Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

19.4.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 216/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17020050

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. febrúar 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2017, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd frá [...], synja henni um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Svíþjóð og synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 74. gr. og 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt eiginmanni sínum.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn kæranda um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 19. desember 2016. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 25. janúar 2017 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þann 31. janúar 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 20. febrúar 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. mars 2017.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns í Svíþjóð auk þess sem hún hefði fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi þar í landi. Kæmi það fram bæði í framburði umsækjanda og í svarbréfi sænskra yfirvalda, dags. 18. janúar 2017.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig að hafa orðið fyrir hótunum í Svíþjóð af hálfu [...], tengdum [...]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var byggt á því að framangreindum hótunum yrði ekki jafnað til ofsókna, einkum í ljósi þess að sænsk lögregluyfirvöld hefðu þegar aðstoðað kæranda vegna skemmdarverka sem framin hefðu verið í verslun hennar og eiginmanns hennar. Þá væri ekkert í málinu sem benti til þess að sænsk stjórnvöld væru ekki í stakk búin til að vernda umsækjanda vegna þeirra hótana sem hún hafi orðið fyrir. Var það mat Útlendingastofnunar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði send aftur til Svíþjóðar. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Svíþjóð þar sem kærandi, sem ríkisborgari [...], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Svíþjóð. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, og um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laganna.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga frestaði kæra að meginreglu réttaráhrifum ákvörðunar um umsókn um alþjóðlega vernd. Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að henni og eiginmanni hennar hafi verið veitt staða flóttamanna og ótímabundið dvalarleyfi í Svíþjóð þann 2. febrúar 2012. Þau vilji þó ekki snúa aftur til Svíþjóðar því þar hafi þau orðið fyrir hótunum af hálfu manna sem tengist [...]. Þá hafi kærandi og fjölskylda hennar orðið fyrir miklu áreiti af hálfu [...] í Svíþjóð sökum þess að eiginmaður kæranda hafi tekið [...]. Hafi fjölskyldan þurft að flytja innan Svíþjóðar vegna þessa. Dóttir kæranda sé jafnframt í hættu vegna hótana [...] um að ræna henni og selja hana til [...]. Hún dvelji nú á [...] í Svíþjóð á vegum [...].

Til stuðnings kröfu sinni um að umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi verði tekin til efnismeðferðar vísar kærandi til ákvæða 1. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ákvæði 1. mgr. 36. gr. laganna sé kveðið á um heimild stjórnvalda til að synja um efnismeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, en ekki skyldu. Sé íslenskum yfirvöldum því í lófa lagið að verða við ósk kæranda um að umsókn hennar verði tekin til skoðunar á Íslandi og að hún verði ekki send til Svíþjóðar.

Kærandi og eiginmaður hennar byggi kröfu sína á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem sérstakar ástæður séu uppi í máli þeirra. Þau hafi þurft að þola ítrekaðar hótanir og áreiti, sem fyrr segir. Öfgasinnaðir [...] hafi unnið skemmdarverk á verslun sem kærandi hafi rekið ásamt eiginmanni sínum í Svíþjóð og þeim hjónum hafi ekki verið fært að halda atvinnurekstri sínum áfram. Þá hafi kærandi og fjölskylda hennar flust búferlum innan Svíþjóðar í leit að frekara öryggi en án árangurs. Vegna ofangreindra ofsókna í sinn garð telji þau sig öruggari á Íslandi en í Svíþjóð.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá heimaríki hennar, [...], og vísa henni frá landinu.

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Fyrir liggur að kæranda var veitt alþjóðleg vernd og ótímabundið dvalarleyfi í Svíþjóð þann 2. febrúar 2012. Eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. laganna segir að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður að hafa hliðsjón af 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður í Svíþjóð brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Svíþjóð m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

·         Asylum Information Database, Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, mars 2017);

·         Sweden 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017);

·         Amnesty International Report 2016/17 – Sweden (Amnesty International, 22. febrúar 2017);

