Endurupptökunefnd

3.11.2017

Hinn 20. október 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 4/2017:


 Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 94/2015;

Benedikt G. Stefánsson

og

Plötupressa ehf.

gegn

Íslandsbanka hf.


 og kveðinn upp svohljóðandi


 ÚRSKURÐUR:


 I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 19. janúar 2017, fóru Benedikt Garðar Stefánsson og Plötupressa ehf. fram á að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1831/2014, sem dæmt var 26. nóvember 2014, yrði felldur úr gildi.

Með bréfi endurupptökunefndar, dagsettu 10. mars 2017, var endurupptökubeiðendum gefinn kostur á að leggja fram endurupptökubeiðni og jafnframt vakin athygli á því að framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og fékk málsnúmerið 94/2015.

Með erindi, dagsettu 24. mars 2017, fóru Benedikt og Plötupressa ehf. þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-1831/2014 verði endurupptekið auk þess sem vísað var til dóms Hæstaréttar í máli nr. 94/2015 frá 3. desember 2015. Endurupptökubeiðendur krefjast þess jafnframt að endurupptökunefnd skipi sýslumanninum í Reykjavík að aflétta tryggingabréfi af fasteign eiginkonu endurupptökubeiðandans Benedikts og að ógilt verði uppboð á þeirri eign.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2014 var fallist á kröfu gagnaðila um greiðslu skuldar in solidum úr hendi endurupptökubeiðenda. Þá var staðfestur veðréttur gagnaðila í fasteign eiginkonu endurupptökubeiðandans, Benedikts, til tryggingar greiðslu þeirra fjárhæða sem endurupptökubeiðendur voru dæmdir til þess að greiða. Skuld endurupptökubeiðenda var komin til vegna fjármögnunarleigusamnings nr. 606779-002 frá 9. desember 2009 þar sem Íslandsbanki fjármögnun leigði endurupptökubeiðanda, Plötupressu ehf., plötupressu, sbr. fjármögnunarleigusamning nr. 606779-001 frá 26. júní 1999. Endurupptökubeiðandinn Benedikt hafði samdægurs gefið út tryggingarbréf til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum endurupptökubeiðandans Plötupressu ehf. við Glitni hf. og sett að veði fasteign sína.

Vegna vanskila var umræddum fjármögnunarleigusamningi rift 22. febrúar 2011. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. A-176/2012, sem kveðinn var upp 2. október 2012, var gagnaðila heimilað að fá með beinni aðfarargerð umrædda vél tekna úr vörslu endurupptökubeiðandans Plötupressu ehf. Hið leigða tæki var síðan selt endurupptökubeiðandanum Benedikt 24. október 2013. Eftirstöðvar skuldarinnar fengust ekki greiddar sem leiddi til málshöfðunar gegn endurupptökubeiðendum.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-1831/2014 frá 26. nóvember 2014 var fallist á kröfu gagnaðila. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og kröfðust endurupptökubeiðendur sýknu. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 94/2015 var málinu vísað frá þar sem frágangur málsgagna var ekki í samræmi við reglur nr. 601/2014 um málsgögn í einkamálum, sbr. 4. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2016 var Plötupressa ehf. tekin til gjaldþrotaskipta. Skiptum lauk 21. desember 2016 og var félagið fellt af skrá 31. desember sama ár. Uppboð á hinni veðsettu fasteign fór fram 12. apríl 2017.

III.       Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðni er óskýr og því erfitt að henda reiður á hvernig endurupptökubeiðendur telja skilyrði endurupptöku uppfyllt. Þó virðist byggt á því af hálfu endurupptökubeiðenda að greitt hafi verið meira en það sem var umsamið samkvæmt samningi númer 606779-001 við gagnaðila og því hafi endurupptökubeiðandinn Plötupressa ehf. eignast umrædda vél en hafi ekki fengið afsal til að sanna eignarrétt sinn. Endurupptökubeiðendur telja samninginn ekki vera í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994.

Endurupptökubeiðendur telja að þeir hafi verið þvingaðir til að skrifa undir nýjan samning númer 606779-002, dagsettan 9. desember 2009, þrátt fyrir að hafa greitt skuldina að fullu og vélin orðin eign endurupptökubeiðandans Plötupressu ehf. Síðarnefndur endurupptökubeiðandi hafi því þurft að selja vélina til gagnaðila sem hafi selt vélina til endurupptökubeiðandans Benedikts. Hins vegar hafi söluandvirðið aldrei borist endurupptökubeiðandanum Plötupressu ehf.

Vísað er til þess að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 2. október 2012, hafi gagnaðila verið heimilað að fá umrædda vél tekna úr vörslu endurupptökubeiðandans Plötupressu ehf. með beinni aðfarargerð. Hafi endurupptökubeiðandanum Benedikt síðan verið boðið að kaupa vélina og undirritað af því tilefni kaupsamning 24. október 2013 sem hann sé búinn að efna. Í kjölfar kaupsamningsins hafi gagnaðili hafið á ný málaferli gegn endurupptökubeiðendum vegna skuldar milli Íslandsbanka Fjármögnunar og endurupptökubeiðandans Plötupressu ehf. samkvæmt samningi númer 606779-001, samanber héraðsdómsmál nr. E-1831/2014. Þá fullyrða endurupptökubeiðendur að umræddur samningur hafi fallið úr gildi þegar nýr kaupsamningur við endurupptökubeiðandann Benedikt hafi verið gerður 24. október 2013. Endurupptökubeiðendur telja að gagnaðili hafi aldrei verið aðili að málinu þar sem hann sé banki en ekki fjármögnunarfyrirtæki. Enn fremur hafi bankinn ekki verið aðili að samningum eða tryggingabréfi.

Endurupptökubeiðendur telja að tryggingabréfið hafi aðeins verið í gildi á grundvelli samnings númer 606779-001.

Þá telja endurupptökubeiðendur að gagnaðili geti ekki leitað fullnustu í íbúðarhúsnæði sem var í eigu endurupptökubeiðandans Benedikts með vísan til VIII. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Að lokum telja endurupptökubeiðendur að sama krafan hafi verið dæmd tvisvar að efni til.

IV.       Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Samkvæmt XXVI. og XXVII. kafla laga um meðferð einkamála er hægt að óska annars vegar eftir endurupptöku héraðsdóms sem hefur ekki verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur er liðinn, og hins vegar endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti. Af ákvæðunum leiðir að ekki er grundvöllur til að verða við beiðni um ógildingu uppboðs sýslumanns eða kröfu um að sýslumanni verði gert að aflétta tryggingabréfi af hinni veðsettu fasteign. Úrlausn  ágreinings um störf sýslumanns heyrir ekki undir endurupptökunefnd. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa þessum kröfum frá endurupptökunefnd.

Endurupptökubeiðni þessi er meðal annars sett fram í nafni einkahlutafélagsins Plötupressu. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra opinberum upplýsingum lauk skiptum á búi félagsins í árslok 2016 og var félagið afskráð í kjölfarið. Plötupressu ehf. skortir af þessum sökum aðildarhæfi og er endurupptökubeiðni sem sett er fram í nafni félagsins því vísað frá endurupptökunefnd þegar af þeirri ástæðu.

Endurupptökubeiðni lýtur einnig að endurupptöku á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1831/2014 sem kveðinn var upp 26. nóvember 2014. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Af ákvæðinu leiðir að ekki er grundvöllur til að verða við beiðni um endurupptöku héraðsdóms sem Hæstiréttur hefur tekið til úrlausnar í kjölfar kæru eða áfrýjunar. Um endurupptöku slíkra mála fer samkvæmt XXVII. kafla laga um meðferð einkamála. Fyrir liggur í gögnum málsins að endurupptökubeiðandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands 3. febrúar 2015. Hæstiréttur kvað síðan upp dóm 3. desember 2015 í hæstaréttarmáli nr. 94/2015. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa beiðni er varðar endurupptöku héraðsdómsmálsins frá endurupptökunefnd.

Endurupptökubeiðendur hafa jafnframt óskað endurupptöku á framangreindu hæstaréttarmáli nr. 94/2015. Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi þar sem frágangur málsgagna var ekki í samræmi við reglur nr. 601/2014 um málsgögn í einkamálum, sbr. 4. mgr. 156. gr. laga um meðferð einkamála, þrátt fyrir leiðbeiningar réttarins og ítrekaða fresti til að bæta úr.

Í endurupptökubeiðni er vísað til málsástæðna sem á reyndi fyrir héraðsdómi en í engu vikið að því á hvern hátt skilyrðum laga til endurupptöku hæstaréttardómsins sé fullnægt. Úr þessu hefur ekki verið bætt þrátt fyrir að því hafi verið beint til endurupptökubeiðandans Benedikts að leggja fram beiðni um endurupptöku hæstaréttarmálsins í réttu horfi með vísan til skilyrða 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Þar sem ekki liggur fyrir að skilyrðum stafliða a til c liða 167. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 169. gr. sömu laga, sé fullnægt er beiðni endurupptökubeiðandans Benedikts Garðars Stefánssonar hafnað þegar í stað, samanber 2. mgr. 168. gr. sömu laga.

Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar nefndarmanns í endurupptökunefnd. 

Úrskurðarorð

Beiðni um endurupptöku af hálfu Plötupressu ehf. er vísað frá endurupptökunefnd.

Beiðni Benedikts Garðars Stefánssonar um ógildingu uppboðs sýslumannsins sem fram fór 12. apríl 2017 og að sýslumanni verði gert að aflétta tryggingabréfi af hinni veðsettu fasteign er vísað frá endurupptökunefnd.

Beiðni Benedikts Garðars Stefánssonar um endurupptöku máls nr. E-1831/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. nóvember 2014, er vísað frá endurupptökunefnd.

Beiðni Benedikts Garðars Stefánssonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 94/2015, sem kveðinn var upp 3. desember 2015, er hafnað.

  

Björn L. Bergsson formaður

   

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir