Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

31.1.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 31. janúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 55/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16120042

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. desember 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. nóvember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 11. september 2016. Leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, skilaði engum niðurstöðum. Þar sem kærandi hafði stundaði nám í Svíþjóð og verið þar með gilda áritun og dvalarleyfi var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, þann 13. september síðastliðinn. Þann 3. október 2016 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 30. nóvember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 28. desember 2016 til kærunefndar útlendingamála. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar þann 13. desember 2016. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar þann sama dag. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 17. janúar 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Varðandi andmæli kæranda, þess efnis að [...], kom fram að ekkert bendi til þess að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð sé ekki í stakk búið til að sinna þörfum kæranda. Allir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi aðgang að heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð og eigi einnig kost á neyðaraðstoð. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji ekki fara aftur til Svíþjóðar og að fyrir því séu einkum tvær ástæður. Annars vegar sé það vegna þess að hann [...]. [...]. Þar sem að samfélag samlanda kæranda í Svíþjóð sé mjög tengt innbyrðis óttist hann að samlandar hans frá [...] verði þess áskynja að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd og þannig verði öryggi hans ógnað. Hins vegar hafi kærandi fallið í tveimur fögum í háskólanámi sem hann stundaði og að skólinn hafi tilkynnt sænsku útlendingastofnuninni um það og í framhaldinu hafi dvalarleyfi hans verið ógilt. Kærandi kveðist hafa áfrýjað þeirri ákvörðun en að hún hafi verið staðfest af æðra stjórnvaldi og þess vegna treysti hann ekki sænskum yfirvöldum til að fjalla um mál sitt á mannúðlegan hátt. Hann telji að hann hafi ekki mætt neinum skilningi og því geti hann ekki sett líf sitt í þeirra hendur. Kærandi kveðist hafa komið til Íslands í von um að enginn vissi af veru hans hér og vegna þess að hann telji öryggi sínu ógnað ef hann myndi sækja um alþjóðlega vernd í Svíþjóð.

Þá kemur fram að kæranda [...].

Í greinargerð kæranda er að finna umfjöllun um ákvæði hinna nýju laga um útlendinga nr. 80/2016, en m.a. sé vísað í lögskýringargögn er varða hugtakið „sérstakar ástæður“ í 2. mgr. 36. gr. laganna. Þá er einnig að finna umfjöllun 42. gr. laganna sem fjalli um endursendingarbann (e. non-refoulement) og lögskýringargögn við ákvæðið. Að mati kæranda sé ljóst að fyrir liggi skýr lagaheimild til handa íslenskum stjórnvöldum að taka umsóknir kærenda til efnismeðferðar og jafnvel skylda í tilteknum tilvikum.

Kærandi byggi á því  að gríðarlegt álag sé á sænska hæliskerfinu og vísi í yfirlýsingu innanríkisráðherra Svíþjóðar frá 11. nóvember 2015 um að tímabundið eftirlit á landamærum landsins yrði tekið upp. Það eftirlit hafi nú verið framlengt og jafnvel þó að það hafi leitt til þess að dregið hafi úr umsóknum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, þá glími landið eðli máls samkvæmt við gríðarlegar áskoranir og erfiðleika vegna þess mikla fjölda umsækjenda sem fyrir sé í landinu. Kærandi vísi jafnframt til þess að sænsk stjórnvöld hafi lagt fram beiðni til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að önnur ríki sambandsins létti af þeim byrðum, á svipaðan hátt og ítölsk og grísk stjórnvöld hafi gert.

Þá bendi kærandi á að töluverð spenna ríki í Svíþjóð og hafi hatur á útlendingum gert vart við sig í meira mæli en áður hafi þekkst. Enn fremur beri að nefna að þann 1. júní sl. hafi breytingar á lögum um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd (s. Lag 1994:137 om mottagande af asylsökande m.fl.) tekið gildi sem feli í sér töluverða skerðingu á réttindum umsækjenda í Svíþjóð.

Kærandi byggi á því að mat á hvort um sé að ræða kerfisbundinn galla í hæliskerfi viðtökuríkis geti ekki verið úrslitaatriði um endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis. Sönnun á því hvort um slíkan galla sé að ræða sé aðeins ein leið til að sýna fram á að viðkomandi umsækjanda sé í hættu á illri meðferð. Framangreint fái stoð í greinargerð innanríkisráðuneytisins sem unnin hafi verið í tengslum við endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafði  dvalarleyfi í landinu.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·         Asylum Information Database, Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015)

·         Sweden 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016)

·         Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden ("Begränsningar av möjligheten att få uppehållstillstånd i Sverige – utkast till lagrådsremiss") (UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016)

·         Amnesty International Report 2015/16 - Sweden (Amnesty International, 24. febrúar 2016)

·         Freedom in the World (Freedom House, 29. júní 2016)

·         Good Advice for Asylum seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, júní 2015)

·         Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (mál nr. 43611/11) dags. 23. mars 2016

·         Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli J.K. gegn Svíþjóð (mál nr. 59166/12) dags. 23. ágúst 2016

·         Upplýsingar og tölfræði af vefsíðu sænsku Útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Svíþjóð eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra. Sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Þegar einstaklingar leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á áfrýjunarstigum málsins nema þegar um er að ræða umsóknir sem metnar hafa verið tilhæfulausar samkvæmt sænskum lögum. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd einnig leitað til frjálsra félagasamtaka eins og til dæmis ráðgjafarmiðstöðvar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttamenn (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Af framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð má ráða að umsækjendur eiga rétt á húsnæði og mataraðstoð. Að sama skapi er umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd almennt til Svíþjóðar brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi [...]. Kærunefnd metur veikindi kæranda ekki svo alvarleg að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan greinir er umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi óttast [...] í Svíþjóð. Samkvæmt framangreindum gögnum getur kærandi leitað til lögregluyfirvalda í landinu telji hann öryggi sínu ógnað. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 31. október 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 11. september 2016.

Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir