Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

15.8.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 15. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 432/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060039

 

Kæra [...]

og barna hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. júní 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. maí 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir hennar og barna hennar, [...], fd. [...], og [...], fd. 24. nóvember 2009, um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þau til Þýskalands.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sem og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

 

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. maí 2017 ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 15. maí 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 17. maí 2017 barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 22. maí 2017 að taka ekki umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þau skyldu endursend til Þýskalands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 15. júní 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 20. júní 2017.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og þau skyldu endursend til Þýskalands. Lagt var til grundvallar að Þýskaland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talin í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hennar. Kærandi væri stödd hér á landi ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra og tekið yrði tillit til þess við ákvörðun málsins. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hana til Þýskalands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að gættum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskra laga væri það niðurstaða Útlendingastofnunar að hagsmunum barna kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að þau fylgdu foreldrum sínum til Þýskalands.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda fjallað um aðstæður kæranda og fjölskyldu hennar og m.a. lögð áhersla á hagsmuni barna hennar, sbr. 2. mgr. 1. mgr. barnalaga nr. 76/2003.

Þá gerir kærandi gerir jafnframt m.a. athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Fyrir liggur í máli þessu að þýsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku kæranda og börnum hennar á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eru því uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Réttindi barna eru tryggð í stjórnarskrá, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og barnalögum. Í lögum um útlendinga er fjallað um hvernig hagsmunir barnsins eigi að koma til mats þegar stjórnvöld taka ákvarðanir í málum barna. Þannig segir í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga að ákvarðanir er varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 35. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Meginreglan um það sem barninu er fyrir bestu verður því ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess og er ríkur þáttur í mati stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd. Taka skal sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn kæranda komu í fylgd foreldra sinna hingað til lands og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. maí 2017, í máli kæranda og barna hennar var það niðurstaða Útlendingastofnunar, að gættum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ákvæða íslenskra laga, að hagsmunum barna kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að þau fylgdu foreldrum sínum til Þýskalands.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga, sbr. jafnframt 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöld þurfa að leggja fullnægjandi grundvöll að mati á þeim sjónarmiðum sem lög kveða á um að séu þáttur í því. Þá verður efni rökstuðnings ákvarðananna að endurspegla þessi sjónarmið enda segir m.a. í 22. gr. stjórnsýslulaga að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Ákvörðun í máli kæranda og barna hennar verður að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti sett fram á þann hátt að af lestri hennar megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.

Af framangreindri umfjöllun um hagsmuni barna skv. íslenskum lögum leiðir að ef ákvörðun varðar barn ber Útlendingastofnun að leggja sérstakt mat á það hverju sinni hvernig hagsmunir barnsins horfa við í málinu. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að tekið hafi verið tillit til barna kæranda við ákvörðun málsins og að hagsmunum þeirra sé ekki stefnt í hættu með því að þau fylgi foreldrum sínum til Þýskalands. Hins vegar benda gögn málsins ekki til þess að stofnunin hafi rannsakað einstaklingsbundnar aðstæður og hagsmuni barna kæranda. Af endurriti viðtala við kæranda og eiginmann hennar hjá Útlendingastofnun, dags. 22. maí 2017, er ekki unnt að sjá að þau hafi verið spurð um aðstæður barnanna, heilsufar þeirra eða aðra þætti er varða hag þeirra sem þýðingu gætu haft fyrir úrlausn málsins. Þá er ekki að sjá af gögnum málsins að sérstök viðtöl hafi verið tekin við börn kæranda í þeim tilgangi að leiða í ljós aðstæður þeirra og afstöðu til málsins. Því fær kærunefnd ekki séð af gögnum máls að upplýsingar um aðstæður barna kæranda hafi legið fyrir við töku ákvörðunar í málinu. Jafnframt er í ákvörðun Útlendingastofnunar ekki að finna neina umfjöllun um það hvernig hagsmunum barna kæranda verði borgið verði kærandi og börn hennar endursend til Þýskalands. Auk þess er engin almenn umfjöllun er um aðstæður barna umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eða einstaklingsbundin umfjöllun um þær aðstæður sem bíða barna kæranda þar í landi.

Enn fremur er í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi börn kæranda aðeins vísað með almennum hætti til íslenskra laga er málið varða og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en ekki til lagagrundvallar málsins að öðru leyti. Þótt fram komi í niðurstöðu Útlendingastofnunar varðandi hagsmuni barnanna að þeim sé ekki stefnt í hættu með því að þau fylgi foreldrum sínum til Þýskalands er það mat kærunefndar að í rökstuðningi ákvörðunarinnar sé hvorki með fullnægjandi hætti vísað til þeirra réttarregla sem ákvörðun Útlendingastofnunar var byggð á né greint frá þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við matið, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Af gögnum málsins er því ekki unnt að sjá hvort Útlendingastofnun hafi lagt mat á hagsmuni barnanna varðandi endursendingu þeirra til Þýskalands. Kærunefnd telur því ekki liggja fyrir hvort Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun málsins, að því er varðar börn kæranda, þannig að tillit hafi verið tekið til aðstæðna og hagsmuna barnanna á grundvelli fullnægjandi gagna, enda er í ákvörðuninni ekki gerð grein fyrir málsatvikum sem höfðu þýðingu við úrlausn um þetta atriði, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn í máli barna kæranda og rökstuðningi ákvarðana í málum þeirra. Það er jafnframt afstaða kærunefndar að þegar rökstuðningurinn og gögn málsins eru virt í heild verði ekki lagt til grundvallar af hálfu nefndarinnar að farið hafi fram viðhlítandi mat á hagsmunum barna kæranda varðandi endursendingu til Þýskalands í ljósi þeirra sjónarmiða sem að lögum er skylt að líta til við meðferð mála þegar um börn er að ræða. Að mati kærunefndar er því ekki unnt að bæta úr þessum ágalla, sem tengist skorti á rannsókn og mati á aðstæðum og hagsmunum barna kæranda. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd þörf á því að mat á hagsmunum barna kæranda varðandi endursendingu til Þýskalands fari fram með tilliti til þeirra lagaákvæða sem taka ber tillit til við meðferð mála þegar um börn er að ræða.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar aftur til meðferðar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun útlendingastofnunar í máli [...] og barna hennar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed in the case of the appellant and her children is vacated. The Directorate of Immigration shall re-examine her applications for asylum in Iceland.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                       Erna Kristín Blöndal