·         Freedom in the World 2016 – Sweden (Freedom House, 29. júní 2016) og

·         Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Samkvæmt ofangreindum gögnum fær sá sem hefur stöðu flóttamanns í Svíþjóð að jafnaði útgefið dvalarleyfi til þriggja ára. Geti flóttamaður framfleytt sér að þremur árum liðnum fær hann varanlegt dvalarleyfi. Hafi flóttamaður varanlegt dvalarleyfi í Svíþjóð hefur hann jafnframt rétt til að lifa og starfa í landinu og njóta sömu kjara og aðrir sem búsettir eru þar. Þá getur flóttamaður hlotið ríkisborgararétt eftir fjögur ár, hafi hann náð 18 ára aldri og haft varanlegt dvalarleyfi/löglega dvöl í landinu í þennan tiltekna tíma og sýnt af sér góða hegðun. Í 4. kafla sænsku útlendingalaganna er að finna ákvæði um afturköllun og endurskoðun alþjóðlegrar verndar, að fyrirmynd ákvæða 1.-5. tölul. c-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Þá geta nánustu ættingjar flóttamanns með dvalarleyfi í Svíþjóð fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, þ.e. maki og börn undir 18 ára aldri. Einstaklingur með stöðu flóttamanns í Svíþjóð nýtur jafnframt ferðafrelsis og fær útgefið ferðaskilríki sem gildir í öllum ríkjum, að heimaríki hans undanskildu. Að lokinni málsmeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd getur flóttamaður dvalið í allt að tvo mánuði í móttökumiðstöð. Að því loknu er honum úthlutað húsnæði í tilteknu sveitarfélagi, í samræmi við tilmæli sænsku útlendingastofnunarinnar. Sá sem hefur fengið útgefið varanlegt dvalarleyfi fær afhenta svokallaða kynningaráætlun til að skipuleggja menntun sína, þjálfun, tungumálakennslu, atvinnu og fleira. Hlutfall atvinnulausra í Svíþjóð er almennt lágt en þó hærra meðal innflytjenda, einkum þeirra sem eru nýfluttir til landsins. Flóttamenn með varanlegt dvalarleyfi fá einnig atvinnuleyfi sem og aðgang að menntun og heilsugæslu á við aðra íbúa landsins.

Af framangreindum gögnum má jafnframt ráða að trúfrelsi sé tryggt í Svíþjóð þó að meirihluti íbúa landsins, eða um 66%, sé lútherstrúar. Þó hafa verið framin skemmdarverk á moskum og glæpir á grundvelli gyðingahaturs hafa átt sér stað. Sænsk yfirvöld hafa lagt mikla áherslu á skráningu, rannsókn og ákæru í málum tengdum hatursglæpum gegn trúarhópum, svo og aðstoð til handa þolendum. Innan sænsku lögreglunnar er ein varanleg deild sem fæst eingöngu við hatursglæpi.

Kærandi er gift kona á miðjum aldri. Kveðst hún eiga [...] ára dóttur sem sé búsett í Svíþjóð en hún sé í umsjá [...]. Kærandi kveður að hún sé með [...]. Þá sofi hún lítið og andleg heilsa hennar sé mjög slæm. Engin læknisfræðileg gögn hafa verið lögð fram fyrir kærunefnd um heilsufar kæranda. Það er mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að hún sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framburði kæranda og gögnum frá sænsku útlendingastofnuninni, sem kærunefnd hefur undir höndum, hefur kæranda verið veitt alþjóðleg vernd og varanlegt dvalarleyfi í Svíþjóð. Líkt og fram hefur komið ber kærandi fyrir sig að hún og eiginmaður hennar hafi orðið fyrir hótunum og áreiti af hálfu [...] í Svíþjóð vegna [...] sinnar. Þá sé dóttir þeirra í mikilli hættu á því að verða seld til [...]. Með vísan til þess sem að framan er rakið varðandi aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Svíþjóð, vernd sem yfirvöld í Svíþjóð veita þeim sem eru þar í landi og aðstæðna kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki í yfirvofandi hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Svíþjóð í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hún send þangað. Þá benda gögn til þess að kærandi geti leitað til lögregluyfirvalda í Svíþjóð telji hún öryggi sínu eða dóttur sinnar ógnað. Það er því niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Svíþjóðar feli ekki í sér brot á 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna, eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Svíþjóð er ljóst að kærandi á rétt á heilbrigðisþjónustu á við sænska ríkisborgara og getur því leitað sér aðstoðar þar vegna þeirra kvilla sem hún kveður hrjá sig.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. janúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 19. desember 2016.

Fyrir liggur að kæranda hefur verið veitt réttarstaða flóttamanns í Svíþjóð. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá [...] og senda hana til Svíþjóðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var fjallað um rétt kæranda til þess að fá alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Svíþjóð og komist að þeirri niðurstöðu að hún, sem ríkisborgari [...], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Svíþjóð þar sem hún hafði hlotið stöðu flóttamanns. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, eða vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. sömu laga.

Í 74. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í lokamálslið 1. mgr. 74. gr. laganna segir að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. Kærunefnd telur ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Svíþjóð. Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd ekki skilyrði að lögum til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða til handa kæranda, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                        Þorbjörg I. Jónsdóttir