Endurupptökunefnd

29.12.2016

Hinn 14. desember 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 10/2016:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 657/2016

Landsbankinn hf.

gegn

Margeiri Vilhjálmssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 11. nóvember 2016, fór Margeir Vilhjálmsson þess á leit að hæstaréttarmál nr. 657/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 11. október 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Sigurður Tómas Magnússon.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar var felldur úr gildi úrskurður héraðsdóms, þar sem máli gagnaðila, Landsbankans hf., á hendur endurupptökubeiðanda hafði verið vísað frá dómi, og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Gagnaðili höfðaði málið gegn endurupptökubeiðanda og krafðist þess að honum yrði gert að greiða skuld vegna yfirdráttar á tilteknum bankareikningi. Af hálfu endurupptökubeiðanda var krafist frávísunar málsins vegna vanreifunar og var fallist á þá kröfu með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2016. Gagnaðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2016 og endurupptökubeiðandi skilaði greinargerð til réttarins 25. sama mánaðar. Fyrir liggur að kærumálsgögn bárust réttinum 3. október sama ár.  

Í dómi Hæstaréttar var talið að annmarkar þeir sem endurupptökubeiðandi taldi vera á málatilbúnaði gagnaðila lytu ekki að málsgrundvellinum heldur að sönnun þess að gagnaðili ætti þá fjárkröfu sem hann gerði í málinu. Hefði endurupptökubeiðanda ekki getað dulist hver krafan var, hvernig hún væri tilkomin og hvernig gagnaðili hygðist rökstyðja hana. Þá hefðu aðilar ekki lýst gagnaöflun lokið þegar málið var flutt um frávísunarkröfu endurupptökubeiðanda. Fyrir Hæstarétti lagði gagnaðili fram reikningsyfirlit vegna umrædds reiknings endurupptökubeiðanda fyrir ákveðið tímabil. Í dómi réttarins var tekið fram að á yfirlitunum hefði komið fram að hefði viðtakandi athugasemdir við þau bæri að tilkynna það innan ákveðins frests en annars teldist reikningurinn réttur. Endurupptökubeiðandi hefði ekki borið því við að yfirlitið hefði ekki verið sent honum og yrði ekki ráðið af gögnum málsins að hann hefði gert athugasemd við efni þeirra. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur að mistök hafi orðið við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Gagnaðili hafi lagt fram ný sönnunargögn, þ.e. reikningsyfirlit, þótt þess hafi hvorki verið getið í kæru né frumrit eða staðfest eftirrit gagnanna fylgt kærunni. Þá virðist gagnaðili hafa lagt fram greinargerð til Hæstaréttar án þess að endurupptökubeiðanda hafi verið um það kunnugt. Hafi endurupptökubeiðandi því ekki vitað um tilvist þessara nýju gagna eða um framlagningu þeirra. Hann hafi því ekki getað tjáð sig um gögnin eða þær kröfur sem á þeim byggðust. Endurupptökubeiðandi hafi fyrst séð gögnin við fyrirtöku málsins í héraði 4. nóvember 2016. Tekið er fram að niðurstaða Hæstaréttar virðist að minnsta kosti að hluta til byggjast á því að endurupptökubeiðandi hafi ekki gert athugasemdir við gögnin innan tilgreinds frests.

Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós fyrir Hæstarétti. Ástæðan sé sú að gagnaðili hafi ekki fylgt lagareglum um kæru í einkamálum og dómarar Hæstaréttar ekki áttað sig á því. Samkvæmt því séu uppfyllt skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna.  Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:
a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að gagnaðili hafi ekki fylgt lagareglum um kæru í einkamálum sem hafi leitt til þess að honum var ókunnugt um reikningsyfirlit sem gagnaðili lagði fyrir Hæstarétt til stuðnings málatilbúnaði sínum. Samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála skal sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn senda Hæstarétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins í fjórriti sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Hann skal þá einnig, ef hann kýs, afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð. Tekið er fram að hann skuli samtímis afhenda gagnaðila eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Fram kemur í 4. mgr. 147. gr. að séu kærumálsgögn ekki afhent Hæstarétti innan tilgreinds frests verði ekki frekar af máli.

Endurupptökubeiðandi fullyrðir að hann hafi ekki fengið eintak af þeim gögnum sem um ræðir. Byggt er á því að skilyrði til endurupptöku séu uppfyllt þar sem málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós fyrir Hæstarétti. Til þess er að líta að með dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur endurupptökubeiðanda og væru því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Sú niðurstaða er einkum studd þeim rökum að endurupptökubeiðanda hafi ekki getað dulist hver krafan var, hvernig hún var til komin og hvernig gagnaðili hugðist rökstyðja hana. Þá er vísað til þess að fyrrgreind reikningsyfirlit hafi verið lögð fyrir Hæstarétt og meðal annars tekið fram að endurupptökubeiðandi hafi ekki borið því við að yfirlitin hafi ekki verið send honum. Hins vegar leggur endurupptökubeiðandi áherslu á að vegna brota gagnaðila á ákvæðum laga um meðferð einkamála hafi hann ekki haft færi á að koma að slíkum athugasemdum.

Með dómi Hæstaréttar var héraðsdómi gert að taka málið til efnismeðferðar. Málið var tekið fyrir í héraði 4. nóvember 2016 og voru umrædd reikningsyfirlit lögð þar fram. Leyst verður úr efnisatriðum málsins í héraði, þar með talið hvort og þá hvaða þýðingu reikningsyfirlitin hafa fyrir málatilbúnað gagnaðila. Hæstiréttur hefur ekki tekið efnislega afstöðu til þessara gagna og endurupptökubeiðandi getur hreyft þeim mótmælum við meðferð málsins í héraði að hann hafi ekki fengið yfirlitin send á sínum tíma. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af forsendum dóms Hæstaréttar hafa ekki verið leiddar sterkar líkur að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þá hefur endurupptökubeiðandi ekki rökstutt beiðni með vísan til c-liðar sama ákvæðis. Skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt.

Úrskurðarorð

Beiðni Margeirs Vilhjálmssonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 657/2016, sem kveðinn var upp 11. október 2016, er hafnað.

 

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sigurður Tómas Magnússon