Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

23.5.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 293/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040019

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. apríl 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Danmerkur.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 8. febrúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Þann 24. febrúar 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 27. febrúar 2017 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 6. apríl 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Kærandi kærði ákvörðunina þann 24. apríl 2017 til kærunefndar. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 5. maí 2017.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur. Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Danmerkur, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun krafðist hann þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd skyldi tekin til efnismeðferðar hér á landi samkvæmt 3. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að dönsk stjórnvöld séu bundin af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði mannréttinda, þ. á m. grundvallarreglunni sem fram komi í 42. gr. laga um útlendinga. Hafa verði í huga að dönsk stjórnvöld búi yfir teymi sem haldi utan um landaupplýsingar og hafi því kynnt sér mjög vel aðstæður í [...], enda sé niðurstaða danskra stjórnvalda á tveimur stjórnsýslustigum sú að heimilt og unnt sé að endursenda kæranda aftur til [...]. Jafnframt stríði það gegn tilgangi Dyflinnarsamstarfsins ef ríki endurmeti ákvarðanir ábyrgs viðtökuríkis þegar fyrir liggi að málsmeðferð í viðtökuríkinu sé fullnægjandi. Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu sett tiltölulega háan þröskuld við mat á því hvað sé ill meðferð skv. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Mannréttindadómstólsins í máli A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015 (nr. 39350/13). Það sé því mat Útlendingastofnunar að endursending kæranda til Danmerkur feli ekki í sér brot á 3. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji ekki fara aftur til Danmerkur, honum hafi þegar verið synjað um alþjóðlega vernd þar í landi og því bíði hans ekki annað en endursending til [...]. Kærandi greinir frá því að hann sé [...]. Kærandi hafi hrakist ungur að heiman vegna [...] en þeir hafi verið [...]. Þá hafi kærandi týnt báðum foreldrum sínum á flótta og misst allt samband við þá þegar hann hafi verið sjö eða átta ára gamall og hann telji þá nú látna. Kærandi hafi því verið einn síns liðs frá þeim aldri og hafi þurft að sjá fyrir sér sjálfur. Kærandi greinir frá því að hann hafi orðið fyrir [...].

Kærandi greinir frá því að við málsmeðferðina í Danmörku hafi hann ekki getað sannað ríkisfang sitt og því hafi í raun verið litið á hann sem ríkisfangslausan. Kærandi hafi fengið í hendur stuðningsyfirlýsingu frá [...] eftir að ákvörðun hafi verið tekin í máli hans og hafi hann því ekki getað sannað tengsl sín við [...] á meðan á málsmeðferðinni hafi staðið.

Fram kemur í greinargerð að samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé það meginregla að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar. Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé kveðið á um heimild íslenskra stjórnvalda til þess að synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd ef krefja megi annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins um að taka við umsækjanda. Af hálfu kæranda er því haldið fram að ótækt sé að beita heimildinni í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki kæranda. Þvert á móti njóti kærandi verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement, þá sérstaklega 2. mgr. 42. gr. laganna sem kveði á um skýrt bann við endursendingu einstaklings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki áframsendur til slíks svæðis. Ljóst sé að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um nauðsyn þess að meta umsókn einstaklings um alþjóðlega vernd á einstaklingsgrundvelli og mikilvægi reglunnar um non-refoulement. Það fái stoð í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu, frá desember 2015. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið lokasynjun í Danmörku og standi frammi fyrir flutningi til [...] verði hann endursendur til Danmerkur.

Í greinargerð kæranda er lögð áhersla á að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja umsækjendum um alþjóðlega vernd um efnismeðferð umsókna en ekki skyldu. Meginregla laganna sé að allar umsóknir skuli teknar til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við og að rétt þyki að beita þeim en í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur í lögum þröngt. Kærandi tekur fram að ef ekki verði fallist á það að endursending hans brjóti gegn áðurnefndri reglu 42. gr. laga um útlendinga telur kærandi að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að fyrir hendi séu slíkar sérstakar ástæður sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka umsókn hans til efnismeðferðar.

Þá fjallar kærandi í greinargerð sinni ítarlega um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku, svo og ástand mannréttindamála og breytingar á stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum. Löggjöf í garð umsækjenda hafi verið hert til muna en á sama tíma hafi heimildir stjórnvalda gagnvart umsækjendum verið rýmkaðar. Þá sé tölfræði í málum er varða umsóknir um alþjóðlega vernd rakin yfir ákveðið tímabil en með breyttri stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum hafi umsóknum um alþjóðlega vernd í landinu fækkað mikið og fyrir liggi að Danmörk reki eina ströngustu innflytjendalöggjöf í Evrópu. Kærandi vísar m.a. í upplýsingar frá mannréttindasamtökunum Amnesty International og skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi breytingar sem hafi verið gerðar á lögum um útlendinga í Danmörku árið 2015 til að bregðast við auknum fjölda umsókna um alþjóðlega vernd. Þá hafi Flóttamannastofnun gagnrýnt afstöðu danskra stjórnvalda og telji hana vera í andstöðu við ákall stofnunarinnar um að Evrópuríki, hvert um sig, axli ábyrgð á flóttamannavandanum. Þá hafi stofnunin biðlað til danskra stjórnvalda að endurskoða stefnu sína í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þess beri að geta að þann 24. maí 2016 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu í máli Biao gegn Danmörku (mál nr. 38590/10) að dönsku lögin um fjölskyldusameiningu flóttamanna hafi brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um stöðu einstaklinga sem hafi fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Danmörku. Eftir að umsækjandi fái lokasynjun þá flytjist málið inn á borð dönsku lögreglunnar. Lögreglan bjóði þessum einstaklingum að fara heim á eigin vegum en þeir sem neiti slíku teljist ósamvinnuþýðir og séu sendir í miðstöð fyrir brottflutninga sem sé rekin af dönsku lögreglunni. Þar séu dagpeningar teknir af umsækjendum, þeim gert að láta vita af sér á vikufresti og hætta sé á fangelsisvist fari þeir ekki eftir settum reglum. Mæti einstaklingur ekki í móttökumiðstöðina í nokkra daga sé hann sendur í lokað fangelsi. Nánast ógerlegt reynist fyrir fólk að fá mál sitt endurupptekið í Danmörku og festist því margir í biðstöðu þar í landi eða því sem kallað hafi verið þolanleg dvöl, jafnvel svo árum skipti.

