Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 20/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 20/2016


Ár 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 9/2016; kæra A og B, dags. 25. janúar 2016. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

           

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. maí 2014. Kærendum var birt ákvörðun um útreiknaða leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar þann 11. nóvember 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var samtals 1.863.608 kr. og skyldi henni ráðstafað til þeirra í formi sérstaks persónuafsláttar. Kærendur samþykktu fjárhæð og ráðstöfun leiðréttingar þann 1. janúar 2015.

Kæra, dags. 26. janúar 2016, var upphaflega send velferðarráðuneytinu en áframsend til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 4. febrúar 2016 þar sem hún var stíluð á nefndina. Í kærunni kom fram að kærendur hafi samþykkt leiðréttingu til handa sér þann 1. janúar 2015. Þau hafi ekki átt húsnæði á þeim tíma og þ.a.l. ekki verið með húsnæðislán. Því hafi niðurstaðan verið sú að kærendur hafi fengið niðurfellingu í formi persónuafsláttar næstu 4 árin. Kærendur hafi síðan keypt íbúð í apríl árið 2015 á 12.500.000 kr. Viðskiptabanki kærenda hafi lánað kærendum 80% af kaupverðinu en gert kröfu um 20% eiginfjárframlag. Kærendur hafi ekki átt allt það eigið fé sem krafist var og hafi niðurstaðan verið sú að bankinn hafi lánað upphæð sem nam leiðréttingunni og fari hún eingöngu í að greiða af því láni. Kærendur séu afar ósátt við er ekki sé hægt að nota leiðréttinguna til að greiða upp umrætt lán. Það myndi leiða til þess að í stað þess að um persónuafslátt verði að ræða næstu árin yrði upphæðinni ráðstafað til uppgreiðslu á umræddu láni og málinu þar með lokið. Vaxtagreiðslur af láninu hjá bankanum nemi tugum þúsunda á ári en inneignin vegna leiðréttingarinnar beri enga vexti. Kostnaður kærenda sé því verulegur. Kærendur krefjast þess að ráðstöfun eftirstöðva leiðréttingarinnar verði breytt á þann hátt að í stað persónuafsláttar verði henni ráðstafað inn umrætt lán hjá banka X nr. 1.

Erindi kærenda fylgdu tölvupóstsamskipti þeirra við ríkisskattstjóra. Ljóst er að þann 29. mars 2015 gerðu kærendur sömu kröfu til ríkisskattstjóra og þau gera nú til úrskurðarnefndarinnar, nánar tiltekið að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæð verði breytt og henni ráðstafað inn á umrætt lán banka X. Erindinu var hafnað 31. mars 2015. Kærendur sendu líka fyrirspurn vegna vaxta af leiðréttingarfjárhæð þann 20. apríl 2015 og fengu svar við henni 21. sama mánaðar. Ekki verður fjallað nánar um þá fyrirspurn hér.

Úrskurðarnefndin leitaði þann 4. febrúar 2016 eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvers eðlis erindi kæranda frá 29. mars 2015 til embættisins hafi verið. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 8. febrúar 2016, kom fram að embættið hefði hafnað beiðni um endurupptöku á ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar þar sem ekki verði séð að forsendur á samþykktardegi hafi verið rangar.

 

II.

 

Úrskurðarnefndin lítur svo á að erindi kærenda til ríkisskattstjóra frá 29. mars 2015 hafi falið í sér ósk til ríkisskattstjóra um að embættið endurupptæki fyrri ákvörðun sína á grundvelli 11. og 12. gr. laga nr. 35/2014, sbr. heimildarákvæði 13. gr. sömu laga. Svar ríkisskattstjóra, dags. 31. mars 2015, hafi falið í sér höfnun á því að endurupptaka fyrri ákvörðun sína.

Um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vísast til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að unnt sé að kæra til nefndarinnar ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar samkvæmt. 9. gr. laganna, framkvæmd leiðréttingar samkvæmt. 11. gr. og endurupptöku samkvæmt. 13. gr. Eins og valdsvið nefndarinnar er afmarkað í tilvitnaðri lagagrein fellur það utan við úrskurðarvald nefndarinnar að fjalla um synjun ríkisskattstjóra á því að nýta heimildarákvæði 13. gr. laga nr. 35/2014 og endurupptaka mál. Hliðstæða heimild og ríkisskattstjóra er veitt með tilvitnuðu lagaákvæði hefur úrskurðarnefndin ekki. Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum