Endurupptökunefnd

1.3.2017

Hinn 13. febrúar 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 14/2015:

 Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 145/2014;

Ákæruvaldið

gegn

Hreiðari Má Sigurðssyni,

Sigurði Einarssyni,

Ólafi Ólafssyni

og

Magnúsi Guðmundssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku
Með erindi, dagsettu 23. nóvember 2015, fór Magnús Guðmundsson þess á leit að mál nr. 145/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015, yrði endurupptekið. Með bréfi, dagsettu 7. mars 2016, barst frekari rökstuðningur fyrir endurupptöku ásamt nýrri málsástæðu. Með bréfi, dagsettu 15. júlí 2016, barst endurupptökunefnd umsögn ríkissaksóknara. Með bréfi, dagsettu 17. ágúst 2016, bárust athugasemdir endurupptökubeiðanda vegna umsagnar ríkissaksóknara og frekari rökstuðningur fyrir endurupptöku ásamt nýrri málsástæðu. Með bréfi, dagsettu 12. september 2016, lét ríkissaksóknari umsögn í té vegna nýrrar málsástæðu og athugasemda endurupptökubeiðanda. Með bréfi, dagsettu 1. október 2016, barst frekari rökstuðningur fyrir endurupptöku. Með bréfi, dagsettu 17. október 2016, barst umsögn ríkissaksóknara vegna frekari rökstuðnings endurupptökubeiðanda. Að ósk endurupptökubeiðanda var honum gefinn kostur á að tjá sig munnlega um beiðnina og var fundur haldinn með honum hinn 5. desember 2016. Ríkissaksóknari taldi ekki þörf á að tjá sig munnlega um beiðnina eða koma með frekari röksemdir og þáði ekki boð um að vera viðstaddur á fundinum.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Berglind Svavarsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir og Kristbjörg Stephensen. Nefndin var fullskipuð 21. september 2016.

II. Málsatvik
Viðskiptabankinn Kaupþing hf. lét frá sér fara fréttatilkynningu 22. september 2008 um að Q Iceland Finance ehf., félag í óbeinni eigu Sheikh Mohamed Al Thani, auðugs kaupsýslumanns í Miðausturlöndum, hefði keypt 5,01% hlutafjár í bankanum fyrir ákveðna fjárhæð. Við rannsókn málsins kom fram að Kaupþing hf. hafði veitt lán fyrir öllu kaupverði hlutabréfanna sem bankinn hafði sjálfur átt fram að sölu þeirra. Það hafði verið gert þannig að tvö félög á Bresku Jómfrúareyjunum, Serval Trading Group Corp. og Gerland Assets Ltd., það fyrrnefnda í eigu Sheikh Mohamed og það síðarnefnda í eigu Ólafs Ólafssonar, sem fór fyrir öðru félagi sem var næststærsti hluthafinn í Kaupþingi hf., höfðu hvort fyrir sig fengið lán hjá Kaupþingi hf. sem nam helmingi kaupverðsins. Það lánsfé hafði svo runnið til kýpversks félags, Choice Stay Ltd., sem fyrrnefndu félögin tvö áttu, en það félag hafði loks veitt Q Iceland Finance ehf. lán fyrir kaupverðinu. Samhliða þessu veitti Kaupþing hf. Brooks Trading Ltd., öðru félagi í óbeinni eigu Sheikh Mohamed, lán að ákveðinni fjárhæð sem var greitt út með innborgun á reikning félagsins hjá Kaupthing Luxembourg S.A., dótturfélagi Kaupþings hf. Þá kom fram við rannsókn málsins að lánveitingin til Serval Trading Group Corp. hafði verið samþykkt af lánanefnd stjórnar Kaupþings hf., en hvorki lánveiting til Gerland Assets Ltd. né Brooks Trading Ltd., svo sem nauðsynlegt hefði verið.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 145/2014 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum, sbr. 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hlutdeild í markaðsmisnotkun, sbr. a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr., sbr. 3. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga og fyrir markaðsmisnotkun, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að sæta fangelsi í 4 ár og 6 mánuði og til greiðslu sakarkostnaðar.

III. Grundvöllur beiðni
Við meðferð málsins hefur endurupptökubeiðandi fært rök fyrir endurupptöku í fjórum bréfum, dagsettum 23. nóvember 2015, 7. mars, 17. ágúst og 1. október 2016. Líkt og áður er rakið teflir endurupptökubeiðandi fram málsástæðum sem eru síðar áréttaðar og teflir jafnframt fram nýjum málsástæðum. Í ljósi þeirrar framsetningar verða allar málsástæður endurupptökubeiðanda raktar í III. kafla en viðhorf gagnaðila í IV. kafla.

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi verulegir gallar verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi dregið þrjár rangar ályktanir af sönnunargögnum málsins svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess og leitt til þess að endurupptökubeiðandi hafi verið sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærða Hreiðars Más Sigurðssonar.

Í fyrsta lagi að endurupptökubeiðandi hafi veitt fyrirmæli ásamt meðákærða Hreiðari Má á fundi hinn 18. september 2008 um að lán til félagsins Brooks Trading Ltd. skyldi greitt út án þess að samþykki lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. lægi fyrir. Þrátt fyrir neitun endurupptökubeiðanda um að hafa gefið fyrirmæli á slíkum fundi, taldi Hæstiréttur það sannað og vísaði til þess að endurupptökubeiðandi hafi átt fullan þátt í því með meðákærða Hreiðari Má að gefa starfsmönnum bankans umrædd fyrirmæli og þannig með atbeina sínum veitt meðákærða Hreiðari Má liðsinni í skilningi 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Endurupptökubeiðandi gagnrýnir rýra umfjöllun Hæstaréttar um sönnunargögn endurupptökubeiðanda í hag og jafnframt þær fáu tilvísanir í forsendum réttarins er varða meint fyrirmæli hans og telur að ekki hafi farið fram neitt sjálfstætt mat þó vísað sé til óskilgreindra annarra gagna. Með hliðsjón af forsendum Hæstaréttar telur endurupptökubeiðandi sönnunarmat réttarins um þetta atriði því byggja á þeim gögnum sem fjallað sé um í símtali Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar við þrjá starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um umrædd fyrirmæli og tilhögun lánveitingarinnar. Við meðferð málsins fyrir dómstólum hafi hins vegar Halldór Bjarkar, Hreiðar Már, Bjarki Diego og Guðmundur Þór Gunnarsson, sem sátu umræddan fund, tekið fram að endurupptökubeiðandi hafi engin fyrirmæli veitt.

Að mati endurupptökubeiðanda hafi hið ranga sönnunarmat haft töluverð áhrif á málið og hafi orðið til þess að endurupptökubeiðandi hafi ranglega verið dæmdur fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærða Hreiðars Más eða í öllu falli dæmdur fyrir mun meira brot en það sem endurupptökubeiðandi hafi framið.

Endurupptökubeiðandi byggir jafnframt á því að Halldór Bjarkar hafi þekkt til Brooks Trading Ltd. viðskiptanna áður en fundurinn hinn 18. september 2008 fór fram. Af gögnum málsins verði ekki ályktað öðruvísi en svo að hann hafi talið sig vera kominn með heimild til að greiða lánið áður en að fundinum kom og að allt málið væri samþykkt til útgreiðslu. Endurupptökubeiðandi hafi því engan veginn getað talist hafa gefið Halldóri Bjarkar fyrirmæli eða veitt meðákærða Hreiðari Má liðsinni í að gefa honum fyrirmæli um þessi tilteknu viðskipti á umræddum fundi.

Því næst tekur endurupptökubeiðandi fram að ekki hafi legið fyrir hvaða félagi ætti að lána og því hafi hann ekki getað gefið fyrirmæli um lánveitingu. Endurupptökubeiðandi hafi ekki haft umboð til að gefa fyrirskipanir um lánveitingar eða útgreiðslu lána af hálfu Kaupþings banka hf. og fráleitt að liðsinnis endurupptökubeiðanda hafi verið þörf til þess að forstjóri Kaupþings banka hf. gæti gefið undirmönnum sínum fyrirmæli.

Þá gæti ósamræmis í dómi Hæstaréttar þegar fjallað er um annars vegar hvort endurupptökubeiðandi hafi veitt fyrirmæli ásamt meðákærða Hreiðari Má og hins vegar hvort Hreiðar Már hafi haft heimild til að mæla fyrir um lánveitinguna. Þannig telji Hæstiréttur að meðákærði Hreiðar Már hafi gefið fyrirmæli einn og óstuddur, án aðkomu endurupptökubeiðanda. Þá hafi fyrstu skjallegu samskipti hans og Halldórs Bjarkar átt sér stað eftir að Halldór hafði þá þegar gefið greiðslufyrirmæli til fjárstýringar bankans án aðkomu endurupptökubeiðanda.

Í öðru lagi að endurupptökubeiðanda hafi mátt vera ljóst að borin von væri að framkvæma mætti fyrrgreind fyrirmæli um lánveitinguna með hætti sem samrýmanlegur væri verklagsreglum bankans, meðal annars á þeim grundvelli að ekki hafi legið fyrir samþykki lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. fyrir veitingu lánsins til Brooks Trading Ltd., en fyrir liggi að meðákærði Hreiðar Már hafi gefið fyrirmæli á fundi 18. september 2008 um að lánið skyldi greitt út daginn eftir.

Endurupptökubeiðandi telur að sönnunarmat Hæstaréttar hefði verið á annan veg ef litið hefði verið til eftirfarandi staðreynda: Í fyrsta lagi að engin gögn hafi legið fyrir í málinu um að störf endurupptökubeiðanda innan samstæðu Kaupþings banka hf. ættu að leiða til þekkingar hans á verklagsreglum Kaupþings banka hf., en endurupptökubeiðandi hafi verið bankastjóri í Kaupthing Bank Luxembourg S.A., dótturfélags Kaupþings banka hf., þar sem aðrar lánareglur hafi gilt en í móðurfélaginu. Í öðru lagi þá hafi Hæstiréttur ekki gert ráð fyrir því að endurupptökubeiðandi hafi talið að samþykki lánanefndar hafi þegar legið fyrir á fundinum hinn 18. september 2008 en Halldór Bjarkar hafi meðal annars verið þeirrar skoðunar að fyrir hafi legið heimildir til að greiða út lánið eftir umræddan fund. Ljóst sé að það hafi verið vel mögulegt, og í raun verið gert áður innan bankans, að afla samþykkis viðeigandi lánanefndar á þeim sólarhring sem hafi liðið frá því að fyrirmælin hafi verið gefin og þangað til lánveitingin hafi átt að greiðast. Fyrirliggjandi tölvupóstar og vitnisburðir sýni að samþykki lánanefnda hafi verið aflað með eins stuttum fyrirvara og í þessu máli. Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi ekki litið til þessara gagna. Jafnframt hefur endurupptökubeiðandi lagt fram tölvupósta sem sýni að formlegs samþykkis lánanefndar hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið hægt að afla með tölvupóstum með skjótum hætti. Þá verði endurupptökubeiðanda ekki kennt um að brotið hafi verið á verklagsreglum bankans.

Í þriðja lagi að tilteknar ráðstafanir, sem Kaupþing banki hf. hafi gert í tengslum við lánið og sneru að félaginu Brooks Trading Ltd., hafi ekki haft tryggingargildi fyrir bankann. Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi litið framhjá sönnunargögnum og staðreyndum sem hafi legið fyrir í málinu hvað þetta varði. Hæstiréttur hafi ekki tekið tillit til þess að fé sem hafi verið ráðstafað af reikningi Brooks Trading Ltd. og notað til greiðslu á skuldum annars félags án þess að nokkuð kæmi í staðinn til handa félaginu hafi verið ólögmæt ráðstöfun að mati skiptastjóra þrotabús Brooks Trading Ltd. Þannig hafi Hæstiréttur talið að eftir ráðstöfun á innstæðu félagsins hafi félagið staðið, eftir sem áður, í skuld við Kaupþing banka hf., en hafi á hinn bóginn orðið eignalaust. Með hliðsjón af framangreindu telur endurupptökubeiðandi að þessi ráðstöfun hafi verið riftanleg og hefði komið til riftunar hefði bankinn með réttu fengið bætt það tjón sem hann varð fyrir. Tjónið sé þannig ekki í orsakasamhengi við lánveitinguna sjálfa. Þá hafi Hæstiréttur litið framhjá þeirri staðreynd að umrætt fé hafi runnið inn á reikning Kaupþings banka hf. og í raun hafi bankinn sjálfur tekið til sín andvirði lánsins og tekið síðar ákvörðun um að ráðstafa því með framangreindum hætti. Jafnframt telur endurupptökubeiðandi að með umræddri ráðstöfun hafi Brooks Trading Ltd. eignast kröfu á þann sem fékk fjármunina og samhliða því eignast skaðabótakröfu á þann sem með ólögmætum hætti ráðstafaði fjármunum félagsins. Þá sé óumdeilanlegt að greiðslugeta þess, sem hafi borið skaðabótaábyrgðina, Sheikh Mohamed Al Thani, hafi verið afar góð, en staðfesting hans á umræddri millifærslu hafi legið fyrir í málinu.

Endurupptökubeiðandi byggir jafnframt á því að sönnunarmat Hæstaréttar hafi verið rangt um hagnaðarhlutdeild Ólafs Ólafssonar og vitneskju endurupptökubeiðanda um hana. Endurupptökubeiðandi rekur forsendur Hæstaréttar fyrir aðkomu hans að meintum viðskiptum Ólafs um helming af arði hlutabréfa sem hafi byggt á símtali Bjarnfreðs Ólafssonar við Eggert J. Hilmarsson hinn 17. september 2008. Endurupptökubeiðandi gagnrýnir þá víðtæku ályktun sem Hæstiréttur hafi dregið af því símtali og telur að ekki verði af því ráðið að ætlunin hafi verið að Ólafur nyti helmings arðsins. Þá telur endurupptökubeiðandi að ekki sé hægt að leggja til grundvallar að einvörðungu sé átt við Ólaf Ólafsson eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson í umræddu símtali. Jafnvel þó svo væri, leiði það ekki til þess að Ólafur Ólafsson hafi ætlað sér hagnaðarhlutdeild eða verið kunnugt um slík áform. Hæstiréttur hafi ekki tekið tillit til annarra sönnunargagna, eða skorts á þeim, sem hafi bent í gagnstæða átt. Hæstiréttur hafi snúið sönnunarbyrðinni við þannig að endurupptökubeiðanda og öðrum ákærðum hafi verið gert að sanna að hagnaðartengingin hafi ekki staðið til.

Þá rekur endurupptökubeiðandi fjórtán atriði, þó ekki tæmandi, sem áhrif hafi haft á sönnunarmat Hæstaréttar: Í fyrsta lagi hafi enginn samningur legið fyrir um hagnaðarhlutdeild milli Ólafs Ólafssonar og Sheikh Mohamed Al Thani. Í öðru lagi hafi hvorki Sheikh Mohamed Al Thani né Sheikh Sultan Al Thani kannast við hagnaðarhlutdeild Ólafs. Ekkert slíkt samþykki eða slík skjöl hafi legið fyrir. Í þriðja lagi sé ekki minnst á hagnaðarhlutdeild Ólafs í símtali milli Halldórs Bjarkar og Sölva Sölvasonar frá 18. september 2008. Í fjórða lagi hafi tölvupóstur Halldórs Bjarkar til Guðmundar Þórs Gunnarssonar og Sölva Sölvasonar verið getgátur um samning Ólafs við Sheikh Mohamed Al Thani. Í fimmta lagi hafi vitni staðfest að engin umræða hafi verið um slíka hagnaðarhlutdeild Ólafs. Í sjötta lagi hafi Eggert og Bjarnfreður báðir staðfest að hugmyndirnar um hagnaðarhlutdeildina hefðu ekki komið frá endurupptökubeiðanda eða öðrum meðákærðu. Í sjöunda lagi hafi hugmyndir Eggerts um viðskiptin tekið nokkrum breytingum og virðist ekki hafa verið fullkomið samræmi í þeim. Í áttunda lagi hafi endurupptökubeiðandi talið að um einn fjárfesti væri að ræða en ekki að kaupin á hlutabréfunum væru sameiginleg fjárfesting Ólafs og Sheikh Mohamed. Í níunda lagi virðast hugrenningar Eggerts um hagnaðarhlutdeild Ólafs að einhverju leyti hafa smitast frá hugmyndum um sameiginlegan fjárfestingasjóð Ólafs og Sheikh Mohamed, sem hafi verið á teikniborðinu áður en viðskiptin með hlutabréfin í Kaupþingi banka ehf. komu til. Í tíunda lagi hafi prókúruhafi, framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður Q Iceland Finance ekki kannast við þessa hagnaðartengingu. Í ellefta lagi sé alfarið á huldu hvernig slíkt hagnaðartengt lán hafi yfirhöfuð átt að virka. Í tólfta lagi hafi verið ýmsir vankantar á hugrenningum Eggerts og Bjarnfreðs samkvæmt skattalegum ráðgjafa í Kýpur. Í þrettánda lagi liggi fyrir að Eggert hafi staðfest fyrir dómi að hann hafi ekki talið sig hafa heildarmynd viðskiptanna. Í fjórtánda lagi skipti máli að Hæstiréttur hafi ranglega talið að Bjarnfreður hafi verið umboðsmaður Ólafs.

Því næst víkur endurupptökubeiðandi að þeirri ályktun Hæstaréttar að hann hafi vitað eða mátt vita um meintan hagnað Ólafs. Að mati endurupptökubeiðanda geti það eitt og sér ekki talist refsivert að koma að skipulagningu viðskiptanna, undirbúningi þeirra og framkvæmd. Til að honum yrði gerð refsing hefðu saknæmiskröfur einnig þurft að vera uppfylltar. Endurupptökubeiðanda hafi verið kunnugt um viðskiptin en hafnar því að Ólafur hafi átt að njóta hlutdeildar í hagnaði af hlutabréfunum. Engin fyrirliggjandi sönnunargögn sýni svo að hafið verði yfir skynsamlegan vafa að endurupptökubeiðandi hafi litið svo á að Ólafur hafi átt að njóta hagnaðar af viðskiptunum, heldur liggi fyrir sönnunargögn sem gefi til kynna að endurupptökubeiðandi hafi ekki gert ráð fyrir hagnaðarhlutdeild Ólafs.

Endurupptökubeiðandi byggir jafnframt á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að tveir dómenda í Hæstarétti, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson, hafi verið vanhæfir til að dæma í málinu annars vegar vegna tengsla sonar Árna Kolbeinssonar, Kolbeins Árnasonar, og hins vegar vegna tengsla sonar Þorgeirs Örlygssonar, Þórarins Þorgeirssonar, við slitastjórn Kaupþings hf. sem hafi haft mikla hagsmuni af því að sakfellt yrði í málinu. Þá telur endurupptökubeiðandi að báðir synirnir hafi haft fjárhagslega og umtalsverða hagsmuni að gæta af niðurstöðu málsins. Þessu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi sérstaklega til rökstuðnings annarra endurupptökubeiðanda vegna beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 145/2014 er lúti að vanhæfi dómara, sbr. mál endurupptökunefndar nr. 8/2015, 9/2015 og 10/2015.

Þá tekur endurupptökubeiðandi fram að samkvæmt úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 8/2015 hafi nefndin talið að fjárhagslegir hagsmunir Kaupþings banka hf. að niðurstöðu hæstaréttarmálsins nr. 145/2014 kynnu að vera fyrir hendi. Endurupptökubeiðandi rekur að Kaupþing banki hf. hafi höfðað mál á hendur Ólafi og Hreiðari Má. Krafa bankans hafi byggt á því að sú háttsemi sem þeir voru ákærðir fyrir í hæstaréttarmálinu hefði valdið félaginu tjóni. Meint umboðssvik hafi jafnframt beinst að Kaupþingi banka hf. Á þeim grunni sé ljóst að Kaupþing banki hf. myndi falla undir að vera brotaþoli í skilningi laga um meðferð sakamála og á þeim grundvelli fengið fullan aðgang að gögnum málsins hjá sérstökum saksóknara.

Þá telur endurupptökubeiðandi í ljósi nýlegra upplýsinga um bónusa starfsmanna Kaupþings hf., þar á meðal Þórarins Þorgeirssonar, að sannað sé að hann njóti eða muni njóta fjárhagslegra eða annarra hagsmuna af rekstri Kaupþings banka hf.

Þá telur endurupptökubeiðandi það hafa verið galla á meðferð máls þegar ekki hafi verið tekin nein formleg lögregluskýrsla af Sheikh Mohamed Al Thani og Sheikh Sultan Al Thani. Þeir hafi haft stöðu vitnis þó að þeir einir gætu gert það að veruleika að Ólafur myndi hagnast á hlutabréfakaupunum. Þá tekur endurupptökubeiðandi fram að lögmenn endurupptöku-beiðanda hafi ekki fengið tækifæri til að spyrja Sheikh Mohamed Al Thani og Sheikh Sultan Al Thani fyrir íslenskum dómstólum þar sem þeir hafi ekki verið leiddir sem vitni fyrir dóm. Hæstiréttur hafi með engum hætti fjallað um staðfestingar Sheikh Mohamed Al Thani og Sheikh Sultan Al Thani um að sá fyrrnefndi hafi staðið einn að kaupum sínum á hlutabréfum í Kaupþingi og að þau viðskipti væru ótengd öllum öðrum viðskiptum.

Endurupptökubeiðandi telur það jafnframt vera galla á meðferð máls að hann hafi ekki fengið aðgang að öllum haldlögðum gögnum og að símtöl endurupptökubeiðanda og verjanda hans hafi verið hlustuð og upptökunum ekki eytt. Ekki hafi verið um að ræða eitt afmarkað tilvik er lúti að hlerun heldur eitt tilvik sem hafi fundist með handahófskenndri leit þar sem símtalinu hafi ekki verið eytt. Það segi ekkert til um hve mörg símtöl hafi verið tekin upp, hlustuð og hugsanlega geymd og hvernig þessi gögn hafi verið misnotuð af saksóknara. Þá hafi endurupptökubeiðandi eða lögmenn hans ekki haft aðgang að umræddum símtölum fyrr en löngu eftir að hlerunum var lokið.

Þá hafi endurupptökubeiðandi verið hleraður eftir að hann var kominn með stöðu grunaðs manns, frá mars til maí 2010. Alls hafi 537 símtöl verið hleruð á framangreindu tímabili, þar af 52 í heimasíma endurupptökubeiðanda í Lúxemborg á meðan hann var í einangrun og síðar farbanni á Íslandi og enginn annar hafi getað notað símann en eiginkona hans og börn. Endurupptökubeiðandi hafi ekki verið upplýstur um þessar hleranir fyrr en 28. desember 2011.

Að lokum sé ljóst að á meðan á ofangreindum hlustunum stóð sé ljóst að endurupptökubeiðandi hafi verið með stöðu grunaðs manns. Þrátt fyrir þetta hafi endurupptökubeiðandi verið kallaður til yfirheyrslu 19. júní 2009 með réttarstöðu vitnis. Þannig hafi verið vegið að grundvallarréttindum endurupptökubeiðanda sem sakbornings og sé þetta því verulegur galli á málinu.

IV. Viðhorf gagnaðila
Í bréfum ríkissaksóknara, dagsettum 15. júlí, 12. september og 17. október 2016, er vísað til og tekið undir röksemdir endurupptökunefndar í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 8/2015, 9/2015 og 10/2015 fyrir því að hafna beiðni meðákærðu um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 145/2014.

Ríkissaksóknari telur að endurupptökubeiðandi sé ósammála sönnunarmati Hæstaréttar í mörgum atriðum en ekki hafi verið færð rök fyrir því að verulegar líkur séu á að sönnunargögn í hæstaréttarmáli nr. 145/2014 hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu dómsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Öll þau atriði sem endurupptökubeiðandi færi fram í endurupptökubeiðninni og frekari forsendum fyrir beiðninni hafi Hæstiréttur fjallað um í sínu heildarmati á sönnunargögnum í málinu og telji ríkissaksóknari ekki efni til að veita umsögn um einstaka liði eða röksemdir endurupptökubeiðanda. Einnig megi draga í efa að það sé hlutverk endurupptökunefndar að endurmeta sönnunarmat Hæstaréttar á þann veg.

Ríkissaksóknari áréttar tilvísun í fyrri úrskurði endurupptökunefndar í málum nr. 8/2015, 9/2015 og 10/2015 hvað varðar vanhæfi dómenda í Hæstarétti. Þrátt fyrir umfjöllun um bónusgreiðslur til starfsmanna Kaupþings banka hf. sé staðan enn sú sama, þannig að ekki hafi verið sýnt fram á að synir hæstaréttardómaranna Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar muni njóta hagsmuna, fjárhagslegra eða annarra, af niðurstöðu hæstaréttarmáls nr. 145/2014.

Um þau atriði er snúi að aðgengi endurupptökubeiðanda að gögnum málsins og hlustanir vísar ríkissaksóknari í dóm Hæstaréttar í máli nr. 145/2014 og tekur undir þá umfjöllun. Ríkissaksóknari tekur fram að við dómsmeðferð sakamálsins hafi ekki verið byggt á því sem fram hafi komið við hlustun á símtölum endurupptökubeiðanda við verjanda hans eða aðra. Þó að litið yrði svo á að um galla á málsmeðferðinni hafi verið að ræða hvað framkvæmd hlustana varði, þá sé alveg ljóst að þeir gallar hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu hæstaréttarmáls nr. 145/2014.

Því næst víkur ríkissaksóknari að þeirri málsástæðu endurupptökubeiðanda að hann hafi verið sagður vitni en í raun verið sakborningur. Endurupptökubeiðandi hafi haft réttarstöðu vitnis við upphaf rannsóknar. Tilvitnaðar símahlustanir hafi átt sér stað í mars og maí 2010, en vitnaskýrslan hafi verið tekin 19. júní 2009. Endurupptökubeiðandi hafi fengið réttarstöðu sakbornings þegar símahlustanirnar hafi átt sér stað sem og við framkvæmd húsleita sem einnig hafi átt sér stað eftir skýrslutökuna, eða 19. október 2009 og 2. janúar 2010. Ekki verði séð hvernig þessi framvinda á rannsókninni hafi getað leitt til þess að verulegur galli teljist hafa verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Að öllu virtu telur ríkissaksóknari skilyrði c- og d-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga um meðferð sakamála ekki uppfyllt og því beri að hafna beiðni um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 145/2014.

V. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:
a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

Beiðni endurupptökubeiðanda er annars vegar reist á c-lið og hins vegar d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi metið sönnunargögn með röngum hætti, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, þegar rétturinn komst að þeirri niðurstöðu í fyrsta lagi að endurupptökubeiðandi hafi veitt fyrirmæli ásamt meðákærða Hreiðari Má Sigurðssyni um lánið til félagsins Brooks Trading Ltd., í öðru lagi að endurupptökubeiðanda hafi mátt vera ljóst að borin von væri að framkvæma mætti fyrrgreind fyrirmæli um lánveitinguna með hætti sem samrýmanleg væru verklagsreglum bankans og í þriðja lagi að tilteknar ráðstafanir, sem Kaupþing banki hf. hafi gert í tengslum við lánið og sneru að félaginu Brooks Trading Ltd., hafi ekki haft tryggingargildi fyrir bankann. Þá er byggt á því að Hæstiréttur hafi ekki fjallað um tiltekin gögn og þannig ekki tekið afstöðu til þeirra eða hafi yfirsést þau. Sönnunarmat Hæstaréttar sé af þeim sökum rangt. Að auki sýni framlagðir tölvupóstar um framkvæmd lánanefndar Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að hægt var að framkvæma lánafyrirmæli innan tilskilins tíma. Af þeim sökum séu skilyrði til endurupptöku málsins uppfyllt.

Rökstuðningur endurupptökubeiðanda um aðkomu og vitneskju endurupptökubeiðanda að viðskiptunum, er reistur á sömu eða sambærilegum sjónarmiðum og vörn hans fyrir héraðsdómi og Hæstarétti byggði á. Ekki verður annað séð en að Hæstiréttur hafi í sínu heildarmati á sönnunargögnum, tekið tillit til og fjallað um þau atriði sem endurupptökubeiðandi færir fram til stuðnings kröfu sinni um endurupptöku. Telja verður að Hæstiréttur geti fjallað um heildarmat sitt á sönnunargögnum án þess að krafa verði gerð til réttarins um að hann fjalli um hvert einstakt gagn sem liggur frammi í málinu og hvaða ályktanir rétturinn kann að draga af því. Endurupptökubeiðandi hefur ekki getað bent á einstök sönnunargögn í málinu og leitt að því verulegar líkur að þau hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins. Framlagðir tölvupóstar um framkvæmd lánanefndar Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem endurupptökubeiðandi lagði fram sem ný gögn, breyta engu þar um enda þessir tölvupóstar ótengdir starfsemi Kaupþings banka hf.

Hvað varðar þá málsástæðu endurupptökubeiðanda er lýtur að símtali er Bjarnfreður Ólafsson og Eggert J. Hilmarsson áttu hinn 17. september 2008 þá hefur endurupptökunefnd í úrskurðum í málum nr. 8/2015, 9/2015 og 10/2015 fjallað um mat Hæstaréttar á því símtali. Var niðurstaða endurupptökunefndar sú að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að sá „Óli“ sem Bjarnfreður kallar svo og Eggert kallar Ólaf væri Ólafur Ólafsson, meðákærði endurupptökubeiðanda í hæstaréttarmáli nr. 145/2014. Féllst endurupptökunefnd þannig ekki á að verulegar líkur hefðu verið leiddar að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í hæstaréttarmálinu hefðu verið svo rangt metin að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. Röksemdir endurupptökubeiðanda sem hann færir fram í fjórtán atriðum breyta ekki fyrri niðurstöðu endurupptökunefndar.

Verður því að telja að sá rökstuðningur, gögn og sjónarmið sem endurupptökubeiðandi hefur byggt á og lagt fram fyrir endurupptökunefnd, leiði ekki verulegar líkur að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í málinu, hafi verið rangt metin af Hæstarétti þannig að fullnægt sé skilyrðum c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Verður endurupptaka málsins því ekki byggð á þeirri forsendu.

Endurupptökubeiðandi teflir jafnframt fram röksemdum fyrir því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þeir gallar hafi annars vegar falist í vanhæfi tveggja dómenda Hæstaréttar, þeirra Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar, og hins vegar því að ekki hafi verið rétt staðið að símahlustun eða húsleit og í því sambandi ekki gætt að stöðu hans sem sakbornings í málinu. Endurupptökunefnd fjallaði um hæfi hæstaréttardómaranna í úrskurðum sínum í málum nr. 8/2015, 9/2015 og 10/2015 og komst að rökstuddri niðurstöðu um að þeir hafi ekki verið vanhæfir til að fara með hæstaréttarmál nr. 145/2014. Til hliðsjónar bendir endurupptökunefnd jafnframt á niðurstöðu Hæstaréttar í tengslum við hæstaréttarmál nr. 498/2015 þar sem hafnað var kröfu um að Þorgeir Örlygsson viki sæti vegna starfa sonar síns fyrir Kaupþing hf. Kom þar fram að Kaupþing hf., sem áður nefndist Kaupþing banki hf., hefði ekki fjárhagslega hagsmuni af einkamálum sem rekin væru á hendur fyrrum stjórnendum hjá Kaupþing hf. þar sem Seðlabanki Íslands hefði sett það sem skilyrði, þegar félagið fékk á árinu 2015 undanþágu frá ákvæðum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál í tengslum við gerð nauðasamnings, að félagið ræki áfram slík mál en að Seðlabanki Íslands fengið síðan greiðslu sem svaraði til alls afraksturs af þeim. Að því skilyrði hefði Kaupþing hf. gengið og því geti slík mál engin áhrif haft á hugsanlega launaauka til starfsmanna Kaupþings hf. Að auki hefði sonur dómarans ekkert komið að slíkum dómsmálum, hvorki töku ákvarðana um þau né undirbúning þeirra, en þau séu rekin af sérstakri deild innan félagsins, sem hann hafi engin afskipti af.

Hvað varðar þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að hann hafi ekki fengið aðgang að öllum haldlögðum gögnum þá verður ekki fallist á að endurupptökubeiðanda hafi verið meinaður aðgangur að tilteknum haldlögðum gögnum. Þess í stað var hafnað kröfu hans um að fá afhent eintak af gögnum málsins, sem töldu m.a. tuttugu milljónir tölvupósta sem margir hverjir vörðuðu fjárhagsmálefni viðskiptamanna og einkamálefni starfsmanna Kaupþings banka hf. Sömuleiðis var þeirri kröfu endurupptökubeiðanda hafnað að lögregla gerði skrá yfir öll haldlögð gögn en áætlað var að slík skrá myndi telja um 400 þúsund síður. Hvorugt atriðið verður talið þess eðlis að það felist í réttinum til aðgangs að gögnum. Ekki verður heldur fallist á þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að hann hafi haft réttarstöðu sakbornings þegar tekin var vitnaskýrsla af honum 19. júní 2009. Fram er komið að endurupptökubeiðandi fékk stöðu sakbornings þegar símahlustanir og húsleitir voru framkvæmdar en það hafi fyrst verið eftir skýrslutökuna 19. júní 2009.

Því verður ekki talið að endurupptökubeiðandi hafi leitt líkur að því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess svo að fullnægt sé skilyrðum d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Endurupptökubeiðandi hefur lagt fram yfirlit yfir kostnað vegna vinnu lögmanna í tengslum við málið fyrir endurupptökunefnd. Af því tilefni verður að taka fram að endurupptökubeiðandi óskaði ekki eftir að honum væri skipaður lögmaður samkvæmt heimild þess efnis í 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála. Skilyrði til að ákveða þóknun vegna starfa lögmanna fyrir endurupptökubeiðanda eru því ekki uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu hefur endurupptökubeiðandi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði stafliða c eða d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt. Er beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 145/2014 því hafnað. 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Magnúsar Guðmundssonar um endurupptöku máls nr. 145/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015, er hafnað.

 

Kristbjörg Stephensen

Berglind Svavarsdóttir 

Hrefna Friðriksdóttir