Í greinargerð kæranda er vísað til nýlegra breytinga á lögum um útlendinga og byggt á því að vilji löggjafans hafi verið að víkka út gildissvið 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í eldri lögum. Sé það í samræmi við meginreglu nýju laganna um að allar umsóknir um alþjóðlega vernd skuli teknar til efnismeðferðar. Kærandi bendir á að hann sé ungur og hafi verið lengi á flótta, þar af í mörg ár sem fylgdarlaust barn en hann hafi aðeins verið 7 ára þegar hann hafi orðið viðskila við foreldra sína[...]. Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga hvíli skylda á Útlendingastofnunar að tryggja að einstaklingsbundið mat fari fram á umsækjendum um alþjóðlega vernd áður en ákvörðun sé tekin í máli þeirra. Þá komi fram í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar á aldursgreiningum að einstaklingar á aldrinum 18-24 ára séu viðkvæmir einstaklingar sem þurfi oft sama stuðning og úrræði og fylgdarlaus börn og þurfi því að taka sérstakt tillit til stöðu ungra einstaklinga, svo sem kæranda, við ákvarðanatöku. Þá sé [...] heilsa kæranda ekki góð en hann hafi lýst því að hann [...].

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Danmörku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·         Country Factsheet Denmark (European Union Agency for Fundamental Rights, september 2010)

·         Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Denmark from 19 to 21 November 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 24. mars 2014)

·         Denmark Immigration Detention Profile (Global Detention Project, apríl 2016);

·         Denmark 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017)

·         Dublin II – national asylum procedure in Denmark (Danish Refugee Council, 2011)

·         Amnesty International Report 2016/17 - Denmark (Amnesty International, 22. febrúar 2017)

·         Freedom in the world 2016 – Denmark (Freedom House, 2016)

·         Upplýsingar af heimasíðu sem danska Útlendingastofnunin heldur úti: www.nyidanmark.dk, Udlændingestyrelsen og Styrelsen for International Rekruttering og Integrations

Í framangreindum gögnum kemur fram að danska útlendingastofnunin (d. Udlændingestyrelsen) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku og eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess almennt kost að bera synjun dönsku útlendingastofnunarinnar undir sérstaka kærunefnd útlendingamála (d. Flygtningenævnet). Danska útlendingastofnunin skoðar sérstaklega hvert mál fyrir sig með tilliti til þeirra upplýsinga sem umsækjandinn veitir ásamt þeim almennu upplýsingum sem liggja fyrir um aðstæður í heimaríki hans. Almennt kemur umsækjandi, sem hefur kært synjun á umsókn um alþjóðlega vernd, fyrir hina dönsku kærunefnd útlendingamála og skýrir mál sitt munnlega fyrir nefndinni. Hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd í Danmörku fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur hann lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í máli hans sem ekki voru fyrir hendi þegar mál hans var áður til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Dönsk yfirvöld tryggja umsækjendum ekki endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð við meðferð máls á fyrsta stjórnsýslustigi. Hins vegar eiga umsækjendur rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls á kærustigi. Þá veita frjáls félagasamtök að nafni Dansk Flygtningehjælp lögfræðiráðgjöf til umsækjenda um alþjóðlega vernd þeim að kostnaðarlausu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á að vera í Danmörku á meðan mál þeirra er til meðferðar fyrir dönskum stjórnvöldum. Af framangreindum gögnum um Danmörku má ráða að umsækjendur fá gistingu í móttökumiðstöðvum þar til ákvörðun um brottvísun kemur til framkvæmdar eða umsækjandi yfirgefur Danmörku sjálfviljugur. Jafnframt eiga umsækjendur rétt á dagpeningum til grunnframfærslu eða mat án endurgjalds í móttökumiðstöðvum. Þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem settir eru í varðhald við komu til Danmerkur eiga rétt á lögfræðiaðstoð án endurgjalds og eiga jafnframt rétt á því að skjóta ákvörðun um varðhaldsvist til dómstóla.

Ekkert bendir til þess að umsóknum [...] umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku sé synjað sjálfkrafa eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Danmörku bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fólk með geðraskanir eða geðfötlun og alvarlega veika. Kærandi kveðst vera við góða líkamlega heilsu en hann hafi [...]. Þá kveðst kærandi vera ungur að árum og hafi verið lengi einsamall á flótta, þar af mörg ár sem fylgdarlaust barn. Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga enda er hann fullorðinn einstaklingur og ná þau [...] veikindi sem hann hefur lýst ekki þeim alvarleikaþröskuldi sem framangreint ákvæði gerir kröfu um. Hins vegar er ljóst að kærandi er ungur að aldri, en samkvæmt gögnum málsins er hann [...], og er tekið tillit til þess við meðferð málsins. Fyrir liggur að dönsk yfirvöld veita umsækjendum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Danmerkur um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Danmörku, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, þ. á m. veikinda hans og ungs aldurs, er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. mars 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 8. febrúar 2017.

Í máli þessu hafa dönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Danmerkur með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir