Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 10/2013

Hinn 20. nóvember 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 10/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 136/2013

Guðmundur Bjarni Yngvason

gegn

Íslandsbanka hf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I.                   Beiðni um endurupptöku

Með beiðni til innanríkisráðuneytisins, dags. 9. apríl 2013, og sem komið var á framfæri við endurupptökunefnd 4. júní 2013, fór Sveinbjörn Sveinbjörnsson hdl. þess á leit fyrir hönd Íslandsbanka hf. að hæstaréttarmál nr. 136/2013 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 22. mars 2013 yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II.                Málsatvik

Í máli nr. Z-2/2012 sem rekið var fyrir Héraðsdómi Vesturlands gerði Guðmundur Bjarni Yngvason þá kröfu að ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi um endursendingu nauðungarsölubeiðni yrði ómerkt og að lagt yrði fyrir sýslumann að selja tækið Omme-lift 2200 RBDJ, árgerð 2006, nauðungarsölu. Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 5. febrúar 2013 var þeirri kröfu hafnað en í forsendum héraðsdóms segir, að áður en leyst verði úr ágreiningi um hvort heimila beri nauðungarsölu á umræddu tæki á grundvelli haldsréttar sé þess að gæta að ágreiningur ríki um hver sé höfuðstóll peningakröfu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi sönnunarbyrði um hver sé höfuðstóll kröfu hans og með því að ágreiningur sé með aðilum og ekki liggi fyrir gögn sem taki af tvímæli um fjárhæð kröfu sóknaraðila þyki ekki vera fyrir hendi skilyrði til nauðungarsölu á meðan sá ágreiningur hafi ekki verið til lykta leiddur. Sóknaraðila var ennfremur gert að greiða Íslandsbanka hf. 300 þúsund krónur í málskostnað.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar Íslands með kæru 20. febrúar 2013 og krafðist þess að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi og sýslumanninum gert að selja framangreint tæki nauðungarsölu. Íslandsbanki hf. lét ekki málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms með dómi 22. mars 2013 og felldi úr gildi ákvörðun sýslumanns um að hafna umræddri nauðungarsölu. Segir meðal annars svo í forsendum dómsins:

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili sé eigandi vinnulyftu þeirrar sem mál þetta er sprottið af og hefur hann lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að greiða sanngjarnt og eðlilegt gjald til varnaraðila fyrir geymslu lyftunnar. Ágreiningslaust er að geymslugjald hefur ekki verið greitt, þrátt fyrir áskoranir sóknaraðila þar um, en ágreiningur stendur um fjárhæð þess. 

Með geymslu lyftunnar í þágu varnaraðila hefur sóknaraðili öðlast haldsrétt í lyftunni fyrir geymslugjaldi og getur á grundvelli 6. töluliðar 6. gr. laga 90/1991 krafist nauðungarsölu á lyftunni. Ágreiningur um fjárhæð geymslugjalds breytir engu um uppboðsheimildina sjálfa.

Verður því fallist á kröfu sóknaraðila á þann hátt sem greinir í dómsorði.

Þá var Íslandsbanka hf. gert að greiða gagnaðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Eftir uppsögu dóms Hæstaréttar sendi dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands bréf dagsett 4. apríl 2013 til endurupptökubeiðanda þess efnis að fyrir mistök hafi láðst að kynna honum að úrskurður héraðsdóms í máli Z-2/2012 hafi verið kærður til Hæstaréttar. Hafi réttinum ekki orðið það ljóst fyrr en eftir að dómur Hæstaréttar hafi gengið.

III.             Grundvöllur beiðni.

Endurupptökubeiðandi telur að málsástæður sínar hafi verið sniðgengnar í hæstaréttarmáli nr. 136/2013 þar sem honum hafi ekki gefist færi á að skila greinargerð í málinu en dómur Hæstaréttar leiði af sér afdrifaríkar aðgerðir sem ekki verði teknar aftur. Megi í því sambandi nefna dæmdan málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Er þess því krafist að dómur Hæstaréttar í máli nr. 136/2013 verði tekinn til meðferðar og dómsuppsögu á ný samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Endurupptökunefnd sendi endurupptökubeiðanda erindi dagsett 18. september 2013 er laut að skilyrðum endurupptöku og gaf honum kost á því að rökstyðja nánar hvernig skilyrði a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála teldust hvert og eitt uppfyllt. Svar barst frá endurupptökubeiðanda með tölvupósti þann 26. september 2013 um að hann myndi ekki senda frekari gögn til rökstuðnings endurupptöku málsins. Ekki hafa verið færð fram frekari rök fyrir beiðni um endurupptöku.

IV.              Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. Þá segir í 2. mgr. 168. gr. að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

   a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

   b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

   c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Ágreiningur aðila í hæstaréttarmáli nr. 136/2013, sem beiðst er endurupptöku á, laut að því hvort fram skyldi fara nauðungarsala á vinnulyftu á grundvelli haldsréttar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Í forsendum dóms Hæstaréttar í málinu er á því byggt að endurupptökubeiðandi sé eigandi umræddrar vinnulyftu og hann hafi lýst því yfir að hann sé tilbúinn að greiða sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir geymslu hennar. Ágreiningslaust sé að geymslugjald hafi ekki verið greitt en ágreiningur standi um fjárhæð þess. Með geymslu lyftunnar hafi gagnaðili öðlast haldsrétt í lyftunni fyrir geymslugjaldinu og geti á grundvelli 6. töluliðar 6. gr. laga 90/1991 krafist nauðungarsölu á lyftunni. Ágreiningur um fjárhæð geymslugjalds breyti engu um uppboðsheimildina sjálfa.

Endurupptökubeiðandi heldur því fram að málsástæður sínar hafi verið sniðgengnar í málinu en gerir hvorki grein fyrir þeim né setur fram rök því til stuðnings að skilyrði 1. mgr. 167. gr. fyrir endurupptökubeiðni séu uppfyllt, þrátt fyrir að endurupptökunefnd hafi sérstaklega gefið honum kost á því. Í engu hefur verið gerð grein fyrir því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós eða ný gögn nefnd til sögunnar sem leiði sterkar líkur að breyttri niðurstöðu.  Auk þess hefur ekki verið sýnt fram á að málskostnaður einn og sér teljist til stórfelldra hagsmuna í skilningi 167. gr.

Skortir þannig lagagrundvöll til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 136/2013 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Íslandsbanka hf. um endurupptöku máls nr. 136/2013 sem dæmt var í Hæstarétti 22. mars 2013 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum