Hoppa yfir valmynd
25. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 26/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 26/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15010079


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 


I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Þann 21. nóvember 2014 kærði […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. nóvember 2014, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um hæli, sem flóttamaður á Íslandi, til efnislegrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests skv. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 31. ágúst 2014 á lögreglustöðunni við Hverfisgötu í Reykjavík. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 1. september 2014, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 11. september 2014 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar ráðsins nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 17. september 2014 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 5. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

 Útlendingastofnunar ákvað þann 18. nóvember 2014 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Við birtingu ákvörðunarinnar, þann 21. nóvember 2014, kærði kærandi ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins auk þess að óska eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan mál hans væri til meðferðar hjá ráðuneytinu. Greinargerð kæranda, dags. 2. febrúar 2014, barst þann 4. febrúar s.á. Með bréfi kærunefndar útlendingamála, dags. 11. mars sl., var fallist á frestun réttaráhrifa á meðan mál kæranda væri til meðferðar hjá kærunefndinni.

 Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að sænsk yfirvöld beri ábyrgð á afgreiðslu umsóknar kæranda um hæli og þau hafi samþykkt endurviðtöku á kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli 5. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Hafi því verið tekið til skoðunar hvort einhverjar ástæðu mæli gegn því að umsækjandi yrði sendur til Svíþjóðar.

 Útlendingastofnun telur málsmeðferð sænskra yfirvalda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Svíþjóð og aðrar Evrópusambandsþjóðir hafa gengist undir að fylgja við meðferð hælisumsókna. Jafnframt bendi ekkert til þess að flutningur umsækjanda til Svíþjóðar brjóti í bága við 33. gr. Flóttamannasamningsins, 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun telur ljóst að umsækjandi eigi raunhæfa möguleika á að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum í Svíþjóð og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Kærandi var ekki talinn hafa slík sérstök tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá voru aðstæður í máli kæranda ekki taldar slíkar að ástæða væri til að beita undanþáguheimild 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar í málinu.

 Niðurstaða Útlendingastofnunar var því sú að umsókn kæranda, þess efnis að honum verði veitt hæli á Íslandi sem flóttamanni, yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og skuli hann endursendur til Svíþjóðar.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, um að vísa honum aftur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um hæli, sem flóttamaður á Íslandi, til efnislegrar meðferðar.

 Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi telji alvarlegan annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem ekki sé tilgreint á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin er byggð, en samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal í rökstuðningi stjórnvaldsákvörðunar vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Skerði þetta möguleika hans á að hafa uppi varnir í málinu.

 Kærandi kveðst eiga vini hér á landi og gerir athugasemd við fullyrðingu Útlendingastofnunar, um að hann hafi ekki slík sérstök tengsl við landið að ástæða sé til að beita 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga í máli hans, hafi ekki verið studd neinum rökum. Ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga gefi tilefni til mats og samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála


1. Afmörkun úrlausnarefnis

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun um að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og að vísa honum til Svíþjóðar.

 Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og skuli taka hana til efnislegrar meðferðar. Í úrskurði kærunefndarinnar verður því ekki tekin afstaða til þess hvort aðstæður kæranda séu með þeim hætti að hann teljist flóttamaður í skilningi A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og 44. og 44. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 eða hvort veita beri kæranda dvalarleyfi skv. 12. gr. f sömu laga. Verður jafnframt ekki fjallað um stöðu kæranda í heimalandi hans.

 

2. Lagarammi

 Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, ásamt síðari breytingum, og ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, ásamt síðari breytingum. Auk þess gilda ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi eða í Noregi. Jafnframt ber að líta til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

 Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Þá er íslenskum stjórnvöldum heimilt að taka umsókn um hæli til meðferðar, jafnvel þó þau beri ekki ábyrgð á henni, á grundvelli 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ennfremur, samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

 Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Við mat á því hvort beita skuli undanþágu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þarf að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til skv. Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en auk þess er óheimilt er að endursenda hælisleitanda ef sýnt er fram á með rökstuddum hætti að raunveruleg hætta sé á að ríkið brottvísi hælisleitanda þangað sem hann sé í hættu að lenda í aðstæðum sem fara í bága við 3. gr. sáttmálans. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort að slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

 

3. Rökstuðningur niðurstöðu

 A. Reglur stjórnsýsluréttar

 Eins og áður hefur komið fram telur kærandi alvarlegan annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar því ekki hafi verið tilgreint á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin er byggð, en skv. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á.

