Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

24.10.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 24. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 580/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17090040

 

Beiðni  [...] um endurupptöku

 

I.         Málsatvik

Þann 11. júlí 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. maí 2017 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn  [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd frá  [...], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi, og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. sömu laga. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 24. júlí 2017. Þann 21. september 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn, ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 26. september 2017. 

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.           Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga enda hafi atvik breyst verulega frá því að úrskurður í máli hans hafi verið birtur honum. Kærandi hafi rétt tæpum mánuði eftir birtingu úrskurðar verið lagður inn  [...] vegna  [...]. Kærandi hafi þá verið búinn að vera í  [...] í nokkurn tíma af  [...] sökum þess að  [...] hans hafi haft [...]. Í læknisvottorði [...], dags. 14. september 2017, komi fram að kærandi hafi verið greindur með  [...] með  [...]. Jafnframt komi fram að kærandi hafi útskrifast við betri líðan en sé þó enn með viss  [...] en  [...]. Þá komi fram í læknisvottorði rituðu af  [...], dags. 26. september 2017, að kærandi  [...] og sé með [...] og að óvíst sé hvenær breyting verði þar á.

Kærandi vísar í úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 142/2017 frá 14. mars 2017 máli sínu til stuðnings. Í því máli hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd verið alvarlega andlega veikur og nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að taka málið til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ofangreindum úrskurði hafi einnig komið fram að til að tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti verndar 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þurfi að fara fram heildstætt mat sem samanstandi af a.m.k. tveimur þáttum, þ.e. heilsu viðkomandi og þeirri heilbrigðisþjónustu sem umsækjandi megi búast við í viðtökuríki.  Kærandi telur að ljóst sé að hann muni eiga mjög erfitt með að fá þá heilbrigðisþjónustu sem  [...] í Grikklandi. Ekki aðeins vegna ýmissa kerfislægra annmarka á þjónustunni til flóttafólks í landinu heldur einnig vegna þess mikla niðurskurðar sem heilbrigðiskerfið í Grikklandi hafi gengið í gegnum í kjölfar efnahagshrunsins. Vísar kærandi í skýrslu Asylum Information Database (AIDA) máli sínu til stuðnings.

Með hliðsjón af framangreindu telji kærandi að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Því sé farið fram á að mál kæranda verði tekið upp að nýju og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um 2. tölulið:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 11. júlí 2017 ásamt upplýsingum í fylgigögnum og skýrslum sem kærandi hefur vísað til. Við meðferð málsins hjá kærunefnd var kærandi metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, vegna  [...], dags. 13. júní 2017, þar sem fram kom að hann væri með  [...]. Frá því að úrskurður kærunefndar var upp kveðinn þann 11. júlí sl. hefur kærandi lagt fram tvö læknisvottorð, dags. 14. og 26. september 2017, þar sem m.a. kemur fram að hann hafi verið lagður  [...], verið greindur með  [...] og að hann sé með engu móti fær  [...].

Með vísan til nýrra gagna málsins fellst kærunefnd á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur í ljósi þeirra.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt viðbótarvernd í Grikklandi og hafði hann gilt dvalarleyfi til 21. október 2017. Liggur þannig fyrir að kærandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd í Grikklandi og eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. laganna segir að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Samkvæmt framansögðu er í ákvæðinu kveðið á um 12 mánaða tímabil sem leitt getur til þess að taka beri umsókn til efnismeðferðar. Í ákvæðinu er skýrt að upphaf tímabilsins er þegar umsókn er lögð fram. Í ákvæðinu er aftur á móti ekki vikið að því hvenær tímabilinu lýkur. Í athugasemdum sem fylgdu 36. gr. frumvarps til laga nr. 80/2016 er heldur ekki skýrt nánar hvenær 12 mánaða tímabilinu er ætlað að ljúka að öðru leyti en að þar er tekið dæmi um að undir 2. mgr. 36. gr. laganna falli tilvik þegar afgreiðsla á máli sem fellur undir c-lið 1. mgr. hefur dregist lengur en 12 mánuði og ástæður þess eru ekki á ábyrgð umsækjanda.

Kærunefnd útlendingamála telur því að skýra verði ákvæðið í samræmi við orðalag þess og þá á þann veg að þegar stjórnvald hefur mál til meðferðar sé skylt að taka málið til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn barst fyrst íslenskum stjórnvöldum nema tafir á afgreiðslu hennar séu á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Kærunefnd telur að fresturinn í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byrji að telja þegar kærandi sækir um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til flutningur kæranda til endursendingarlands hefur farið fram enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. október 2016. Kærunefnd hefur farið yfir meðferð málsins fyrir stjórnvöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun mætti kærandi í viðtal hjá stofnuninni 7. mars 2017 en ákveðið var að fresta viðtalinu að ósk kæranda þar sem hann treysti sér ekki í viðtal að svo stöddu. Kærandi kvaðst vilja koma í viðtal eftir að hann væri búinn að hitta  [...]. Kærandi var því boðaður að nýju í viðtal þann 6. apríl 2017 eftir að hafa rætt við  [...]. Þá mætti hann einnig í  framhaldsviðtal þann 18. apríl 2017. Að framangreindu virtu og í ljósi gagna um andleg veikinda kæranda verður hann ekki talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að endurupptaka mál kæranda og fella beri hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                                 Þorbjörg I. Jónsdóttir