Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

9.5.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 263/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030043

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Sviss.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 2. mgr. 42. gr. og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. febrúar 2017. Leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, skilaði engum niðurstöðum. Þann 23. febrúar 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Sviss, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun af svissneskum yfirvöldum. Þann 27. febrúar 2017 barst svar frá svissneskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 15. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Sviss. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 21. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 31. mars 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Sviss. Lagt var til grundvallar að Sviss virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (f. non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Sviss ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Sviss, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji alls ekki snúa aftur til Sviss. Þar hafi hann, að undirlagi smyglara, sagt ósatt um ferðalag sitt og óttist nú viðbrögð svissneskra yfirvalda, sem veiti [...] sjaldan vernd. Þá glími kærandi jafnframt við mikinn [...]og [...]. Hvað varðar málsatvik að öðru leyti vísar kærandi til viðtala hjá Útlendingastofnun og annarra gagna málsins.

Til stuðnings aðalkröfu sinni, um að mál hans verði tekið til efnismeðferðar, vísar kærandi til þess að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli taka allar umsóknir til efnismeðferðar nema undantekningarreglur laganna eigi við. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur beri að túlka undantekningarreglur þröngt. Þá kveði 1. mgr. 36. gr. laganna aðeins á um heimild stjórnvalda til að synja kæranda um efnismeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, en ekki skyldu. Kærandi byggir á því að ekki megi senda hann aftur til Sviss vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi endursending brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Í Sviss sé hlutfall [...] sem fái alþjóðlega vernd afar lágt og því standi kærandi frammi fyrir raunverulegri hættu á því að verða endursendur frá Sviss til [...].

Verði ekki fallist á að endursending kæranda brjóti í bága við ákvæði 42. gr. laga um útlendinga telji kærandi að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi til breytingarlaga nr. 115/2010 við þágildandi lög nr. 96/2002 um útlendinga, þ.e. um sérstakar ástæður, svo og athugasemda við 36. gr. með frumvarpi til núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga. Við mat á sérstökum ástæðum beri að horfa til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, harðræðis svissneskra stjórnvalda gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd og mögulegrar áframsendingar kæranda til [...]. Mikið misræmi sé milli framkvæmdar svissneskra og íslenskra stjórnvalda þegar komi að vernd til handa [...] flóttafólki. Á Íslandi fái [...]% [...] vernd á fyrsta stjórnsýslustigi en aðeins [...]% í Sviss. Dyflinnarreglugerðin byggi á samræmdu hæliskerfi allra aðildarríkjana en þegar kerfin séu ekki samræmd, líkt og sýnt hafi verið fram á, verði að telja að sérstakar ástæður mæli með því að íslensk stjórnvöld taki umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Þá er í greinargerð fjallað um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Sviss. Þar í landi viðgangist afar hörð stefna gagnvart framangreindum hópi og afar fáir umsækjendur um vernd fái viðurkennda stöðu sem flóttamenn. Fjölmörg dæmi séu um að svissneskir landamæraverðir á landamærum Sviss og Ítalíu neiti flóttafólki um inngöngu í landið. Þá hvíli engin skylda á svissneskum stjórnvöldum að nota túlka í viðtölum við umsækjendur um alþjóðlega vernd og hlutleysi túlka sé jafnan ótryggt. Enn fremur sé réttaröryggi umsækjenda skert og misbrestur hafi verið á því að þeim sé tryggð gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð, einkum þeim sem sæti varðhaldi. Árið 2014 hafi 22,8% umsækjenda um alþjóðlega vernd verið hneppt í varðhald. Erfitt sé að nálgast nýrri tölur þar sem yfirvöld í Sviss gefi þær ekki upp. Svissnesk stjórnvöld hafi of víðtækar heimildir til að hneppa umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald en tímalengd þess geti verið allt að 18 mánuðir. Þá komi fram í nýjustu skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins (Switzerland 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017)) að svissnesk yfirvöld grípi gjarnan til harðari úrræða gagnvart umsækjendum um vernd í varðhaldi en öðrum gæsluvarðhaldsföngum. Á tímabilinu apríl 2015 til apríl 2016 hafi svissnesk yfirvöld flutt 328 einstaklinga úr landi með valdi, þ.á m. börn, og beitt miklu harðræði við flutningana, m.a. rafbyssum.

Til stuðnings varakröfu sinni, um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka málið til meðferðar að nýju, vísar kærandi til þess að ákvörðun stofnunarinnar sé ekki studd nægum gögnum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Rökstuðningur Útlendingastofnunar sé á þá leið að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að kærandi fái ekki vandaða málsmeðferð í Sviss eða að galli sé á aðbúnaði eða meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd svo að kærandi eigi á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Kærandi geri þá kröfu að Útlendingastofnun vísi ítarlega til heimilda máli sínu til stuðnings. Þá geti skortur á heimildum ekki talist nægur grundvöllur fyrir svo íþyngjandi ákvörðun sem um ræði í tilviki kæranda. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og megi í því sambandi benda á bréf umboðsmanns Alþingis til forstjóra Útlendingastofnunar frá 5. ágúst 2016. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Verði ekki fallist á aðalkröfu byggi kærandi á því að svo gróflega hafi verið brotið gegn fyrrgreindri reglu að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina. Í því sambandi bendi kærandi jafnframt á skyldu Útlendingastofnunar skv. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, þ.e. að tryggja að einstaklingsbundin greining fari fram á líkamlegu og andlegu heilsufarsástandi umsækjanda um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi lýst því í viðtölum hjá stofnuninni að hann glími við [...] og [...]. Engin frekari rannsókn hafi hins vegar farið fram á [...] ástandi kæranda áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að svissnesk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Sviss er byggt á því að kærandi hafi fengið útefna vegabréfsáritun af svissneskum yfirvöldum.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Sviss, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·        Asylum Information Database - Country Report: Switzerland (European Council on Refugees and Exiles, 31. desember 2016);

·        Switzerland 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017);

·        Amnesty International Report 2016/17 – Switzerland (Amnesty International, 22. febrúar 2017);

·        Freedom in the World 2016 – Switzerland (Freedom House, 14. júlí 2016).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að bæði í löggjöf og framkvæmd er umsækjendum um alþjóðlega vernd í Sviss tryggður réttur til viðtals á fyrsta stjórnsýslustigi. Þó að viðurvist túlks í slíkum viðtölum sé ekki ófrávíkjanlegt skilyrði samkvæmt svissneskum lögum er túlkur ávallt til staðar í framkvæmd nema í þeim tilvikum þegar umsækjendur hafa gott vald á ensku. Ef umsókn um alþjóðlega vernd er synjað hjá svissnesku útlendingastofnuninni (þ. Staatssekretariat für Migration) geta umsækjendur borið synjunina undir stjórnsýsludómstól (þ. Bundesverwaltungsgericht). Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt svissnesku stjórnarskránni og þarlendri útlendingalöggjöf skal öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd tryggður réttur til að fá úrlausn um réttindi sín án endurgjalds. Þó er lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum ekki ávallt fyllilega tryggð af hinu opinbera. Umsækjendur eiga þó að jafnaði kost á að leita eftir gjaldfrjálsri lögfræðiþjónustu hjá frjálsum félagasamtökum.

Framangreind gögn bera með sér að upp hafi komið tilvik þar sem landamæraverðir hafi meinað umsækjendum um alþjóðlega vernd aðgang inn í landið að sunnanverðu við landamæri Ítalíu. Þá hafa alþjóðlegar stofnanir og félagasamtök gagnrýnt að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Sviss sæti varðhaldi í of ríkum mæli. Gögn málsins bera þó með sér að ef umsókn um alþjóðlega vernd er tekin til efnismeðferðar geti umsækjendur fengið skorið úr um lögmæti gæsluvarðhalds og í framkvæmd njóta þeir lögfræðiaðstoðar við rekstur þess máls.

Við komu fá umsækjendur um alþjóðlega vernd upplýsingar um réttindi sín. Þá er umsækjendum tryggt húsnæði í móttökumiðstöðvum þar sem bornar eru fram máltíðir þrisvar á dag og fatnaði er úthlutað í samvinnu við frjáls félagasamtök ásamt öðrum nauðsynjum. Vasapeningar eru jafnframt greiddir út vikulega en þar sem umsækjendur hafa aðgang að helstu nauðsynjum í móttökumiðstöðvum er vasapeningum haldið í lágmarki. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá heilbrigðistryggingu og eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, þ.á m. [...]. Aðgangur að þjónustunni sætir þó takmörkunum að einhverju leyti í framkvæmd, einkum vegna skorts á menntuðu heilbrigðisstarfsfólki í móttökumiðstöðum.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Sviss hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Sviss brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns bæði í Sviss og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Sviss á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá bendir ekkert til þess að [...] umsækjendum um alþjóðlega vernd sé sjálfkrafa synjað um hæli í Sviss, heldur séu umsóknir þeirra metnar á einstaklingsgrundvelli. Þá liggur fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eru sendir til baka til meginlandsins með flugi. Ljóst er því að kærandi mun ekki eiga á hættu að vera meinuð innganga í landið líkt og dæmi séu um að hafi átt sér stað við landamæri Sviss að sunnanverðu. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að á stærstu flugvöllum landsins, í Zurich og Genf, séu sjálfstæðar ráðgjafarskrifstofur til staðar sem bjóði upp á lögfræðiráðgjöf.

Kærandi er ungur, einstæður karlmaður. Kærandi kvað í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. mars 2017 að hann sé [...] og [...] og [...]. Í greinargerð sinni gerði kærandi athugasemd við það að engin frekari rannsókn hafi farið fram á [...] ástandi hans áður en ákvörðun var tekin í málinu af hálfu Útlendingastofnunar. Að mati kærunefndar hafa gögn málsins ekki gefið ástæðu til að ætla að [...] veikindi kæranda nái því alvarleikastigi að frekari læknisfræðileg gögn hafi þýðingu fyrir niðurstöðu í máli kæranda. Af þeim sökum verður ekki talið að þörf hafi verið á frekari rannsókn á [...] ástandi kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Þá er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 17. febrúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 9. febrúar 2017.

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemdir við rannsókn Útlendingastofnunar í máli hans, sbr. 10. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi ákvörðun stofnunarinnar ekki studda nægum gögnum.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem nauðsynleg eru svo að mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Við ákvörðunartöku í máli kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við meðferð málsins og nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í móttökuríkinu, Sviss. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um aðstæður í Sviss, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við meðferð málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í máli þessu hafa svissnesk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Sviss með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                                     Þorbjörg Inga Jónsdóttir