 Kærunefndin gerir athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki í rökstuðningi ákvörðunar sinnar vísað til þess lagaákvæðis sem ákvörðunin byggir á. Kærunefndin hefur farið yfir ákvörðun Útlendingastofnunar og er það mat kærunefndarinnar að þessu sinni að sá ágalli sé ekki slíkur að ógilda beri ákvörðunina af þessari ástæðu einni. Ekki verður séð að skortur á lagatilvísun hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvörðunarinnar. Kærunefndin telur ljóst að í máli kæranda byggir ákvörðun Útlendingastofnunar á d-lið 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga. Kærandi naut aðstoðar löglærðs talsmanns við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun, sem og við meðferð kærumáls hans. Kærunefndin telur að af innihaldi greinargerðar kæranda megi sjá að talsmanni hans hafi verið ljóst hvaða ákvæði Útlendingastofnun beitti. Kærandi átti einnig þess kost að óska eftir frekari rökstuðningi á ákvörðun Útlendingastofnunar, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, teldu hann eða löglærður talsmaður hans þess þörf.

 B. Aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Svíþjóð

 Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða Grikkland og Ítalíu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla við meðferð hælisumsókna eða í móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og því verður að skoða aðstæður hælisleitenda í Svíþjóð og málsmeðferðina þar.

 Sænska Útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varðar umsóknir um hæli. Hælisleitandi á þess kost að bera synjun Útlendingastofnunarinnar undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Samkvæmt upplýsingum frá Eurostat tók sænska Útlendingastofnunin 45.005 ákvarðanir árið 2013. Í 24.015 tilvikum var um jákvæða niðurstöðu að ræða, þ.e. veitt var hæli, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, og af þeim var í 6.750 tilvikum fallist á hælisbeiðni. Á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2014 voru teknar 29.215 ákvarðanir hjá sænsku Útlendingastofnuninni, af þeim var í 21.775 tilfellum veitt hæli eða viðbótarvernd, eða í um 74% tilvika.

 Hælisleitandi á alltaf rétt á viðtali þegar mál hans er til meðferðar hjá sænsku Útlendingastofnuninni. Hins vegar er ekki skylda að veita hælisleitanda viðtal þegar mál hans er til kærumeðferðar fyrir áðurgreindum dómstólum, en hælisleitandi getur þó komið fyrir dómstólinn ef hann óskar þess og það er talið auðvelda ákvarðanatöku eða er talið nauðsynlegt. Þegar ákvörðun sænsku Útlendingastofnunarinnar hefur verið kærð til stjórnsýsludómstólsins endurskoðar Útlendingastofnunin ákvörðun sína áður en dómstóllinn tekur málið til meðferðar. Stofnunin getur þá annaðhvort staðfest synjunina eða breytt ákvörðun sinni ef þýðingarmiklar nýjar aðstæður eða ástæður hafa komið upp í málinu (Asylum Information Database, National Country Report: Sweden. European Council on Refugees and Exiles, 21. maí 2014). Samkvæmt sænsku útlendingalögunum (Utlänningslagen 2005:716) á hælisleitandi rétt á að óska eftir endurupptöku máls síns telji hann að nýjar ástæður hafi komið í ljós sem geri það að verkum að ekki sé hægt að vísa honum til baka, sbr. 19. gr. 12. kafla laganna. Ef sænsk stjórnvöld synja beiðni um endurupptöku getur kærandi fengið þá ákvörðun endurskoðaða fyrir dómi (Good Advice for Asylum Seekers in Sweden. The Swedish Network of Refugee Support Groups, 2011).

 Kærunefndin bendir á að Svíþjóð er bundin af löggjöf Evrópusambandsins sem tryggir ýmis réttarúrræði vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Í 39. gr. tilskipunar 2005/85/EB um málsmeðferð (on minimum standards on procedures in Member states for granting and withdrawing refugee status) er fjallað um rétt hælisleitanda til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns í tilefni ákvarðana stjórnvalda. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. skal aðildarríki tryggja hælisleitanda raunhæft úrræði til að leita réttar síns fyrir dómstól. Í 3. mgr. 39. gr. kemur fram að aðildaríki skuli, þegar það eigi við, hafa í landsrétti ákvæði sem samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum um það hvort áfrýjun til dómstóla hafi í för með sér frestun réttaráhrifa þar til niðurstaða máls liggi fyrir. Þann 21. júlí næstkomandi tekur gildi tilskipun 2013/32/EC um málsmeðferð (on common procedures for granting and withdrawing international protection status), sem tekur við af núgildandi tilskipun nr. 2005/85/EC og nefnd var hér að ofan. Í 46. gr. hennar er fjallað um virk réttarúrræði sem standa umsækjendum um alþjóðlega vernd til boða og myndi kæranda því tryggð ákveðin lágmarksréttindi á grundvelli málsmeðferðarreglna og úrræði til að leita réttar síns að landsrétti. Í greininni kemur meðal annars fram að aðildarríki skuli tryggja aðgang umsækjanda um alþjóðlega vernd virk úrræði við að leita til dómstóla varðandi niðurstöðu umsóknar sinnar. Samkvæmt 21. gr. tilskipunar 2011/95/EC um flóttamenn (on standards for the qualification of third country nationals or stateless persons as beneficiaries of international protection, for uniform status for refugees or for persons eligible for subsidiary protection, and for the content of the protection granted) skulu aðildarríkin virða meginregluna um non-refoulement í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

 Af gögnum um Svíþjóð verður ráðið að hælisleitendur fá gistingu og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu allt þar til ákvörðun um brottvísun kemur til framkvæmda (Good Advice for Asylum Seekers in Sweden, The Swedish Network of Refugee Support Groups, 2011 og Asylum Information Database, National Country Report: Sweden. European Council on Refugees and Exiles, 21. maí 2014). Samkvæmt framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exiles hafa ekki komið upp tilvik þar sem hælisleitendur hafi ekki aðgang að gistirými vegna skorts á gistiúrræðum. Jafnframt eiga hælisleitendur rétt á dagpeningum til grunnframfærslu, ef þeir geta ekki framfleytt sér sjálfir. Auk þess eiga hælisleitendur þess kost að sækja um frekari fjárhagsaðstoð vegna nauðsynlegra útgjalda svo sem gleraugnakaupa, útgjalda vegna ungbarna eða búnaðar vegna fötlunar.

 Athugun kærunefndarinnar á aðstæðum hælisleitenda í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa ástæðu til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda í Svíþjóð séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Svíþjóðar brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, eða að alvarleg ástæða sé til að ætla að kærandi muni standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Svíþjóð, í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hann sendur þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð, verði umsókn hans um hæli synjað hjá sænsku Útlendingastofnuninni. Verður því, með vísan til ofangreinds, ekki talið að endursending til Svíþjóðar brjóti gegn 3. gr. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 Kærunefndin bendir einnig á að ef til þess kæmi að sænsk stjórnvöld taki endanlega ákvörðun um að flytja kæranda til heimaríkis hans eða annars ríkis þar sem kærandi telur raunverulega hættu vera á að hann sæti ofsóknum, pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, á kærandi raunhæft úrræði með því að leggja fram beiðni til Mannréttindadómstóls Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins. Slík beiðni til Mannréttindadómstólsins mundi í því tilviki beinast að sænska ríkinu.

 Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndarinnar að aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð stjórnvalda í Svíþjóð sé í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Svíþjóð og aðrar Evrópuþjóðir hafa gengist undir að framfylgja, þar á meðal flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu engin rök hníga á þann veg að flutningur kæranda til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar muni fara í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

 

C.  Sérstök tengsl við landið eða aðrar sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002

 Eins og áður greinir kveðst kærandi eiga hér á landi marga góða vini og hafi því sérstök tengsl við Ísland, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki slík tengsl við landið að ástæða sé til að beita 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Kærandi gerir athugasemdir við að sú niðurstaða Útlendingastofnunar hafi ekki verið studd neinum rökum en ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga gefi tilefni til mats og samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

 Kærunefndin telur að betur hefði mátt gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem réðu þeirri niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ekki sérstök tengsl við Ísland. Hafa ber í huga að kærandi hélt því fram í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hefði tengsl við landið. Kærunefndin áréttar hins vegar að kærandi átti þess kost að óska eftir eftirfarandi rökstuðningi, skv. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem hann hafði löglærðan talsmann sér til aðstoðar við meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum.

 Kærunefndin hefur skoðað sjálfstætt hvort kærandi hafi slík sérstök tengsl við Ísland að  2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við í máli hans og komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Líta ber til þess að áður en kærandi kom hingað til lands hafði hann aldrei verið búsettur hérlendis en koma kæranda til Íslands og dvöl hans hér tengist einvörðungu umsókn hans um hæli hér á landi. Kærandi á ekki fjölskyldu eða ættingja hér á landi en vinatengsl uppfylla ekki skilyrði 2. mgr. 46. gr. a um sérstök tengsl við Ísland. Því til stuðnings má vísa til III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar um viðmiðanir til að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd en þar er miðað við fjölskyldutengsl. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annara sérstakra ástæðna.

 

4. Samantekt

 Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli ákvæða reglugerða Evrópusambandsins. Í ljósi alls ofangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og ákveða að senda kæranda til Svíþjóðar með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

 Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

 Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin. 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. nóvember 2014 í máli […] er staðfest.

 The decision of the Directorate of Immigration of 18 November2014, in the case of […] is affirmed.

 

 Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

  Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                          Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum