Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

24.8.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 469/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070028

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.    Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 11. júlí 2017, kærði [...], fd. [...], talinn ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2017, að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.     Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. desember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 9. maí 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. júní 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. júlí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 20. júlí 2017.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna áreitis lögreglu í sinn garð en hann hafi tvisvar sinnum verið stöðvaður af lögreglu og beðinn um að taka fíkniefnapróf.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. sömu laga stæðu endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, með tilliti til atvika málsins, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

 

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinagerð kæranda kemur fram að aðalástæða flótta hans frá [...] sé sú að hann að telur sig ofsóttan af lögreglu í heimaríki. Kærandi kveðst hafa verið stöðvaður af lögreglu í nokkur skipti af engu tilefni og verið beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þá hafi lögreglan krafið kæranda um að gangast undir fíkniefnapróf til þess að hafa ástæðu til afskipta af honum. Kærandi kveður af þeim sökum óbærilegt að búa áfram í landi þar sem hann óttast lögreglu og yfirvöld, þá geti hann ekki fengið nauðsynlega vernd og myndi glíma við sömu vandamál hvar sem er innan [...].

Í greinargerð kemur fram að helstu vandamál tengd mannréttindum í [...] séu m.a. handahófskenndar handtökur, annmarkar á réttarkerfinu, þ.m.t. þrýstingur stjórnvalda á dómskerfið í tilteknum málum og veikleikar í opinberum stofnunum. Meðal annarra vandamála séu að tilraunir til að takast á við mál er varði misnotkun af hálfu starfsmanna löggæslustofnanna hafi reynst árangurslausar, þá séu aðstæður í fangelsum ófullnægjandi og áhyggjur af spillingu séu viðvarandi. Skýrslur alþjóðlegra mannréttindasamtaka beri með sér að dómskerfið sé spillt og að þessir veikleikar dómskerfisins hafa grafið undan getu þess til að veita framkvæmdarvaldinu viðnám og stjórnvöld hafi í miklum mæli áhrif á niðurstöður dómsmála. Þá sé ill meðferð á fólki sem er í haldi lögreglu og fangavarða alvarlegt vandamál í [...] og hafi frjáls félagasamtök kallað eftir því að sett verði á fót sjálfstæð stofnun til að rannsaka ásakanir um illa meðferð opinberra aðila á fólki. Mannréttindasamtökin [...] hafi talið að í flestum þeirra mála sem þau hafi rekið, á undanliðnum tveim árum, og hafi varðað pyntingar og illa meðferð af hálfu löggæslumanna hafi rannsókn verið árangurslaus og í sumum tilvikum hafi rannsakendur brugðist við með því að höfða sakamál á hendur þeim sem hafi lagt fram kvartanir. Ennfremur kemur fram í greinargerð að stjórnarskrá [...] banni handahófskenndar handtökur og varðhald en ljóst sé af framangreindum heimildum að stjórnvöld hafa misjafnlega mikið eftirlit með því að banninu sé framfylgt. Þá komi fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að umboðsmaður í [...]hafi m.a. lýst áhyggjum af því að einstaklingar sem neiti að gangast undir vímuefnapróf að beiðni lögreglu og sé haldið í fjölda klukkutíma án formlegrar málsmeðferðar sæti handahófskenndum handtökum. Komi þessar upplýsingar heim og saman við frásögn kæranda um handahófskenndar handtökur í landinu.

Kærandi vísar til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem beri að túlka í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga og annarra alþjóðareglna sem reglan um viðbótarvernd byggist á. Einkum sé þar um að ræða ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. gr. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri meðferð eða refsingu. Þá veiti ákvæði 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, vernd gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í frumvarpi að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 sem í hafi falist breytingar á 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu segi að ómannúðleg og vanvirðandi meðferð birtist á margvíslegum sviðum sem ógerlegt sé að telja með tæmandi hætti. Í því sambandi hafi sérstaklega verið nefndar aðstæður þar sem einstaklingur sé háður boðvaldi annarra eða settur undir yfirburðastöðu annars einstaklings. Kærandi telur að raunhæf hótun um pyndingar geti verið brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans þó svo að slíkum hótunum sé ekki fylgt eftir. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Írlands gegn Bretlandi (mál nr. 5310/71) frá 18. janúar 1978 og Gäfgen gegn Þýskalandi (mál nr. 22978/05) frá 1. júní 2010. Í ljósi framangreinds telur kærandi að sú meðferð sem hann hafi sætt af hálfu lögreglu í [...] megi teljast til ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar. Líkt og heimildir beri með sér þá um að ræða athæfi sem viðgengist hafi til langs tíma í [...] . Vegna spillingar og þátttöku yfirvalda í athæfinu verði að telja að þau hvorki hafi getu né vilja til að veita kæranda vernd. Þá komi fram að í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga sé að finna nánari skilgreiningu á því hverjir það séu sem geti verið valdir að ofsóknum og samkvæmt a-lið málsgreinarinnar geti það verið ríkið og samkvæmt c-lið geti það verið aðrir aðilar sem ekki fari með ríkisvald. Aðstæður kæranda geti þá fallið undir a- eða c- lið ákvæðisins þar sem sú meðferð sem hann hefur sætt er annað hvort viðhöfð af ríkinu sjálfu eða aðilum sem stundi slíka meðferð í skjóli opinbers valds án þess að þeim sé gerð refsing fyrir.

Varðandi varakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er í greinargerð vísað til athugasemda með frumvarpi með sömu lögum. Þar komi meðal annars fram að veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni og að heildarmat á öllum þáttum máls verði að fara fram. Erfiðar almennar aðstæður geti verið grundvöllur slíks leyfis en þar geti fallið undir sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og þeirri meðferð sem hann hefur hlotið af hálfu aðila sem starfa í skjóli opinbers valds er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laganna.

Kærandi bendir á að ákvörðun Útlendingastofnunar sé í andstöðu við 2. mgr. 23 gr. laga um útlendinga þar sem komi fram að stofnunin skuli af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga vegna málsmeðferðarinnar. Þá brjóti ákvörðunin gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem fram komi í 10. gr. og 22. gr. laganna. Útlendingastofnun beri rík skylda í hverju máli til að framkvæma einstaklingsbundið mat á aðstæðum hvers umsækjanda um alþjóðlega vernd. Kærandi telur framangreinda annmarka í ákvörðun Útlendingastofnunar styðja kröfu hans um að um að fella hina kærða ákvörðun úr gildi.  

Að lokum er bent á að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þá þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Þá komi fram í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta lands sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þess sé ekki krafist í alþjóðlegri löggjöf að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki áður en hann sæki um alþjóðlega vernd og beiting ákvæðisins geti aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður. Þegar stjórnvöld séu valdur að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Það geti því í tilviki kæranda ekki talist eðlilegt eða sanngjarnt að telja hann geta leitað verndar með flutningi innanlands.

V.     Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem er til þess fallið að sanna á honum deili og var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda ásamt því að hann talar [...] var það mat Útlendingastofnunar að kæranda sé frá [...]. Leggur kærunefndin því til grundvallar að kærandi sé [...]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...] Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá [...] kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu er refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Umboðsmaður [...]  hafi verið starfandi í [...] frá árinu 1997. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í [...] innan lögsögu ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. stjórnarskrár [...] gangi alþjóðasamningar, sem fullgiltir hafa verið af hálfu [...], framar landslögum. Svo framarlega sem slíkir samningar gangi ekki gegn stjórnarskrá landsins sé hægt að beita þeim sem hluta af almennri löggjöf.

Þá kemur fram að fyrstu lýðræðislegu stjórnarskiptin í sögu sjálfstæðrar [...] hafi verið haldnar [...] þáverandi forseti landsins og flokkur hans, [...]), hafi beðið ósigur í þingkosningum fyrir stjórnarandstæðingnum [...] og flokki hans, [...] . Þá hafi síðustu þingkosningar í október 2016 að mestu leyti farið vel fram að mati kosningaeftirlitsmanna þrátt fyrir harða kosningabaráttu. Flokkur [...] hafi aukið við fylgi sitt þar sem flokkurinn hafi hlotið [...]. Þá komi fram í ofangreindum gögnum að spilling sé þó nokkur í [...] [...]. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum, m.a. hafi verið sett á fót sérstök landsáætlun til að sporna við skipulögðum glæpum í landinu fyrir árin 2015-2018. Þá beri stjórnvöldum að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og aðili sem telji að brotið sé á réttindum sínum geti kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla. Einnig komi fram að stofnun [...] sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sé ábyrg fyrir því að að rannsaka brot sem framin séu af lögreglumönnum og hafi sú stofnun heimild til að beita agaviðurviðurlögum. [...] hafi hins vegar gagnrýnt þetta fyrirkomulag og bendi m.a. á að síðan í nóvember 2015 hafi komið fram 62 tilkynningar um misferli lögreglu en að stjórnvöld hafi ekki rannsakað málin með fullnægjandi hætti.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína um vernd á því að hann sé ofsóttur af lögreglu í heimaríki.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi bar í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi í tvígang verið handtekinn af lögreglu að ósekju og verið beittur bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þá hafi lögreglan m.a. krafið hann um að gangast undir fíkniefnapróf. Kærandi kveðst af þeim sökum óttast lögregluna og yfirvöld í landinu. Kærandi hefur engin gögn lagt fram máli sínu til stuðnings. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á hver hann sé.

Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að þeir ríkisborgarar [...] sem telji að á réttindum sínum hafi verið brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í [...] sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og umboðsmanns. Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík þó svo að úrbóta sé enn þörf að mati frjálsra félagasamtaka í landinu. Kærandi kveðst hafa verið handtekinn í tvígang og m.a. hafi lögreglan krafist þess að hann gangist undir fíkniefnapróf. Innanríkisráðuneyti landsins hefur greint frá því að við þessar aðstæður megi lögreglan einungis krefjast þess að einstaklingur gangi undir fíkniefnapróf þegar fyrir liggur að hún hafi orðið vitni að broti gegn fíkniefnalöggjöfinni eða að rökstuddur grunur sé um að einstaklingur sé undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið verður ekki annað séð en að þetta sé sú framkvæmd sem almennt sé viðhöfð af lögreglu við þessar aðstæður. Kærunefnd telur að af ofangreindu sé ljóst að þau atvik sem kærandi hafi lýst verði ekki talin ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Er það því mat nefndarinnar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga. Kærandi hefur auk þess ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum á grundvelli þeirra ástæðna sem koma fram í 1. mgr. 37. gr., þ.e. vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laganna fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þær ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi kom einn til landsins og kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                          Pétur Dam Leifsson