Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

23.3.2017

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 166/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16080027

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. september 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2016, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II.                  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 22. febrúar 2016. Kærandi kom m.a. í viðtöl hjá Útlendingastofnun þann 29. júní og 17. ágúst 2016 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 29. ágúst 2016, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 12. september 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd. Með bréfi, dags. 1. september 2016, féllst kærunefnd útlendingamála á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. desember 2016. Viðbótargögn bárust frá kæranda þann 10. janúar 2017. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 2. mars 2017 ásamt talsmanni sínum. Kærandi skilaði inn viðbótargögnum þann 9. mars 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið mið af því að kærandi hafi verið greindur með […] árið 2014 og þjáist af einkennum vegna þessa.

Útlendingastofnun tók fram að kærandi beri því við að hann sé í hættu vegna uppruna síns, vegna þess að hann sé […], auk þess sem hann fái ekki viðunandi heilbrigðisaðstoð.

Við mat á trúverðugleika frásagnar kæranda fór Útlendingastofnun yfir ofangreindar málsástæður kæranda. Útlendingastofnun benti m.a. á að stjórnarskrá […] kveði á um að mannréttindi skuli tryggð óháð kyni, kynþætti, þjóðerni, tungumáli, uppruna, eignum, stöðu, búsetu, trú, sannfæringu, aðild að opinberum samtökum og öðrum kringumstæðum. Allar takmarkanir á mannréttindum á grundvelli félagslegra þátta, kynþáttar, tungumála, og trúarskoðana séu óheimilar auk þess sem áróður og útbreiðsla haturs á grundvelli félagsþátta, kynþáttar, þjóðernis eða trúarskoðana skuli ekki liðinn. Refsilöggjöf landsins leggi þyngri refsingar við glæpum sem grundvallist á hatri á ákveðnum kynþáttum, þjóðerni eða trúarskoðunum. […] yfirvöld hafi á síðustu misserum sótt gerendur í slíkum málum til saka í auknum mæli ásamt því að hafa staðið fyrir átaksverkefnum gegn kynþáttahatri.

Útlendingastofnun tók fram að þrátt fyrir framfaraskref sem stigin hafi verið í þessum efnum skorti enn á að greina megi slíkar framfarir hjá staðbundnum yfirvöldum á neðri stigum stjórnsýslunnar. Þjóðernishyggja og útlendingahatur sé talið sérstakt áhyggjuefni. Einstaklingar frá m.a. […] og […] séu sérstaklega taldir útsettir fyrir mismunun og fjandskap á grundvelli uppruna síns. Minnihlutahópar hafi á undanförnum misserum sætt aukinni mismunun af hálfu yfirvalda. Einstaklingar hafi t.d. mátt þola líkamlegt ofbeldi og beitingu óhóflegra þvingunaraðgerða af hálfu yfirvalda. Einnig hafi talsvert verið um það að almennir borgarar hafi beitt einstaklinga sem tilheyra þjóðernisminnihluta ofbeldi. Gerendur séu í flestum tilvikum aðilar að þjóðernissinnuðum öfgahópum. Hatursfull orðræða sé enn alvarlegt vandamál í landinu enda þótt dómstólar sakfelli menn fyrir áróður í þessum efnum. Fjöldi saksókna í málum sem grundvallast á útlendingahatri hafi aukist. Yfirvöld hafi auk þess beitt hina ýmsu þjóðernissinnuðu hópa auknum þrýstingi og það hafi leitt til minni umsvifa slíkra hópa.

Útlendingastofnun áréttaði að landaupplýsingar kveði á um að dæmi séu um að yfirvöld beiti minnihlutahópa óhóflegum þvingunaraðgerðum og annarri mismunun. Ekki sé unnt að útiloka að kærandi hafi orðið fyrir mismunun af hálfu lögreglu þegar hann hafi tilkynnt um líkamsárás árið 2013 og lögreglan hafi af þeim sökum ekki aðstoðað hann. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem stofnunin hafi aflað, auk upplýsinga um umbætur yfirvalda í þessum efnum, sé hins vegar ekkert sem renni stoðum undir það að minnihlutahópar fái almennt ekki vernd lögreglu í […]. Það var því mat Útlendingastofnunar að kærandi eigi kost á að leita aðstoðar yfirvalda. Ekki yrði því lagt til grundvallar að lögregla neiti almennt að aðstoða þá einstaklinga sem tilheyri þjóðernisminnihluta í tilvikum sem þessum.

Í tengslum við trú kæranda benti Útlendingastofnun m.a. á að stjórnarskrá […] kveði á um trúfrelsi og að ríkið skuli tryggja jafnræði milli einstaklinga ólíkra trúarbragða með tilliti til frelsis og réttinda enda þótt yfirvöldum sé heimilt að takmarka gjörðir trúfélaga í ákveðnum tilvikum. Lög viðurkenni […], […], […] og […] sem hefðbundin trúarbrögð landsins en viðurkenni þó einnig sérstöðu […]. Þeir sem brjóti gegn trúfrelsinu eigi yfir höfði sér refsingu. Þrátt fyrir þetta hafi einstaklingar sem aðhyllast trúarbrögð sem eru í minnihluta átt undir högg að sækja, bæði gagnvart yfirvöldum sem og almennum borgurum. Yfirvöld hafi jafnframt takmarkað tiltekin réttindi ákveðinna trúarlegra minnihlutahópa. Útlendingastofnun hafi þó ekki fundið neinar skýrslur sem kveði á um að […] eigi sérstaklega undir högg að sækja. Þó verði ekki útilokað að upp hafi komið tilvik er beinist að […].

Varðandi veikindi kæranda tók Útlendingastofnun fram að […] sé alvarlegt vandamál í […]. Aðgangur almennings að meðferðum sé takmarkaður vegna mikils kostnaðar. Þessar aðstæður séu þó ekki takmarkaðar við […] þar sem heimsmarkaðsverð nauðsynlegs lyfs sé mjög hátt. Eitthvað sé um það að staðbundin yfirvöld setji saman aðgerðaráætlanir til meðhöndlunar á […] en fáir fái þó meðferð á þeim grundvelli. Töluverð spilling ríki jafnframt innan […] heilbrigðiskerfisins. Taldi Útlendingastofnun að frásögn kæranda í viðtölum við Útlendingastofnun væri í samræmi við fyrirliggjandi landaupplýsingar en með hliðsjón af hvoru tveggja yrði þó ekki lagt til grundvallar að honum hafi verið neitað um læknisþjónustu á grundvelli uppruna síns.

Það var mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda kæmi í flestum atriðum heim og saman við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar, svo sem almennt um fordóma og áreiti sem minnihlutahópar verða fyrir og aðgengi almennings að læknisþjónustu. Frásögn kæranda að því er varðar aðstæður hans í heimalandi var því talin trúverðug og lögð til grundvallar með fyrrgreindum fyrirvörum. Því var hins vegar hafnað að kærandi geti ekki leitað aðstoðar yfirvalda, og var því sá hluti frásagnar hans ekki lagður til grundvallar við úrlausn málsins.

Við skoðun á þágildandi 44. gr. laga um útlendinga benti Útlendingastofnun m.a. á að heimildir kveði á um að ákveðinnar mismununar gegn trúarlegum minnihlutahópum gæti vissulega í […]. Mismununar virðist þó helst gæta gegn […], […], […] og […]. Ekki verði talið að þau tilteknu afmörkuðu tilvik sem kærandi vísi til í fréttagreinum verði jafnað til ofsókna í skilningi 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þá hafi kærandi ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir annars konar mismunun eða áreiti vegna trúar sinnar.

Útlendingastofnun vísaði til þess að það liggi til grundvallar í málinu að kærandi hafi orðið fyrir líkamsárásum og öðru áreiti vegna uppruna síns. Heimildir kveði þó á um að yfirvöld hafi lagt áherslu á að vinna gegn útlendingahatri á ýmsan hátt. Líkamsárásum sem rekja megi til kynþáttahaturs hafi farið fækkandi. Útlendingastofnun taldi að ekki yrði lagt til grundvallar að lögregluyfirvöld neiti almennt að aðstoða einstaklinga sem tilheyra tilteknum minnihlutahópum enda hafi ekkert komið fram sem renni stoðum undir slíkt. Þá sé ekkert í máli kæranda sem gefi tilefni til að halda að kæranda standi ekki til boða aðstoð eða vernd yfirvalda í […]. Það var því mat stofnunarinnar að kærandi hafi kost á að leita sér verndar yfirvalda í […]. Þá komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað verði til ofsókna í heimalandi og synjaði honum um alþjóðlega vernd skv. þágildandi 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Að virtum niðurstöðum stofnunarinnar um vernd yfirvalda í […], frásögn kæranda, trúverðugleikamati, gögnum máls og fyrirliggjandi upplýsingum um […] mat Útlendingastofnun það svo að kærandi eigi ekki á hættu illa meðferð í heimalandi sínu. Synjaði stofnunin því kæranda um alþjóðlega vernd skv. þágildandi 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Hvað varðaði kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga benti Útlendingastofnun m.a. á að í greinargerð með lögum nr. 115/2010 um breytingu á þágildandi lögum nr. 96/2002 um útlendinga sé fjallað um hvað sé átt við með skilyrðinu um ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum samkvæmt ákvæðinu. Þar komi m.a. fram að miðað sé við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða sem meðferð sé til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Jafnframt sé m.a. rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð. Útlendingastofnun vísaði jafnframt til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu í málum D. gegn Bretlandi (mál nr. 30240/96) frá 2. maí 1997, Bensaid gegn Bretlandi (mál nr. 44599/98) frá 6. febrúar 2001 og N. gegn Bretlandi (mál nr. 26565/05) frá 27. maí 2008. Í tilviki kæranda yrði ekki talið að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm væri að ræða. Þá sé ljóst að kærandi hafi fengið útgefinn lyfseðil hjá lækni sínum í […]. Heimildir beri jafnframt með sér að unnt sé að fá meðferð í heimalandi kæranda enda þótt sú meðferð sé kostnaðarsöm. Í læknisvottorði sem kærandi hafi framvísað komi fram að ekki hafi fundist merki um […]. […] hafi verið innan eðlilegra marka og engin merki um […]. Jafnframt sé ljóst að meðferð hafi ekki hafist hér á landi. Útlendingastofnun tók auk þess fram að kærandi eigi móður og bróður í heimalandi sínu. Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. þágildandi 12. gr. f laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. sama ákvæði.

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli þágildandi c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til atvika málsins ákvað stofnunin að kæra skyldi fresta réttaráhrifum með vísan til þágildandi 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga.

III.                Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni tekur kærandi fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann gert greint fyrir ástæðum flótta hans frá heimalandi. Í fyrsta lagi hafi hann orðið fyrir ofsóknum í […] vegna kynþáttar síns, af hendi samborgara sinna og í skjóli aðgerðarleysis stjórnvalda þar í landi, en hann tilheyri […]. Í öðru lagi hafi hann verið virkur í starfsemi [...] í […], nánar tiltekið samtaka sem beiti sér fyrir […]. Samtökin séu á meðal fjölmargra borgarasamtaka í landinu sem berjist fyrir ýmiss konar umbótum í landinu, mannréttindum, umhverfisvernd o.fl., sem sætt hafi ofsóknum af hálfu stjórnvalda svo árum skipti. Í þriðja lagi sé hann haldinn ólæknandi sjúkdómum, þ.e. […].

Varðandi kröfu sína um alþjóðlega vernd hér á landi bendir kærandi á að í hinni kærðu ákvörðun sé hvergi tekið á þeim grundvelli umsóknar kæranda að hann hafi verið virkur í stjórnmálabaráttu í heimalandi, þ.e. baráttu fyrir […], en samtökin sem hann hafi starfað fyrir hafi sannanlega orðið fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda þar í landi vegna baráttu sinnar fyrir [...]. Þetta hafi komið fram í hælisviðtali við kæranda og sé nefnt í framhjáhlaupi í málsatvikakafla hinnar kærðu ákvörðunar án þess að tekið sé á þessari málstæðu við töku ákvörðunar í málinu. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hafi tekið þátt í baráttu fyrir réttindum […] í […] og tekið þátt í mótmælum. Hann hafi átt í útistöðum við stjórnvöld og lögreglu vegna þessa.

