaga. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 13. gr. getur mönnunarnefnd ákveðið frávik frá ákvæðum 12. gr. um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum eftir því sem tilefni gefst til, s.s. vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips, hvort sem er til fjölgunar eða fækkunar, þar sem m.a. skal taka tillit til vinnuálags sem breytingin kann að hafa í för með sér.

Í hinni kærðu ákvörðun er veitt heimild til að fækka vélstjórum um borð í Heimaey VE-001 þannig að tveir vélstjórar verði í áhöfn, þ.e. yfirvélstjóri og 1. vélstjóri, enda liggi fyrir gögn því til staðfestingar að sjálfvirkni vélarrúms sé slík að það geti starfað tímabundið ómannað. Í málinu liggur fyrir skírteini frá Det Norske Veritas, útgefið 1. júní 2012. Leitaði ráðuneytið eftir afstöðu mönnunarnefndar til þess hvort nefndin teldi að sjálfvirkni vélarrúms væri slík að það gæti starfað tímabundið ómannað og hvort fullnægjandi gögn væru fyrir hendi. Með bréfi mönnunarnefndar til ráðuneytisins dags. 28. janúar 2013 var gerð grein fyrir því að nefndin teldi að sjálfvirkni vélarrúms skipsins væri slík að það gæti starfað tímabundið ómannað og framangreint skírteini væri nægjanleg sönnun þess.

Það er mat ráðuneytisins að í úrskurði mönnunarnefndar hafi ekki verið færð fullnægjandi rök fyrir því að heimila fækkun vélstjóra um borð í Heimaey VE-001 úr þremur í tvo. Er það mat ráðuneytisins að áður en heimild til fækkunar vélstjóra er veitt þurfi að fara fram skoðun á því hvort tveir vélstjórar dugi í áhöfn sama hversu stór aðalvélin sé væri skip búið tímabundnu ómönnuðu vélarrúmi. Telur ráðuneytið að á meðan slík skoðun hefur ekki farið fram verði ekki fallist á að mönnunarnefnd sé heimilt að ákveða frávik frá ákvæði c-liðar 4. mgr. 12. gr. áhafnalaga þar sem fram kemur að þrír vélstjórar þurfi að vera um borð í skipi þeirrar vélarstærðar sem Heimaey VE-001 er. Verður því ekki hjá því komist að fella ákvörðun mönnunarnefndar úr gildi.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 Úrskurðarorð

Felld er úr gildi ákvörðun mönnunarnefndar skipa frá 15. júní 2012 um að heimila fækkun vélstjóra á Heimaey VE-001, sknr. 2812, þannig að tveir vélstjórar verði í áhöfn, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum