Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

17.11.2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 380/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030057

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 7. júní 2016, kærði […] hdl., f.h. […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2016, um að synja kæranda um dvalarleyfi á Íslandi.

Í kæru er gerð krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli 13. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um hæli hér á landi […]. Útlendingastofnun synjaði hælisumsókn með ákvörðun, dags. […], og kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðunina með úrskurði, dags. […]. Kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara […] og sótti um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar […]. Útlendingastofnun synjaði þeirri umsókn með ákvörðun, dags. 22. mars. 2016. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 30. mars 2016. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust kærunefnd 7. júní 2016 ásamt kröfu um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar.

Með tölvupósti, dags. 30. mars 2016, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 8. apríl 2016, en Útlendingastofnun gerði ekki athugasemdir við kæruna.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á leyfi á grundvelli hjúskapar byggir á því að í [..] kæranda, sem gefið hafi verið út af dómsmálaráðuneyti Ítalíu […], komi fram að […] hafi kærandi verið sakfelldur fyrir ólöglega notkun kreditkorta og verið [...]. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga er grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 13. gr. að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að umsækjanda verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Í c-lið 1. mgr. 20. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að vísa útlendingi, sem er án dvalarleyfis, úr landi ef hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Í ákvörðun Útlendingastofnunar eru [...]. Á þeim grundvelli hafnaði stofnunin umsókn kæranda.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að hann og eiginkona hans eigi lögvarinn rétt til að lifa hjónalífi saman og mynda með sér fjölskyldu. Sá réttur njóti verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994. Kærandi byggir á því að synjun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skerði friðhelgi einkalífs hans og sé jafnframt skerðing á fjölskyldulífi hans og eiginkonu hans. Telur hann þessi réttindi svo mikilvæg að þau verði ekki skert nema nauðsyn beri til í lýðræðislegu samfélagi. Því verði að horfa til eðli þeirra brota sem kærandi hafi framið og hversu alvarleg þau hafi verið. Þá verði að horfa til þess tíma sem liðinn sé frá því brot var framið og hvernig hegðun kæranda hafi verið frá þeim tíma. Kærandi hafi gert grein fyrir afbroti sínu, sem hafi átt sér stað [...] og hafi bæði fyrir þann tíma og eftir lifað reglusömu lífi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 13. gr. laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum og almenn hegningarlög nr. 19/1940.

Í 13. gr. laganna kemur fram að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara geti samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Nánustu aðstandendur í skilningi 13. gr. eru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.

Líkt og kærandi bendir á verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu rétt manna til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Skylda ríkisins til að virða, vernda og tryggja réttinn til einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans, metin í þessu ljósi, felur ekki í sér almenna skyldu til að virða val hjóna eða sambúðarfólks á dvalarríki. Þá felur 8. gr. sáttmálans almennt ekki í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn einstaklings um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu sbr. meðal annars dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Antwi ofl. gegn Noregi (mál nr. 26940/10) frá 12. febrúar 2012 og Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi (mál nr. 9214/20, 9473/81, 9474/81) frá 28. maí 1985. Verður samkvæmt ofangreindu ekki talið að synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi brjóti gegn rétti hans eða maka hans til friðhelgi einkalífs eða fjölskyldu skv. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um útlendinga kemur fram að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara geti samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í d-lið 1. mgr. 11. gr. laganna. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 11. gr. er grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 13. gr. að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að umsækjanda verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Í c-lið 1. mgr. 20. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að vísa útlendingi, sem er án dvalarleyfis, úr landi ef hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði.

Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 64/2014, um breytingu á lögum nr. 96/2002, um útlendinga segir:

Skv. c-lið 1. mgr. er einnig heimild til brottvísunar ef útlendingur hefur afplánað refsingu erlendis á síðustu fimm árum eða verið dæmdur þar til refsingar á sama tíma enda geti brotið að íslenskum lögum varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Það er því refsiramminn sem slíkur samkvæmt íslenskum lögum sem skiptir máli.

Að ofangreindu athuguðu er ljóst að miða á við refsiramma ákvæðis þess sem brot kæranda má jafna við að íslenskum lögum. Kærandi hlaut […]. Að íslenskum rétti er [...]. Kærunefndin telur því skilyrði d-liðar 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er mat kærunefndar að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar. Ekki er tekin afstaða til kröfu um frestun réttaráhrifa.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                      Pétur Dam Leifsson