Kærandi gerir í kjölfarið grein fyrir ástandi mannréttinda í […]. Bendir kærandi m.a. á að aðför […] stjórnvalda gegn borgarasamfélaginu felist m.a. í lögum sem takmarki tjáningar-, funda- og félagafrelsi í landinu. Til staðar séu lög sem kveði á um […]. […]. Af framkvæmd að dæma sé enn ljósara að tilgangur laganna sé að koma í veg fyrir starfsemi borgarasamtaka og takmarka frelsi borgaranna til gagnrýni á eigin stjórnvöld. Þrátt fyrir að […] eigi samkvæmt umræddum lögum að vera undanþegin […] sé ljóst að það eigi ekki við í þeim tilvikum þar sem […] lúti að því að benda á hvernig bæta megi löggjöf eða framkvæmd stjórnvalda í […]. Samtök sem berjist fyrir […], sem sé sú borgarastarfsemi sem kærandi hafi verið einna virkastur í, hafi því ekki farið varhluta af þessum ofsóknum. Þau hafi verið skráð á […] og sætt ofsóknum síðan.

Ítarlega er fjallað um aðstæður í […] í greinargerð kæranda, og þá einkum í tengslum við tjáningarfrelsi. Kemur m.a. fram að í alþjóðlegum skýrslum segi að einstaklingar sem hafi verið handteknir og saksóttir í tengslum við pólitískt andóf hafi ekki fengið réttlát réttarhöld. Þá sæti venjulegir borgarar sem tjái skoðanir sínar sem séu í andstöðu við stefnu stjórnvalda mismunun, áreiti og líkamlegu ofbeldi. Pólitísk morð, sýndarréttarhöld og útlegð séu sá veruleiki sem bíði þeirra sem þori að gagnrýna stjórnvöld í […]. Áætlað sé að mikill fjöldi samviskufanga sé í haldi í […] fangelsum. Ritstjórnarstefna flestra ljósvakamiðla sé í takt við skoðanir yfirvalda, lokað hafi verið á þúsundir vefsíðna sem séu stjórnvöldum ekki að skapi og sjálfstæðir fjölmiðlar sæti ofsóknum. Þá sé funda- og félagafrelsi fótum troðið og mótmæli fari minnkandi og séu orðin fátíð vegna umfangsmikilla opinberra takmarkana. Umfangsmikil spilling einkenni jafnframt allar greinar hins opinbera geira.

Kærandi áréttar að hann óttist pólitískar ofsóknir stjórnvalda í sinn garð. Hann hafi verið virkur í baráttu fyrir ýmiss konar […], en einkum fyrir […]. Kærandi bendir á að á lista yfir samviskufanga sem […] mannréttindasamtök gefi út sé ekki einungis að finna einstaklinga sem fari fyrir eða gegni ábyrgðarhlutverki í samtökum sem berjist gegn yfirvöldum. Margir sitji inni fyrir það eitt að hafa nýtt tjáningar- og fundafrelsi sitt. Kærandi ítrekar að ekki þurfi að sýna fram á að stjórnvöld í heimalandi hafi þekkt til skoðana manns áður en hann yfirgaf landið og jafnvel geti hann hafa leynt skoðunum sínum og aldrei orðið fyrir mismunun eða ofsóknum. Þetta undirstriki að stjórnmálaskoðanir sem slíkar séu ákvörðunarástæða við mat á umsókninni en ekki hvort einstaklingur hafi gegnt leiðtogastöðu í því pólitíska starfi sem hann hafi tekið þátt í eða hvort hann hafi verið sérstaklega áberandi í starfinu.

Kærandi telur ljóst að stjórnarandstæðingar séu í afar hættulegri stöðu í […] og lifi í stöðugum ótta um líf sitt. Gildi þar einu hvort einstaklingur sé háttsettur stjórnarandstöðuleiðtogi eða virkur meðlimur í samtökum sem minna beri á. Telur kærandi að endursending hans myndi brjóta í bága við 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Kærandi vísar til þess að Útlendingastofnun sé bundin af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bendir kærandi jafnframt á að leiki vafi á því hvort að kærandi muni njóta þeirrar verndar sem hann þarfnist vegna stöðu sinnar í heimalandi, beri íslenskum stjórnvöldum að túlka þann vafa kæranda í vil og veita honum vernd hér á landi.

Kærandi sé jafnframt […], en […] tilheyri minnihlutahópi […] í […]. Af þeim […] sem búi í […] telji […] einungis rétt um […]. Þeir séu jafnframt í minnihluta í […] þar sem þeir nemi um […] íbúa. Kærandi hafi tvívegis orðið fyrir alvarlegri árás vegna kynþáttar síns, en til viðbótar hafi hann óteljandi sinnum flúið undan slíkum árásum og þurft að þola alls kyns mismunun, aðkast og niðurlægingu.

Kærandi kveður að ljóst sé af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin geri sér grein fyrir þeim alvarlegu og víðtæku mannréttindabrotum sem stjórnvöld standi fyrir gagnvart minnihlutahópum í […]. Vísar kærandi í tilteknar málsgreinar í ákvörðun stofnunarinnar þessu til stuðnings. Þrátt fyrir þetta hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ekkert renni stoðum undir það að minnihlutahópar fái almennt ekki vernd lögreglu í […]. Kærandi eigi að geta leitað eftir aðstoð hjá yfirvöldum. Útlendingastofnun hafi komist að þessari niðurstöðu án nokkurs rökstuðnings eða heimildatilvísana sem hreki það sem áður hafi komið fram í ákvörðuninni og áreiðanlegar heimildir herma. Kærandi geti einfaldlega leitað til lögreglu í sínu heimaríki eftir vernd, og að ekkert renni stoðum undir annað. Telur kærandi að þessi málflutningur af hálfu stofnunarinnar verði að teljast alvarlega mótsagnakenndur og í raun fráleitur. Það sé ljóst af heimildum þeim sem stofnunin sjálf vísi til að kæranda sé ekki vært í landinu vegna kynþáttar síns.

Kærandi áréttar að rekja megi flótta hans frá heimalandi m.a. til ótta hans við að verða ofsóttur af hálfu […] stjórnvalda vegna pólitískra skoðana hans og þátttöku í […]. Í ljósi þess hvernig túlka beri „ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana“ í þágildandi 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af því sem komi fram í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna telur kærandi fulljóst að aðstæður hans falli þar undir.

Í tengslum við möguleikann á flutningi innanlands bendir kærandi á að þær ofsóknir sem hann óttist séu ýmist af hendi yfirvalda í […] eða umbornar af þeirra hálfu. Fullvíst megi því vera að yfirvöld hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd og að flótti kæranda innanlands til að leita sér verndar sé ekki mögulegur.

Varðandi varakröfu sína um viðbótarvernd skv. þágildandi 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga bendir kærandi m.a. á að ljóst sé af umfjöllun í greinargerð hans að hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð og að lífi hans yrði stofnað í hættu verði honum gert að snúa aftur til […]. Í ljósi þess að hann óttist m.a. yfirvöld geti hann eðli málsins samkvæmt ekki leitað verndar hjá stjórnvöldum þar í landi.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli þágildandi 12. gr. f laga um útlendinga kemur m.a. fram í greinargerð hans að í sérstökum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breytingu á þágildandi lögum um útlendinga, segi að ekki sé um tæmandi talningu að ræða í 12. gr. f laganna á forsendum dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þar sem veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni. Taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna s.s. almennra aðstæðna í heimalandi hælisleitanda, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð.

Í tengslum við mat á trúverðugleika bendir kærandi á að hér á landi hafi ekki verið gerð sú krafa til umsækjenda um alþjóðlega vernd að þeir leggi í öllum tilvikum fram gögn sem staðfesti frásögn þeirra. Umsækjendur frá […], […], […] og […] séu alla jafna ekki krafðir um nein gögn til stuðnings frásögn þeirra, enda nær ómögulegt fyrir fólk að leggja fram slík gögn. Um þetta sé fjallað í skýrslu Flóttamannstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um trúverðugleikamat í hælismálum. Jafnframt komi þar m.a. fram að ekki verði litið svo á að umsækjendur um hæli þurfi að færa sönnur á hvert einasta atriði í frásögn sinni með framlagningu gagna. Kærandi vekur athygli á því að samkvæmt 3. mgr. 50. gr. þágildandi laga um útlendinga skuli Útlendingastofnun af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga vegna málsmeðferðar hælisumsóknar. Afgreiðsla stofnunarinnar sé ennfremur háð málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.m.t. 10. og 22. gr. laganna. Jafnframt skuli Útlendingastofnun í hverju máli framkvæma einstaklingsbundið mat á aðstæðum hvers umsækjanda um hæli með tilliti til þess hvort ákvörðun í máli hans uppfylli kröfur laga og alþjóðlegra skuldbindinga um verndun mannréttinda.

Í viðbótarathugasemdum kæranda áréttar hann að hvergi í hinni kærðu ákvörðun hafi verið tekið á þeim grundvelli umsóknar hans að hann hafi verið virkur í stjórnmálabaráttu í heimalandi. Kærandi vekur athygli á því að Útlendingastofnun hafi ekki farið fram á neina frekari gagnaöflun eða skýringar á stjórnmálaþátttöku kæranda við vinnslu málsins hjá stofnuninni. Auk þess bendir kærandi á að í janúar 2016 hafi hann opnað […]. Kærandi hafi í nokkurn tíma verið innblásinn af stöðu […]. Í desember sl. hafi síðan borist bréf á heimili móður kæranda í […]. Kærandi eigi nú [...] vegna stjórnmálaskoðana, þó að einnig sé með öllu óvíst að þar myndi við sitja, miðað við meðferð […] stjórnvalda á þeim sem vogi sér að gagnrýna stjórnvöld þar í landi.

Með frekari viðbótarathugasemdum kæranda til kærunefndar, dags. 9. mars, fylgdu m.a. skjáskot af samfélagssíðum kæranda. Kærandi tekur fram í athugasemdunum að honum sé ekki með öllu ljóst hvert sé nákvæmt tilefni […], en að hann telji þær færslur sem hann hafi gert á samfélagsmiðlum nóg tilefni fyrir […] stjórnvöld til þess að hefja ofsóknir gegn borgurum sínum.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram […] vegabréf sitt til að sanna á sér deili. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldra með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Samkvæmt gögnum máls hefur kærandi verið greindur með […]. Tekur meðferð málsins mið af því.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: […].

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þar með talið frelsi til tjáningar á internetinu. Ýmis umræðuefni á internetinu, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og jafnvel fangelsisvistar. Ríkið eigi stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og hafi töluverð áhrif á það sem þar komi fram.

Löggjöf landsins kveði jafnframt á um bann við mismunun á grundvelli m.a. kyns, þjóðernis og trúar, en því banni sé ekki alls staðar framfylgt af stjórnvöldum. Mismunun sé m.a. að finna á vinnumarkaðnum. Samkvæmt lögum ríki trúfrelsi í landinu og sé það almennt virt af stjórnvöldum, þó að […] njóti ákveðinnar velvildar stjórnvalda. Í löggjöf landsins megi jafnframt finna ákveðnar takmarkanir á starfsemi trúarlegra samtaka […].

Í landinu sé til staðar félagslegt kerfi sem ætlað sé að tryggja þeim einstaklingum aðstoð sem á þurfi að halda. Mismunandi geti þó verið eftir svæðum landsins hversu auðvelt sé að sækja um og fá slíka aðstoð. Aðgangur að heilbrigðiskerfinu sé jafnframt tiltölulega greiður, en kostnaður við lyf geti verið mikill.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi ber fyrir sig að hann hafi sætt ofsóknum á grundvelli kynþáttar síns. Hann hafi jafnframt sætt pólitískum ofsóknum auk þess sem hann hafi sætt ofsóknum á grundvelli trúarbragða. Þá hafi hann greinst með ólæknandi sjúkdóma, þ.e. […].

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geta ofsóknir m.a. falist í:

a.   andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi,

b. löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla sem fela í sér mismunun að efni eða vegna þess hvernig þær eru framkvæmdar,

c.   saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli,

d. synjun um notkun réttarúrræða sem leiðir til óhóflegrar og mismunandi refsingar,

e.   saksókn eða refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum þar sem þátttaka í slíkri herþjónustu mundi fela í sér glæpi eða athafnir skv. b-lið 2. mgr. 40. gr.

Í 3. mgr. 38. gr. eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar en þar segir:

a.   kynþáttur vísar einkum til hópa sem deila húðlit eða öðrum sameiginlegum líffræðilegum einkennum og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna og ber að túlka í víðri merkingu,

b. trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsis til að skipta um trú,

c.   þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,

d. þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega stöðu eða hefur sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir, svo sem kyngervi, sem eru svo mikilvæg fyrir sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt, eða hóps fólks sem er álitinn frábrugðinn öðrum í samfélaginu; þá skulu fyrrverandi fórnarlömb mansals teljast meðlimir tiltekins þjóðfélagshóps,

e.   stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í hans umhverfi eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talin hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Geneva 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussels 2013).

Kærandi kveðst hafa orðið fyrir pólitískum ofsóknum í heimalandi sínu m.a. vegna þess að hann hafi verið virkur í starfsemi tiltekinna […] í […], auk þess sem hann hafi tjáð sig á netmiðlum um réttarstöðu fólks í heimalandi hans. Kærandi kveðst jafnframt hafa orðið fyrir ofsóknum í […] vegna kynþáttar síns, af hendi samborgara sinna og í skjóli aðgerðarleysis stjórnvalda þar í landi. Hann hafi einnig orðið fyrir ofsóknum vegna trúar sinnar, en hann sé […].

Kærunefnd telur ljóst af þeim gögnum sem nefndin hefur skoðað að töluverðar takmarkanir séu á tjáningarfrelsi í heimalandi kæranda, sérstaklega þegar um er að ræða gagnrýni á stjórnvöld í landinu. Frjáls félagasamtök í landinu hafi ekki farið varhluta af þessum takmörkunum og hafi starfsemi margra samtaka verið heft að miklu leyti með setningu takmarkandi laga. Kærandi kveður að hann hafi unnið fyrir […] að nafni […] og að starf þeirra samtaka hafi að mestu leyti snúist um vernd […]. Ekkert í málinu eða í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað hefur þó gefið til kynna að kærandi, í störfum sínum fyrir samtökin, eða samtökin sjálf hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Kærunefnd telur að með hliðsjón af framburði kæranda og þeim gögnum sem hann hefur lagt fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á með nægilega skýrum hætti að hans bíði ofsóknir í heimalandi á grundvelli pólitískra skoðana. Að mati kærunefndar verður heldur ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir pólitískum ofsóknum eða eigi á hættu að verða fyrir slíkum ofsóknum af öðrum ástæðum, m.a. vegna tjáningar á netmiðlum. [...] í heimalandi breyti ekki þeirri niðurstöðu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi tvívegis hafa orðið fyrir árás vegna kynþáttar síns í heimalandi. Í kjölfarið hafi kærandi leitað til lögreglu, en ekki fengið viðeigandi aðstoð. Kærandi hafi jafnframt þurft að þola ýmislegt annað áreiti vegna kynþáttar síns. Kærunefnd tekur fram að samkvæmt gögnum sem nefndin hefur farið yfir hafi þjóðernisminnihlutahópar orðið fyrir nokkurri mismunun af hálfu stjórnvalda. Jafnframt hafi slíkir minnihlutahópar orðið fyrir áreiti og árásum af hálfu ákveðinna þjóðernissinnaðra öfgahópa í landinu. Stjórnvöld hafi þó reynt að sporna við slíku, m.a. með auknum þrýstingi á slíka öfgahópa af hálfu löggæslunnar. Með tilliti til gagna málsins og framburðar kæranda er það mat kærunefndar að þau atvik og og áreiti sem kærandi hafi lýst, sem og aðgerðarleysi lögreglu, nái ekki því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur jafnframt, á grundvelli gagna málsins, að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir á þessum grundvelli. 

Kærandi telur að hann eigi á hættu ofsóknir vegna þess að hann sé […]. Kærandi hefur þó ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir slíkum ofsóknum. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað ekki til þess að þeir sem séu […] eigi á hættu að verða ofsóttir í […], þó að einstök tilvik sem beinist að […] hafi komið upp í landinu. Kærunefnd telur því kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli trúarbragða sinna.

Með hliðsjón af ofangreindu telur kærunefnd ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimalands síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Framkvæmd brott- eða frávísunar veiks einstaklings getur talist ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er það einungis í afar sérstökum málum sem aðstæður veikra einstaklinga ná alvarleikaþröskuldi ákvæðisins, n.t.t. aðstæður þar sem sýnt hefur verið fram á að skortur á viðeigandi læknismeðferð í móttökuríki, eða skortur á aðgengi að slíkri meðferð, geri einstakling útsettan fyrir alvarlegri, hraðri og óafturkræfri hnignun á heilsufari sem leitt getur til mikillar þjáningar eða verulegrar skerðingar á lífslíkum, sbr. Paposhvili gegn Belgíu (mál nr. 41738/10) frá 13. desember 2016. Eins og fram hefur komið þjáist kærandi af heilsufarskvillum, þ.e. […]. Á grundvelli þeirra heimilda sem kærunefnd hefur kynnt sér telur nefndin að kærandi komi til með að hafa aðgang að almenna heilbrigðiskerfinu í […], þó að kostnaðarsamt geti verið að nálgast lyf ef ákveðið er að hefja meðferð. Er það niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til […] feli því ekki í sér brot á 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaland kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að ákvæði 1. mgr. 74. gr., samkvæmt hljóðan þess, heimili ekki skýrlega veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn ákvæðisins og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Þá kemur fram í sömu málsgrein að ákvæði þessu megi aðeins beita ef útlendingur er staddur hér á landi og að skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimalandinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í læknisvottorði sem kærandi skilaði inn, dags. 30. maí 2016, kemur fram að kærandi hafi verið greindur með […]. Jafnframt kemur þar fram að hvorki séu merki um […]. Þá hafi […] verið innan eðlilegra marka. Ljóst er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað að kærandi hafi aðgang að almenna heilbrigðiskerfinu í […], enda […] ríkisborgari, og geti því leitað þangað vegna veikinda sinna. Sú staðreynd að kostnaður vegna lyfja geti verið mikill breyti ekki þeirri niðurstöðu. Er það því mat kærunefndar að aðstæður og atvik í máli hans nái ekki því alvarleikastigi sem gerð er krafa um við veitingu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og eigi því ekki rétt á alþjóðlegri vernd. Þegar gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimalandi, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun, að aðstæður hans í heimalandi séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við að hvergi í hinni kærðu ákvörðun hafi verið tekið á þeim grundvelli umsóknar hans að hann hafi verið virkur í stjórnmálabaráttu í heimalandi.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á því hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlunin er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og telur ekki að slíkur ágalli sé á rannsókn Útlendingastofnunar við úrlausn málsins þannig að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi af ofangreindum ástæðum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi m.a. verið spurður út í stjórnmálaþátttöku sína í heimalandi. Þá hafi hann verið spurður út í ástæður þess að hann flúði frá heimalandi. Telur kærunefnd að svör hans hafi ekki gefið tilefni til frekari rannsóknar af hálfu Útlendingastofnunar, enda hafi þau ekki gefið til kynna að kærandi hafi flúið heimaland sitt vegna stjórnmálaskoðana. Þá hafi önnur gögn máls ekki bent til slíkrar málsástæðu. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 


 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Pétur Dam Leifsson