Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 174/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA


Þann 17. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 174/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15090005


 Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

1. Kröfur, kærufrestir og  kæruheimild

Þann 4. september 2015 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. ágúst 2015, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Frakklands.                                                         

 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli  1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 (hér eftir lög um útlendinga) og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

2. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 29. apríl 2015. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 30. apríl 2015, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í gagnagrunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 27. maí 2015 var beiðni um viðtöku kæranda beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 3. júlí 2015 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 31. ágúst 2015 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Frakklands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 4. september sl. auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 24. september 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefndinni 7. október 2015. Þann 29. október sl. kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið  til úrskurðar.

3. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar, dags. 31. ágúst 2015, var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Frakklands. Lagt var til grundvallar að Frakkland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

4. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðbúnað og húsnæði hælisleitenda í Frakklandi og í því sambandi m.a. vísað til eftirfarandi skýrslna: Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exciles, 26. janúar 2015) og France: Migrants, Asylum Seekers Abused and Destitute (Human Rights Watch, 20. janúar 2015). Þar komi fram að skortur sé á móttökumiðstöðvum í Frakklandi sem leitt geti til þess að margir hælisleitendur þurfi að gista á götum úti eða reiða sig á næturskýli. Þannig hafi franska hæliskerfið glímt við kerfisbundinn skort á gistirýmum fyrir hælisleitendur á árunum 2013 og 2014. Fjöldi móttökustaða fyrir hælisleitendur sé því ekki nægjanlegur til að veita öllum þeim hælisleitendum húsaskjól sem eiga rétt á því skv. nýrri tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2013/33 sem tók gildi 21. júlí á þessu ári. Einnig er bent á að ekkert formlegt fyrirkomulag sé á móttöku og greiningu sérstaklega viðkvæmra einstaklinga og að hælisleitandi þurfi sjálfur að senda inn umsókn um að fá sérstaka meðferð á grundvelli viðkvæmrar stöðu. Fyrrgreind tilskipun kveði á um að stjórnvöld beri skyldu til þess að sinna þörfum þeirra sem eru sérstaklega berskjaldaðir, svo sem vegna sjúkdóms. Þá er vísað til þess að aðstæður hælisleitenda í Frakklandi séu sambærilegar aðstæðum sem voru til skoðunar í dómi mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi.

Vikið er að sérstöðu kæranda sem […] og að taka skuli tillit til þess við mat á umsókn hans um hæli. Fram kemur að um […] sé að ræða sem geti leitt til frekari vandamála fyrir kæranda, sé hann ekki meðhöndlaður. Þá er því haldið fram að af rökstuðningi Útlendingastofnunar megi sjá að mál kæranda hafi ekki verið skoðað ofan í kjölinn og aðstæður hans ekki kannaðar með viðhlítandi hætti og með tilliti til sérstöðu hans vegna […]. Í lokin er ítrekað að sjúkdómur kæranda geri það að verkum að hann þarf að huga sérstaklega vel að nærumhverfi sínu og þá einkum […]. Til þess að halda einkennum […] í skefjum þurfi hann tilhlýðilega fjárhagsaðstoð og stuðning.

Kærandi vísar til 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 96/2002 um útlendinga, meginreglunnar um að vísa fólki ekki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu, 3. gr. mannréttindasáttamála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna máli sínu til stuðnings.

5. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Afmörkun úrlausnarefnis

Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Frakklands. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

2. Lagarammi

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

3. Aðstæður hælisleitanda og málsmeðferð í Frakklandi

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða Grikkland og Ítalíu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla við meðferð hælisumsókna eða í móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Frakklandi.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur um aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, sbr. m.a. Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exciles, 26. janúar 2015); France 2014 Human Rights Report (United States Department of State, 25. júní 2015); Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012); Guide for Asylum Seekers 2013 – Information and Orientation (Ministére de l‘intérieur, Direction générale des étrangers en France, 2013); Amnesty International Report 2014/15 – France (Amnesty International, 25. febrúar 2015); Freedom in the World 2015 – France (Freedom House, 7. apríl 2015) og Report of Human Rights Commissioner of the Council of Europe following his visit to France from 22 to 26 september 2014 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 17. febrúar 2015).

Samkvæmt gögnum málsins eiga hælisleitendur í Frakklandi rétt á húsnæði og grunnframfærslu frá stjórnvöldum. Þó er augljóst að Frakkar hafa átt við húsnæðisvanda að etja í hælismálum og þörf er á fleiri móttökumiðstöðvum í landinu. Í reynd eiga hælisleitendur möguleika á að fá annað hvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum eða neyðarskýlum á vegum stjórnvalda. Þeir hælisleitendur sem ekki fá húsaskjól í móttökumiðstöðvum eiga rétt á tímabundinni framfærslu.

Ljóst er að hælisleitendur í landinu hafa aðgang að ókeypis heilbrigðisþjónustu í gegnum CMU heilbrigðistryggingakerfið.

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að aðstæður kæranda í Frakklandi séu sambærilegar þeim aðstæðum sem reyndi á í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi frá 21. janúar 2011. Í dóminum voru bæði ríkin talin hafa gerst brotleg við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Grikkland var talið hafa gerst brotlegt m.a. vegna aðstæðna sem hælisleitandanum voru búnar vegna stórfelldra og kerfisbundinna brotalama á grísku hæliskerfi. Var það jafnframt niðurstaða dómsins að Belgía hafi gert hælisleitandanum að sæta ómannlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans með því að hafa flutt hann, á grundvelli eldri Dyflinnarreglugerðar, til Grikklands. Mannréttindadómstóllinn tók m.a. mið af því að fyrir hafi legið skýrslur frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um slæman aðbúnað og meðferð hælisleitenda í Grikklandi. Jafnframt leit dómstóllinn m.a. til þess að í apríl 2009 hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ritað belgískum stjórnvöldum og farið þess á leit að flutningar hælisleitenda til Grikklands yrðu stöðvaðir. Dómstóllinn tók fram að belgískum stjórnvöldum hefði borið að kannað aðstæður í Grikklandi en það hefði ekki verið gert og að gallar á grískri stjórnsýslu hlytu að hafa verið belgískum stjórnvöldum ljósir.

Að mati kærunefndar útlendingamála gefa framangreindar skýrslur og gögn um aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Frakklandi, sem kærunefndin hefur kynnt sér, ekki tilefni til að líta svo á að þær aðstæður og málsmeðferð sem hælisleitendur búa við í Frakklandi séu sambærilegar þeim sem hælisleitandinn í ofangreindum dómi Mannréttindadómstólsins bjó við. Kærunefndin telur móttökuskilyrði hælisleitenda í Frakklandi ekki gefa tilefni til að líta svo á að kærandi muni standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannlegri eða vanvirðandi meðferð í Frakklandi verði hann endursendur þangað.

Með vísan til framangreinds hefur athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda í Frakklandi ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Frakklands brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hann sendur þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

 

4. Sérstök tengsl við landið eða aðrar sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. ágúst síðastliðinn ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi þjáist af […]. Hann hafi vegna veikinda sinna dvalist […] á spítala í Frakklandi frá árinu 2011. Af gögnum má ráða að kærandi hafi ekki tekið lyf við […], en því er haldið niður með […]. Í viðtali hjá kærunefnd þann 29. október 2015 kvað kærandi […] vera svo viðkvæmt að hann þurfi að hafa greiðan aðgang að læknisþjónustu vegna þess.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi, er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. dóm í máli Tatar gegn Sviss frá 14. apríl 2015. Veikur einstaklingur á ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki einungis til þess að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu sem endursendingarríki veitir. Jafnvel þó að lífslíkur einstaklingsins minnki við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur skoðað um aðstæður í Frakklandi er ljóst að kærandi, sæki hann um hæli í Frakklandi, getur leitað sér læknisaðstoðar þar í landi ef upp kemur frekari þörf á meðhöndlun á […]. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að þrátt fyrir veikindi kæranda þá feli flutningur hans til Frakklands ekki í sér brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Það er því mat kærunefndar að heilsufarslegt ástand kæranda sé ekki slíkt að það komi í veg fyrir flutning hans til Frakklands. Hins vegar beinir kærunefndin því til Útlendingastofnunar að tryggja að fyrir endursendingu kæranda verði frönsk stjórnvöld upplýst um heilsufar kæranda í samræmi við 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

 Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

5. Reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð kæranda er því jafnframt haldið fram að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, með því að hafa ekki skoðað mál kæranda með viðhlítandi hætti, bæði er varðar þær aðstæður sem bíði kæranda í Frakklandi og með tilliti til sérstöðu kæranda vegna veikinda hans. Þá er því haldið fram í greinargerð að Útlendingastofnun hafi metið ástand hælisleitenda í Frakklandi almennt en ekki á einstaklingsgrundvelli út frá málsástæðum kæranda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal Útlendingastofnun sjá til þess, að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Í skýringarriti með stjórnsýslulögunum (Stjórnsýslulög – skýringarrit (Páll Hreinsson, forsætisráðuneytið, 1994)) kemur fram að í málum á fyrra stjórnsýslustigi ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur að nægja til þess að uppfylla skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat kærunefndar að þrátt fyrir stuttan rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar fullnægi hann skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga. Það að um staðlaðan texta sé að ræða sé ekki eitt og sér brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né 22. gr. laganna um rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar. Kærunefndin telur þó að það væru vandaðri stjórnsýsluhættir ef Útlendingastofnun gerði grein fyrir því á hvaða upplýsingum og gögnum er byggt í niðurstöðu um aðstæður hælisleitenda í Frakklandi. Engu að síður er það mat kærunefndar að slíkur skortur á tilvísun til gagna leiði ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til ofangreindrar niðurstöðu kærunefndar um aðstæður í Frakklandi er ljóst að sá ágalli á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu og sé því ekki slíkur að ógilda beri ákvörðunina af þeirri ástæðu.

6. Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og ákveða að senda kæranda til Frakklands með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

 

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir                                                               Oddný Mjöll Arnardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum