Kærunefnd útlendingamála - úrskurðir

14.2.2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 104/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16120002

 

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. janúar 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. nóvember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd frá [...], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna á Ítalíu og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 en kæra barst að liðnum 15 daga kærufresti, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga. Talsmaður kæranda hefur gert kærunefnd grein fyrir ástæðum þess að kæran barst ekki innan kærufrests. Kærunefnd telur afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður málið því tekið til meðferðar.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 4. október 2016. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 20. október 2016 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þann 20. nóvember 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 3. janúar 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa án kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar þann 2. desember 2016. Með bréfi, dags. 2. desember 2016, féllst kærunefnd á frestun réttaráhrifa meðan málið væri til meðferðar. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 19. janúar 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til b-liðar 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. nú a-lið 1. mgr. 36. gr laga nr. 80/2016 um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Ítalíu.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig bágar aðstæður á Ítalíu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Var það mat Útlendingastofnunar að 45. gr. þágildandi laga útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Ítalíu. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna á Ítalíu þar sem kærandi sem ríkisborgari [...] gæti ekki á rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna á Ítalíu. Þá var kæranda synjað og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti jafnframt kæranda að kæra frestaði ekki framkvæmd ákvörðun hennar með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun um að líf hans á Ítalíu hafi verið ömurlegt og að hann hafi þurft að framfleyta sér með betli. Kærandi hafi ekki fengið neinn stuðning frá ítölskum yfirvöldum eftir að hann hafi fengið viðbótarvernd og fyrir vikið gert ómögulegt að aðlagast ítölsku samfélagi. Þá hafi kærandi upplifað fordóma í sinn garð.

Í framhaldinu er gerð grein fyrir ýmsum atriðum er varða aðstæður, aðbúnað og réttarstöðu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Ítalíu. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum þurfi þeir, sem fengið hafi alþjóðlega vernd í landinu, að bjarga sér alfarið sjálfir án nokkurrar fjárhags- eða félagsaðstoðar og endi gjarnan á götunni. Atvinnuleysi sé mikið á Ítalíu og flóttafólk geti í besta falli fundið vinnu á svörtum markaði, þar sem það sé berskjaldað fyrir misneytingu og óréttlæti. Þá sé gríðarlega erfitt fyrir einstaklinga sem hlotið hafi alþjóðlega vernd að verða sér úti um húsnæði á Ítalíu og aðgangur að móttökumiðstöðvum í hæliskerfinu sé afar takmarkaður, auk þess sem aðstaða þar fari versnandi. Kærandi byggir á því á að félagslega kerfið á Ítalíu sé veikburða og að þau úrræði sem séu til staðar fyrir flóttafólk séu fjársvelt. Til að mynda séu engar mánaðarlegar félagslegar bætur greiddar út til fólks. Flóttamenn hafist margir hverjir við í hreysum og óformlegum byggðum án aðgangs að vatni eða rafmagni. Afar erfitt sé fyrir einstaklinga sem hlotið hafi vernd að aðlagast ítölsku samfélagi í ljósi framangreindra atriða og þá telji Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna litla möguleika á aðlögun afar stórt vandamál í ítölsku hæliskerfi.

Kærandi telur ljóst að ítölsk stjórnvöld geti ekki tryggt honum þau réttindi sem þeim beri skylda til að tryggja honum svo hann geti lifað mannsæmandi lífi samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum sem ítalska ríkið er bundið af. Þá byggir kærandi á því að kynþáttahatur og mismunun á grundvelli kynþáttar sé vaxandi vandamál á Ítalíu og að andúð ríki í garð flóttamanna. Af því sem rakið hafi verið um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu megi færa sterk rök fyrir því að þær aðstæður sem kærandi megi búast við á Ítalíu, t.a.m. varðandi mögulega á atvinnu, húsnæði og félagslegri þjónustu, séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt sjálfstæða rannsókn á þeim aðstæðum sem bíði hans, verði hann sendur til Ítalíu, og hvort þær aðstæður standist ákvæði tilskipunar 2011/95/ESB. Ákvæði tilskipunarinnar leggi ýmsar skyldur á herðar ítalska ríkinu, t.d. í tengslum við aðgengi viðurkenndra flóttamanna að atvinnu, félagslegri aðstoð og húsnæði.

Kærandi vísar í greinargerð til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 þar sem kveðið er á um að stjórnvöld skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því. Að mati kæranda séu aðstæður hans þess eðlis að á stjórnvöldum hvíli skylda til þess að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Í greinargerð fjallar kærandi um athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 80/2016 en þar kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé vísað til þess að einstaklingar geti verið í viðkvæmri stöðu, t.d. vegna mismununar í móttökuríki á grundvelli kynþáttar. Þá segir að í málum sem varði endursendingar útlendinga til þriðja ríkis skuli fara fram ítarlegt mat á aðstæðum viðkomandi útlendings og aðstæðum og ástandi í móttökuríki.

Í niðurstöðum Mannréttindadómstóls Evrópu hafi komið fram að aðildarríki mannréttindasáttmála Evrópu beri ólíkar skyldur gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd og einstaklingum með alþjóðlega vernd. Hins vegar sé síðarnefndi hópurinn einnig sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur og ekki ástæða til að greina á milli hópanna við mat á því hvort skilyrðum 3. gr. mannréttindasáttmálans sé fullnægt. Að mati kæranda jafnist aðstæður á Ítalíu á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá heimaríki hans [...] og vísa honum frá landinu. Í málinu liggur fyrir að kæranda hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu en hann hefur lagt fram ítalskt dvalarleyfi fyrir handhafa viðbótarverndar sem er gilt til 29. maí 2021.

Í 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður að hafa hliðsjón af 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður á Ítalíu brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Ítalíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·        2015 – Country Reports on Human Rights Practices – Italy (United States Department of State, 13. apríl 2016),

·        UNHCR Recommendations on Important aspects of refugee protection in Italy (UNHCR, júlí 2013),

·        Asylum Information Database, National Country Report: Italy (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015),

·        Reception conditions in Italy: Report on the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016),

·        Report on the reception of migrants and refugees in Italy. Aspects, procedures, problems (Ministero Dell'Interno, Rome, október 2015),

·        ECRI report on Italy (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, júní 2016),

·        Endursendingar hælisleitenda til Ítalíu, greinargerð innanríkisráðuneytisins í desember 2015 (Innanríkisráðuneytið, desember 2015) og

·        Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014).

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk yfirvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Samkvæmt ofangreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur stofnunin meðal annars gagnrýnt skipulag og bolmagn ítalsks hæliskerfis til að taka við skyndilegu og verulegu flæði flóttamanna til landsins. Þá er greint frá vanköntum á aðlögun einstaklinga með alþjóðlega vernd að ítölsku samfélagi. Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafi alþjóðlega vernd á Ítalíu eigi ekki rétt á þeim stuðningi sem umsækjendum um alþjóðlega vernd sé veittur enda sé gert ráð fyrir því að einstaklingar sjái fyrir sér sjálfir eftir að þeim hafi verið veitt alþjóðleg vernd. Þegar einstaklingi með alþjóðlega vernd sé vísað aftur til Ítalíu eigi hann rétt á því að gista í svonefndum SPRAR móttökumiðstöðvum fyrir flóttamenn að því gefnu að viðkomandi hafi ekki fullnýtt heimild til dvalar þar og að laust pláss sé til staðar. Þó kemur fram að takmarkað framboð sé af gistirýmum í SPRAR móttökumiðstöðvum. Sveitarfélög, frjáls félagasamtök og trúfélög í Róm og Mílan bjóði upp á einhverja aðstöðu til gistingar en þar sem gistirými séu af skornum skammti séu margir einstaklingar með vernd heimilislausir eða búi í yfirgefnum byggingum. Í skýrslunum er greint frá því að atvinnuleysi sé mikið á Ítalíu og að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi í miklum erfiðleikum með að fá atvinnu. Þar að auki sé afar takmarkaður möguleiki á því að fá bætur frá félagsmálayfirvöldum. Af skýrslunum má ráða að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna þekkist á Ítalíu en að yfirvöld hafi gripið til aðgerða til að sporna við kynþáttafordómum og mismunun á grundvelli kynþáttar, m.a. með lagasetningu. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn flutningi einstaklinga með alþjóðlega vernd til Ítalíu.

Kærandi er ungur, einstæður karlmaður [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hefði ekki haft atvinnu á Ítalíu og hefði framfleytt sér með betli. Bar kærandi því við að hann myndi búa á járnbrautarstöð ef hann yrði sendur aftur til Ítalíu. Að mati kæranda njóti [...] ekki sama réttar og aðrir á Ítalíu og verði fyrir fordómum vegna kynþáttar. Aðspurður um heilsufar kvaðst kærandi glíma við [...] . Þá sagði kærandi andlega heilsu sína vera fína en [...]. Engin læknisvottorð hafa verið lögð fram fyrir kærunefnd um heilsufar kæranda. Kærunefnd telur að aðstæður kæranda séu ekki þess eðlis að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu málsins, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi m.a. fært fram sjónarmið um að þær aðstæður sem hann megi búast við á Ítalíu falli undir ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að senda hann til landsins í ljósi ákvæða 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 2. apríl 2013 lýsti Mannréttindadómstóll Evrópu kæru í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (máli nr. 27725/10) ótæka á þeim grundvelli að sú meðferð sem kærandi hlaut, bæði sem umsækjandi um alþjóðlega vernd og einstaklingur sem hlotið hafði vernd, gæti ekki talist brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Var það mat dómstólsins að ekki væri hægt að gera þá kröfu til aðildarríkja sáttmálans að sjá öllum flóttamönnum fyrir heimili eða fjárhagsaðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum. Kæranda málsins hefði staðið til boða ýmis þjónusta við komuna til landsins og eftir að vernd hefði verið veitt myndi hún enn standa henni til boða. Jafnframt hefði kærandi ýmis réttindi samkvæmt ítölskum lögum líkt og ítalskir ríkisborgarar. Dómstóllinn tók fram að ýmis vandamál hefðu risið í tengslum við aðstæður flóttamanna á Ítalíu. Hins vegar væru þau ekki kerfislæg og að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefði fjallað um ýmsar framfarir í þeim tilgangi að laga galla í kerfinu. Í ljósi þess var kæran lýst ótæk til meðferðar og vísað frá.

Af fyrrnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að aðstæður kæranda sem einstaklings með alþjóðlega vernd, að því leyti sem þær lúta að skorti á húsnæði og fjárhagslegum stuðningi frá yfirvöldum á Ítalíu, verða ekki taldar til ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefnd hefur jafnframt lagt mat á aðstæður kæranda á Ítalíu að öðru leyti með þeirri niðurstöðu að þær verði ekki felldar undir ákvæði 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefndin komist að þeirri niðurstöðu að kærandi sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem hafi áhrif á niðurstöðu málsins.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar, þegar horft er til aðstæðna einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu og aðstæðna kæranda í heild sinni, að kærandi eigi ekki í yfirvofandi hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð á Ítalíu í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann sendur þangað. Þá benda gögn til þess að telji kærandi sig í hættu eða öryggi hans ógnað á Ítalíu geti hann leitað til lögregluyfirvalda í landinu. Það er því niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Ítalíu feli ekki í sér brot á 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 13. gr. sáttmálans.

Þá er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. október 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann.

Fyrir liggur að kæranda hefur verið veitt viðbótarvernd á Ítalíu. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá heimaríki sínu, [...], og senda kæranda til Ítalíu með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, sem tekin var í gildistíð eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, var fjallað um rétt kæranda til þess að fá alþjóðlega vernd vegna aðstæðna á Ítalíu og komist að þeirri niðurstöðu að hann, sem ríkisborgari [...], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna á Ítalíu þar sem hann hafði hlotið stöðu flóttamanns. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 12. gr. f laganna.  

Í 74. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í lokamálslið 1. mgr. 74. gr. laganna segir að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. Kærunefnd telur ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna á Ítalíu þar sem hann er ríkisborgari [...]. Samkvæmt framansögðu og í ljósi lagaskilareglu 121. gr. laga nr. 80/2016 telur kærunefnd ekki skilyrði að lögum til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða til handa kæranda, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.  

Ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við rannsókn Útlendingastofnunar á aðstæðum einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað um rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og þar m.a. vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga um að stofnuninni beri að afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga og sjá til þess að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Af ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að Útlendingastofnun bar að rannsaka aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu í því skyni að afla fullnægjandi upplýsinga um það hvort fyrirsjáanlegar aðstæður kæranda þar í landi væru slíkar að þær væru í bága við ákvæði 1. mgr. 42. gr. útlendingalaga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er aftur á móti enga umfjöllun eða tilvísun að finna til alþjóðlegra skýrslna er varpað gætu ljósi á aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu. Af rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar er því ekki ljóst hvort meðferð málsins uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknar málsins samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

Til þess er þó að líta að samkvæmt fordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísað er til í ákvörðun Útlendingastofnunar, verða aðstæður kæranda á Ítalíu að því er varðar yfirvofandi heimilisleysi og skort á fjárhagslegum stuðningi ekki felldar undir ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem ómannleg eða vanvirðandi meðferð, líkt og kærunefnd hefur einnig komist að niðurstöðu um. Þá er það mat kærunefndar, m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum skýrslum, að aðstæður kæranda á Ítalíu séu að öðru leyti ekki þess eðlis að komist verði að annarri niðurstöðu en Útlendingastofnun. Þrátt fyrir að annmarki sé því að framangreindu leyti á rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar er það mat kærunefndar, með vísan til forsendna nefndarinnar sem raktar hafa verið hér að framan, að ekki sé tilefni til að fella ákvörðun stofnunarinnar úr gildi af þeim sökum.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                                       Þorbjörg I. Jónsdóttir