Hoppa yfir valmynd
29. maí 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 68/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 29. maí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður nr. 68/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010055

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. júní 2014, kærði […] , fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2014, að synja honum og syni hans, […], fd. […], um hæli á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að honum og syni hans verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002. Þá var þess einnig krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests skv. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins kemur meðal annars fram að þann 10. apríl 2014 hafi kærandi ásamt syni sínum sótt um hæli hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar við birtingu þann 26. júní 2014. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 2. júlí 2014, var talsmanni kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð í tilefni kærumálsins. Þann 8. júlí s.á. barst innanríkisráðuneytinu greinargerð kæranda þar sem jafnframt var farið fram á frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar. Talsmaður kæranda sendi innanríkisráðuneytinu viðbótargögn með bréfi dags. 19. ágúst 2014 og 4. september 2014.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa sbr. 3. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

Með bréfi dags. 4. mars 2015 féllst kærunefnd útlendingamála á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. Með bréfi, dags. 11. mars 2015, var löglærðum talsmanni kæranda gefinn kostur á að koma að frekari gögnum um hagi kæranda og sonar hans. Með bréfi dags. 25. mars s.á. sendi talsmaður kæranda […].

Þann 22. apríl 2015 kom kærandi, sonur hans og […] fyrir kærunefnd útlendingamála og greindu nefndinni frá máli kæranda og sonar hans, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun taldi framburð kæranda um ástæðu hælisumsóknar sinnar og sonar hafa verið stöðugan við skýrslutöku hjá lögreglu og Útlendingastofnun og var það mat stofnunarinnar að framburður kæranda væri trúverðugur. Þar sem kærandi bar ekki við ofsóknum í heimalandi þá var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda og sonar hans falli ekki undir þau skilyrði er fram koma í 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Jafnframt var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda og sonar hans séu ekki slíkar sem greinir í 2. mgr. 44. útlendingalaga. Taldi stofnunin ljóst að kærandi og sonur hans geti leitað eftir og fengið viðhlítandi aðstoð yfirvalda í heimalandi sínu verði þeir fyrir áreiti eða ofsóknum. Þá var það jafnframt niðurstaða Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda og sonar hans væru ekki með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga.

Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f segir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði talið að kærandi og sonur hans séu í þeirri aðstöðu í heimalandi sínu að þeir eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort rík þörf sé á vernd af heilbrigðisástæðum er, í samræmi við athugasemdir við 2. gr. frumvarps til laga nr. 115/2010, átt við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi kæranda. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi og þarf að skoða hvort læknisfræðilega forsvaranlegt sé að rjúfa meðferð sem þegar hefur hafist hér á landi. Útlendingastofnun […]. Þá þótti einnig ljóst að framfærsla sonar kæranda væri örugg í heimalandi hans.

Útlendingastofnun taldi því aðstæður kæranda og sonar hans í heimalandi ekki slíkar að þær réttlættu veitingu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga, hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla kæranda og sonar hans við Ísland.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé […] og eigi eina dóttur í heimalandi sínu og soninn sem er hér á landi með honum. Kærandi segir […] hafa gegnt góðu starfi í heimalandi sínu og eigi húsnæði þar. Ennfremur kemur fram að sonur kæranda […]

Þá segir í greinargerð að þrátt fyrir aukna vakningu í […].

Í greinargerð segir að kærandi og sonur hans hafi ríka þörf á vernd á grundvelli […] Rík mannúðarsjónarmið standi til þess að kæranda og syni hans verði veitt dvalarleyfi hér á landi og sé það í samræmi við umfjöllun um 2. mgr. 12. gr. f í athugasemdum með frumvarpi laga nr. 115/2010. Þar kemur m.a. fram að taka eigi sérstakt tillit til barna með því að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til veitingar dvalarleyfis þegar um börn er að ræða. […].

Jafnframt er í greinargerð vísað til almennrar athugasemdar Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 6 frá 1982 varðandi túlkun á 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ennfremur vísaði kærandi til Genfar-yfirlýsingar um réttindi barnsins frá 1924, yfirlýsingar um réttindi barnsins sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1959, og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, um að ávallt eigi að hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi og að börn hafi þörf á sérstakri vernd.

Kærandi skilaði engum fylgiskjölum með greinargerð sinni til innanríkisráðuneytisins en vísaði til skjala sem hann lagði fram hjá Útlendingastofnun. Ennfremur hefur talsmaður kæranda sent inn gögn við meðferð málsins sem lúta að vanhæfi […].

Við meðferð málsins fyrir kærunefnd útlendingamála […].

VI.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

2. Niðurstaða

Svo sem fram hefur komið krefst kærandi þess í greinagerð sinni að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda og syni hans verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002. Kærandi hafði krafist þess hjá Útlendingastofnun að honum og syni hans yrði veitt hæli sem flóttamönnum á grundvelli 1. og 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga en útgáfu dvalarleyfis skv. 12. gr. f sömu laga til vara. Kærunefnd útlendingamála er ekki bundin af því að aðeins sé gerð krafa um dvalarleyfi af mannúðarástæðum í greinargerð kæranda, enda hefur kærandi með áritun sinni á birtingarvottorð kært ákvörðun Útlendingastofnunar í heild sinni. Mun kærunefndin því einnig endurskoða ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi hælisumsókn kæranda.

Réttarstaða barns kæranda

Svo sem fram er komið kom sonur kæranda með honum hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd annars foreldris síns.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann framvísað […] vegabréfi fyrir sig og son sinn. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og sonur hans séu […] ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

[…] er lýðræðisríki með um […] milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. […] gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Landið gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna […] 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi […] 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann […] 1994.

[…]

Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað m.a. sameinaðar 2., 3. og 4. skýrslur utanríkisráðuneytis […] til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Combined second, third and fourth periodic reports of States parties due in 2009. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, nóvember 2009), […] skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í […] ([…] 2013 Human Rights Report. United States Department of State, 27. febrúar 2014), […].

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að […].

a. Krafa um hæli

Kærandi óskaði eftir því við komuna til landsins að honum og syni hans yrði veitt réttarstaða flóttamanna skv. 1. .mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, eða á grundvelli 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Líkt og komið hefur fram áður telur kærunefndin að kærandi hafi kært þá ákvörðun við birtingu og því sé rétt að fjalla um kröfuna um hæli.

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga sbr. flóttamannasamninginn. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á […].

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á hæfilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Kærandi hefur ekki borið því við að hann né sonur hans hafi orðið fyrir ofsóknum eða annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð í heimalandi sínu af hendi […] yfirvalda eða annarra aðila. Þvert á móti hefur kærandi sagt að fjölskylda hans hafi búið við góðar aðstæður í höfuðborg landsins, […]. Hins vegar hafi líf þeirra að miklu leyti […].

Er það því mat kærunefndar að hvorki kærandi né sonur hans uppfylli skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanna.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Í ákvæðinu er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt hæli hér á landi hafnað.

b. Krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Kærandi krefst þess að sér og syni sínum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Samkvæmt 12. gr. f útlendingalaga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 115/2010 um breytingar á lögum um útlendinga nr. 96/2002 er fjallað ítarlegar um þau viðmið sem nefnd eru í 2. mgr. 12. gr. f og segir meðal annars að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm er að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt sé rétt að líta til þess hvort meðferð hefur hafist hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

[…].

Þau gögn sem kærunefndin hefur farið yfir við vinnslu máls kæranda benda til þess að stjórnvöld í […].

Kærunefndin telur ekki að með endursendingu kæranda og sonar hans til […] verði brotið gegn ákvæðum 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem að í þeim ákvæðum felist ekki skylda ríkja til þess að veita einstaklingum hæli eða dvalarleyfi vegna þess eins að kringumstæður einstaklings […] kynnu að versna við brottflutnings hans til heimalands síns. […].

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á rík mannúðarsjónarmið og ríka þörf á vernd eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í […] séu ekki með þeim hætti að efni standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar hvað varðar tengsl kæranda við landið og þess að hann uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið hér á landi í tengslum við hælisbeiðni sína.

Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2014.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin


 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2014, í máli […], er staðfest.

The Directorate of Immigration‘s decision, of 12 June 2014, in the case […], is affirmed.

 

 Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Oddný Mjöll Arnardóttir                                                                                                     Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

 

 

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum