Hoppa yfir valmynd
23. maí 2013 Innviðaráðuneytið

Mál nr. IRR13030379

  Ár 2013, þann 23. maí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
 
ú r s k u r ð u r
 

í máli nr. IRR 13030379

vegna stjórnsýslukæru Gentle Giants á ákvörðun Siglingastofnunar

 

I. Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. mars 2013, kærði Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants, kt. 660701-2570, Túngötu 6, Húsavík, (hér eftir nefnt GG) ákvörðun Siglingastofnunar frá 21. mars 2013 um að hafna umsókn GG um að sigla með fleiri en 12 farþega í RIB bátum og að notast verði við tímabilið 15. apríl til og með 31. október í stað 1. júní til 30. september hvað varðar björgunarbúnað en samkvæmt verklagsreglum Siglingastofnunar skulu farþegar og áhöfn vera íklædd einangrandi flotbúningi á tímabilinu 30. september til 1. júní. Er þess aðallega krafist að ákvörðun Siglingastofnunar verði felld úr gildi en til vara að henni verði frestað fram á haust.

Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsatvik og málsmeðferð 

Af gögnum málsins verður ráðið að þann 4. mars sl. hafi GG sótt um það til Siglingastofnunar að fá heimild til að sigla með fleiri en 12 farþega um borð í RIB bátum en samkvæmt 6. tl. í verklagsreglu Siglingastofnunar nr. 25.10.02.10.02 er ekki heimilt að flytja fleiri en 12 farþega í slíkum bátum. Þá hafi einnig verið sótt um að notast verði við tímabilið 15. apríl til og með 31. október í stað 1. júní til 30. september hvað varðar björgunarbúnað en samkvæmt 9. tl. í verklagsreglum Siglingastofnunar skulu farþegar og áhöfn vera íklædd einangrandi flotbúningi á tímabilinu 30. september til 1. júní. Að öðru leyti skulu farþegar klæddir í viðurkenndan flotvinnubúning og búnir björgunarvesti á meðan ferð stendur.  

Með bréfi Siglingastofnunar dags. 21. mars 2013 var umsókn GG hafnað. 

Ákvörðun Siglingastofnunar var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi GG dags. 26. mars 2013.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 27. mars 2013 var Siglingastofnun gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust ráðuneytinu sjónarmið Siglingastofnunar með tölvubréfi stofnunarinnar dags. 4. apríl 2013.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 5. apríl 2013 var GG gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Siglingastofnunar. Bárust þau andmæli með tölvubréfi GG dags. 22. apríl 2013.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök GG 

Af kæru og fylgigögnum má ráða að GG byggi á að ekki standist þær fullyrðingar Siglingastofnunar um að leyfi fyrir 12 farþega hafi verið ákveðið fyrirfram við nýsmíði. Hafi GG t.a.m. keypt björgunarbúnað fyrir 20 farþega. Þá bendir GG á að breyttar vinnureglur Siglingastofnunar gildi um RIB báta sem eru sérstaklega nýsmíðaðir til farþegaflutninga með öllum besta fáanlega öryggisbúnaði en ekki um aðra báta. Eins bendir GG á að tryggingafélag bátsins hafi verið tilbúið til að taka fulla ábyrgð með rekstraraðila fyrir því að fá rýmra farþegaleyfi en fyrir 12 farþega. Sé aðeins um að ræða aukningu um fjóra farþega þannig að þeir verði 16 í stað 12 og verði allir í björgunargöllum og með björgunarvesti. Þá telur GG að íþyngjandi kröfur séu lagðar á RIB báta umfram aðra farþegabáta varðandi fjölda leyfilegra farþega. Er á það bent að farsvið umræddra báta sé þegar takmarkað við veður og aðrar aðstæður og sé mun þrengra en annarra farþegabáta. Hafi það verið samþykkt athugasemdalaust af rekstraraðilum RIB báta. Bendir GG á að sjórinn sé jafn kaldur fyrir farþega allra farþegabáta og þess vegna skjóti skökku við að aðrir farþegabátar hafi leyfi til að flytja farþega allt haust og allan vetur án nokkurra björgunarbúninga eða björgunarvesta en farþegar RIB báta verði að hafa sérstaka björgunarbúninga á kaldasta tíma ársins. Þá er á það bent að umræddir CE bátar hafi verið samþykktir af Siglingastofnun sem farþegabátar en þó bara að hluta eða upp að 12 farþegum. Samkvæmt Siglingastofnun gildi það aðeins um skemmtibáta en að mati GG séu bátar annað hvort farþegabátar með farþegaleyfi eða ekki.

Í andmælum GG er á það bent að umræddir RIB bátar hafi án nokkurs vafa farþegaleyfi til leyfisbundinnar starfsemi/gjaldtöku og hafi skráningu sem slíkir. Það hafi skemmtibátar ekki. Þá hafi umræddir RIB bátar samþykktar neyðar- og öryggisáætlanir samþykktar af Siglingastofnun en það hafi skemmtibátar ekki. Umræddir RIB bátar séu nýsmíði ólíkt þorra farþegabáta á Íslandi. Séu umræddar tegundir RIB báta framleiddar á heimsvísu sem björgunarbátar, strandgæslubátar og fyrir hernað sem starfi við erfiðustu aðstæður sem völ er á og valdir til verkefnisins vegna sjóhæfni og öryggis sem finnist ekki í öðrum gerðum skipa. Séu þeir búnir tveimur aðalvélum með tvö aðskilin eldsneytiskerfi, öllum bestu siglingatækjum og öryggisbúnaði sem völ er á. Þorri íslenskra farþegabáta hafi eina aðalvél og margar þeirra séu komnar til ára sinna. Fæstir þeirra séu upphaflega smíðaðir sem farþegabátar. Hvað varðar athugasemdir Siglingastofnunar varðandi fyrstu RIB bátana bendir GG á að stofnunin hafi verið á tilraunastigi með fyrstu RIB bátana 2006 og búið til um þá reglur. Hafi þeir verið minni eða 9 m langir og 3 m breiðir með sæti fyrir 12 farþega. Þeir hafi verið án björgunarbáta og björgunarvesti hafi ekki verið skilyrt. Núverandi bátar séu allt að 12 m langir og 4 m breiðir og með sæti fyrir allt að 24 farþega og björgunarbáta fyrir alla farþega og áhafnir ásamt uppblásanlegum björgunarvestum og annan björgunarbúnað að auki og umfram reglur. Allir farþegar og áhafnir umræddra RIB báta séu í viðurkenndum vinnuflotgöllum og uppblásanlegum björgunarvestum í hverri einustu ferð allt tímabilið. Hafi Siglingastofnun ekki vikið frá fyrstu tilraunareglum á þeim sjö árum sem liðin séu frá því að fyrstu reglurnar um RIB báta voru settar. Þá hafi Siglingastofnun ekki framvísað marktækum gögnum um hitastig sjávar eða frekari rannsóknum og samanburði við hættu á ofkælingu RIB farþega umfram farþega á öðrum farþegaskipum innan íslenskrar lögsögu á því tímabili sem GG fari fram á. Séu þannig engar kröfur um sambærilegan búnað vegna farþegasiglinga, t.d. hvalaskoðunarskipa frá Faxaflóa, árið um kring og utan þess tímabils sem óskað sé eftir. Telur GG að ákvarðanir Siglingastofnunar hafi ekki lagastoð enda fáist það ekki staðist að takmarka atvinnufrelsi nema það sé byggt á skýrri og ótvíræðri lagaheimild. Þær takmarkanir og kvaðir sem stofnunin geri til RIB báta hafi ekki fullnægjandi lagastoð. Ákvarðanir stjórnvalda verði að vera lögmætar og stjórnvaldi beri að gæta meðalhófs og rannsaka mál ítarlega áður en íþyngjandi ákvarðanir eru teknar sem takmarki atvinnufrelsi og nýjungar í ferðaþjónustu. Bendir GG á að stofnunin hafi hafnað boði GG um að kynna sér viðkomandi skip, ferðir og þau verkefni og starfsemi sem það hafi með höndum. Þá banni engar íslenskar lagareglur eða evrópskar reglur að farþegar í RIB bátum séu allt að 24 og að takmarka verði farþegafjölda við 12 farþega. Á sama hátt séu engar íslenskar eða evrópskar reglur sem krefjist sérstakra neyðarflotbjörgunarbúninga um borð í stað þeirra flotbúninga og uppblásanlegu björgunarvesta sem nú þegar hafi verið í notkun og verði áfram í öllum ferðum umræddra RIB báta.

IV. Ákvörðun og umsögn Siglingastofnunar

Í ákvörðun Siglingastofnunar er vísað til þess að það sé skýr stefna stjórnvalda að siglingar séu öruggar og að innleiddar verði hér á landi Evrópureglur um skip og siglingar. Eitt af markmiðum í Evrópulöggjöf í siglingamálum sé að tryggja að þegnar allra aðildarlanda á evrópska efnahagssvæðinu geti gengið að því vísu að öryggi um borð í sambærilegum skipum sem sigli með farþega sé það sama á öllu svæðinu. Ísland hafi undirgengist þessar skuldbindingar með aðild sinni að evrópska efnahagssvæðinu og í framkvæmd sé m.a. horft til þess hvernig mál séu leyst í nágrannalöndunum enda sé hefðin fyrir farþegasiglingum á öllum stærðum skipa miklu meiri í þeim löndum en hérlendis. Úr tilskipun 94/25/EB um CE merkta skemmtibáta sem innleidd hefur verið hérlendis með reglugerð nr. 168/1997, tilskipun 98/18/EB um farþegaskip í innanlandssiglingum sem innleidd hefur verið með reglugerð nr. 666/2001 og reglum um eftirlit með skipum og öryggi þeirra nr. 11/1953 verði ekki annað lesið en að skip sem flytja fleiri en 12 farþega skuli skilgreind og meðhöndluð sem farþegaskip. Sé það í samræmi við skilgreiningu á farþegaskipum í alþjóðlegum reglum (s.s. SOLAS) enda sé SOLAS grunnurinn að tilskipun 98/18/EB, reglum nr. 11/1953 og fleiri reglum. Til farþegaskipa séu gerðar mun meiri og strangari kröfur en til annarra tegunda skipa. Telur Siglingastofnun að mikilvægt sé að lesa löggjöfina í samhengi og bendir á að mismunandi reglur gildi um mismunandi tegundir skipa og skip sem uppfylli reglur fyrir eina tegund skips uppfylli ekki sjálfkrafa reglur fyrir aðra tegund.

Varðandi reglur um smíði báta undir 15 m að mestu lengd sem sigla með farþega bendir Siglingastofnun á að tvö reglusett séu í gildi. Annars vegar sé það reglugerð nr. 666/2001 um farþegaskip í innanlandssiglingum sem gildi um ný farþegaskip, gömul farþegaskip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri og háhraðafarþegaför sem flytji fleiri en 12 farþega og eru smíðuð úr stáli eða sambærilegu efni. Hins vegar séu Norðurlandareglurnar nr. 592/1994 sem gildi um smíði atvinnubáta allt að 15 m að mestu lengd óháða smíðaefni. Þar sé að finna kröfur til smíði farþegabáta sem flytji farþega í atvinnuskyni óháð fjölda þeirra. Ný skip sem uppfylli Norðurlandareglur um farþegabáta teljist uppfylla kröfur tilskipunar 98/18/EB um farþegaskip með tilliti til smíði. Norðurlandareglurnar teljist því sambærilegar reglur við tilskipun 98/18/EB.

Hvað varðar RIB báta bendir Siglingastofnun á að þeir uppfylli hvorki Norðurlandareglur um atvinnubáta né reglugerð nr. 666/2001 eða reglur nr. 11/1953. Umræddir bátar séu CE merktir sem þýði að þeir uppfylli tiltekna ISO staðla um smíði skemmtibáta eins og tilskipun 94/25/EB geri kröfu um. Umræddir RIB bátar séu smíðaðir úr plasti og ættu því að uppfylla Norðurlandareglur um atvinnubáta til að geta starfað í atvinnuumhverfinu. Komi þetta skýrt fram í verklagsreglu 25.10.02.10.02 um RIB báta sem sigli með farþega. Siglingastofnun hafi þó samþykkt þessa báta til að sigla með farþega sem frávik frá Norðurlandareglum háð takmörkunum. Sé þetta gert á grundvelli ákvæðis V-1, 2.4 í Norðurlandareglum. Þar segi að bátar sem smíðaðir séu við aðrar aðstæður, úr öðru efni, með öðrum aðferðum, með annarri tegund styrkinga, hafi annan búnað eða annan frágang á vélum og tækjum en reglurnar segi fyrir um geti að undangenginni sérstakri athugun fengist samþykktir ef þeir teljist uppfylla ákvæði reglnanna. Þá sé það einnig á grundvelli 3. gr. reglugerðar um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998. Þar segi að Siglingastofnun sé heimilt að að setja önnur sérstök skilyrði fyrir útgáfu farþegaleyfis í því skyni að auka öryggi skipsins, skipverja og farþega.

Hvað varðar farþegafjölda og skráningu skipa bendir Siglingastofnun á að skip sem uppfylla reglur um skip sem sigla með farþega, s.s. Norðurlandareglur, sé heimilt að sigla með tiltekinn farþegafjölda sem taki mið af leyfilegri hleðslu, stöðugleika, aðstæðum um borð og aðbúnaði fyrir farþega í samræmi við reglugerð nr. 463/1998 og mönnun skipsins. Í tilfelli CE merktra RIB báta hafi leyfilegur farþegafjöldi verið takmarkaður við 12 farþega enda sé ljóst að samkvæmt gildandi reglum hér á landi, alþjóðlegum reglum og evrópskum, að skip sem flytja fleiri en 12 farþega teljist reglum samkvæmt vera farþegaskip og skulu skráð sem slík. Fyrir skip sem flytji 12 farþega eða færri sé ekki nauðsynlegt að skilgreina eða skrá skip sem farþegaskip. Sú regla hafi þó verið viðhöfð að gera það þar sem öll skip sem flytji farþega óháð fjölda þeirra skulu fá útgefið farþegaleyfi, sbr. reglugerð nr. 463/1998. Geti Siglingastofnun ekki fallist á að heimila CE merkta RIB báta til að sigla með fleiri en 12 farþega endi geti þeir ISO staðlar sem smíði skemmtibáta skuli uppfylla ekki talist sambærilegir eða jafngildir kröfum í Norðurlandareglum eða öðrum reglum um smíði farþegabáta. Kröfur til atvinnubáta, þ.m.t. farþegaskipa, séu meiri en gerðar eru til skemmtibáta enda notkun þeirra önnur. Þessi takmörkun á farþegafjölda sé enn fremur í samræmi við það sem tíðkist á Norðurlöndunum ásamt Englandi og Írlandi, þá löggjöf sem er í gildi hér á landi og við stefnu íslenskra stjórnvalda.

Varðandi aðrar kröfur til RIB báta bendir Siglingastofnun á að ekki séu gerðar meiri kröfur til björgunarbúnaðar eða stjórnenda RIB báta umfram aðra farþegabáta að öðru leyti en því að allir farþegar skuli klæddir í viðurkenndan flotvinnubúning og búnir björgunarvesti á meðan ferð stendur. Á tímabilinu 30. september til 1. júní skuli farþegar og áhöfn vera íkædd einangrandi flotbúningi sem uppfylli kröfur í samræmi við tl. 2.4, kafla II, í LSA kóðanum ásamt björgunarvesti, sbr. tl. nr. 9 í verklagsreglu nr. 25.10.02.10.02. Ástæðan fyrir þessari kröfu, sem gerð sé á grundvelli ákvæðis 3. gr. reglugerðar nr. 463/1998, sé m.a. sú að um sé að ræða báta sem nái miklum hraða (og því mikil vindkæling). Farþegar sitji í opnu rými undir berum himni, fríborð sé mjög lágt og meiri hætta á að farþegar geti fallið fyrir borð. Því sé full ástæða til að farþegar séu klæddir heilbúningi.

Með því að skoða hvernig hitastig sjávar sé háttað við strendur Íslands eftir árstíma komi í ljós að hitinn falli nokkuð hratt utan sumartímabilsins (1. maí til 30. september). Í gegnum tíðina hafi verið notast við þetta tímabil í tengslum við kröfur til búnaðar skipa. Hafi verið farið yfir þetta á fundi með útgerðum nokkurra RIB báta þann 16. febrúar 2012. Þeir búningar sem samþykktir hafi verið yfir sumartímabilið uppfylli ekki íslenskar kröfur til slíkra búninga sem hafi verið í gildi hér á landi um árabil með góðum árangri. Þeir hafi hins vegar verið samþykktir til nota yfir sumartímabilið á meðan hiti sjávar sé með hæsta móti hér við strendur enda sé starfsemi þessara báta háð vissum takmörkunum, s.s. varðandi farsvið. Umræddir búningar sem leyfðir hafi verið yfir sumartímabilið uppfylli ISO staðla um skipsbúnað skemmtibáta. Þessir ISO staðlar geti ekki talist jafngildir við þau viðmið sem í gildi eru hér á landi um einangrandi flotbúninga. Að gera þá kröfu að farþegar klæðist einangrandi flotbúningum utan sumartímabilsins geti ekki talist vera yfirdrifin krafa hafandi í huga að verið sé að leitast við að sigla með farþega á árstíma þar sem sjávarhiti er orðinn mun lægri en ella og því nauðsynlegt að búningar sem farþegar klæðist séu búnir fullnægjandi hitaeinangrun miðað við aðstæður. Til hliðsjónar megi benda á að í Noregi sé miðað við að farþegar klæðist álíka einangrandi flotbúningum og Siglingastofnun geri kröfu um þegar hitastig sjávar fari niður fyrir 13°C. Við strendur Íslands nái hitastigið ekki 13°C. Geti Siglingastofnun ekki fallist á að útvíkka það tímabil sem skilgreint er í tl. 9. í verklagsreglunni.

Þá tekur Siglingastofnun það fram að frá því að fyrsti RIB báturinn var fluttur inn og skráður á íslenska skipaskrá til siglinga með farþega hafi það verið skýrt að fjöldi farþega væri miðaður við 12. Það hafi GG verið upplýst um á fundi í húsakynnum Siglingastofnunar í nóvember 2010.

Í umsögn Siglingastofnunar er á það bent að að mismunandi reglur gildi um mismunandi tegundir skipa og tegundin ákvarðist út frá notkun skipsins. Mestar kröfur séu gerðar til farþegaskipa. Tilskipun 2009/45/EB gildi um öll farþegaskip smíðuð úr stáli eða sambærilegu efni, óháð stærð skipanna, sem flytji fleiri en 12 farþega. Sé 12 farþega viðmiðið fengið úr SOLAS, alþjóðlegum sáttmála um öryggi mannslífa á hafinu, þ.m.t. um smíði skipa, enda sé tilskipunin í heild sinni úrdráttur úr SOLAS. Skilgreiningin á farþegaskipi, sem skipi siglir með fleiri en 12 farþega, hafi verið til í áratugi. Um sé að ræða alþjóðlegt viðmið sem stuðst er við í flestum löndum til að skilgreina og aðgreina farþegaskip. T.d. sé það að finna í reglum 11/1953 sem gildi um önnur farþegaskip en þau sem falli undir tilskipunina. Telur Siglingastofnun ljóst að skip sem flytur fleiri en 12 farþega skuli uppfylla reglur um farþegaskip. Virki 12 farþega viðmiðið t.d. þannig að nýju flutningaskipi sem stundar siglingar með vörur milli landa (og falli þá undir SOLAS) sé óheimilt að sigla með fleiri en 12 farþega. Nýju farþegaskipi (úr stáli eða sambærilegu efni) sem stundi siglingar innan íslenskrar lögsögu sé óheimilt að sigla með fleiri en 12 farþega nema það uppfylli tilskipun 2009/45/EB. Nýju farþegaskipi (úr plasti) sem stundi siglingar innan íslenskrar lögsögu sé óheimilt að sigla með fleiri farþega nema það uppfylli Norðurlandareglur um smíði báta allt að 15 m að mestu lengd (Norðurlandareglur um farþegabáta gildi reyndar óháð fjölda farþega og smíðaefni). Sé ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að umræddir RIB bátar séu smíðaðir í samræmi við skemmtibátareglur en ekki reglur um smíði atvinnubáta.

Siglingastofnun bendir á að flestar reglur sem settar hafi verið hérlendis á síðustu árum séu tilkomnar vegna EES samstarfsins. Þær reglur þurfi að lesa í samhengi. Telur stofnunin ljóst að þegar tilskipanir um farþegabáta og skemmtibáta séu skoðaðar sé eitt af mörgum atriðum sem aðgreini slíka báta viðmiðið um 12 farþega. Þá sé ekki gert ráð fyrir að CE merktur skemmtibátur sé notaður til að sigla með fleiri en 12 farþega.

Siglingastofnun hafi frá árinu 2006, þegar tveir fyrstu RIB bátarnir voru samþykktir og skráðir til siglinga með farþega háð takmörkunum, verið í töluverðum samskiptum við nágrannalönd varðandi málaflokkinn og horft til þess að gera sambærilegar kröfur, sé það talið eðlilegt og skynsamlegt. Fyrst um sinn eftir að rekstur RIB hófst hér á landi hafi verið ætlunin að starfrækja þá yfir sumarmánuðina (maí til september). Að vel athuguðu máli hafi á endanum verið fallist á að heimila CE merkta flotvinnubúninga yfir sumartímabilið. Áhrif kulda á mannslíkamann hafi verið rannsökuð og hver gráða í hitastigi í sjó breyti miklu. Þegar farið hafi verið að leitast við að sigla á RIB bátum utan sumartímabilsins hafi verið gerð sú krafa að farþegar skyldu klæddir einangrandi flotbúningum sem uppfylli kröfur í LSA kóða (meiri einangrun). Það vilji gleymast að aðstæður hér við land séu aðrar en á t.d. hinum Norðurlöndunum hvað varðar sjávarhita og hafsvæði enda strendur Norðurlandanna að mörgu leyti í meira skjóli og sjávarhiti meiri heldur en hér við land. Krafan um flotbúning í samræmi við LSA kóða sé sambærileg við það sem tíðkast hafi í Danmörku og Noregi.

Siglingastofnun kveðst hafa nýtt þær heimildir sem eru til staðar og samþykkt RIB báta sem uppfylli smíðareglur um skemmtibáta (CE merking) til að sigla með allt að 12 farþega á takmörkuðu farsviði og telur sig ekki geta gengið lengra í þessum efnum. Slíkt myndi ganga lengra en reglur heimili og væri ekki í samræmi við það sem nágrannaþjóðir leyfi en regluverkið sé að miklu leyti eins á Norðurlöndunum.

V. Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er sú ákvörðun Siglingastofnunar frá 21. mars sl. að synja umsókn GG um að heimilað verði að sigla með fleiri en 12 farþega í RIB bátum fyrirtækisins sem og að notast verði við tímabilið 15. apríl til og með 31. október í stað 1. júní til 30. september, sbr. tölulið 9 í verklagsreglu Siglingastofnunar nr. 25.10.02.10.02.

Líkt og fram kemur í ákvörðun Siglingastofnunar gilda ekki sömu reglur um allar tegundir skipa. Um CE merkta skemmtibáta gildir þannig tilskipun 94/25/EB sem innleidd hefur verið með reglugerð nr. 168/1997. Um farþegaskip í innanlandssiglingum gildir tilskipun 2009/45/EB sbr. br. 2010/36 (áður tilskipun 98/18/EB sem innleidd var með reglugerð nr. 666/2001). Þá þarf einnig að líta til reglna um eftirlit með skipum og öryggi þeirra nr. 11/1953. Þá ber einnig að líta til Norðurlandareglna sem innleiddar voru með  reglum nr. 592/1994 sem gilda um smíði atvinnubáta allt að 15 m að mestu lengd. Af framangreindum reglum verður ráðið að þau skip sem flytja fleiri en 12 farþega skuli skilgreind og meðhöndluð sem farþegaskip. Er það viðmið fengið úr SOLAS sem er alþjóðlegur sáttmáli um öryggi mannslífa á hafi, þ.m.t. um smíði skipa. Er viðmiðið um 12 farþega alþjóðlegt viðmið sem stuðst er við til að skilgreina og aðgreina farþegaskip frá öðrum skipum. Eru gerðar mun meiri og strangari kröfur til farþegaskipa en til annarra tegunda skipa og skulu slík skip uppfylla kröfur samkvæmt rg. 666/2001, reglum 11/1953 og reglum nr. 592/1994.

Vegna farþegasiglinga á RIB bátum hefur Siglingastofnun sett verklagsreglu nr. 25.10.02.10.02. Eiga verklagsreglurnar stoð í þeim reglugerðum sem vísað hefur til hér að framan og settar eru með heimild í lögum, s.s lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, sem og reglugerð nr. 463/1998 um leyfi til farþegaflutninga með skipum sem sett er á grundvelli þeirra laga.

Ráðuneytið telur ljóst að þeir RIB bátar sem um ræðir uppfylla hvorki Norðurlandareglur um atvinnubáta nr. 592/1994 né reglugerð nr. 666/2001 eða reglur nr. 11/1953. Líkt og fram kemur hjá Siglingastofnun eru umræddir RIB bátar smíðaðir í samræmi við reglur um skemmtibáta en ekki reglur um smíði atvinnubáta, þ.e. Norðurlandareglur nr. 592/1994. Uppfylla þeir því aðeins staðla um smíði skemmtibáta en ekki farþegaskipa sem hafa heimild til að flytja fleiri en 12 farþega. Í ljósi þessa telur ráðuneytið að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn GG um að sigla með fleiri en 12 farþega um borð í RIB bátum.

Hvað varðar umsókn GG um að notast verði við tímabilið 15. apríl til og með 31. október í stað 1. júní til 30. september er um það fjallað í 9. tl. verklagsreglu Siglingastofnunar nr. 25.10.02.10.02. Þar segir að allir farþegar skuli vera klæddir í viðurkenndan flotbúning og búnir björgunarvesti á meðan á ferð stendur. Á tímabilinu 30. september til 1. júní skuli farþegar og áhöfn vera íklædd einangrandi flotbúningi sem uppfyllir kröfur tl. 2.4, kafla II í LSA kóðanum ásamt björgunarvesti. Sækja framangreindar reglur stoð í 3. mgr. 3. gr. rg. nr. 463/1998 sem sett er með stoð í lögum um eftirlit með skipum en samkvæmt reglugerðarákvæðinu er Siglingastofnun heimilt að setja önnur skilyrði en upp eru talin í ákvæðinu fyrir útgáfu leyfis í því skyni að auka öryggi skipsins, skipverja og farþega.

Líkt og fram kemur í ákvörðun Siglingastofnunar er ástæðan fyrir þessari kröfu m.a. sú að umræddir RIB bátar nái miklum hraða og því sé mikil vindkæling, farþegar sitji í opnu rými undir berum himni, fríborð sé mjög lágt og meiri hætta á að farþegar geti fallið fyrir borð. Þá vísar Siglingastofnun einnig til þess hvert hitastig sjávar er við strendur Íslands og aðstæður hér við land séu t.d. aðrar en á hinum Norðurlöndunum hvað varðar sjávarhita og hafsvæði.

Það er mat ráðuneytisins að veita verði Siglingastofnun nokkurt svigrúm til mats á því hvaða skilyrði þurfi að setja til að fyllsta öryggis sé gætt við farþegaflutninga á sjó. Í þessu sambandi bendir ráðuneytið á að það sé markmið laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, sbr. ákvæði 6. mgr. 1. gr. laganna. Í ljósi þessa telur ráðuneytið að öryggissjónarmið leiði til þess að staðfesta beri ákvörðun Siglingastofnunar hvað þennan þátt málsins varðar.

Með vísan til alls þessa sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum