Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 4/2015

Hinn 16. júní 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 4/2015:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 349/2014

Íslandsbanki

gegn

Gunnari Magnússyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 24. febrúar 2015, óskaði Þórður Heimir Sveinsson hdl. fyrir hönd Gunnars Magnússonar eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 349/2014 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 22. desember 2014.

Endurupptökubeiðanda var gefinn kostur á að rökstyðja hvernig skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væru uppfyllt, sbr. bréf endurupptökunefndar dagsett 12. mars 2015. Svar barst frá endurupptökubeiðanda dagsett 26. mars 2015.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Endurupptökubeiðandi stofnaði tékkareikning hjá fjármálafyrirtækinu S24 sem síðar rann inn í BYR-sparisjóð og þaðan inn í Íslandsbanka hf. Stofndagur reikningsins var 17. maí 2002. Gagnaðili höfðaði mál gegn endurupptökubeiðanda til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á reikningnum. Endurupptökubeiðandi mótmælti ekki kröfunni en taldi sig eiga gagnkröfu á hendur gagnaðila sem næmi hærri fjárhæð. Byggði hann þá kröfu á því að gagnaðila hefði frá upphafi verið óheimilt að innheimta kostnað vegna lánsins þar sem aðilar hefðu ekki ritað undir skriflegan samning vegna slíks kostnaðar. Í héraðsdómi var endurupptökubeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila með vísan til þess að hann hefði ekki lagt fram gögn um að honum hefði verið heimilt að innheimta vexti og annan lántökukostnað. Í dómi Hæstaréttar var komist að gagnstæðri niðurstöðu og krafa gagnaðila tekin til greina. Var í því sambandi meðal annars vísað til þess að hvað sem liði fyrirmælum 5. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, um að samningar um yfirdráttarheimildir skyldu vera skriflegir. Sérstaklega væri tekið fram í skýringum með ákvæðinu í frumvarpi til upphaflegra laga nr. 30/1993 um neytendalán að það væri ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildi samninga að þeir væru skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir sem áður. Þá hefði endurupptökubeiðanda átt að vera ljóst frá þeim tíma er hann stofnaði umræddan tékkareikning að greiða þyrfti vexti og annan kostnað. Loks var vísað til þess að endurupptökubeiðandi hefði notað reikninginn athugasemdalaust í ellefu ár og greitt á þeim tíma þann kostnað sem á reikninginn féll og hann var upplýstur um með reglubundnum hætti. Því yrði að líta svo á að í raun hafi komist á samningur milli aðila um lánsviðskiptin.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að málsatvikum og tilgangi að baki innleiðingu tilskipunar 87/102/EBE um neytendalán í íslenskan rétt hafi ekki verið leidd réttilega í ljós í dómi Hæstaréttar sem hefði verið nauðsynlegt til að komast að réttri niðurstöðu. Því séu sterkar líkur leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilum verði ekki kennt um það, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Einnig telur endurupptökubeiðandi að stórfelldir hagsmunir aðila séu í húfi og þar með séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála uppfyllt, en um sé að ræða gífurlegt hagsmunamál sem snerti einnig fjölda annarra reikningseiganda með yfirdráttarskuldir sem engir samningar séu um.

Í svari endurupptökubeiðanda, dagsettu 26. mars 2015, við fyrirspurn endurupptökunefndar um hvernig skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála væri uppfyllt, greinir hann frá því að ekki liggi fyrir ný gögn sem gætu breytt niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum. Enda sé málið í raun ekki þannig vaxið því það snúist um vöntun á samningi um yfirdrátt, samningi sem aldrei hafi verið gerður við endurupptökubeiðanda af hálfu gagnaðila. Það sé skjalið sem hefði getað breytt gangi málsins.

Umrætt hæstaréttarmál snúist um þann ágreining aðila hvort gagnaðila hafi borið skylda til að gera skriflegan samning við endurupptökubeiðanda um yfirdráttarlán sem eigi að hafa afleiðingar fyrir gagnaðila samkvæmt lögum um neytendalán, lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og gagnvart þeim réttarreglum tilskipana Evrópuréttar sem nefnd lög séu leidd af.

Málið snúist um vöntun á þessum ofangreinda samningi um yfirdrátt sem endurupptökubeiðandi telji að skylt hafi verið að gera samkvæmt fyrrnefndum lögum. Því sé öfugt farið gagnvart b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og ekki sanngjarnt að horfa til þessa skilyrðis vegna sérstöðu málsins. Endurupptökubeiðandi hafi lagt fram öll þau gögn sem varði þennan reikning, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Vegna sérstöðu málsins eigi endurupptökunefnd að líta fram hjá b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að þessu leyti. Hæstaréttarmálið sé í ósamræmi við Evrópurétt neytendalána sem geti varðað íslenska ríkið skaðabótum. Jafnframt sem málið varði þúsundir aðila á Íslandi sem samningar um yfirdrætti hafi ekki verið gerðir við. Skilyrðin fyrir endurupptöku séu mjög þröng og sérstaklega skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna þar sem yfirleitt séu allar líkur á því að öll gögn málsins hafi verið lögð fram af hálfu aðila fyrir dómstólum. Í þessu sérstaka tilfelli hafi skjalið, það er samningur um yfirdrátt, ekki verið útbúið sem gæti breytt niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. 

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er því haldið fram að endurupptökunefnd eigi að líta framhjá skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. um ný gögn þegar fjallað er um beiðni hans um endurupptöku.

Ekki er unnt að fallast á þetta sjónarmið endurupptökubeiðanda. Í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, var upphaflega einungis fjallað um endurupptöku óáfrýjaðs máls, sbr. þágildandi 157. gr. laganna. Í athugasemdum með 157. og 158. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 91/1991 kom meðal annars eftirfarandi fram:

Í 1. mgr. 157. gr. er að finna skilyrði fyrir endurupptöku máls eftir reglum XXVI. kafla, en þau eru talin í þremur stafliðum við málsgreinina. Þessum skilyrðum þarf öllum að vera fullnægt til þess að orðið geti af endurupptöku. Þau eru sama efnis og skilyrði fyrir endurupptöku dæmds máls fyrir Hæstarétti skv. l. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1973 og má því telja að ekki sé þörf á sérstökum skýringum á þeim hér.

Af framansögðu er ljóst að öll skilyrði stafliða a – c 1. mgr. 167. gr. þurfa að vera uppfyllt, svo unnt sé að verða við beiðni um endurupptöku, sbr. einnig úrskurð endurupptökunefndar í máli  nr. 15/2013.

Þar sem skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki uppfyllt er beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 349/2014 því bersýnilega ekki á rökum reist. Er henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Gunnars Magnússonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 349/2014, sem kveðinn var upp 22. desember 2014, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum