Endurupptökunefnd


3.11.2017

Hinn 20. október 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 21/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 300/2015;

Ákæruvaldið

gegn

X

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 20. júlí 2017, fór X þess á leit að hæstaréttarmál nr. 300/2015, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. janúar 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir, mar og opið sár á nefi sem sauma þurfti með tveimur sporum. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til 30 daga fangelsisrefsingar og við þá ákvörðun litið til þess að atlaga hans hefði verið tilefnislaus og harkaleg. Fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Fyrir Hæstarétti krafðist endurupptökubeiðandi meðal annars ómerkingar héraðsdóms. Sú krafa var annars vegar reist á þeim grunni að borið hefði að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að þrír dómarar skipuðu dóm og hins vegar á því að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga. Ekki var fallist á þetta í dómi Hæstaréttar og var sérstaklega tekið fram að ekkert væri fram komið um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins. Þá var þess getið að dómurinn gæti ekki vegna ákvæða 2. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gæfu skýrslu fyrir Hæstarétti. Að þessu gættu var dómur héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna.

Endurupptökubeiðandi óskaði eftir endurupptöku á fyrrgreindum hæstaréttardómi með beiðni til endurupptökunefndar 2. febrúar 2017 í máli nr. 5/2017. Þeirri beiðni var hafnað þegar í stað með úrskurði nefndarinnar 10. mars 2017.

III.       Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að fram séu komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi rekur í beiðni sinni efni tveggja myndbandsupptaka sem hann hafi tekið á vettvangi. Afrit af myndbandsupptöku A hafi verið afhent dóminum eftir málflutning í Hæstarétti. Telur endurupptökubeiðandi að skjáskot sem tekin eru úr myndbandsupptökunni séu ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Myndbandsupptaka B sem sýni samskipti endurupptökubeiðanda og brotaþola þegar brotaþoli gangi út hafi ekki verið lögð fram í héraðsdómi en verið lögð fram í Hæstarétti.

Enn fremur telur endurupptökubeiðandi að í læknabréfi sem hafi legið fyrir í málinu komi fram að teknar hafi verið myndir af höndum endurupptökubeiðanda ásamt lýsingum á áverkum sem hann hafi orðið fyrir. Byggir endurupptökubeiðandi á því að myndirnar sjálfar hafi ekki verið lagðar fram og telur þær vera ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi byggir einnig á því að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð hafi verið fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Í því sambandi vísar endurupptökubeiðandi til myndbandsupptöku A sem hann telur að hafi ekki verið spiluð í nægjanlega góðum tækjakosti og þá hafi hún ekki verið spiluð nægjanlega hægt til að aðstæður á myndbandsupptökunni sæjust skýrt. Jafnframt byggir endurupptökubeiðandi á að af myndbandsupptökunni sé ljóst að hann hafi haldið á upptökuvél með hægri hendi og því hafi verið útilokað að hann hafi slegið brotaþola með hægri hendi. Telur hann að rétturinn hafi ranglega túlkað þau sönnunargögn og framburð sem lá fyrir og hafi það haft áhrif á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Endurupptökubeiðandi telur í því sambandi að vitnisburður hans hafi ekki verið lagður til jafns við vitnisburð eiginkonu brotaþola þrátt fyrir að eiginkona brotaþola hafi breytt framburði sínum fyrir rétti frá því sem áður hafði verið gefinn á vettvangi og síðar við skýrslutöku hjá lögreglu. Telur endurupptökubeiðandi fyrrgreind atriði vera verulegan galla á málsmeðferð samkvæmt d-lið fyrrgreinds lagaákvæðis.

IV.       Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Stafliðir a-d 1. mgr. 211. gr. eru svohljóðandi:

a.     fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

b.     ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

c.     verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

d.     verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hefur áður óskað eftir endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 300/2015 í máli nr. 5/2017. Þeirri beiðni var hafnað þegar í stað með úrskurði endurupptökunefndar 10. mars 2017. Í máli því sem nú er til úrlausnar er byggt á sömu sjónarmiðum og fjallað var um í fyrri úrskurði og vísað til sömu gagna. Með vísan til þessa og fyrri úrlausnar endurupptökunefndar þar sem tekin var efnisleg afstaða til röksemda endurupptökubeiðanda eru engar forsendur nú til að fallast á beiðnina og er henni hafnað þegar í stað.

 Úrskurðarorð

Beiðni X um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 300/2015, sem kveðinn var upp 28. janúar 2016, er hafnað.


  Björn L. Bergsson formaður

 

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir