Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 24/2013

Hinn 15. október 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 24/2013:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 50/2006

Sara Rafaelsdóttir

gegn

íslenska ríkinu og

Hauki Hjaltasyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 5. desember 2013 fór Kári Hólmar Ragnarsson hdl. þess á leit fyrir hönd Söru Rafaelsdóttur að mál nr. 50/2006, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 19 febrúar 2009, yrði endurupptekið. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 25. apríl 2014, var endurupptökubeiðni send gagnaðilum og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegri greinargerð um viðhorf sín til beiðninnar, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Með bréfum, dags. 19. maí 2014, sendi ríkislögmaður fyrir hönd ríkisins sem og Einar Baldvin Axelsson hrl. fyrir hönd Vátryggingafélag Íslands og Hauks Hjaltasonar skriflegar greinargerðir um viðhorf gagnaðila. Með bréfi, dags. 22. júlí 2014, gerði endurupptökubeiðandi frekari athugasemdir. Gagnaðilum voru kynntar þær athugasemdir ásamt nánari gögnum sem endurupptökubeiðandi vísaði til í málatilbúnaði sínum. Í kjölfarið gerðu málsaðilar nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum, síðast endurupptökubeiðandi með bréfi, dags. 18. september 2014. Gagnaðilum voru kynntar þær athugasemdir.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Sara Rafaelsdóttir greindist með heilaæxli þegar hún var á ferðalagi í Bandaríkjunum og gekkst þar undir bráðaaðgerð þar sem æxlið var fjarlægt.  Hún hlaut varanlegt heilsutjón vegna þessa. Fyrir aðgerðina hafði hún leitað til lækna hér á landi. Taldi hún að mistök hefðu verið gerð þar sem enginn læknanna greindi meinið. Hún höfðaði mál til heimtu skaðabóta á hendur íslenska ríkinu vegna lækna sem hún hafði leitað til á kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss og á Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi, svo og Hauki Hjaltasyni, sérfræðingi í heila- og taugasjúkdómum, sem hún hafði leitað til á læknastofu. Stefndu voru sýknaðir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2005. Tveir sérfróðir meðdómendur, Bjarni Hannesson taugaskurðlæknir og Torfi Magnússon taugasjúkdómalæknir, dæmdu í málinu í héraði auk héraðsdómara. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með dómi í máli nr. 50/2006.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi óskar endurupptöku málsins á grundvelli þess að sterkar líkur bendi til þess að það hafi verið dæmt af sérfróðum meðdómendum, sem hefðu með réttu átt að teljast vanhæfir í málinu. Vegna þess hversu mikið Hæstiréttur hafi lagt upp úr niðurstöðu hinna sérfróðu meðdómenda telur endurupptökubeiðandi að þetta vanhæfi leiði til þess að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi.

Eitt helsta ágreiningsefni málsins hafi verið hvernig sjúkraskýrslum lækna hafi verið háttað. Þannig hafi endurupptökubeiðandi greint læknum frá einkennum frá höfði en svo virðist sem þeir hafi ekki skráð þetta atriði í sjúkraskrá svo sem þeim hafi verið skylt. Meirihluti Hæstaréttar (þrír dómarar af fimm) hafi staðfest dóm héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar hafi meðal annars sérstaklega verið vísað til mats héraðsdóms á því hvort skýrslugerð lækna hafi verið í samræmi við lög og reglugerð. Virðist augljóst að afstaða sérfróðra meðdómenda hafi haft veruleg áhrif og jafnvel úrslitaáhrif á niðurstöðu Hæstaréttar. Minnihluti Hæstaréttar hafi talið óheimilt að gera niðurstöðu hinna sérfróðu meðdómenda svo hátt undir höfði svo sem gert hafi verið í niðurstöðu meirihlutans.

Skömmu eftir að dómur Hæstaréttar hafi fallið í málinu hafi endurupptökubeiðanda verið ljóst að einn stefndu, Haukur Hjaltason læknir, hafi verið fulltrúi læknaráðs Landspítalans og formaður nefndar innan stofnunarinnar sem fjallaði um gæði þjónustu. Leggur endurupptökubeiðandi fram ársskýrslur stjórnar læknaráðs sjúkrahússins fyrir árin 2002-2008 máli sínu til stuðnings, en þar sé staðfest að Haukur hafi verið formaður starfs- og gæðanefndar til ársins 2005 og átt sæti í nefndinni að minnsta kosti til ársins 2008. Þessi trúnaðarstörf Hauks hafi verið til viðbótar starfi hans sem læknir á taugalækningadeild Landspítalans og hafi hann verið í ákveðinni ráðgjafar- og valdastöðu meðal annars gagnvart læknum á spítalanum og yfirstjórn hans.

Torfi Magnússon, annar hinna sérfróðu meðdómenda, hafi á þessum tíma verið háttsettur starfsmaður innan yfirstjórnar Landspítalans. Af skipuritum fyrir árin 2002-2008, sem lögð eru fram af hálfu endurupptökubeiðanda í málinu, megi sjá að Torfi hafi verið ráðgjafi forstjóra og einn af 4-5 starfsmönnum á skrifstofu forstjóra spítalans. Í skipuritunum sjáist einnig með hvaða hætti læknaráð hafi verið hliðsett framkvæmdastjórn spítalans. Þá hafi Bjarni Hannesson, sem einnig var sérfróður meðdómandi í héraði, verið yfirlæknir á heila- og taugaskurðlækningadeild sjúkrahússins.

Ljóst sé að Haukur, Torfi og Bjarni hafi tengst í gegnum störf sín á Landspítalanum og hafi Haukur og Torfi báðir komið að yfirstjórn og gæðamálum spítalans. Auk þess hafi aðstæður innan sjúkrahússins á þeim tíma sem málið hafi verið til meðferðar verið með þeim hætti að aukin ástæða hafi verið til að draga hæfi hinna sérfróðu meðdómenda í efa. Miklar deilur hafi verið uppi innan spítalans, einkum milli yfirstjórnar og læknaráðs um stjórnun, en þeirri deilu hafi yfirlæknir spítalans tengst. Vísar endurupptökubeiðandi í fundargerð stjórnarnefndar Landspítalans frá 25. nóvember 2004 máli sínu til stuðnings, svo og greinar í 6. tbl. Læknablaðsins árið 2005 og greinar Torfa Magnússonar í Morgunblaðinu 12. júlí 2006. Telur endurupptökubeiðandi þessi gögn í fyrsta lagi sýna fram á að veruleg átök hafi verið milli yfirstjórnar Landspítalans og læknaráðs á þeim tíma sem hér skipti máli. Í öðru lagi hafi sérfróðir meðdómendur og málsaðili allir verið aðilar að þessum deilum. Í þriðja lagi hafi læknaráð, sem Haukur hafi tilheyrt, unnið að því að auka völd yfirlækna, meðal annars meðdómandans Bjarna, á kostnað yfirstjórnar, þar á meðal meðdómandans Torfa. Loks hafi yfirstjórn haft vilja til að sætta deiluna. Þannig megi til dæmis ímynda sér að dómandi sem hafi verið að reyna að sætta ágreining við málsaðila hafi síður viljað rugga bátnum með því að kveða upp áfellisdóm yfir þessum sama aðila.

Endurupptökubeiðandi vísar máli sínu til stuðnings til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 5. gr. laga um meðferð einkamála og lokamálslið 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Ennfremur vitnar hann til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Sara Lind Eggertsdóttir gegn Íslandi (mál nr. 31930/04), að því er varðar ummæli dómsins um að ásýnd dómsins skipti máli, svo og umfjöllun um læknaráð, en augljóst sé að mun strangari kröfur verði að gera til hæfis sérfróðra meðdómenda en læknaráðs. Rök hnígi að því að hefði Hæstarétti verið kunnugt um vanhæfi hinna sérfróðu meðdómenda hefði Hæstiréttur komist að annarri niðurstöðu, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 390/2003. Þá vitnar endurupptökubeiðandi til tilmæla GRECO (Group of States against Corruption) í 84.-85. lið í skýrslu um Ísland, dags. 22. mars 2013.

Endurupptökubeiðandi telur eins og áður segir öllum skilyrðum til endurupptöku fullnægt. Málið hafi ekki verið réttilega upplýst hvað varði hæfi dómara og verði endurupptökubeiðanda ekki um það kennt. Niðurstaða hinna sérfróðu meðdómenda hafi orðið til þess að rangar ályktanir hafi verið dregnar um málsatvik og hafi þau því ekki verið leidd réttilega í ljós. Séu því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Hvað varðar b-lið sama ákvæðis er vísað til þeirra gagna sem endurupptökubeiðandi leggi fram í málinu. Loks sé augljóst að stórfelldir hagsmunir endurupptökubeiðanda séu í húfi, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. fyrrgreindra laga.

Endurupptökubeiðandi vísar einnig til framkvæmdar Hæstaréttar við meðferð á beiðnum um endurupptöku mála. Hæstiréttur hafi breytt afstöðu sinni og túlkað 1. mgr. 169. gr. á gjörbreyttan hátt þegar heimiluð hafi verið endurupptaka í hæstaréttarmálum nr. 291/2010 og 400/2006. Hæstiréttur hafi heimilað endurupptöku dómsmála þegar í ljós hafi komið, eftir að dómur hafi fallið, að dómari hafi reynst vanhæfur. Hæstiréttur virðist þannig telja að þegar um er að ræða vanhæfi dómara þá teljist skilyrði 1. mgr. 167. gr., um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós eða ný gögn muni leiða til breyttrar niðurstöðu vera uppfyllt og/eða þessi skilyrði komi ekki í veg fyrir endurupptöku. Loks vísar endurupptökubeiðandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Péturs Þórs Sigurðssonar gegn Íslandi (mál nr. 39731/98).

IV.      Viðhorf gagnaðila

Af hálfu ríkislögmanns er því meðal annars haldið fram að ekki hafi komið fram nein gögn sem sýni fram á vanhæfi. Sé dómsmálið lesið yfir og borið saman við þau gögn sem endurupptökubeiðandi færi fram sé ljóst að málsatvik dómsmálsins hafi ekkert breyst. Sama eigi við um röksemdir og forsendur þeirrar niðurstöðu sem endanlegur dómur segi til um. Staðhæfingar endurupptökubeiðanda um meint vanhæfi tveggja meðdómenda í héraði breyti engu. Þær séu með öllu ósannaðar og jaðri auk þess við að vera ósæmilegar. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi hafi Torfi Magnússon ekki verið með starfsheitið ráðgjafi forstjóra þótt hann hafi verið titlaður svo í skipuriti. Þá verði tæplega séð að byggt hafi verið á því í málinu að læknar Landspítala hafi sýnt af sér saknæm mistök. Að minnsta kosti sé þáttur lækna kvennadeildar spítalans afar óljós í málinu.

Af hálfu Hauks Hjaltasonar er því hafnað að tengsl hina sérfróðu meðdómenda hafi valdið því að þeir hafi verið vanhæfir til að dæma í málinu. Í fyrsta lagi hafi ekki verið færðar sönnur á því að meðdómendur hafi verið persónulega vilhallir. Í öðru lagi snúi álitaefni um vanhæfi skv. g-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála einkum að því hvort ytri atvik eða aðstæður sem séu öðrum sýnilegar, þau gefi réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni dómara. Í því tilviki sem hér um ræði hafi héraðsdómari metið það sem svo að þörf væri á að fá inn í dóminn sérfræðinga á sviði taugalækninga. Haukur hafi, á þeim tíma sem málið var til meðferðar fyrir dómi, átt sæti í starfs- og gæðanefnd Landspítalans. Annar meðdómenda, Torfi Magnússon, hafi á þessum árum verið ráðgjafi forstjóra spítalans og hinn meðdómarinn, Bjarni hafi verið yfirlæknir á heila- og taugaskurðdeild.

Læknaráð sé hópur sem læknar spítalans kjósi. Ráðið sé ekki undir yfirstjórn spítalans sett en sé henni til ráðgjafar og samstarfs. Starfs- og gæðanefnd hafi verið undirnefnd læknaráðs og hafi á þessum árum afgreitt erindi frá læknaráði um gæðamál. Erindin hafi verið fá en stærsta verkefnið sem Haukur hafi unnið að sem formaður nefndarinnar hafi verið skoðanakönnun um starfsumhverfi og líðan lækna. Staða Hauks sem nefndarmanns í þessari undirnefnd hafi ekki með neinum hætti falið í sér valdastöðu hans eða yfirráð gagnvart öðrum læknum spítalans og hafi hann algerlega verið skilinn frá yfirstjórn spítalans. Fullyrðingar um yfirburða stöðu Hauks gagnvart læknum á Landspítalans, þar á meðal meðdómendum, séu rangar og augljóslega byggðar á misskilningi.

Þá hafi Haukur aldrei komið nálægt deilum læknaráðs og yfirstjórnar spítalans, hvorki með skrifum né ræðum, og hafi hann ekki átt neinn þátt að upphafi þeirra né lausn.

Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu endurupptökubeiðanda um val á meðdómendum eða hann gert kröfu um að þeir vikju sæti á meðan meðferð málsins stóð. Ekki hafi þótt ástæða til að draga hæfi meðdómenda í efa þá, jafnvel þótt ganga megi út frá því að öll þau gögn og upplýsingar sem byggt sé á í endurupptökubeiðni hafi legið fyrir á þeim tíma.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 169. gr. laganna að ákvæði 1.–3. mgr. 168. gr. skulu gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Endurupptökubeiðni sú, sem hér er til umfjöllunar, byggir á því að sérfróðir meðdómendur sem voru meðal dómenda í héraðsdómi hafi verið vanhæfir til að dæma í málinu með vísan til 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna tengsla sinna við annan stefnda í málinu, Hauk Hjaltason. Á því er byggt að þegar ákvörðunarvald um endurupptöku dæmdra mála var hjá Hæstarétti hafi rétturinn í tilteknum tilvikum heimilað endurupptöku dómsmála þegar í ljós kom, eftir að dómur var fallinn, að dómari reyndist vanhæfur. Slíkar aðstæður séu fyrir hendi í þessu máli.

Samkvæmt gögnum málsins sat Haukur í starfs- og gæðanefnd, sem var undirnefnd læknaráðs Landspítalans, og var um tíma formaður hennar. Þá liggur fyrir að Bjarni Hannesson, sem var annar hinna sérfróðu meðdómenda í héraði, var á þessum tíma yfirlæknir á heila- og taugaskurðlækningadeild spítalans. Af hálfu endurupptökubeiðanda er því svo haldið fram að Torfi Magnússon, sem var hinn sérfróði meðdómandinn, hafi samkvæmt skipuriti verið aðstoðarmaður forstjóra og starfsmaður á skrifstofu hans, og því verið háttsettur starfsmaður innan yfirstjórnar Landspítalans. Þessu er andmælt af hálfu íslenska ríkisins, sem kveður Torfa ekki í raun hafa borið þann titil, sem tilgreindur hafi verið í skipuriti.

Þá er því einnig andmælt af hálfu Hauks Hjaltasonar, að staða hans sem nefndarmanns í starfs- og gæðanefnd læknaráðs Landspítalans hafi falið í sér valdastöðu eða boðvald gagnvart öðrum læknum spítalans, þar á meðal hinum sérfróðu meðdómendum. Nefndin hafi verið algerlega skilin frá yfirstjórn spítalans. Þá hafi hann aldrei komið nálægt deilum læknaráðs og yfirstjórnar spítalans, hvorki í ræðu né riti, og hafi hann ekki átt neinn þátt að upphafi þeirra né lausn.

Þótt ljóst sé að hinir tveir sérfróðu meðdómendur og annar gagnaðila, Haukur Hjaltason, hafi allir starfað sem læknar á Landspítala-háskólasjúkrahúsi á þeim tíma sem málið var rekið fyrir dómstólum nægir það eitt og sér ekki til þess að lagaskilyrði til endurupptöku málsins séu uppfyllt. Ekki þykir sýnt fram á að nefndarseta Hauks í starfs- og gæðanefnd læknaráðs sjúkrahússins hafi falið í sér valdastöðu gagnvart hinum sérfróðu meðdómendum, sem voru annars vegar yfirlæknir á spítalanum og hins vegar starfsmaður á skrifstofu forstjóra spítalans. Fullyrðingar endurupptökubeiðanda um þátt Hauks í deilum innan sjúkrahússins eiga sér enn fremur ekki stoð í gögnum málsins. Þá gerði endurupptökubeiðandi ekki athugasemdir við hæfi hinna sérfróðu meðdómenda undir rekstri dómsmálsins, hvorki fyrir héraðsdómi né Hæstarétti. Gögn þau sem hann leggur fyrir endurupptökunefnd máli sínu til stuðnings lágu þó öll fyrir á þeim tíma.

Endurupptökubeiðandi hefur með vísan til framangreinds ekki leitt líkur að því að um vanhæfi hafi verið að tefla þannig að uppfyllt séu lagaskilyrði til endurupptöku. Aðstæður eru þannig ekki sambærilegar og í tilvitnuðum ákvörðunum Hæstaréttar.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a-liðar og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a – c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla frekar um aðra liði.

 ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Söru Rafaelsdóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 50/2006, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 19. febrúar 2009, er hafnað.

 Ragna Árnadóttir formaður

 Björn L. Bergsson

 Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum