Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 85/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. júlí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 85/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15020003

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru, sem barst kærunefnd útlendingamála þann 2. febrúar 2015, kærði […] hdl., f.h. […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi. Til vara gerir kærandi þá kröfu að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæra fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sótti kærandi fyrst um […] þann 19. janúar 2012. Útlendingastofnun synjaði þeirri umsókn og lauk málinu með[…]. Kærandi sótti síðan um dvalarleyfi fyrir maka Íslendings þann 28. ágúst 2014 en var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 15. janúar 2015.

 Síðastnefnd ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála með tölvupósti, dags. 2. febrúar 2015. Samdægurs óskaði kærunefndin eftir gögnum málsins og athugasemdum Útlendingastofnunar. Stofnunin hafði engar athugasemdir fram að færa vegna málsins. Greinargerð kæranda barst nefndinni þann 19. mars 2015.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna meðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði d-liðar 11. gr. útlendingalaga, þar sem fyrir liggi atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt ákvæðum útlendingalaga. Útlendingastofnun byggir á því að skv. 20. gr. útlendingalaga sé heimilt að vísa útlendingi úr landi ef […]. Þá byggir stofnunin á […] 18. gr. útlendingalaga, þar sem heimilað er að vísa útlendingi úr landi við komu til landsins ef hann hefur […] 1. mgr. 20. gr. útlendingalaga.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi byggir kröfu sína á því að hann sé giftur íslenskum ríkisborgara og líta verði til þess að hann og eiginkona hans eigi rétt á friðhelgi einkalífs skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Krafa kæranda byggir einnig á því að synjun umsóknar hans um dvalarleyfi sé í andstöðu við mannréttindasáttmála Evrópu eins og hann hefur verið lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994 og vísar kærandi sérstaklega til 8. gr. sáttmálans um réttinn til friðhelgis einkalífs.

 Kærandi telur að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn ákvæði 3. mgr. 21. gr. útlendingalaga. Þar sé kveðið á um að ekki skuli brottvísa útlendingi ef slík aðgerð feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Ljóst sé að synjun á dvalarleyfi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda og eiginkonu hans.

 Þá byggir kærandi einnig á því að skilyrði 11. gr. útlendingalaga séu ekki ófrávíkjanleg líkt og haldið er fram í ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá                 28. ágúst 2014 um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Í 13. gr. útlendingalaga og 47. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, ásamt síðari breytingum er að finna heimild til að veita nánustu aðstandendum íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum grunnskilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. útlendingalaga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. útlendingalaga ásamt grunnskilyrðum 11. gr. útlendingalaga.

 Í 13. gr. kemur fram að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 12. gr., 12. gr. b og 12. gr. f eða á grundvelli búsetuleyfis geti samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi. Nánustu aðstandendur í skilningi 13. gr. útlendingalaga, eru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri. Fyrir liggur í málinu að kærandi uppfyllir hin sérstöku skilyrði 13. gr. útlendingalaga.

 Ákvæði d-liðar 1. mgr. 11. gr. útlendingalaganna innheldur eitt af grunnskilyrðum dvalarleyfis sem er að „ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna“. Samkvæmt […] 18. gr. útlendingalaga er heimilt að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef […] 20. gr. eða […] 1. mgr. 20. gr. a útlendingalaga. Samkvæmt […] 20. gr. útlendingalaga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef […]. […] 1. mgr. 20. gr. a útlendingalaga er heimilt að vísa útlendingi sem dvelst hér á grundvelli dvalarleyfis úr landi ef […].

 Kærandi var hinn […]. Kærandi uppfyllir því ekki eitt af grunnskilyrðum dvalarleyfis skv. 11. gr. útlendingalaga.  

 Kærandi byggir einnig á því að í málinu hafi verið brotið gegn ákvæðum 3. mgr. 21. gr. útlendingalaga. Í ákvæðinu er fjallað um brottvísun útlendings og segir það að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Í máli því sem hér er til umfjöllunar er kærandi ekki staddur á landinu og því ekki um brottvísun að ræða. Ákvæði 3. mgr. 21. gr. útlendingalaga á þ.a.l. ekki við í máli kæranda. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu kæranda.

 Líkt og kærandi bendir á er í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 kveðið á um rétt manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Sá réttur er jafnframt tryggður í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Skylda ríkisins til að virða, vernda og tryggja réttinn til einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans, metin í þessu ljósi, felur ekki í sér almenna skyldu til að virða val hjóna eða sambúðarfólks á dvalarríki. Þá felur 8. gr. sáttmálans almennt ekki í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn erlends maka um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu (sjá t.d. Antwi ofl. gegn Noregi, dómur mannréttindadómstóls Evrópu, 12. febrúar 2012 og Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi, dómur mannréttindadómstóls Evrópu, 28. maí 1985). Ekki verður séð að tilgangur 71. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið að útvíkka gildissvið friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu umfram inntak 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þegar kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara var hann búsettur erlendis. Umsókn hans um […] hafði þegar verið vísað frá á grundvelli […] og hann hefði mátt vita að forsenda þess að hann gæti búið með eiginkonu sinni á Íslandi væri heimild íslenskra stjórnvalda til dvalar hans á landinu. Kærandi og maki hans […]. Verður samkvæmt ofangreindu ekki talið að höfnun á dvalarleyfi kæranda brjóti á rétti kæranda eða maka hans til friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu skv. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

 Með vísan til ofangreinds er það mat kærunefndar að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi hér á landi.

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2015, um að synja […], fd. […], ríkisborgara […], er staðfest.

 The decision of the Directorate of Immigration, of 15 January 2015, in the case of […], DOB […], citizen of […], regarding the denial of residence permit is affirmed.

 

                                                                              Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Pétur Dam Leifsson

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum